Liverpool lék gegn Arsenal um Samfélagsskjöldinn á Wembley, og eftir að venjulegum leik lauk með 1-1 jafntefli tapaði liðið í vítaspyrnukeppni, 5-4.
Mörkin
1-0 Aubameyang (12. mín)
1-1 Minamino (73. mín)
Vítaspyrnukeppnin:
0-1 Salah
1-1 Nelson
1-2 Fabinho
2-2 Maitland-Niles
2-2 Brewster (skot í þverslá)
3-2 Soares
3-3 Minamino
4-3 Luiz
4-4 Jones
5-4 Aubameyang
Gangur leiksins
Okkar menn byrjuðu leikinn frekar hægt, voru mikið með boltann en náðu lítið að ógna. Settu reyndar boltann í markið snemma leiks eftir aukaspyrnu en van Dijk var rangstæður og markið réttilega dæmt af. Það var svo á 12. mínútu að Arsenal menn fengu boltann á sínum hægri vallarhelmingi, bæði van Dijk og Gomez voru þeim megin og skildu Neco Williams einan eftir vinstra megin til að passa Aubameyang. Boltinn barst þangað, og Pierre-Emerick var bara of fljótur fyrir Walesverjann okkar unga og efnilega. Skotið hjá Aubameyang var hnitmiðað og Alisson átti ekki möguleika á að verja. Núna vissi maður alveg hvað var framundan, Arsenal menn sátu mjög aftarlega og leyfðu okkar mönnum að spila boltanum á milli sín en voru mjög þéttir bakatil og gáfu fá færi á sér. Salah var í algjörri gjörgæslu og sást lítið, Firmino sást aðeins meira, yfirleitt þegar hann datt til baka að sækja boltann. En okkar menn fengu fá færi til að láta reyna almennilega á Martinez í markinu. Staðan 1-0 í hálfleik og ljóst að liðið saknaði bæði Trent og Henderson.
Í síðari hálfleik var mikið til sama uppi á teningnum fyrsta korterið, og augljóst að Neco átti fullt í fangi með að sinna sínu hlutverki í hægri bakverði. Enda var það svo að á 59. mínútu var hann tekinn út af, Gomez fór í hægri bakvörðinn og Fabinho í miðvörðinn. Milner kom líka út af, og í stað þeirra komu Keita og Minamino. Þá var jafnframt aðeins hrært upp í framlínunni, Salah fór meira miðsvæðis, Minamino meira vinstra megin og Firmino í holunni, en eins og alltaf voru þeir reyndar mjög fljótandi. Þessi breyting skilaði sér svo korteri síðar þegar Salah og Minamino prjónuðu sig í gegnum miðja vörnina, boltinn datt fyrir Minamino nánast á markteig og hann gerði allt rétt og smellti boltanum í hægra hornið frá sér séð. 1-1, og Minamino búinn að opna markareikning sinn fyrir félagið. Á þessum tímapunkti var bekkurinn að undirbúa að skipta Brewster inná, en við markið var ákveðið að bíða með að setja hann inn og setja Curtis Jones inná í staðinn. Arsenal fóru að sækja meira og áttu nokkur færi sem hefðu vel getað skapað usla hjá okkar mönnum, án þess þó að ná að skora. Mané fékk gullið tækifæri rétt fyrir leikslok til að gera út um leikinn, en missti boltann örlítið of langt frá sér og Martinez varði frá honum. Þegar ein mínúta var eftir af venjulegum leiktíma fékk svo Brewster að koma inná í stað Wijnaldum, og miðað við hversu lítið var eftir var ekki hægt að líta öðruvísi á þetta en að hann hafi verið fenginn sérstaklega inná til að taka víti í vítakeppninni. Marriner flautaði leikinn af eftir 93 mínútur og vítaspyrnukeppni staðreynd.
Eins og kemur fram hér að ofan skoruðu allar vítaskytturnar úr sínum spyrnum, nema Brewster. Hann átti fast skot í slána og yfir. Eftirá að hyggja hefði verið sniðugra að setja hann inná fyrr, því hann náði líklega ekki einni einustu snertingu í leiknum sjálfum. En það er gott að vera vitur eftirá.
Bestu/verstu menn
Robertson var góður eins og venjulega, Mané var líklega sá sóknarmaður sem var að ógna mest heilt yfir, en ég ætla að velja Takumi Minamino sem mann leiksins. Alltaf gaman þegar leikmenn ná að opna markareikninginn fyrir félagið, og það væri gaman að sjá Taki fá fleiri tækifæri á næstunni, hamra járnið á meðan það er heitt. Nokkrir leikmenn áttu frekar erfitt: Neco Williams er ennþá veikur hlekkur, enda lítt reyndur og ekki nema 19 ára. Er hann meira “liability” heldur en Trent var þegar hann var að stíga sín fyrstu skref? Jú líklega, en við skulum samt alls ekki afskrifa drenginn strax. Hann þarf að ná sér í meiri reynslu, hvort sem það kæmi með því að fara eitthvað á láni eða halda áfram sem varaskeifa fyrir Trent og fá e.t.v. að koma inná í leikjum sem eru ekki úrslitaleikir á Wembley. Gomez var undarlega staðsettur í markinu, og svo var þetta auðvitað ekki góð lífsreynsla fyrir Brewster. Vonum bara að hann komi hratt til baka eftir þessi vonbrigði.
Umræðan eftir leik
Fyrst og fremst hlýtur maður að spyrja sig hvort það vanti ekki meiri reynslu í leikmannahópinn. Nú eru eftirtaldir leikmenn á meiðslalistanum: Hendo, Trent, Matip, Ox, Origi, Shaqiri og Wilson. Verður það algengt í vetur að þetta margir verði meiddir? Vonandi ekki, en hættan á því að leikmenn verði fyrir álagsmeiðslum verður samt líklega meiri heldur en oft áður, tímabilið er að byrja næstum mánuði síðar en í fyrra, og líklega verður leikið þéttar í vetur heldur en síðasta vetur. Við skulum a.m.k. vona að orðrómurinn um Thiago sé ekki alveg úr lausu lofti gripinn. En það er ljóst að bekkurinn bauð ekki upp á mikla reynslu í dag.
Auðvitað tekur við landsleikjahlé núna, svo fyrsti leikurinn í deildinni er ekki fyrr en um þarnæstu helgi, eða þann 12. september gegn Leeds á Anfield. Þá má reikna með að Trent verði kominn aftur á stjá, og vonandi verður Henderson það líka, en hann byrjar að æfa núna eftir helgina. Nú svo spyr maður sig hvort það verði búið að selja eða kaupa einhverja leikmenn? Skulum a.m.k. ekki útiloka neitt slíkt.
Í lokin skulum við svo rifja það upp að síðast þegar liðið tapaði úrslitaleiknum um Samfélagsskjöldinn í vítaspyrnukeppni, þá endaði liðið á því að vinna meistaratitilinn. Engin pressa Jürgen.
Salah sast ekki i leiknum. Engan veginn ásætanlegt
Salah hefur bara ekki sést í þessum æfingaleikjum. Mane og Firmino líka verið daprir.
Dapurt.is að rúlla ekki yfir þetta lið er áhyggjuefni.
Sælir félagar
Niðurstaða þessa leiks og frammistaða leikmanna okkar verulegt áhyggjuefni. Breiddin er engin þegar þessi leikur er leikinn svo Klopp og félagar verða að líta í eigin barm.
Það er nú þannig
YNWA
Eitt jákvættnog neikvætt í þessu er að það nákvæmlega sama gerðist í fyrra, þannig að þetta hlýtur að gefa mönnum spark í rassinn fyrir PL ?
Já já mistök að láta Brewster taka víti. En fokk vító, hefur ekkert að segja.
Þetta var bara slappur leikur hjá okkar mönnum.
Dolla (skjöldur) í boði en engin gredda í mönnum 🙁
Vonandi er þetta ekki það sem koma skal. Liðið búið að vera á niðurleið síðan titillinn var tryggður og maður hefur örlitlar áhyggjur af því að liðið sé ekki með það sem þarf fyrir titilvörn.
Hefur Alisson varið víti í Liverpool búning ?
Ekki kom sigur í dag en ekkert stress í gangi.
Við vorum á löngum köflum að yfirspila þetta Arsenal lið og láta þá verjast með 11 menn nánast alla inn í sínum vítateig.
Arsenal skorar geðveikt mark og þeir sem vilja setja það á hin ungan Neco hafa líklega ekki spilað mikið knattspyrnu. Gini of seinn að koma að loka en Neco er látinn vera 1 á 2, hann á að beina honum inn og reyna í leiðinni að passa oferlapið og láta Gini koma og loka. Markið er svo bara stórglæsilegt.
Við erum svo bara að sækja og sækja án þess að skapa mikið í leiknum. Milner fékk gott skallafæri, Mane slapp tvisvar í gegn, þrisvar vantaði mann á fjærstöng til að setja boltan inn eftir flotta fyrirgjafir frá Andy, svo voru þarna tvö þrjú skot fyrir utan teig og auðvita markið frá Minamino.
Þessi leikur var svipaður og síðast þegar við spiluðum á móti Arsenal þar sem við stjórnuðu öllu en í þeim leik gáfum við tvö mörk.
Góðu fréttirnar eru að Minamino skoraði og á það eftir að gefa honum mikið sjálfstraust. Lykilmenn fengu fullt af leiktíma sem er bara gott og höfum við núna tvær vikur þangað til að Leeds koma í heimsókn.
Slæma var auðvita að tapa leiknum í vító. Já þetta er nú ekki mikið undir í svona leik og efast ég að margir séu núna að gráta yfir tapleiknum í vító gegn Man City á síðasta tímabili en það er alltaf skemmtilegra að vinna það er bara þannig.
Mér fannst ekkert að því að Klopp sýndi Brewster traust til að taka víti eftir að hafa verið duglegur að skora undanfarið og hefur hann hingað til á ferlinum verið góð vítaskytta en hann ætlaði heldur betur að skora fallegt mark en er í staðinn sá eini sem klúðraði en þetta fer allt í reynslubankan og fínt að þetta gerist í svona leik sem ekki er mikið undir.
Þessi úrslit pirrar mann mjög lítið og fannst manni takturinn í liðinu ekki svo slæmur miða við æfingarleik tveimur vikum fyrir alvöruna, ég er samt viss um að dómsdags spá menn fara núna á stjá en fyndna er að þeir myndu líklega ekki tjá sig mikið ef við hefðum sigrað í vító sem er pínu galið því að maður var fyrst og fremst að vonast eftir solid leik og engum meiðslum á þessum 90 mín.
YNWA
Ekki hægt að komast betur að orði, vel sagt og gert Sigurður Einar! Tökum Leeds-ara í fyrsta leik!
YNWA
Æfingaleikur. Skiptir nákvæmlega engu máli. Sumt jákvætt, sumt neikvætt eins og við var að búast á þessum tímapunkti. Áfram gakk.
Sæl og blessuð.
Mikið hefði ég þegið þennan skjöld. Er afar svartsýnn á veturinn. Þessi leikur byrjar eins og hinir enduðu. Salah ósýnilegur, Mané þindarlaus en áhrifalítill, bekkurinn þunnur og andstæðingar vel undirbúnir. Þegar við skoðum stórinnkaup bláliðanna í deildinni auk annarra þá er það morgunljóst að róðurinn verður þungur og ég held að menn setji markið á Wenger bikarinn í ár. Sorrí.
Æfingaleikur ? Þetta er nú bara leikur um dollu og það er staðreynd. Að tapa úrslitaleik er kannski alltaf ásættanlegt fyrir sumar polliönnur hér inni en ég er aldrei sáttur við að tapa úrslitaleik ! Ég er líka ekki sáttur að tapa fyrir shitty í úrslitaleik í fyrra. Arsenal endaði um miðja deild og ivð eigum alltaf að vinna svona miðlungslið í úrslitaleik, það er bara þannig.
Skýrslan komin inn. Ræðið.
Timo Werner skoraði í dag
Mjög pirrandi að tapa úrslitaleik en sem betur fer þá mætir Klopp og félagar alltaf tvíefldir í næstu leiki á eftir tapleik, eins sjaldgæfir og þeir eru nú orðnir.
Áfram Liverpool!
Ókey, algjörlega off topic (verð að pirra mig á einhverju) – hversu steiktur er þessi útibúningur Arsenal? Lestarslys að framan og þýskir fornaldarstafir að aftan. Fleiri óheppnir með búninga en bara Liverpool…
Ég er drullusvekktur en við þessu er ekkert að gera. Vill að skjöldurinn sé geymdur á Anfield. Töpuðum líka fyrsta leik á síðasta tímabili og ef þetta er fyrirboði um svipað tímabil og í fyrra þá er ég sáttur. Er pínu áhyggjufullur útaf þessum meiðslum í hópnum og tímabilið varla byrjað.
Annað mál en leikurinn. Hlutirnir gerast hratt á Englandi enda sumarglugginn í gangi og hreyfingar á mannskap. Er eitthvað hæft í þessu með Mane og Gini? Hvað á að gera ef þeir fara og er eitthvað plan B í gangi, ef svo má kalla, því ekki veitir af þeim tveimur eða öðrum á sama kaliberi til að vera í liðinu. Finnst einhvernveginn að okkar ágæta lið sé svolítið rólegt á leikmannamarkaðinum amk miðað við stöðuna á meiðslalistanum, síðan eru jú kappar eins og Lovren og Lallana farnir sem voru alveg vel nothæfir leikmenn. Hvenig er staðan á þesswum málum??
Mín skoðun, LFC á ekki að vera “feeder club” fyrir barca og real. Við eigum að alltaf að vera í baráttunni um bestu leikmennina á markaðnum, kannski ekki messi og ronaldos, sem eru á ofurlaunum, en alla aðra, (werner,havartz og fl). Ég vona að hvorki Mane né Gini fari til barca, og að Kútur komi aftur, en það er bara blautur draumur.
Ég þoli ekki þessi bölsýnisfífl hérna inni. Erum við ekki Englandsmeistarar og þið látið eins og við séum að fara að falla um deild.
það geta verið margar skýringar á að menn séu ekki að finna ESSIÐ sitt. t.d skortur á leikformi og margt annað. Mér finnst ekkert benda endilega til þess að næsta tímabil kalli á svartsýni þó það sé vissulega gott að hafa væntingar hógværar. Já við töpuðum þessm leik í vítaspyrnukeppni en skítur skeður hjá öllum liðum. Arsenal eru alveg verðugir andstæðingar og með marga gæðamenn innanborðs. Það er vissulega svekkjandi að tapa fyrir þeim en þið látið eins og við höfum tapað 5 leikjum í röð eða eitthva
Stundum oska ég þess að þið finnið bara annan klúbb til að halda með ef það er það eina sem þið hafið að segja er eitthvað tuð og væl í hvert skipti sem klúbburinn minn tapar. Gagnríni er vissulega vel þeginn en það væri betra að hún væri málefnaleg. Þetta tuð er meira í anda útvarp sögu.
Menn aðeins að missa sig. Þessi leikur er æfingaleikur í besta falli miðað við tíma og aðstæður. Það mun alltaf muna einhvejum 5-8 sætum á þessum liðum í maí. Ég ætla að taka hálffulla glasið núna. Breiddin í liðinu er vandamál að því leytinu til að við erum ekki að fara að keppa um 4 titla. Því miður, og það pirrar mig. Kominn tími á FA cup t.d. Það gerist ekki á þessu tímabili. Ástæðan fyrir því er hvernig FSG rekur klúbbinn. Varaliðið á móti Wolves um árið er sönnunin. Punktur.
Klopp vill 11-16 manna solid hóp sem spilar flesta leiki í deild og CL. Annað mætir afgangi. Þetta lið tekur annan af stóru titlunum í ár. Það er ég viss um. Stigasöfnunin núna í 2 ár er ekki tilviljun og þetta heldur bara áfram. Yfir 90 stig spái ég.
Breidd; GK er klárt, nema að ég myndi vilja betra cover, ekki spurning en klúbburinn borgar ekki worldclass gk fyrir að sitja á bekknum. Verð hissa ef það kemur ekki auka miðvörður fyrir gluggalok, annars getur Fab coverað, sérstaklega ef Thiago kemur. Komin með 4 bakverði sem virka klárir í verkefnið. Keita kemur að öllum líkindum núna í byrjunarliðið, this is the age of Keita, boom! Annars eru þetta ca. 6-8 menn um 3 stöður. Ok, ok, skal játa það að ég væri til í alvöru kaup framávið. Ekki spurning. Skil ekki cirka 30m Thiago 29 ára og ekki Werner 24 ára 50m. Sérstaklega til að veita þessari heilögu þrenningunni smá aðhald a.m.k. Þeir einmitt hafa engar áhyggjur af að einhver taki þeirra stöðu og það er áhyggjuefni. En ef þeir halda standard hef ég ekki áhyggjur varðandi stóru titlana.
En…þegar ég vakna í fyrramálið og Messi, FOKKING MESSI er einu skrefi nær City er glasið orðið tómt og þá mun ég heimta að LFC og FSG nái í Mbappe og Koulibaly. Eiginlega er glasið orðið tómt hjá mér fyrir alllöngu síðan og kominn fokking tími til að klúbburinn sýni fokking klærnar og búi til fokking hóp sem leggur áherslu á að vinna alla fokking bikara sem í fokking boði eru !! Lights out
Elsku vinur. Hvar ert þú staddur í tilverunni.
Hjá mömmu þinni
Þvílika twistið í þessu commenti
Mikið er ég sár að hlausta á þessar neikvæðu athugasemdir um Liverpool strax í upphafi nýs tímabils. Liverpool vann alla stærstu titla sem voru í boði á síðustu leiktíð og á leiktíðinni þar á undan með “moneyboll aðferðinni”. Margir góðir spámenn í fjölfmiðla bransanum halda að Premier League og Meistaradeildin vinnist einungis með því að kaupa nýja stjörnu leikmenn og þá helst þekkt nöfn sem slúðurblöðin hafa kynnt til leiks sem komandi stórstjörnur. Ég er því ekki sammála , Barcelona, Man. City og PSG eru dæmi félög sem gera endurtekin mistök með ráðningum á nýjum þjálfurum og kaupum á stórstjörnum sem hefur hingað til ekki skilað neinum stórum titlum á undan förnum árum . Klopp hefur margsinnis á undanförnum árum sannað með sinni snjöllu innkaupastefnu og stjórnun hvernig á að byggja sigurlið. Hann býr til stjörnur. Hann kaupir ekki stjörnur. Hvenær ætla vissir áhangendur Liverpool að skilja það. Þið neikvæðu Liverpool stuðningsmenn ættu að fara í smá naflaskoðun og frekar hvetja og styðja liðið ykkar en að reyna að brjóta það niður.
Of mikið neikvætt hérna. Já ég væri til í Thiago skal viðurkenna það fúslega EN ef Klopp segist ekki þurfa hann þá er það bara allt í læ.
Það eina sem ég var dapur yfir í gær var það að Brewster skyldi koma inná þegar 1 mín var eftir í uppbótartíma hann var búinn að vera frábær í þessum æfingaleikjum og fannst ömurlegt fyrir hans hönd að hann skyldi skjóta í slána virkilega sorglegt þvílíkur leikmaður sem hann á eftir að verða ég er viss um það!
En þessi neikvæðni hérna á síðuni úff tengist ekkert pollýönum eða álíka bara getum ekki strax farið að dæma allt og alla eftir 1 leik sem fór í vító.
Góðar stundir félagar
YNWA
Það er aldrei gott að tapa. Sérstaklega þegar leikurinn endar í jafntefli. En það var frábært fyrir okkur að fá svona leik sem er meira en æfingaleikur, en samt ekki mjög mikilvægur, rétt fyrir byrjun tímabilsins.
1. Við þurfum að halda áfram að þróa hvernig við spilum á móti 5:4:1 Varnarkerfi andstæðinganna. Á löngum köflum vorum við að spila 2:4:4 í sókn. En það var ekki næg hreyfing á miðjunni og án TAA þá fórum við ekki nógu djúpt inní hægra hornið. Arsenal komst því upp með að stífla flæðið.
2. Há lína og há pressa. Markið sem Arsenal skoraði er verulegt áhyggjuefni. Nico gerði ekki mistök, sem hefði verið skiljanlegt (og hann gerði mörg önnur), heldur voru það Gini og Gomez sem lokuðu ekki reitum. Og við vorum að elta bolta alla leið á endalínunni hinum megin. Þetta verður tímabilið í hnotskurn fyrir okkur og gengur ekki að fá svona mörk á sig. Betra núna en í deildinni eða UCL.
3. Keita, Hendó, Alcantara — Keita, Fabinho, Hendó — Fabinho, Alcantara, AOC. Gini er farinn og Alcantara á leiðinni inn. Ég mun sakna Gini, en miðjan er sennilega amk. Jafn sterk ef Alcantara kemur inn — og sennilega fjölhæfari ef hann þarf ekki að spila sem 6. Og í leikjum sem við erum miklu sterkari væri rosalegt að hafa bæði hann og Keita.
4. Klopp er mjög íhaldssamur í úrslitaleikjum. Ég veit ekki alveg af hverju, sennilega af því að hann veit fyrsta markið vinnur 70% plús af úrslitaleikjum. Í gær spilaði hann því sem að mínu viti er sóknarlega veik miðja með Gini og Milner saman. Held að leik planið hafi verið að spila fyrstu 60 og fá ekki á sig mark og þreyta Arsenal og koma svo með fleiri sóknarmenn og hraða undir lokin. Það var í sjálfu sér alveg að virka — en verulega er það þreytandi að horfa á svona tíki-taka dútl á miðjunni í klst. Á samt ekki von á að það verði algengt í vetur.
Tvær leiðinda vikur framundan, en gríðarlega mikilvægar fyrir LFC til að undirbúa tímabil þar sem meira að segja við sem bara horfum á alla leikina eigum eftir að þreytast á þéttleika prógrammsins.
Kláraði loks að horfa á hann þennan.
Fyrst neikvæðir punktar. Hef STÓRAR áhyggjur af því hversu erfitt okkur er að reynast að fara í gegnum rútuvarnir liða sem hafa aga í að viðhalda slíkt. Þessi leikur er bara spegill af því sem við sáum frá ca. 1.febrúar í fyrra, þetta er ekkert einn leikur út af fyrir sig. Arsenal og Watford töpin voru nákvæmlega svona…og 0-0 tapið fyrir Everton. Mané klárlega líflegastur af fremstu þrem í gær og Salah lagði upp fyrir Taki sem er jákvætt en báðir þessir tveir voru líka á löngum köflum í miklu basli.
Ég er hins vegar orðinn miklu meira en stressaður yfir Bobby Firmino. Þetta er minn uppáhaldsmaður í liðinu en það varð hann ekki með frammistöðum eins og þessari í gær eða þeim sem að við sáum oft seinni hluta síðasta vetrar. Það vita núna öll liðin að hann er ákveðinn lykill í okkar liði og það er auðvitað hluti vandans en ég hef áhyggjur af því að sjálfstraustið hans sé að verða eitthvað laskað. Hann var “out-of-sorts” í gær eins og Bretinn segir.
Þetta sóknartríó hefur alla burði til að halda því áfram að vera það besta í heimi en í gær fannst mér augljóst að við þurfum hreinræktaða níu inn í þennan leikmannahóp. Krossarnir frá Robbo sem fóru í gegnum teiginn án snertingar líklega besta lýsingin á því, þá var enginn á nær, of seinir á miðju og enginn á fjær.
Upplegg Arsenal var þetta í gær. Þétta miðjuna og loka á tríóið og þá vinnum við. Það gekk upp og þeir fóru auðvitað ánægðari að velli. Miðjan fyrstu 60 í gær var aldrei að fara að hjálpa okkur mikið í markaskorun, Gini fékk þarna mínútur til að vera fremstur og nýtti það ekki. Fab er ekki sóknartýpa og Millie karlinn ekki heldur. Mér fannst þó Milner alveg vera á sínu pari og hinir ekki slæmir en með þessa þrjá saman á miðju veit maður að tríóið þarf að skora…eða set-piece sem hjálpar.
Neco karlinn og Brewster fengu vísbendingu um það að fótbolti er ekki hreinræktuð draumasmiðja. Neco var að mæta öðrum tveggja bestu mögulegu mótherja sinna í vetur (hinn Sterling) og fékk dýrmæta lexíu. Hann er ekki tilbúinn á þetta stóra svið strax en ég held enn að hann ráði við það að verða backup í vetur…þó vonandi ekki í haug af leikjum. Brewster hlýtur að spyrja sig hvort hann í raun og veru fái einhverjar mínútur fyrst hann fer ekki inná í ljósi þess sem ég skrifa hér að ofan. Ákvörðun Klopp um að setja hann inná í vító lítur kjánalega út. Algert grín að láta skítkaldan ungling taka víti og sprakk í andlit stjórans. Þessir tveir geta alveg labbað út af Wembley á þeim stað að maður sé yfirvegaður yfir þeim. Varnarlega áttum við pínu erfitt fannst mér að ráða við hraða Arsenal og Gomez á ekki að leysa bakvörð.
Það voru hins vegar jákvæðir punktar fannst mér líka. Sérstaklega seinni hálfleikur (fyrri var arfi í raun þegar kemur að sköpun) og sérstaklega var innkoma Keita og Minamino góð. Þá kom bara allt annað sóknarflæði í gegnum miðjuna, ég man ekki eftir að hafa séð Minamino í þessari stöðu inni á miðju hjá okkur áður og þarna var hann drullulíflegur og frábært að hann opnaði markareikninginn. Ég hef stundum smellt því fram að mér finnst mega prufa Bobby í þessari stöðu og það að sjá loksins Arsenalmenn lenda í vanda þegar þessir tveir komu inná gladdi mig. Nú bara treysti ég því að Keita karlinn verði ómeiddur í langan tíma og nái að stimpla sig af alvöru inn í okkar lið, hann hefur margt af því sem okkur vantar í svona leikjum. Mér fannst reyndar Robbo eiga skilið mann leiksins hjá okkur, hann var á frábærum stað lengst af og ég er handviss um að samkeppnin ýtir við honum.
Ég er svona í samantektinni ekki að grenja mikið yfir að tapa bikar (þó það sé að verða helvíti fúlt hvað okkur gengur illa á Wembley) en ég hef af því áhyggjur að við séum orðnir of fyrirsjáanlegir og betri lið deildarinnar séu komin með svör við okkar uppleggi. Ég nenni ekkert að horfa upp á posessionfótbolta sem endar 0-0 eða 1-1 eða þaðan af verra. Við eigum að vera það gott lið að við finnum út svör við svoleiðis fótbolta því þetta verður staðan næstu árin.
Hvort það þýðir að kaupa meiri hugsuð og sendingagæði inn á miðjuna, fjárfesta í öflugri níu eða finna út svör í okkar leikmannahóp veit ég ekki – en ég treysti Klopp og Lijnders til að meta það og í raun alveg FSG að bakka þá upp á markaðnum ef það er raunin.
Samkeppnin er slík að 4 – 6 svona leikir eins og þessi gætu kostað okkur mikið – en það er sko alls ekki stórt sem þarf að breytast sem segir okkur einmitt það að við séum með frábært lið sem á að geta gert góða hluti til langs tíma, við búum við “fear factor” sem við ekki höfum séð í langan tíma. Risalið ná að vinna sig inn í slíka stöðu og ég er viss um að við gerum það líka, þetta er bara meðgangan í því ferli.
Ekkert jákvætt við liverpool eftir covid, búnir að vera með allt niðrum sig. Sést marga kílómetra að það vantar styrkingu í liðið…menn bíða eftir tiago sem er að vera 30 ára og á að kosta 30m þegar liverpool tímdi ekki 50 í werner, hehe, tiago er aldrei að fara að koma..
Sælir félagar
Áhyggjur mínar snúa ekki að því að tapa þessum leik per se. Það er að vísu hundfúlt og meistarar eiga ekki að tapa svona leik. En það hefur ekkert forspárgildi að tapa leiknum og að hafa tapað fyrir MCFC í fyrra og orðið meistarar eftir tímabilið. Ef svona leikur hefur forspárgildi þá væri betra að vinna hann örugglega. Ég hefi áhyggjur og þær snúa að tvennu eða þrennu.
Í fyrsta lagi hvað bekkurinn var þunnur. Liðin næst okkur í töflunni eru öll að styrkja sig og þá meina ég að styrkja byrjunarliðs hóp sinn. Það hefur öskrað á mann lengi að okkar fremstu þrír eru ekki að fá liðsmann sem hægt er að skipta inná án þess að áhyggjur skapist. Þegar minn maður Firmino er í óstuði er enginn sem getur bakkað hann upp og hann verður bara að spila í óstuði. Þetta er slæmt og verður slæmt ef ekkert breytist.
Frasinn “Klopp kaupir ekki stjörnur, hann býr þær til” er auðvitað bara bull. Alisson og VvD afsanna hann og við værum illa staddir ef Klopp hefði ekki keypt þessa tvo dýrum dómum. Liðið þarf á því að halda að kaupa stjörnuleikmenn (les afburðaleikmenn), amk. einn ef ekki tvo á hverju ári. Engin akademia framleiðir 1 – 2 svoleiðis leikmenn fyrir hvert leiktímabil. Það verður að kaupa þá og án þess heldur liðið ekki dampi.
Þega bekkurinn er orðinn skipaður einu til tveimur fullbúnum liðsmönnum og svo bara kettlingum þá er eitthvað að fram hjá því verður ekki horft. Hvað sem árangri síðustu leiktíðar líður, hann var einstakur og frábær, þá þarf liðið amk. einn afburðaleikmann. Tiago Alicantare gæti verið sá leikmaður. Maður sem getur brotið upp varnir með mögnuðum sendingum og er afburða maður bæði í sókn og vörn. En bakkuppið fyrir þá þrjá fremstu vantar enn að mínu mati þó Tiago komi.
Það er nú þannig
YNWA
Tiago, coutinho og varnarmann takk, helst sem getur spilað bæði í hægri bakv og miðvörð.
fá studge og suarez back .. kútinn líka .. gebbuð stemming !!
Það er heiður að taka þátt í þessum æfingarleik sem er sá eini sem Enska knattspyrnusambandið skipuleggur. Verðlaunin er aðeins diskur sem hægt að að nota í mesta lagi til að mæla úrkomu en ekki árangur á vellinum. Arsenal-strákarnir mega alveg dunda sér við að mæla úrkomu komandi vetrar en því miður er ekkert stig í boði fyrir árangur á því sviði.
Hvað varðar Liverpool strákana hef ég áhyggjur af því hvað þeir eru orðnir fyrirséðir þeir spila alltaf sama kerfið.
Spá mín er sú að okkar menn kaupa ekki miðvörð heldur noti Fabi sem slíkan, en kaupi Taigo frá Bænum í Munhen. Það verða okkar einu kaup. Ég er bara sáttur við það að nota ungu strákana.
Er eitthvað til í slúðrinu að Thiago sé að koma inn fyrir Wijnaldum?
Mér finnst nú skrítið að láta Gini fara þegar hann er búinn að vera fastamaður í liðinu síðustu 2 ár.
Persónulega myndi ég halda honum, hann er það mikilvægur og hann fer þá bara frítt næsta sumar.