Það er stutt milli leikja núna eftir langa pásu, sem er ágætt eftir úrslit vikunnar en það var mikið ryð í okkar mönnum eftir að hafa tryggt Englandsmeistaratitilinn og sjáum við afleita frammistöðu gegn City. Nú eru það hinsvegar Birmingham strákarnir í Aston Villa sem mæta á Anfield og spreyta sig gegn okkar mönnum.
Villa er í bullandi fallbaráttu þrátt fyrir að hafa eytt næst mest allra liða í deildinni síðasta sumar en þeir eyddu 144,5 milljónum punda tæpum fjórum milljónum minna en Manchester United sem eyddu mest. Þeir hafa hinsvegar verið mjög óheppnir með meiðsli en markmaðurinn Tom Heaton og sóknarmaðurinn Wesley meiddust báðir í 2-1 sigri Villa á Burnley á nýársdag og misstu af hálfu mótinu. Næst besti leikmaður liðsins John McGinn meiddist á svipuðum tíma og leit út fyrir að hann myndi heldur ekki spila meira á tímabilinu en þriggja mánaða leikjapásan varð til þess að hann er byrjaður að spila aftur.
Villa hefur spilað fjóra leiki síðan deildin var endurræst og hafa þeir gert tvö jafntefli og tapað tveimur og situr liðið nú með 27 stig eftir 32 leiki einu stigi frá öruggu sæti í deildinni og hafa þeir því að miklu að keppa. Þeir hafa skorað rúmlega mark í leik með 36 mörk í 32 leikjum en vandamálið hefur frekar verið hinumegin á vellinum þar sem þeir hafa fengið á sig sextíu mörk, næst mest allra í deildinni á eftir Norwich. Eftir meiðsli Heaton varð mikið bras í markmannsstöðunni hjá Villa, Orjan Nyland kom inn þegar hann meiddist en eftir að hann fékk á sig sex mörk gegn Manchester City var okkar fyrrum markmaður Pepe Reina fenginn inn 37 ára gamall. Reina náði hinsvegar ekki að leysa þessi vandamál því eftir endurkomu deildarinnar er Nyland kominn aftur í markið og fyrir meiðslin hjá Heaton hafði Jed Steer einnig spilað nokkrar mínútur og hafa Villa því notað fjóra mismunandi markmenn í deildinni á þessu tímabili.
Fyrri leikur liðanna á þessu tímabili var hrikalega spennandi en Villa tók forustuna snemma leik og þarna sáum við mark dæmt af Firmino fyrir handakrika-rangstöðu áður en Robertson og Sadio Mané tryggðu okkur mikinn baráttu sigur með sitt hvoru markinu á lokamínútum leiksins. Við mættum þeim svo aftur í deildarbikarnum meðan allt aðalliðið okkar var að hita upp fyrir undanúslitaleik í heimsmeistarakeppni félagsliða í Katar og mættum við því með unglingaliðið í þann leik og léku Villa menn sér að þeim og unnu leikinn 5-0. Það gætu þó verið Villa menn sem mæta með yngsta manninn í þennan leik því það hefur verið slúðrað um að sextán ára sóknarmaðurinn Louie Barry sem þeir keyptu frá Barcelona í janúar fái að byrja sinn fyrsta leik gegn Liverpool á morgun og verður gaman að sjá þann unga strák sem Englendingarnir hófu upp til skýja þá sex mánuði sem hann var samningsbundinn Barcelona.
Okkar menn
Eftir að titillinn var tryggður og City leikurinn að baki þá hefur töluvert verið rætt hvernig Klopp muni leggja upp þá sex leiki sem eftir eru. Vissulega nokkur met enn í boði en það verður lítil pása eftir að þetta tímabil endar og þar til það næsta hefst og margir spáð því að við munum nýta þessa leiki sem eftir eru sem undirbúningstímabil fyrir næsta tímabil. Það gæti svo sem verið en eftir úrslit síðustu viku geri ég ráð fyrir að Klopp stilli upp sterku liði á morgun og leyfi þeim að sýna í enn eitt skipti af hverju þetta lið eru meistarar með tuttugu stiga forskot á toppi deildarnnar.
Ég geri því ráð fyrir að sjá annað hvort sama, eða mjög svipað, lið og byrjaði gegn Manchester City og þá verði frekar nýttar vel skiptingarnar fimm. Eftir þennan leik gætum við svo farið að sjá tvær til þrjár breytingar á liðinu milli leikja og reyna koma mönnunum á jaðrinum meira inn í liðið.
Þó gætum við vissulega séð einhverjar breytingar og þá líklegast að við sjáum Keita eða Chamberlain inn á miðjunni eða Minamino í fremstu víglínu.
Spá
Ég ætla að tippa á að liðið mæti af miklum krafti og valti yfir frekar slakt Villa lið og lokatölur verði 4-0 þar sem Salah, Mané og Firmino skora allir í fyrri hálfleik og loka markið kemur af bekknum, segjum bara að Minamino skori sitt fyrsta mark fyrir félagið.
Sælir félagar
Vonandi reka okkar menn af sér slyðruorðið og taka þennan leik af fullri alvöru og einbeitingu. A.Villa liðið er bæði vængbrotil og lélegt og engin ástæða til að gefa þeim eitthvert forskot eins og í fyrri leik liðanna. 4- til 6 – 0 er eina sem ég sætti mig við
Það er nú þannig
YNWA
Sæl og blessuð.
Hér píslarsögu púlara lýst svo vel að það er ekki hægt annað en að deila henni hér:
https://www.ruv.is/utvarp/spila/markmannshanskarnir-hans-alberts-camus/25619
Varðandi leikinn við Aston Villa – þá getur hann ekki farið illa. Ef við vinnum þá er það gott, annars er það enn ein vísbendingin um það að við þurfum sterkari hóp!
Sammála #2 varðandi leikinn.
Ég vil einnig sjá Minamino byrja. Væri til í að sjá hann koma inn fyrir Firmino.
Spá 1-1
Tökum þennan leik 3-1. Verður áhugavert að sjá hvernig Liverpool spilar restina af tímabilinu. Væntanlega verður álaginu dreyft á leikmannahópinn og undirbúningur fyrir næsta season byrjaður. Væri mjög slæmt að missa leikmenn í meiðsli núna. Um að gera að leyfa Minamino, Elliot, Jones og Williams að fá reynslu í þessum leikjum og sjá hvernig þeir standa sig.
Vonandi náum við að keyra okkur í gang en ég skil að motiveringin er ekki í botni enda búnir að rústa deildinni eins og þetta væri skoska deildin. Aðalmalið er að byrja að undirbúa næsta tímabil strax og líta á þessa leiki sem goðan undirbúning.
Ég væri til í að sjá 1-2 breytingar frá okkar sterkasta byrjunarliði. Síðan vil ég sjá að minnsta kosti ein sterk leikmannakaup fyrir næsta tímabil. Það væri ákveðið statement.