Gullkastinu og spá fyrir neðri helming deildarinnar sláum við að þessu sinni saman í sömu færsluna
Stjórnandi: Einar Matthías
Viðmælendur: SSteinn og Maggi
MP3: Þáttur 300
Spá Kopverja – fyrri hluti – 11. – 20. sæti
Það er þessi tími ársins já…þegar ég skríð í hýði og loka mig frá alheiminum til þess að fara yfir og rýna í spádóma Kop-drengjanna fyrir tímabilið.
Nú nýlega fór hann Daníel yfir spádóma síðasta árs sem sýnir auðvitað hversu fullkomlega óskeikulir við erum (eða ekki) í þessum spám okkar hvert sinn og auðvitað kominn tími á að birta þá nýju þar sem að tímabilið hefst jú á laugardagskvöldið!
Við erum nú 10 sem spáum, ritstjórarnir þrír, pennarnir sex á kop.is og svo Facebook-kóngurinn okkar hann Sigurður Einar. Eins og áður er stigagjöfin einföld. Við röðum liðunum upp í sæti 1 – 20 þar sem að stigagjöfin er í öfugri röð, þ.e. 20 stig fyrir fyrsta sæti og svo koll af kolli. Mest er því hægt að fá 200 stig og minnst 10 stig. Ef liðin eru jöfn að stigum færist það ofar sem er spáð hærra sæti oftar.
Ekki eftir neinu að bíða, hendum okkur í sæti 11 – 20!
20.sæti Fulham 14 stig
Fulham kemur aftur inn í deildina eftir eitt ár í þeirri næstefstu, unnu Brentford frekar óvænt í úrslitaleik umspilsins á Wembley. Þeir komu upp í efstu deildina 2018 og keyptu fullt af leikmönnum, fóru í stjórafarsa og réðu loks Scott Parker eftir að þeir voru fallnir og seldu fullt af leikmönnum síðasta sumar og keyptu minni spámenn. Við einfaldlega trúum ekki öðru en þeir fari lóðbeint niður, við spáum þeim allir fallsæti og enginn fer upp fyrir 19.sæti í spánni. Þeirra lykilmaður er serbneskji framherjinn Aleksandar Mitrovic sem hélt við þá tryggð og skorar alltaf mörk, klassísk nía. Hann mun ekki fara með þeim niður aftur ef spáin fer sem horfir.
19.sæti W.B.A. 17 stig
Við erum eiginlega með copy-paste á nýliðana tvo af þremur. West Brom lentu í 2.sæti næstefstu deildar með ólseigt kraftfótboltalið undir stjórn stálnaglans vel ofvirka, Króatans Slaven Bilic sem vissulega hefur náð árangri á sínum þjálfaraferli þó leikstíllinn fjölgi ekki áhangendum hans á Instagram um milljónir. Munurinn á tveimur efstu deildunum er einfaldlega bara það mikill að við teljum hann eiga litla möguleika á kraftaverki og klúbburinn er klassískur jojo-klúbbur sem spyrja má hvort einhver saknaði úr efstu deild. Vert er að benda á brasilíska kantframherjann Matheus Pereira sem leikmann sem gaman gæti orðið að fylgjast með. Á mörg trikk í bókinni.
18.sæti Aston Villa 50 stig
Maður þarf eiginlega að fara á leik hjá Aston Villa til að átta sig á stærðargráðu klúbbsins og því hversu fáránlegt það er að liðið sé í því ströggli sem það hefur glímt við síðustu ár…og eiginlega bara áratugi. Næststærsta borgin og 40 þúsund plús áhorfendur búa til fína stemmingu. Þrátt fyrir það þá einhvern veginn er alltaf ströggl á þeim og í fyrra rétt sluppu þeir við fall þrátt fyrir töluverða innspýtingu í leikmannakaup. Stjórinn er uppalinn Villadrengur sem vill ná langt en við höldum þetta verði erfitt hjá þeim aftur, sér í lagi verði mikið bras að skora. Það er þó eilítið magnað að af okkur 10 þá er bara einn sem spáir þeim falli, stigasamsetningin er þannig að við spáðum allir WBA og Fulham falli og þau því langneðst. Villa fá fallsætið þar sem við röðum þeim eiginlega allir rétt ofan við fall. Þeir tapa semsagt harðri baráttu um þriðja fallsætið en munu hríðfalla ef þeir munu selja Jack Grealish áður en glugginn lokar. Hann er ábyrgur fyrir allri þeirra sköpun!
17.sæti Brighton 56 stig
Adam Lallana og félagar, við leggjum til að það verði nýtt nafn “Mávanna” frá Brighton & Hove borgunum. Þeir eru klárlega það lið í neðri helmingi deildarinnar sem spila skemmtilegasta fótboltann. Stjórinn Potter virðist klókur stjóri sem á gott með að vinna með ungum leikmönnum sem nokkrir eru spennandi á suðurströndinni. Kaupin á Lallana eru hugsuð til að fá reynslukappa með fótboltahaus inn í liðið á AMEX-vellinum og stýra þeim ofar í deildinni. Við teljum það þó ekki alveg takast en að liðið haldi sæti sínu enn á ný að loknu þessu tímabili. Við hlökkum til að sjá Tariq Lamptey og Ben White í þessu liði, ungir leikmenn sem klárt er að verða innan skamms í stærri klúbbum!
16.sæti Newcastle 57 stig
Þvílíka sumarið hjá Newcastle. Síðasta vor leit út fyrir að liðið yrði það ríkasta í heimi með eigendur sem geyma fjársjóði Sádí Arabíu í vösum sínum en enska deildin ákvað að draga það svo lengi að staðfesta kaup þeirra að Sádarnir fóru í fýlu og allt gekk til baka…norðaustanfólkinu í Newcastle til lítillar gleði. Eftir langa þögn þar sem eiginlega enginn velti Newcastle fyrir sér þá hafa þeir nú á síðustu dögum sótt sér leikmenn úr fallliðunum, Callum Wilson og Ryan Fraser koma frá Bournemouth og manni sýnist ljóst að þeir nái í Jamal Lewis í bakvörðinn. Enn er verið að horfa til að selja liðið allt eða að hluta og þannig gera tilraun til að vekja þennan risa í fótboltaóðri borg. Við teljum losarabraginn og eignarhaldið vefjast þannig fyrir þessu félagi að það verði enn á ný í fallslag en þann slag muni þeir sigra undir stjórn Steve Bruce og með Longstaff bræðurna í hjarta liðsins, nýju mennirnir þurfa svo að koma inn með mörkin. Svo verður liðið selt í vetur….
15.sæti Crystal Palace 63 stig
Lærisveinar Roy eru síðasta liðið sem í stigasöfnunni standa verulega tæpt á falli, 13 stig skilja þá og Aston Villa í spánni svo við teljum þessi fjögur verða þau sem í mesta brasinu munu standa. Palace er að verða stabíll úrvalsdeildarklúbbur sem er býsna gott fyrir þennan fjölskylduvæna klúbb í Suður-London, hvar efnahagur heimafólks er líklega hvað minnstur í Englandi. Stemmingin á Selhurst er víst ansi mögnuð og með það í brjóstinu hafa röndóttir CP-liðar náð flottum árangri síðustu ár. Leikstílinn ætlum við ekki að ræða enda ennþá flestir með tráma eftir ákveðið tímabil hjá okkar liði tengt doltlu en stjórinn má eiga það að hann nær árangri með lítil lið á þennan hátt. Þeir keyptu í sumar efnilegasta leikmann neðri deildanna frá QPR, Eze að nafni og á hann að stýra miðjuspilinu og finna lykilinn að sóknarleik þeirra, Wilfred nokkurn Zaha, sem mest. Það er lykill fyrir Palace að Zaha verði þar um sinn. Við teljum svo vera og þá halda þeir sér uppi.
14.sæti West Ham 73 stig
Nýtt ár og sami texti í spánni eiginlega. Hvers eiga Hamrarnir að gjalda eiginlega…þeir ná sér bara ekki upp úr miðjumoði síðustu áratuga þrátt fyrir heilmikla fjárfestingu í leikmannahópnum og flutning á risastóran völl í gjöfulu úthverfi Lundúnaborgar. Það er algerlega yfirlýst stefna félagsins að vera að keppa um efstu 8 sæti deildarinnar en það er ekki í augsýn og það sást eiginlega best þegar þeir völdu það að setja Moyes í stólinn i fyrra til þess að halda liðinu uppi. Í vetur á hann að stabilísera West Ham í deildinni…hversu oft þarf maður að lesa þessa setningu um þennan klúbb? Þarna er leikmannahópur með gæði innanborðs, áhorfendagleðjara eins og Yarmolenko og Felipe Anderson og grjóthart stál í Rice og fyrirliðanum Noble en kannski er það til marks um hvernig ástandið er að fyrirliðinn sjálfur hraunaði yfir félagið sitt nú á dögunum vegna ákvörðunar um að selja leikmann til WBA. Ekki allar rósirnar í þessum garði að springa út, West Ham verður neðst í miðjumoðinu sem við erum að fara inní og Moyes verður látinn fara vorið 2021, nýr stjóri kemur inn og spreðar peningum…og allt fer svo af stað á ný í sama hring.
13.sæti Leeds 77 stig
Leeds er komið á meðal þeirra bestu á ný. Ég ætla ekki að segja að ég hafi endilega saknað þeirra því rimmur okkar við þá eru oft ansi skrautlegar en það er þannig bara að þegar maður horfir yfir stöðutöfluna og Leeds er á henni þá einhvern veginn passar það saman. Liðið er búið að vera mjög lengi utan deildarinnar og það verður fróðlegt að sjá hvernig þeir tækla það. Maður les stundum að þeir telji þetta ekki verða neitt mál með Bielsa við stjórnvölinn því klúbburinn og liðið sé alveg klárt, verði komnir í toppbaráttu eftir 1 – 2 ár eins og síðast þegar þeir fóru upp eftir langa bið, urðu meistarar þá eftir 2 tímabil. Aðrir eru svo að benda á þann mun sem er á milli deildanna og þá staðreynd að í leikmannahópi Leeds eru fáir með reynslu af svo erfiðri deild sem Úrvalsdeildin er. Svo við stillum þeim upp hér svona mitt á milli þess að verða það spútniklið sem Leedsurum dreymir um og svo því að fara lóðbeint niður. Þeir nálgast þann stöðugleika að verða efstudeildarlið og leikmennirnir ná að stíga skrefið upp sem þarf. Við skulum horfa á miðjumanninn Kalvin Phillips í vetur, sá er að koma sér í enska landsliðið og svo er það 35 ára Spánverji, Pablo Hernandez, sannkallaður sóknardurgur þar á ferð sem hefur farið mikinn með Leeds frá 2016 og Bielsa kveikti svo sannarlega á! Fyrstu mótherjar okkar í deildinni – fáum strax að sjá hvað í þá er spunnið.
12.sæti Burnley 77 stig
Hér kemur fyrsta liðið þar sem við félagar förum í allar áttir. Einn úr hópnum telur þá æða upp töfluna á ný og enda í 9.sæti en tveir spá þeim falli! Samtals setjum við kraftakarlana hans Sean Dyche í 12.sætið og það er eiginlega til marks um það hversu lítið við spáum í þeim að það voru býsna stuttar rökstuðningssetningarnar með spánum. Enda vita flestir hvað það er sem Burnley stendur fyrir. Varnarleikur og langir boltar eru vörumerki Dyche og Burnley. Á meðan að hann nær árangri á þennan hátt verða ekki breytingar á Turf Moor. Heimavöllurinn er lykill að öllum þeirra árangri, þröngur völlur og opinn með áhorfendur alveg oní leiknum og mikið “hostility” gagnvart aðkomuliðinu hefur hjálpað þeim að ná í flest stig sín þar, almennt talinn einn erfiðasti útivöllur deildarinnar. Við getum auðvitað ekki gleymt því að okkar eini Jóhann Berg spilar með liðinu sem eitt liða tapaði ekki á Anfield í fyrra en ég ætla að setja markmanninn Nick Pope sem þeirra lykilmann. Sá mun spila fyrir stærra lið fljótlega.
11.sæti Sheffield United 79 stig
Spútniklið síðasta árs mun eiga öruggt annað leiktímabil í deildinni en eins og við vitum er það klassískt vandamál yfirleitt, þ.e. ár númer tvö! Aðalástæða þess að við teljum þá verða örugga er stjórinn Chris Wilder sem hefur byggt upp feykisterkt lið sem er tilbúið að leggja allt á sig fyrir hann og fara að hans fyrirmælum. Liðið tók þriggja hafsenta kerfið sitt upp á næsta level á síðasta tímabili og voru allt þar til Covid birtist bara líklegir til að komast í Meistaradeildina. Eftir pásuna virtist það pínu þannig að liðin hefðu fundið þá aðeins út og það höldum við að verði raunin hjá toppliðunum og Sheffield nái ekki viðlíka árangri. Við erum þó ekki allir sammála, hér er á ferð síðasta liðið þar sem einhver okkar spáir því falli og það er til marks um það að allt getur gerst á Bramall Lane sem er líklega ásamt Selhurst Park sá völlur sem mun mest sakna áhorfendanna enda mikill hávaði hjá heimamönnum. Lykill að velgengni eru hafsentarnir sem bæði eru grjótharðir varnarmenn en taka líka mikinn þátt í sóknaruppbyggingunni, Chris Basham þar fremstur meðal jafningja.
Hér er þá fyrri hluti spárinnar okkar, á morgun kemur svo efri hlutinn með liðunum í sætum 1 – 10. Endilega hendið ykkar sætum 11 – 20 í spá ykkar hér í komment að neðan, all for the fun of it!
Kop.is er í samstarfi við Sportveituna FM 102,5 en podcöst okkar eru nú flutt þar einnig, sem og á Spotify-reikningi veitunnar sem finna má með því að leita að SportFM á Spotify.
Þetta er mín spá fyrir neðri helminginn. Henti í hana og skráði síðan ykkar sæti fyrir aftan, ekki svo fjarri lagi með flest liðin 😉
10 Crystal Palace 15
11 Southampton
12 Burnley 12
13 Aston Villa 18
14 Sheffield Utd 11
15 West Ham 14
16 Leeds 13
17 Newcastle 16
18 Brighton 17
19 Fulham 20
20 West Brom 19