Liverpool – Arsenal 3-1

0-1 Lacazette, 25 min
1-1 Mané, 28 min
2-1 Robertson, 34 min
3-1 Jota, 88 min

Heimamenn í Liverpool tóku á móti Arsenal í, að manni fannst eftir úrslit gærdagsins, ansi mikilvægum leik. Við höfum átt frekar auðvelt með Arsenal síðastliðin ár en síðustu tveir leikir hafa þó á einhvern óhugsannlegan hátt endað með tapi. Sterkir orðrómar voru fyrir leik um að bæði Alisson og Thiago væru fjarverandi vegna meiðsla, því betur fer var ekki nema hálfur sannleikur í því – en það átti eftir að reynast okkur vel í kvöld!

Arsenal menn að koma inn í þennan leik með rúm fimm ár án sigurs á útivelli gegn „topp sex“ og ekki unnið á Anfield í 8 ár – það breyttist ekki í kvöld, lengi megi það halda áfram!

Klopp stillti þessu upp svona, Fabinho færði sig úr miðverðinum og á miðjuna í stað Henderson á meðan Gomez tók sér stað við hlið Virgil.

Alisson

TAA – Gomez – VVD – Robertson

Keita – Fabinho – Wijnaldum

Salah – Firmino – Mane

Bekkur: Adrian, Neco Williams, Milner, Minamino, Jota, Origi, Jones

Mané fékk gult spjald á annarri mínútu eftir eftir að hafa gefið Tierney heldur augljóst olnbogaskot. Einhverjar umræður voru um það á twitter að Mané hefði átt að fjúka útaf fyrir þetta en það hefði verið heldur gróft. Setur vissulega hendina út en aldrei ásetningu þarna annar en að verja boltann.

Það var heldur lítið að frétta fyrsta korterið eða svo, leikurinn nokkuð jafn en Liverpool fór að auka pressuna og fékk 3 hornspyrnur í röð án þess að skapa eitthvað úr þeim. Það var svo á 15 mínútu sem við fengum fyrsta alvöru færið. TAA sendi boltann fyrir af hægri kanti þar sem óvaldaður Mané kom á ferðinni og átti fast skot rétt við markteiginn en beint á Leno.

Uppleggið var orðið nokkuð ljóst á þessum tímapunkti, Arsenal ætlaði rétt eins og síðustu tvo leiki að liggja vel til baka, draga okkur inn og koma svo með háa bolta yfir pressuna og freista þess að sækja hratt á sóknartríóinu sínu. Þeir voru því með 11 leikmenn á eigin vallarhelmingi stóran hluta fyrri hálfleiks og ljóst að þolinmæðisverk beið okkar manna.

Liverpool var að hækka hitann þegar á leið. Á 20 mínútu kom horn vinstra megin frá Robertson, boltinn barst fyrir utan teig þar sem að TAA átti hörkuskot í innanvert lærið á Bellerin og þaðan í slánna. Hörkuskot hjá  Trent sem í raun gat farið hvert sem er. Við náðum upp góðri pressu í kjölfarið og þremur mínútum síðar þröngvuðum við Arsenal í mistök, Robertson vann boltann eftir slaka sendingu Luiz, boltinn barst svo til Gini sem var í fínu skotfæri við vítateigslínuna en skotið fór beint á Leno.

Það var svo mínútu síðar sem Arsenal átti í raun sína fyrstu sókn. Niles komst upp kanntinn vinstra megin eftir sendingu frá Lacazette, Niles átti svo slaka sendingu sem að Robertson kingsaði líka svona hrikalega að knötturinn barst aftur fyrir hann á óvaldaðann Lacazette sem átti svo enn slakara skot en Alisson var lagður af stað í hornið og boltinn skoppaði því yfir hann (hefði væntanlega gripið þetta auðveldlega ef hann hefði ekki verið búinn að skutla sér) – grátlegt mark svo ekki sé annað sagt. Merkilegt hvað við erum að gefa Arsenal þessi mörk leik eftir leik.

Ekki að maður hafi verið farin að örvænta en sú hugsun laumaðist þó inn hjá undirrituðum hvort þetta yrði annar svona leikur, enda Liverpool 75% með boltann á þessum tímapunkti.

Þessi forysta gestanna dugði þó skammt, Sadio nokkur Mané jafnaði örfáum mínútum síðar (27 mínútu) eftir að Firmino kom boltanum á Salah sem lék á Tierney og lét vaða á markið, Leno varði skotið en Mané var mættur í frákastið, 1-1!

Fimm mínútum síðar var Liverpool komið yfir. Fyrirgjöf TAA fór yfir alla í teignum, Mané dró að sér bæði Holding og Bellerin á meðan að Willian hafði enga trú á Robertson og elta hann því ekki inn í teig – boltinn barst á þann skoska sem tók á móti boltanum lagði hann frábærlega framhjá Leno, 2-1!

Síðari hálfleikur

Síðari hálfleikur byrjaði svipað og sá fyrri, nema hvað Arsenal voru ívið meira með boltann í þetta skiptið. Arsenal var að ná ágætis boltum bakvið öftustu línu án þess að nýta sér það. Á 62 mínútu fékk Arsenal sitt besta færi þegar Lacazette komst einn í gegn eftir að rangstæðugildran klikkaði. Í markinu hjá okkur var þó blessunarlega Alisson sem kom á móti, gerði sig (risa)stóran og varði frábærlega, í annað skiptið í röð gegn Frakkanum en Lacacette var rangstæður í fyrra skiptið nokkrum mínútum fyrr.

Mínútu síðar fékk Mané dauðafæri eftir að sending Firmino hafði viðkomu af varnarmanni Arsenal, barst til Mané sem varð að snúa sér á punktinum til að ná skoti, sem fór hárfínt framhjá.

Á 78 mínútu var gerð tvöföld skipting, ég var svolítið hissa á að sjá Mané fara útaf (var reyndar á spjaldi) en í stað hans og Keita komu Milner og Diogo Jota.

Jota var mikið í boltanum þessar 15 mínútur sem hann spilaði. Salah átti góða sendingu á portúgalan á 82 mínútu sem var aleinn í teignum vinstra megin en en skot hans fór í hliðarnetið, dauðafæri. Þremur mínútum síðar unnum við boltann ofarlega og sóttum fjórir á þrjá – Gini sendi að lokum á Jota en Salah, sem einnig kom á ferðinni, þvældist fyrir honum svo boltinn barst á Leno. Dauðafæri sem menn hefðu átt að nýta betur.

Títtnefndur Jota kláraði að lokum leikinn á 87 mínútu eftir að Trent sendi fyrir, Luiz skallaði boltann frá þar sem að Jota beið rétt fyrir utan teig – tók boltann með læringu og skaut viðstöðulaust í fjærhornið, stöngin inn, 3-1, GAME OVER!

Bestu menn Liverpool

Flottur leikur í kvöld sem hefði í raun aldrei átt að vera þetta jafn í 88 mínútur. Það voru nokkrir sem stóðu vaktina í kvöld og vel það.

  • Gini fannst mér vera út um allt, virkilega öflugur í pressunni og skilaði sínu hlutverki með miklum sóma.
  • Gomez stóð fyrir sínu, eftir að hafa átt slakan dag gegn Leeds og misst af leiknum gegn Chelsea – átti frábæra tæklingu í restina sem mögulega bjargaði marki.
  • Fabinho var ekki síðri á miðjunni en hann var í miðju varnarinnar um síðustu helgi og var algjörlega frábær í dag.
  • Alisson hafði ekki mikið að gera, var óheppinn í markinu en varði frábærlega gegn Lacazetta í síðari hálfleik!
  • Minn maður leiksins er að þessu sinni Mané. Ekki bara að hann hafi skorað mikilvægt jöfnunarmark heldur var hann algjörlega frábær í allri vinnslu og sífellt ógnandi. Það eru fáir leikmenn í fótboltaheiminum sem hafa þetta hugarfar sem Sadio Mané hefur, vinnslan í þessum manni er ótrúleg, sérstaklega ef menn horfa til þeirra fótboltahæfileika sem hann hefur líka. Ótrúlegt eintak!

Umræðan

  • Útivallagrýlan. Það eru 5 ár og 9 mánuðir síðan að Arsenal vann útileik gegn hinum “hefðbundnu” topp 6 liðunum. Það eru 2.080 dagar! Ég sé samt framfarir þarna, ég trúi ekki öðru en að þessi “árangur” taki senn enda.
  • Tölurnar segja alla söguna. Liverpool var 66% með boltann, með 21 skot gegn 4 og 7 horn gegn 3. Arsenal hafði betur í hreinsunum (37 gegn 14). Þó það hafi tekið 88 mínútur að klára leikinn endanlega þá hefði öll önnur niðurstaða en heimasigur verið rán.
  • 61. Liverpool hefur ekki tapað í 61 deildarleik á Anfield. SEXTÍU OG EINUM.

Næsta verkefni

Arsenal á Anfield. Í þetta skiptið er það deildarbikarinn (n.k. fimmtudag) og verður spennandi að sjá hvaða lið mætir til leiks þá. Næsta verkefni í deildinni er gegn Aston Villa á Villa Park, en sá leikur var að mínu mati “leikurinn” í fyrra, sælla minninga.

Þar til næst.

YNWA

 

 

32 Comments

  1. Við vorum miklu betra liðið á vellinum og sigurinn verðskuldaður. Það breytir þó því ekki að Arsenal fékk nokkur færi úr engu og hefðu getað nýtt þau.

    Mér finnst færanýting Liverpool ekki hafa verið góð undanfarið og það gæti komið niður á okkur í framtíðinni ef það breytist ekki.

    Diego Joda gulltryggði sigurinn í lokinn og er hann augljóslega rosalega áhugaverður leikmaður sem getur greinilega leyst af vængmennina okkar án þess að það bitni á gæðum liðsins. Hann er jafnvel jafn athyglisverð kaup og kaupin á Thiago ef eitthvað er að marka það hvernig hann spilaði í þessum leik. Mjög ferskur blær gustar af honum og ég er sannfærður um að hann eigi eftir að spila marga leiki í vetur.

    11
    • 4 mörk í fyrsta leik gegn Leeds. 2 gegn Chelsea. 7 gegn Lincoln. 3 gegn Arsenal.
      Ekki myndi ég vilja spila undir þeirri pressu sem þú ferð fram á við færanýtingu ?

      2
      • Leikurinn var lengi 2-1 og Arsenal var nærri búið að jafna. Við áttum fyrir longu að vera buinn sð vinna þennan leik. 3-1 gefur ekki rétta mynd af leiknum. Við gjörsamlega yfirspiluðum þá á koflum. Þessi leikur var óþarflega spennandi og hefði ekki verið það ef færanyting hefði verið betri

    • Fyrir utan markið sem var gjöf fékk Arsenal eitt færi sem var ekki rangstaða.

      Eins og Klopp sagði þá er það áhætta sem Liverpool er tilbúið að taka að sækja eins og þeir gerðu gegn góðu liði eins og Arsenal, þeir vita að lið í þessum gæðaflokki fá eitt og eitt færi fyrir vikið. En Liverpool klikkaði mun fleiri færum sem áttu að enda í netinu en Arsenal í þessu eina færi sínu. Færanýting hjá liði sem er að skora 4, 2 og 3 mörk í fyrstu þremur umferðunum er ekkert rosalegt áhyggjuefni.

      1
  2. Flottur vinnu sigur og sanngjarnt, var ekki hægt að dæma rautt á Mane þarna í byrjun?

    3
    • Ef þetta var rautt þá væru rauð spjöld á lofti í öllum leikjum í hverri einustu umferð. Mane að láta vita af sér um hvað var í vændum!

      5
    • Ef þetta hefði verið seinna í leiknum hefði þetta jafnvel verið rautt. Mér fannst Mane sleppa vel með gult.

    • Nei það var ekki hægt ! Mané fékk ekki rautt heldur sanngjarnt gult spjald púnktur.

      YNWA.

  3. Sæl og blessuð.

    Fyrst smá blús, óverðuskuldað – ég veit – en þarf bara að koma þessu frá:

    1. Liðið átti í ströggli í fremstu sókn. Það fer minna fyrir því þegar sóknin stendur sig ekki í stykkinu. Mistök þar má auðveldlega kvitta fyrir með góðu slútti. En þarna var skotið á mark að meðaltali á fimm mínútna fresti og það var eins og Leno væri með Rúnar varamarkmann sinn við hlið sér – svo rosalega stoppuðu boltarnir á hönskunum.

    2. Svo er það blessuð vörnin. Hlutfallið er ekki beysið þar heldur – andstæðingarnir slefa yfir 30% boltameðferð – en komast trekk í trekk inn fyrir vörnina í dauauauauaðafæri. Ekki alveg það sem maður vildi sjá frá þessari vörn. Vakna, vakna.

    Jæja þá er maður búinn að hreinsa þetta úr kerfinu. Hið jákvæða:

    3. Hápressa alla leið,

    4. Salah magnaður (full magnaður í eitt skiptið!), Mané ódauðlegur, Firmino var ausinn lofi (ég skil aldrei almennilega fyrir hvað), Bakverðir rosalegir (allir gera mistök), Keita var ekki alveg sú maskína sem ég vonaðist efitr, Gini var kraftmikill á miðjunni en enn bíður maður eftir þessum framliggjandi miðjumanni (jú, það var einhver leikur gegn Barcelona), Hafsentarnir mega alveg líta í eigin barm –

    5. já og maður leiksins … Edwards!!! Þvílík innkoma ha? Snilldin ein að fá jóduna þarna inn með eitthvað allt annað en hingað til hefur veirð í boði.

    6. Það var sannarlega kominn tími til að tuska Nallana með sína kikk og rönn taktík. En mikið rosalega hefði þetta getað farið á annan veg ef Lacazette hefði haldið boltanum niðri!

    4
    • “en komast trekk í trekk inn fyrir vörnina í dauauauauaðafæri”

      Að Arsenal hafi komist inn fyrir vörnina gerðist að mig minnir einu sinni á löglegan hátt en þá brást TAA og sat eftir í rangstöðulínunni. Þú veist að nú flagga línuverðir oft seinna en áður.

      “Hafsentarnir mega alveg líta í eigin barm”

      Sástu ekki Gomez? Það er mál manna að hann hafi átt stórleik.

      Samt gaman að þú sjáir ögn af jákvæðni líka.

      31
  4. Þetta var frábær leikur hjá Liverpool fyrir utan Andy að leggja upp Arsenal mark.

    Við stjórnuðum leiknum allan tíman, við fengum nokkur mjög góð færi til að skora og enduðum á því að skora þrjú mörk.
    Við vorum að spila með mjög háa varnarlínu gegn eldfljótum sóknarmönnum svo að það mátti alveg reikna með að þeir myndu ná að sleppa einu sinni í gegn en Alisson verði vel(fyrra skiptið var rangstæða og telst ekki með í að sleppa í gegn).

    Alisson 8 – Leit ekki alltof vel í markinu, búinn að kasta sér niður en varði svo meistaralega í síðari hálfleik og var öruggur í fótunum. Góður leikur hjá honum.
    Trent 6 – Sóknarlega góður, spilaði samt Lacazette réttstæðan og tapaði boltanum tvisvar á stórhættulegum stað. Hef séð hann spila betur en þetta var bara meðal leikur hjá kappanum.
    Dijk 8 – kóngurinn átti góðan dag. Átti nokkrar stórkostlegar sendingar sem S.Gerrard hefði verið stoltur af og var öruggur í vörn.
    Andy 8 – Ef við gefum honum að hann gaf mark og skoraði mark sem núlast út þá átti hann mjög góðan leik. Sterkur varnarlega og mjög duglegur sóknarlega.
    Fabinho 9 – Maður leiksins hjá okkur. Var að vinna boltan aftur og aftur af þeim á miðsvæðinu og skila boltanum vel frá sér.
    Gini 6 – Vantar ekki upp á vinnuframlagið hjá kappanum og átti solid leik .
    Keita 6 – Hann eins og Gini var solid en maður er alltaf að bíða eftir einhverju meira frá honum.
    Salah 8 – Er í fantaformi og gerði Arsenal lífið leit.
    Firmino 7 – Við viljum fá mörk hjá honum en hann er enþá lykilmaður í sóknarleiknum okkar og aðalgaurinn í pressunni sem var góð í dag.
    Mane 8 – Skoraði, ógnaði og var á fullu allan leikinn. Átti mjög góðan leik.

    Jota 8 – Kom inná og skoraði 🙂
    Milner 6 – kom inná og skilaði sínu eins og alltaf.
    Minamino – spilaði lítið.

    9 stig 3 leikir gegn Leeds, Chelsea og Arsenal en allt mjög krefjandi andstæðingar. Það er frábær byrjun hjá frábæru liði

    YNWA – Arsenal aftur á fimmtudaginn í deildarbikar og svo A.Villa á sunnudaginn fyrir landsleikjarhlé.

    17
      • Sammála flestu þarna sérstaklega með mann leiksins.

        Keita var mjög góður í fyrri hálfleik frábær í pressunni og ógnaði mikið, en svo fór að draga af honum 6,5

        3
    • Trent 6 meðal leikur? Skil ekki alveg. Meðalleikur hjá besta bakverði deildarinnar hlýtur að gefa hærri einkunn en 6. Hjá Liverpool echo fær hann 9 og á sky 8 og talinn mög góður. Var þetta ekki sami leikur eða hvað? Trent er sóknarbakvörður og er frábær sem slíkur og með þessum hlaupum og að spila svona ofarlega hlýtur annars slagið að koma niður á varnarleiknum.

      5
      • Hjá Sky völdu þeir Trent mann leiksins og Fabinho fékk 6 svo að maður er ekki alltaf samála þessum köllum. Trent klúðraði varnarlínuni(sem bakvörður á aldrei að gera) og hann tapaði tvisvar mjög klaufalega boltanum undir lítili pressu á hættu svæði sem Arsenal náðu reyndar ekki að nýta sér. Mér fannst hann síðstur af þeim. Fabinho fannst mér vera algjör kóngur á miðjunni og stopaði leikmenn Arsenal í stöðunni 1 á 1 aftur og aftur og svo einu sinni en.

        BBC valdi Bruno hjá Utd í lið vikunar eftir ömurlegan leik og er greinilega að framistöður skipti litlu máli ef þú skorar úr víti.

        2
      • Rétt er það, stundum skilur maður alls ekki þessar einkunnir hjá fjölmiðlum. Auðvitað er mat manna misjafnt en þó er sóknarmaður sem skorar þrjú alltaf talinn vera góður og allir gefa honum 9-10, maður sem leggur upp 2 og skorar 1 fær líka svipað. Þá skiptir ekki máli hvort viðkomandi gerir minna en ekki neitt varnarlega eða almennt á misheppnaðar sendingar og eitthvað fleira dapurt. Varnarmenn fá meira á baukinn, td ef þeir eiga á einhvern hátt sök á marki og jafnvel þó þeir spili óaðfinnanlega á annan hátt. Auðvitað er það verk varnarmanna að koma í veg fyrir mörk og segja má að þeir geri mistök ef það tekst ekki. Markmaður getur átt frábæran leik og varið 10 skot en fengið á sig 4 mörk, sem enginn gæti varið, sem dregur heldur niður einkunnina. Síðan er það hinn hvimleiði síður fjölmiðla að tala um að tapliðið spili illa og þá sérstaklega ef það er sigurstranglegra liðið sem tapar. Það er eins og það geti ekki verið í myndinni að hitt liðið hafi hitt á bókstaflega frábæran leik og spilað yfir getu ( ef það er hægt) í þessum tiltekna leik. Og jafnvel að bæði liðin hafi spilað vel.

        5
  5. Ég sagði við son minn fyrir leik að þetta færi 3-1 og það stóðst ég sver ég sagði þetta !!
    og annað ég var ekkert og þá meina ég ekkert stressaður þegar liðið okkar lenti undir, maður veit að þegar menn gera mistök hjá okkur þá stíga þeir upp og kvitta fyrir eins og Robertson gerði alegerlega með þessu frábæra marki sem hann skoraði. þetta lið okkar er bara þannig gírað að það klárar alla leiki með stæl og þessi var enginn undantekning við erum að spila við eitt af betri liðum ensku deildarinnar sem ég held að egi eftir að verða í topp 4 í ár sannið til þeir eru frábært lið fyrir utan kanski nokkra varnarmenn sem eru komnir aðeins yfir síðasta söludag að ég held. Hefði viljað mæta Man cyti núna og kanski Leicester síðar í vetur þegar Vardy er lasinn.

    5
  6. Og já eitt annað svona ef ykkur langar að skemta ykkur með að lesa bölmóð áhanganda annara liða þá er það hin mesta skemmtun að fara inn á rauðu djöflana og lesa commentin þar.

    YNWA.

    4
  7. Sælir félagar

    Sig. Ein. segir allt sem segja þarf og ég er honum sammála í einu og öllu nánast. Óheppni Robbo að kinksa á boltann er ekkert annað en óheppni og hann bætti það upp með marki og fádæma flottri skermun í lok leiksins þar sem hann bjargaði líklega marki. Ég hefi ekkert slæmt að segja um þennan leik. Hann fór eins og ég var búin a’ spá, 3 – 1 og engin ástæða til annars en gleðjast.

    Það er nú þannig

    YNWA

    4
  8. Þessi sigur í gær var algjörlega magnaður og segir hversu langt við erum komnir með þetta stórkostlega lið. Arsjenal eru mjög fínir og þeir fá mjög fá mörk á sig ásamt því að vera öskufljótir fram á við.

    Svona sigrar eru ekki sjálfgefnir. Spyrjið bara aðdáendur manhjúdd!

    6
  9. Iðnaðarssigur af okkar hálfu. Hefði verið hægt að réttlæta rautt á Mané í fyrri hálfleik. Er gjörsamlega kominn með uppí kok af græðginni, hrokanum og frekjunni í Salah.

    1
    • Salah var að vanda frábær í þessum leik. Stöðugt ógnandi, varnarmenn þyrftu helst að fjórmenna á hann, og samt kæmist hann í gegnum þá i meirihluta tilvika.

      Annars átti allt liðið góðan leik.

      Svo var Diogo frábær þegar hann kom inn á. Sá ætlar sér að sýna að hann eigi byrjunarsæti skilið. Verst fyrir hann að ég sé ekki fyrir mér að neinn þriggja fremstu ætli að gefa Klopp tækifæri til þess.

      Þvílík unun sem það var að horfa á þennan leik í gær.
      Njótum ferðalagsins að nr. 20 (Jinx er ekki til, það sannaðist á síðasta tímabili, þótt tæpt hafi verið).

      7
      • Diogo Jota þarf aðallega að hugsa út í að festa sig í sessi sem fjóðri kostur í sókninni.

        Gríðarlegur þétt prógram framundan og fari svo að sóknarlínan sleppi við meiðsli í allan vetur þá mun hann fá nóg af tækifærum.

        3
      • Ég mun njóta ferlagsins að númer 2, ekki 20. Erum ekki að fara vinna Premier League í tuttugasta heldur annað skiptið.
        Ef að vinnum deildina í ár erum við komnir með fleiri titla heldur en Leicester og Blackburn.

  10. Það lið sem er að fara að ógna LIVERPOOL er
    ,
    ,
    ,
    ,
    ,
    ,
    ,
    ,
    ,
    Sorrý, kem því ekki fyrir mér

    4
    • kannski fullsnemmt að afskrifa önnur lið af strax, en óneitanlega lítur þetta vel út.

      City strax farnir að elta okkur.

      Mig grunar að ástandið haldi mönnum hungruðum. Leikmenn hafa ekki enn fagnað PL titlinum með áhorfendum og það er þáttur í að drífa menn áfram.

      3
  11. Frábær leikur og sýnir hvað það er alveg svakalegur karakter í liðinu. Láta ekki mistök stoppa sig heldur halda áfram og bæta fyrir þau og gott betur.

    …og já, við viljum fara að sjá myndir úr Hellinum! Spurning hvort að þetta átak fari ekki að skila einhverjum árangri? Endar kannski með nafnabreytingu á Sport&Grill í Hellirinn??

    4
  12. Jan Bednarek hafa menn skoðun á þessum, það litla sem ég hef séð er býsna gott og kemur úr uppeldisfélagi okkar ?

    • jú, the Athletic segja að hann hafi ekki æft á laugardag úr af niðurstöðum úr sýnatöku. Þessu virðist hafa verið haldið leyndu til að trufla ekki undirbúning fyrir Arsenal leikinn.

      2

Liðið gegn Arsenal – Alisson byrjar

Thiago í einangrun