Á morgun er annar í titilvörn þegar við mætum bláliðum í Chelsea á Stamford Bridge. Leikir þessara liða hafa yfirleitt verið mjög spennandi og áttum við erfitt með þá í þeim fjórum leikjum sem við spiluðum við þá á síðasta ári. Lokaleikurinn var líklegast minnistæðastur en eftir þann leik lyftum við loks Englandsmeistaratitlinum eftir 30 ára bið en leikurinn minnti meira á handboltaleik en fótbolta og endaði 5-3 okkur í hag. Við unnum hinn deildarleik liðanna einnig en sá leikur fór 2-1 þar sem við skoruðum tvö mörk snemma leik en vorum svo undir mikilli pressu í seinni hálfleik en náum að halda út. Síðan mættust liðin bæði í Ofurbikarnum þar sem Liverpool vann í vítaspyrnukeppni og í FA bikarnum þar sem Chelsea hafði betur 2-0.
Í gær var sérstakur dagur en eftir sumar af orðrómum, og jafnvel staðfestingum, þess efnis að við þyrftum að selja til að kaupa og að veirutímar hefðu farið illa með fjárhag Liverpool þá virðist vera að allstórt peningabúnt hafi fundist við þrif á skrifstofum í gær. Nokkrum klukkutímum eftir að Klopp sagði á blaðamannafundi að það væri lítið í gangi en það væri þó ekki öruggt að enginn kæmi í glugganum voru tveir menn staðfestir í Thiago og Diogo Jota og orðrómar um að sá þriðji sé langt kominn varnarmaðurinn Ozan Kabak.
Með þessa menn innanborðs er ekki hægt að segja annað en að breiddin hjá okkar mönnum er farinn að líta ansi vel út á pappír en við fáum að láta á það reyna á næstu vikum þegar leikjaprógramið fer að þéttast allverulega og þessir menn þurfa þá að sýna okkur hvað í þá er spunnið.
Mótherjinn
Á meðan hafa mótherjar okkar á morgun verið að henda peningum í alla sem eru til í að taka símtöl frá Frank Lampard í sumar en þeir hafa þegar eitt rúmlega 200 milljónum í sumar. Þeir kaupa þrjá flotta leikmenn í formi Haverts, Werner og Zyiech og náðu svo í einhverja varnarstyrkingu með Thiago Silva og Ben Chilwell og svo er markmaðurinn Edouard Mendy á leið frá Rennes í þokkabót fyrir um 20 milljónir. Chelsea heilluðu marga í fyrra með her ungliða sem hafði áður ferðast um álfuna á láni í nokkur ár áður en Chelsea lennti í félagsskiptabanni síðasta sumar og var þá tekinn ákvörðun að treysta á strákana. Þeir stóðu undir því að flestu leiti komust í meistaradeildarsæti og voru virkilega góðir á köflum en eins og oft með ung lið að þá var óstöðugleiki þeirra helsta vandamál. En þrátt fyrir flottar frammistöður í fyrra verður líklegast lítið traust á sömu ungu menn í ár. Mount og James fá líklegast enn einhverjar mínútur en traustið verður á nýju dýru leikföngum Lampards í ár.
Nokkur forföll eru í Chelsea liðinu en nýju mennirnir Hakim Ziyech, Ben Chillwell og Thiago Silva eru allir á meiðslalistanum og verða líklega ekki með á morgun en sama á við um Christian Pulisic sem við áttum erfitt með í seinni deildarleik liðanna í fyrra. Auk þeirra var Timo Werner eitthvað tæpur eftir Brighton leikinn en Lampard hefur staðfest að hann verði með á morgun.
Okkar menn
Á morgun verður undarlegur dagur fyrir okkar menn því í fyrsta sinn síðan í október 2018 munum við spila við lið sem er fyrir ofan okkur í töflunni. Það er þó aðeins ein umferð búinn svo það er ólíklegt að okkar menn láti það eitthvað trufla sig. Þó stöndum við klárlega frammi fyrir dágóðu vandamáli sem er varnarleikur liðsins. Lokahluti síðasta tímabils var ekki sterkur varnarlega og við byrjum tímabilið í ár að fá á okkur þrjú mörk gegn nýliðum Leeds og það er orðið ljóst að þetta er eitthvað til að hafa áhyggjur af, sérstaklega gegn jafn góðu sóknarliði og Chelsea. Á hinn boginn vitum við hvað leikmennirnir í þessum stöðum hafa mikil gæði og þjálfarateymið hefur margoft sýnt okkur hvað þeir eru góðir að bregðast við vandamálum að vonandi sjáum við lagfæringu á þessu strax á morgun því annars gæti illa farið.
Það er lítið um forfoll í okkar liði, einungis Oxlade-Chamberlain á meiðslalistanum en auk hann er ólíkegt að nýju mennirnir verði með á morgun.
Góðu fréttirnar hjá okkar mönnum er leikurinn sem Mo Salah átti gegn Leeds þar sem hann var hrikalega flottur og ætlar greinilega að reyna sækja gullskóinn sinn aftur sem hann lánaði Jamie Vardy á síðustu leiktíð.
Ég tel að það verði litlar breytingar á liðinu fyrir þennan leik, í raun aðeins það að Fabinho komi inn á miðjuna til að hjálpa varnarleiknum annars verði þetta sama lið og við sáum gegn Leeds.
Spá
Það verður spennandi að sjá hvort Marcos Alonso verði áfram í vinstri bakverðinum hjá Chelsea eða hvort Lampard setji Azpilicueta þar yfir. Ef ég væri Chelsea maður væri ég allavega skíthræddur að mæta Salah í þessum ham gegn Alonso. Ég ætla að spá 2-1 sigri Liverpool í mjög erfiðum leik þar sem Salah setur eitt og Van Dijk annað en Timo Werner skori fyrir Chelsea.
Sælir félagar
Ég ætla rétt að vona að 2 – 1 spá Hannesar Daða rætist ekki 🙂 Nei OK þetta var útúrsnúningur og auðvitað meinti HD 1 – 2. ‘eg spái hinsvegar 1 – 3 og nenni ekki að rökstyðja það með öðru en liðið okkar er einfaldlega betra hvað sem 220 millu kaupum olíuliðsins líður.
Það er nú þannig
YNWA