Enn styttist í tímabilinu stórfurðulega, og þriðji síðasti leikurinn fer að bresta á, en í þessum leik skottast okkar menn suður til Lundúna og taka þar á móti Skyttunum hjá Arsenal.
Þessi leikur kemur í kjölfarið á dómi CAS þar sem City slapp við það að þurfa að sitja hjá í 2 ár í Meistaradeildinni, og fengu sekt upp á eitthvað klink. Svonalagað fær mann til að spyrja sig hvert fótboltinn sé að stefna, og hvað í ósköpunum FFP sé eiginlega að gera annað en að vera einhverskonar platstimpill sem knattspyrnuyfirvöld geta flaggað á hátíðisdögum. En ég er nokkuð viss um að Einar Matthías mun fara mun betur yfir þessi mál á næstunni, og við munum því ekki stressa okkur meira á því í þessum pistli. Munum bara að okkar menn eru Englandsmeistarar þrátt fyrir að vera með “net spend” í neðri hluta deildarinnar, og að þrátt fyrir það er liðið núna 21 stigi á undan því liði sem í hefur verið dælt mest af peningum í sögu enska boltans.
En þá að slagnum annað kvöld. Arsenal liðið er núna í 9. sæti eftir tap gegn grönnum sínum í síðastaleik, liðið á núna ekki lengur neina möguleika á að komast í meistaradeildarsæti og er því í raun aðeins að berjast um að komast í Evrópudeildina. Liðin sem komast þangað eru liðið í 5. sæti, auk liðanna sem vinna bikarkeppnirnar. City fer í meistaradeildina (illu heilli) og tekur því ekki sæti í Evrópudeildinni út á að vera sigurvegarar í deildarbikarnum, og ef ég skil reglurnar rétt þýðir það að liðið í 6. sæti í deildinni kemur í stað þeirra. Nú svo er það þannig að af liðunum sem eru komin í undanúrslit FA bikarsins, þá eru 3 lið sem verða líklega í efstu 6 sætunum, svo það eru allar líkur á að 7. sætið gefi líka Evrópusæti. Arsenal er sem stendur í 9. sæti, 4 stigum á eftir liðinu í 7. sæti, með að hámarki 9 stig í pottinum. Þeir eru hins vegar ennþá með í FA bikarnum, og eiga einmitt leik þar næsta laugardag, gegn Manchester City. Svo nú er spurningin: hvort mun Arsenal einbeita sér að því að vinna FA bikarinn með því að vinna City annars vegar, og svo United eða Chelsea hins vegar, eða reyna að krækja í 7. sætið í deildinni? Svo er auðvitað ekkert víst að liðið sé að einbeita sér að öðru frekar en hinu, og allt eins líklegt að þar á bæ horfi menn á þessa tvo möguleika og ætli sér að reyna við þá báða.
Leikirnir sem liðið á eftir í deildinni eru gegn okkar mönnum, síðan heimsækja þeir Villa, og fá svo að lokum Watford í heimsókn. Villa og Watford eru auðvitað bæði í bullandi fallbaráttu, en spurning hvort sú barátta verði ennþá í gangi þegar kemur að þessum leikjum. Engu að síður eru ágætar líkur á að þetta verði allt hörku erfiðir leikir. Þeirra prógram er því síður en svo það léttasta. Mun þetta þýða að liðið mæti með einhverskonar B-lið í leikinn á morgun? Ég efast svosem um það, en jafnvel þó svo það verði þá þarf það ekki að þýða að liðið verði eitthvað áberandi veikara fyrir vikið. Það að gefa einhverjum ungum strákum getur oft haft í för með sér að þeir vilji sýna hvað í þeim býr og spila sig inn í plön stjórans.
Ég á semsagt ekki von á eitthvað sérstaklega léttum leik á morgun.
Þar spilar inn í að liðið verður núna annan leikinn í röð án fyrirliðans Jordan Henderson, og munurinn á vinningshlutfalli liðsins með hann innanborðs eða án er talsvert. Ég er samt sem áður nokkuð bjartsýnn á að liðið geti vel fundið fjölina sína með hann utan hóps, og að það sé bara spurning um hvenær en ekki hvort. Það er því kannski lán í óláni að hann hafi meiðst *eftir* að liðið tryggði sér titilinn, því það gefur liðinu meira svigrúm til að aðlagast. Sama gildir um það að koma ungu strákunum betur inn í liðið og að spila þeim í gang, það er nokkuð ljóst að Klopp, Lijnders og co. væru mun síður að gefa strákunum sénsinn ef liðið væri ennþá í bullandi baráttu um titilinn. Og jafnvel þó svo að það sé enn hægt að setja einhver stigamet, þá er ég ekkert viss um að Klopp sé að einblína eitthvað sérstaklega á þau. Mér finnst mun líklegra að honum þyki mikilvægara að undirbúa sína menn fyrir næsta tímabil.
Nú og svo megum við ekki gleyma því að Bobby Firmino elskar að skora gegn Arsenal. Og þó svo hann hafi ekki náð að skora eitt einasta mark í deildinni á Anfield í vetur, þá kemur það ekki að sök á morgun því leikurinn er jú á útivelli.
Hópurinn sem Klopp hefur úr að velja er nokkurnveginn sá sami og gegn Burnley. Hendo og Matip báðir frá, og Milner verður frá sömuleiðis en ætti að vera orðinn klár gegn Chelsea á miðvikudaginn eftir viku. Það er því nokkuð ljóst að Virgil verður fyrirliði, en spurningin er hver verði titlaður varafyrirliði? Það hefur nú oftast verið horft á þá leikmenn sem hafa verið hvað lengst hjá félaginu, ásamt því að horfa á leiðtogahæfileika og aldur. Það kemur auk þess væntanlega ekki til þess að þetta skipti neinu máli nema VVD þurfi að fara af velli (sem við vonum auðvitað að þurfi ekki að gerast), í því tilfelli er líklegast að Lovren komi inná í staðinn og þá liggur kannski bara beinast við að hann taki við bandinu. Ég neita því þó ekki að það er farið að kitla aðeins að sjá hvernig það færi Trent að vera með fyrirliðabandið.
Í síðasta leik byrjuðu þeir báðir, Curtis Jones og Neco Williams. Það hefur sýnt sig að lið nýta sér reynsluleysi Neco og sækja upp hans kant þegar hann er í liðinu, hann stóðst þá áraun ágætlega í leiknum um helgina enda hentar hægri hliðin honum mun betur. Ég efast einhvernveginn um að Klopp reyni aftur að setja hann í vinstri bak í bráð, þá sérstaklega gegn mönnum eins og Aubameyang, Lacazette et al. En ef Robertson er eitthvað tæpur gæti það samt þurft að verða þrautalendingin. Ég hef þó ekki heyrt að það sé nein hætta á því að Robbo þurfi einhverja hvíld, og reikna með honum í vinstri bak.
Ég sæi Keita alveg fá sénsinn á miðjunni, og svo er spurning hvað Klopp gerir varðandi fremstu þrjá. Einna helst að Minamino komi í staðinn fyrir Firmino, en á hinn bóginn viljum við nú varla taka af Firmino þá ánægju að skora gegn Arsenal, eða hvað? Salah vill svo örugglega fá sem flest tækifæri til að skora. Jones sást ekki á neinum myndum af æfingu í dag eða gær, líklega var það bara varúðarráðstöfun, svo ég á von á honum á bekkinn hið minnsta.
Prófum a.m.k. að stilla þessu svona upp:
Bekkur: Adrian, Lovren, Williams, Oxlade-Chamberlain, Jones, Minamino, Origi, Shaqiri, Elliott
Ef það koma upp einhver meiðsli fram að leik hugsa ég að Ki-Jana Hoever sé næsti maður inn.
Semsagt, að Klopp fari varlega í að gefa ungu strákunum séns í byrjunarliði í þetta skiptið. En látum það samt ekki koma okkur neitt á óvart þó við sjáum Neco, Curtis eða jafnvel Elliott skjótast inná þegar eitthvað verður liðið á leikinn, sérstaklega ef staðan er góð.
Við skulum spá því að liðið vinni 1-2 baráttusigur, þó ég væri auðvitað mest til í það að Alisson nái að halda hreinu og vinni gullhanskann. Eins spái ég að mörkin komi frá Firmino og Salah.
Njótum þess að sjá liðið okkar spila á meðan það er í boði, því eftir þessa síðustu 3 leiki gætum við þurft að bíða fram í september.
KOMA SVO!!!
Nenni því miður ekki að spjalla meira á þræði hjá þér Daníel minn ? gangi þér allt í haginn.
Takk fyrir fína upphitun sem fyrr, Daníel. YNWA.
Sælir félagar
Takk fyrir góða upphitun Daníel. Ég hefi svo sem engu við hana að bæta. Það er erfitt að spá í byrjunarliðið hjá Klopp meðan enginn veit áherslur hans þessa síðustu leiki. Hvort á að stefna á stigamet eða gefa mönnum tækifæri til að sýna sig og sanna. Ef til vill hvorutveggja því hann hefur sagt að hann fari í alla leiki til að vinna þá. Sammála spánni 1 – 2 og ekki meira um það.
Það er nú þannig
YNWA
Takk Daníel fyrir fína upphitun að vanda.
Hef engu þar við að bæta. Rakst aftur á móti á þetta myndband
https://www.youtube.com/watch?v=Bcky-NNU5X0
svona ef Liverpool fólk er að velta fyrir sér hvað Thiago Alcantara gæti fært liðinu ef hann kæmi.
Þú þrammar aldrei einn
Gini wijnaldum er fjórði fyrirliði liðsins og tæki því bandið ef til þess kæmi að Virgil forfallaðist!
Jú það rifjaðist upp eftir að ég var búinn að birta upphitunina.
Væri samt alveg til í að sjá Trent máta bandið!