Dejan Lovren til Rússlands (Staðfest)

Dejan Lovren kveður Liverpool í dag og heldur til Rússlands þar sem hann ætlar að spila með meisturum Zenit næstu árin. Kaupverð er talið vera í kringum 12m.

Lovren hefur alla tíð verið umdeildur leikmaður hjá Liverpool en hefur það með sér að hafa alltaf lagt sig 100% fram og kveður nú sem Heims, Evrópu og Englandsmeistari og á sinn þátt í öllum bikurunum.

Þó að það sé alltaf aðeins of stutt í næstu stóru mistök Lovren hefur hann heilt yfir verið góður leikmaður hjá Liverpool. Meiðsli hafa miklu frekar sett strik í reikninginn en varnarmistök enda náði hann nánast aldrei að spila meira en 6-7 leiki í röð. Það er rosalega erfitt að byggja upp þétta vörn á svo óstöðugum miðverði og ekki hjálpar að megnið af tíma Lovren hjá Liverpool var hinn miðvörðurinn svipað meiðslagjarn.

Lovren kom í Liverpool lið Brendan Rodgers sumarið 2014, tímabilið eftir atlöguna að titlinum og verður að teljast ein af betri kaupum Liverpool það sumarið sem er þó ekkert rosalegt hrós. Adam Lallana kom einnig þetta sumar og kveðja þeir nú á sama tíma einnig. Vörnin í fyrsta leik Lovren fyrir Liverpool var Mignolegt í markinu Manquillo og Glen Johnson í bakvörðunum og Skrtel var með honum í vörninni. Moreno kom í sama glugga og Clyne sem þarna var ennþá í Southampton skoraði fyrir gestina í þeim leik. Brad Jones, Kolo Toure og Sakho voru á bekknum sem gefur aðeins til kynna hversu veik vörnin var sem Lovren var keyptur til að laga. Ég er hræddur um að ekki einu sinni Vigril Van Dijk væri Virgil Van Dijk með Mignolet fyrir aftan sig, Moreno og Johnson á vængjunum og Skrtel/Shako/Toure með sér í vörninni. Já og eiginlega engan varnartengilið.

Það góða við brottför bæði Lovren og Lallana núna er að Liverpool liðið hefur vaxið úr því að fá þá sem lykilmenn í að þeir eiga erfitt með að komast í liðið. Báðir fá sínar mínútur yfir heilt tímabil en eru orðnir töluvert slakari en keppinauturinn um stöðuna. Þessir menn voru með þeir betri í sínum stöðum þegar Klopp tók við Liverpool og það segir kannski sitt að þeir hafa lifað hvað lengst inn í Klopp tímann af leikmönnum sem komu undir stjórn Rodgers.

Það er því ekki hægt að segja að það verði neinn rosalegur söknuður af þessum leikmönnum fyrir okkur stuðningsmenn núna þegar þeir kveðja. Þeir hafa staðið ágætlega fyrir sínu þó meiðslasaga beggja sé fullkomlega óþolandi pirrandi. Það er kominn tími á að endurnýja þessa leikmenn en á móti óskar maður þeir alls hins besta í framtíðinni. Innan hópsins virkuðu þeir báðir mjög mikilvægir hlekkir.

Að því sögðu er með sölunni á Lovren komin þörf á manni í hans stað, vonandi er það nýr og betri varnarmaður frekar en annarhvor af ungu hollendignunum úr akademíunni eða Nate Phillips. Grunar samt að þeim sé ætlað stærra hlutverk á næstu árum.

Sem leikmaður Liverpool hefur Lovren spilað í liði sem komst tvisvar í úrslit Meistaradeildarinnar, einu sinni í úrslit Evrópudeildarinnar og liði sem tók 97 og 99 stiga tímabil. Með landsliðinu var hann lykilmaður í liði sem fór alla leið í úrslitaleik HM.

Eitthvað getur slíkur leikmaður.

Ein athugasemd

  1. Gangi þeim vel báðum þeir lögðu sig alltaf fram og manni finnst alltaf leitt að sjá leikmenn fara þegar þeir hafa staðið sig vel. Meiðsli settu mikil strik í reikninga hjá Lovren og Lallana en gæði þeirra verður minnst þeir áttu sinn part í velgengni Liverpool.

    YNWA

    7

Newcastle 1 – 3 Liverpool

Jurgen Klopp stjóri ársins á Englandi