Þá er komið að sjöttu umferð deildarinnar, en þegar þetta er skrifað er Liverpool í fjórða sæti deildarinnar á eftir stórliðunum (skoðar töfluna)…. Everton, Villa og Leeds. Já þetta er búin að vera skrýtin leiktíð, reyndar skrýtið ár í heild sinni, og sjálfsagt verður þetta svolítið skrýtið enn um sinn. Enn erum við ekkert nær því að áhorfendur geti farið að mæta á leikina, sérstaklega á meðan veiran virðist vera að sækja í sig veðrið frekar en hitt.
En nóg um það. Andstæðingar okkar manna í 6. umferð eru piltarnir í Sheffield United. Eins og nafnið bendir til kemur liðið frá Sheffield, sem er borg sem má finna í Suður-Yorkshire í Englandi. Það er nú ekki svo langt frá Liverpool, sirka helmingi lengra í austur frá Liverpool heldur en Manchester. Lesendur kannast e.t.v. við Sheffield úr sögu- og landafræðibókum fyrir að hafa verið mikil iðnaðarborg, reyndar hefur borgin lengi verið kölluð “Stálborgin” (e. Steel City), en þar var lengi vel blómlegur stáliðnaður sem og talsverð kolavinnsla. Í borginni voru gerðar allnokkrar uppgötvanir á sviði málmvinnslu, þannig hefur stál frá Sheffield lengi vel þótt vera gæðavara, og borgin hefur um langt skeið verið þekkt fyrir framleiðslu á borðbúnaði hverskonar. Reyndar eru fyrstu heimildir um slíkt síðan á 13. öld, hvorki meira né minna. Allur þessi iðnaður setti nú mark sitt á ásýnd borgarinnar, og árið 1937 talaði George Orwell um að það mætti allt eins kalla Sheffield “ljótustu borgina í gamla heiminum” (hann hefur væntanlega viljað undanskilja borgirnar í Bandaríkjunum og lái honum það hver sem vill).
Knattspyrnan á sér langa sögu í borginni, og það er reyndar þannig að elsta opinbera knattspyrnulið veraldar sem enn starfar er Sheffield FC, en það var stofnað árið 1857 (þá er verið að tala um sjálfstætt knattspyrnulið, þ.e. lið sem er ekki stofnað út frá skóla eða annarri stofnun). Í dag eru fyrst og fremst tvö knattspyrnulið sem við þekkjum frá Sheffield. Annars vegar er það liðið með skemmtilega nafnið: Sheffield Wednesday, en liðið ku hafa tekið vikudaginn með í nafnið þar sem stofnendur klúbbsins áttu frí á þessum degi vikunnar og gátu því iðkað íþróttina þá. Sheffield Wednesday verður svo að sjálfsögðu tengt Liverpool órjúfanlegum böndum um alla tíð í gegnum heimavöll sinn, Hillsborough, og þarf ekki að rekja það frekar hér. Sheffield Wednesday leikur í dag í næstefstu deild, og átti síðast sæti í úrvalsdeildinni árið 2000.
Hitt liðið – sem vill svo til að eru einmitt andstæðingar okkar manna og mæta á Anfield annað kvöld – eru Sheffield United. Sheffield United er eitt þeirra liða sem áttu aðild að stofnun úrvalsdeildarinnar á sínum tíma, og fyrsta mark deildarinnar kom einmitt þegar þeir skoruðu gegn góðkunningjum okkar í Manchester United. Liðið staldraði nú ekki lengi við í efstu deild, áttu svo stutta endurkomu tímabilið 2006-2007 en eru tiltölulega nýkomið upp í úrvalsdeild aftur, þegar þeir hófu leik í efstu deild haustið 2019. Flestir áttu nú von á því að nýliðarnir myndu fara lóðbeint niður aftur, en þeir sneru heldur betur á sparkspekinga og voru lengi vel í ágætis málum í efri hluta deildarinnar, og áttu jafnvel möguleika á að ná Evrópusæti á tímabili. Endanleg niðurstaða varð nú samt sú að liðið hirti 9. sætið, sem verður engu að síður að teljast ágætis árangur. Liðið var ekki endilega að skora mest í deildinni, náði að pota inn 39 mörkum, og var sjötta neðsta liðið í markaskorun. Á móti fékk það ekki heldur mörg mörk á sig, eða jafnmörg og það skoraði, og aðeins 3 efstu liðin sem fengu færri mörk á sig. Það má alveg færa rök fyrir því að þetta hafi að miklu leyti verið að þakka lánsmarkverðinum þeirra, Dean Henderson, en hann er farinn aftur til móðurfélags síns og situr þar á bekknum á meðan tiltekinn Spánverji er enn sem komið er á undan honum í goggunarröðinni. Eru margir á þeirri skoðun að téður Dean endi sem aðal landsliðsmarkvörður Englendinga, enda ljóst að núverandi landsliðsmarkvörður hefur full marga galla (eins og að meiða leikmenn andstæðinganna, svo fátt eitt sé nefnt). En hann er gjafmildur, það má hann eiga (**hóst** Origi 90+6 mín **hóst**).
Kenningin um að árangur síðustu leiktíðar megi þakka markverði þeirra hljómar ekkert út úr kortinu í ljósi þess að í dag eru þeir í fallsæti, með aðeins 1 stig úr 5 leikjum, og heil 2 mörk skoruð í þeim. Enda fór það svo að áður en leikmannaglugginn lokaðist í haust tóku þeir sig til og áttu besta boð í vonarstjörnu okkar manna, Rhian Brewster, í von um að finna þar leikmann sem gæti bætt markaskorunina. Sá piltur ætti að vera lesendum síðunnar að góðu kunnur, en hann kom til Liverpool árið 2015 frá Chelsea og hefur þótt vera mikið efni allar götur síðan. Hann var í U17 liði Englands sem urðu heimsmeistarar í sínum aldursflokki árið 2017, og var þar í ágætum félagsskap með piltum eins og Phil Foden, Callum Hudson-Odoi, Jadon Sancho og fleirum. Ferill Brewster var því miður settur á ís í byrjun árs 2018 þegar hann meiddist illa í leik U23 liðsins gegn City, og það tók hann rúmlega heilt ár að koma aftur til baka. Hann náði þó að vera á bekk í leiknum fræga gegn Barcelona á Anfield, sem og í úrslitaleiknum í Madríd, og fór því frá félaginu með meistaradeildarmedalíu í vasanum. Það var ljóst að hann var aldrei að fara að fá þær mínútur sem hann þurfti til að þroskast sem leikmaður, og því var það í allra þágu að hann færi til liðs sem myndi geta nýtt sér þjónustu hans og gæfi honum einhverjar mínútur. Það fylgdi sögunni að Michael Edwards hafi sett “buyback” klásúlu í kaupsamninginn, enda hefur Klopp alltaf haft mikið álit á honum sem knattspyrnumanni og vonandi bara spurning hvenær hann springur út. Við vonum bara að það gerist ekki á Anfield á morgun! En það er annars nánast öruggt að hann muni byrja gegn sínum gömlu félögum í þessum leik.
Hvað okkar menn varðar, þá er ljóst að við sjáum engan Alex Oxlade-Chamberlain, engan Virgil van Dijk og engan Kostas Tsimikas. Við fáum ekki að vita hvernig staðan verður á Joel Matip, Thiago Alcantara og Alisson Becker fyrr en rétt fyrir leik, þeir eiga allir möguleika á að koma við sögu, þó líklegast sé kannski að Alisson sjáist ekki aftur á leikskýrslu fyrr en um næstu helgi. En við bara krossum putta og vonum að hann verði fullfrískur sem allra fyrst. Það virðast allir hafa sloppið tiltölulega óhnjaskaðir frá leiknum gegn Ajax, en vissulega voru nokkrir leikmenn sem léku allar 90 mínúturnar og spurning hvort við sjáum menn eins og Milner eða Wijnaldum í byrjunarliði af þeim sökum.
Við skulum því prófa að stilla liðinu upp svona:
Þetta ræðst þó auðvitað allt af því hvort menn verði dæmdir leikfærir, og eins hvort læknateymið treysti mönnum til að byrja leikinn. Þannig átti Henderson t.d. aðeins að vera fær um að spila 45 mínútur á miðvikudaginn og kom því inná í hálfleik, og alveg spurning hvort hann sé í standi til að byrja á morgun. Ráða Trent og Robbo við 90 mínútur til viðbótar, hafandi spilað tvo síðustu leiki að fullu? Sóknartríóið okkar var allt tekið út af á 60. mínútu á miðvikudaginn, örugglega með annað auga á þessum leik gegn Sheffield. Maður sæi þó alveg Firmino fá smá pásu ef leikform gæfi einhverja vísbendingu, en það er svo allt eins líklegt að Klopp sé ekkert að spá í mörk eða stoðsendingar hjá honum og sé bara að horfa á vinnuframlag hans almennt.
Það er morgunljóst að krafan er einföld: vinna leikinn og þoka sér nær toppsætinu, því þar viljum við vera. Núna þarf liðið að sýna það að það sé fært um að vera í toppbaráttunni – og helst að það sé fært um að vinna titilinn annað árið í röð – án besta varnarmanns heims, Virgil van Dijk. Ef það tekst má segja að það yrði árangur sem mætti líkja við endurkomuna gegn Barca forðum daga, nema að það var bara einn leikur (og við vorum vissulega án Salah og Firmino í þeim leik). Þetta er heilt tímabil án VVD. En ef einhver getur mótíverað sína menn til að ná þessum árangri, þá er það Jürgen Norbert Klopp.
Spáum öruggum 3-0 sigri, og Adrian heldur hreinu annan leikinn í röð.
KOMA SVO!!!
Væri sanngjarnt að gefa Jota sénsinn í byrjunarliði í stað Bobby. Fremsti maður verður að gera meira en að leggja upp 2 mörk í 5 leikjum burt séð frá vinnuframlagi og allt það þá hefur hann að mínu mati ekki verið að skila nægilega miklu og þegar breiddin er þetta mikil þá er ekkert að því að virkja samkeppnina almennilega.
Sælir félagar
Takk fyrir þessa góðu upphitun Daníel og ekki miklu við hana að bæta. Ég er á því að uppstillingin sé nokkuð nærri lagi og held að Adrian spili þennan leik amk. meiri hlutann af honum. Hvað aðra liðsmenn varðar þá er það helst að Matip komi inn (og meiðist) og Fab komi í stað Keita. Það er svo með Keita og Matip að hvorugur þeirra spilar meira en 30% af leikjum þó af mismunandi orsökum sé. Hinsvegar vil ég ALLTAF hafa Firmino í liðinu sé þess nokkur kostur því sköpunarhæfni hans er meiri en nokkurs annars manns í liðinu.
Ég er farinn að halda að Matip sé með sama syndrom og Sturridge sællar minningar. Sem sagt tognun á heila sem kemur fram sem sífelldir verkir hér og þar í skrokknum þannig að blessaður drengurinn þarf að fara í myndatökur og alskyns nudd til að ná þriðja hverum leik. Það er frekar sorglegt miðað við mann eins og Hendo sem spilar alltaf hvernig sem honum líður þ. e. ef þjálfarinn vill það.
En hvað um það leikurinn verður leikinn og vonandi verður veðrið sæmilegt en miðað við lægðina sem íslenzki veðurfræðingurinn var að sýna í gær kvöld þá getur brugðið til beggja vona með veðrið á Englandi á morgun. Ef veður verður slæmt með íslenzkum landsynningi (þ.e.haugrigningu og hvassviðri á suðvestan) mun það koma S. United betur en Liverpool því slæmar aðstæður til fótboltaiðkunnar koma því liði alltaf betur sem lakara er í íþróttinni. Ég ætla samt að veðja á mína menn og spái eins og venjulega 3 – 1 sigri okkar manna.
Það er nú þannig
YNWA
Þar sem ljóst er að VvD sé út þetta tímabil, þá liggur við að Klopp verði að uppfæra stúktúrinn varnarlega. Eithvað segjir mér að ungir kandidatar eins og van Berg fái stærra hlutverk, alla vega að næsta glugga, þá aðallega vegna Matip sem því miður, og var vitað í allt of langan tíma að væri meiðslapési. Í dag munum við væntanlega sjá það hefjast fyrir alvöru þegar S. United heimsækja okkur. Leikur sem er eins og allir leikir, mjög mikilvægur eins og Daníel í sínum flotta pistli kemur inn á.
Spái 2-0, ekki orð um það meira.
YNWA
Takk fyrir skemmtilega og fróðlega grein. Frábært.
Ótrúlegt hvað Matip, uxinn o.fl. eru endalaust á meislalista. Spurnng hvort ekki þurfi að taka á því með sölu þessara annars ágætu leikmanna og gefa öðrum möguleik á að sanna sig. Hlýtur að vera dýrt að hafa leikmenn endalaust á launum og nýtast illa.
En hvað um það. Viss um að Fab komi í stað VVD og muni leysa erfitt verkefni með stæl enda frábær knattspyrnumaður og hógværðin ein. Vonand nær Gomez að vinna með honum án meiðsla í vetur. Hef fulla trú á þeim saman. Vona að sóknartríóið hrökkvi í gang og finni netmöskvana á ný.
Leikurinn fer 2 -0 fyrir okkar menn.
Hamrarnir verða að halda þetta út og helst vinna !?
YNWA
Geggjuð úrslit!
Og já úrslitinn hjá okkar leik 3 – 0
YNWA
Ef meiðlasaga veðhlaupahests væri sú sama eða jafnvel minni en Matip þá væri sá hestur í tunnunni og ekki á vetur setjandi.
Ég spái því Liverpool skori 4 og fái ekkert á sig.
https://www.liverpoolfc.com/news/first-team/413355-alisson-becker-sheffield-united-return Alisson byrjar þá væntanlega