Liverpool 2-0 Midtjylland

Mörkin

1-0  Diogo Jota 55. mín
2-0  Mohamed Salah 90+3 mín (víti)

Leikurinn

Heimamenn stilltu upp með hvíldarróteringu í huga með hina heilögu heimsklassa þrenningu Salah, Mané og Firmino í hásæti á bekknum. Sú uppstilling virtist vera hughreystandi fyrir gestina sem mættu óhræddir til leiks og fengu dauðafæri strax á 2. mín leiksins. Einföld sending frá hafsentinum Scholz inn fyrir vörnina hleypti Dreyer í dauðafæri einn gegn Alisson en sá brasilíski lokað vel og varði skotið.

Það var ljóst frá þessari byrjun og næstu tuttugu mínútur til viðbótar að Danirnir voru mættir til að gera kvöldið erfitt fyrir Liverpool sem voru alls ekki með neinn ryþma eða melódíu í sinni spilamennsku. Gestirnir pressuðu ágætlega og þegar þeir unnu boltann þá héldu þeir honum vel innan liðsins og voru óhræddir við að láta finna fyrir sér með tilheyrandi spjaldasöfnun. Liverpool fór ekki að komast í gang fyrr en nálgaðist miðbik fyrri hálfleiks og fóru þá loks að ógna með ágætlega uppbyggðum sóknarlotum með nokkrum hálffærum hjá Minamino og ógnun hjá Trent upp hægri vænginn.

En enn hélt meiðslamartröðin áfram hjá Liverpool þegar að á einföldum spretti og án snertingar að varnartröllið Fabinho lá óvígur á vellinum. Allar líkur eru á að hamstrengurinn hafi gefið sig aftan á læri á köldu kvöldi í Norður-Englandi og það þýðir nokkurra vikna bataferli hjá Brassanum sem hefur brillerað í bráðri neyð. Inn kom 197 cm og 19 ára unglingurinn Rhys Williams sem er sérlega efnilegur en alls óreyndur utan nokkurra deildarbikarleikja fyrr í vetur.

Viðleitni rauðliða til að ná skoti á rammann jókst síðustu mínútur hálfleiksins með hálffæri Milner, rangstæðum Origi og skalla Minamino en heimamenn luku hálfleiknum án þess að hafa látið Mikkel í markinu þurfa að verja einn bolta.

0-0 eftir hörmulegan fyrri hálfleik

Klopp gerði þá breytingu í hálfleik að fyrirliðinn Henderson vék fyrir Gini Wijnaldum og vonandi var það ekki alvarlega meiðslatengt. Flæðið var betra í byrjun seinni hálfleiks og boltinn gekk hraðar manna í milli. Á 55. mínútu kom góð sóknaruppbygging upp hægri vænginn, Trent fór í trekant við Shaqiri og lagði síðan boltann upp á Diogo Jota fyrir opnu marki. Glæsilegt spil og gott mark. 1-0.

Í kjölfarið fylgdu áhugaverðar skiptingar er ofurstirnin Salah og Mané komu inná og stuttu síðar bættist Íslendingurinn Mikael Anderson í hópinn fyrir Midtjylland. Íslenski landsliðsmaðurinn var settur í framlínuna til þess að reyna að feta í fótspor samlanda sinna Gylfa Þórs, Jóa Berg, Brynjars Björns og Hemma Hreiðars sem hafa afrekað það að skora gegn Rauða hernum á ferlinum. Leikurinn róaðist og ef eitthvað var þá voru óx gestunum ásmegin sem endaði með góðu færi á 77.mínútu er Evander skaut rétt framhjá í teignum.

Firmino var skipt inná en lítið var samt að frétta í sóknarleik okkar manna nema hvað að Bobby fékk dauðafæri á silfurfati frá Trent á 88.mínútu sem hefði klárað leikinn endanlega. Sú vannýting á góðu færi hefði geta reynst afar dýrkeypt þar sem að Dreyer kom sér að nýju í dauðafæri maður á móti Alisson en vippaði rétt framhjá markinu. Kæruleysi og slappleiki okkar manna kom þeim næstum því illþyrmilega í koll.

Í uppbótartíma þá átti Trent glæsilega sendingu inn fyrir vörnina á Salah sem var sloppinn í gegn en brotið var á egypska undrinu og vítaspyrna réttilega dæmd. Mohamed steig upp til spyrnutöku með boltann á punktinum og hamraði vítaspyrnuna niðri hægra megin í markið.

2-0 lokatölur fyrir Liverpool

Bestu menn

Margir leikmenn voru flatir í kvöld en Shaqiri leit mjög vel út, spilaði allan leikinn og mikill þátttakandi í þeirri litlu jákvæðu sóknaruppbyggingu sem var í gangi. Diogo Jota setti gott liðsmark og var sæmilegur þess utan og sama má segja um innkomu Salah sem vann vítaspyrnu og skoraði úr henni. Minamino var smá líflegur í fyrri hálfleik en hvarf í þeim seinni. Alisson stóð sig líka vel í einvíginu gegn Dreyer í dauðafærunum og Gini átti góða innkomu í hálfleik. Rhys Williams fær einnig broskarl í kladdann fyrir að koma inn af bekknum, ná af sér stressinu og vinna sig inn í leikinn.

Yfirburðarmaður leiksins var þó Trent Alexander-Arnold sem var frábær og sýndi mikil gæði í sinni spilamennsku eftir risjóttar síðustu vikur. Tvær stoðsendingar og lagði einnig upp önnur bestu færi leiksins sem gerir hann klárlega að manni leiksins.

Vondur dagur

Fabinho sem hefur verið bjargvætturinn í grasinu og miðvarðarstöðunni var svo óheppinn að meiðast aftan í læri og vonin er að vikurnar verði ekki of margar á hliðarlínunni. Þá nýtti Origi sitt tækifæri í byrjunarliðinu gegn takmörkuðum andstæðing ekkert sérlega vel þó að vissulega hafi hann hlaupið sæmilegt meðaltal af kílómetrum þegar allt er talið saman í bókhaldinu.

Viðtalið

Klopp beint eftir leik um frammistöðuna, mörkin og meiðslin:

Tölfræðin

  • Upphafsmark leiksins hjá Jota var 10.000 markið í glæstri 128 ára sögu Liverpool Football Club. Jock Smith skoraði fyrsta mark LFC í september 1892.
  • Liverpool átti tvö skot á markið í leiknum og það endaði sem tvö mörk.

Tæknihornið

Íslenski landsliðsmaðurinn Mikael Anderson fær fálkaorðuna fyrir frumlegustu fótboltaflíkuríklæðningartæknina í bransanum:

Umræðan

Rauða herinn var í algeru óstuði í kvöld og liðið náði sjaldan góðri spilamennsku í gang. Það sem líta má jákvætt á þetta er að 3 stigum var landað á meðan Atalanta og Ajax töpuðu stigum og að við komumst upp með róteringu á lykilmönnum. Það ætti að þýða enn þægilegri og öruggari útkomu í auðveldum riðli með frekari róteringum ef þurfa þykir.

Að sama skapi er áhyggjuefni að þriðja leikinn í röð er frammistaðan ekki upp á marga fiska þó að úrslitin skili sér í hús. Sérlegt áhyggjuefni eru ítrekuð miðvarðameiðsli og hvernig okkur tekst að manna þá stöðu næstu mánuðina. Vonandi fer Matip að ná heilsu til lengri tíma en stakra leikja (7,9,13) og við megum alls ekki við því að Gomez lendi í neinu hnjaski (aftur 7,9,13).

Þó að Rhys Williams hafi geta stigið inn í leik gegn dönsku liði gefur það ekki endilega fyrirheit um að hann sé tilbúinn í úrvalsdeildina eða gegn sterkari liðum í Meistaradeildinni. En kannski munum við ekki hafa neina aðra valkosti en að spila Rhys í einhverjum þeirra leikja sem gerir innkaupamál í janúar enn meira knýjandi til þess að fylla skarðið af meiðslum VvD og vanrækslu við að manna stöðuna fyrir veturinn.

Næsti leikur er heima gegn West Ham sem hafa verið að stríða toppliðunum Man City, Tottenham, Leicester og Wolves í sínum síðustu 4 leikjum með 2 sigra og 2 jafntefli í þeim einvígum og því ekkert gefins gegn Hömrunum.

YNWA

30 Comments

  1. Höfum þetta stutt.
    Gott að sigra
    Lélegur leikur.
    Jota með 10000 markið.
    Fáir að spila vel (Langar ekki að sjá Origi aftur í Liverpool búning nema þegar maður er að rifja upp gömul mörk)
    Miklar áhyggjur af Fabinho
    Þetta verkefni búið
    Áfram gakk

    YNWA – Næsti leikur West Ham á Anfield þar sem vonandi Thiago/Matip verða klárir.

    7
    • Matip gæti verið tæpur. Þetta er víst þannig með hann að öll minniháttar meiðsli eru furðulega lengi að jafna sig. Sem er synd því þetta er frábær leikmaður, en því miður erfitt að stóla á hann sökum sífelldra meiðsla.

      Krafan um miðvörð er orðin að neyðarópi.

      Rhys Williams lofar þó góðu. Þó það hafi ekki reynt mikið á hann í kvöld þá hefur hann sýnt að hann er með sjálfstraust.

      7
  2. Fyrir það fyrsta frábær 3 stig og allt það. Margar lélegar móttökur, fyrstu snertingar og ákvarðanatökur. Mané skiptingin var sóun.

    4 leikmenn sem komast frá þessu vel, Alisson, Gomez, Williams og Trent. Shaqiri og Gini ágætir í seinni. Aðrir virkilega slakir. Fullt hús eftir tvo án þess að spila vel. Það er kannski bara allt í lagi en þetta er óþarflega stressandi.

    Afhverju seldum við Brewster en héldum í Origi mun ég aldrei skilja.

    7
    • Skilst að það hafi ekki komið neitt kauptilboð í Origi. Svosem ekki erfitt að skilja það.

      8
    • Það er nú reyndar ekki eins og Brewster hafi sýnt um helgina að það hafi verið mistök að selja hann. Við skulum kannski frekar horfa á jákvæðu hliðina og gleðjast yfir því að Jota hafi verið keyptur.

      20
  3. Firmino. Ég saknaði hans þegar ég fylgdist með Minamino inná vellinum. Sá japanski á nokkuð langt í land með að geta fyllt skarð Firmino. En hjálpi mér,, er til of mikilst ætlast að Firmino testi markmanninn, hitti amk markið úr þessu dauðafæri sem hann fékk?

    7
  4. Mjög góður sigur og góð þrjú stig. Við leiðum þennan riðil með fullt hús og vonandi getum við klárað hann sem fyrst. Ekki veitir af að hvíla ákveðna menn þegar leikirnir eru á þriggja daga fresti.

    Mikið vona ég að Fabinho sé ekki orðinn langvarandi meiddur líka! Gaman samt að sjá unga og spræka stráka koma inn og valda starfinu sínu. Klopp er einfaldlega geggjaður þjálfari.

    5
  5. Diogo Jota með 10.000 markið sem Liverpool hefur skorað, ég er mjög sáttur með þessa byrjun hjá honum. Gæti séð Firmino missa sætið í nokkrum leikjum til Jota

    4
    • Prógramið er það þétt að sóknarlínunni verður róterað meira, svo ég sé Jota fyrir mér leysa þá alla af á einhverjum tímapunkti. En vissulega er frammistaða Firmino allt þetta ár áhyggjuefni. Það vita allir hvað hann gerir vel en honum virðist fyrirmunað að troða tuðrunni í netmöskvana nema hann fái færi fyrir opnu marki eins og í síðasta leik.

      5
  6. Sælir félagar

    Þetta var eins og það var. Þetta fór eins og við var að búast. Enn og aftur; hvað er verið að gera með Origi greyið inn á vellinum. Ég var farinn að vorkenna honum hann er svo lélegur. Mér sýnist að Gomes og Williams séu nánasta framtíð í miðverðinum. Það er nottla skelfilegt að vera með mann eins og Matip sem hluta af hópi. Hann er hreinlega ónýtur þessu liði endalaust meiddur líkamlega eða tognaður andlega. Ég veit ekki hvort er – nema hvorutveggja sé. Gott að vinna þennan leik en það leyfði ekkert af því.

    Það er nú þannig

    YNWA

    4
    • Hvernig dettur þér í hug að klína andlegum vandamálum upp á Matip? Við höfum áður séð leikmenn sem eru símeiddir, nægir að nefna Lallana, Ox og Shaqiri.

      Matip hefur verið að standa sig vel, þá sjaldan sem hann er leikfær.

      Annars sammála þér með Origi. Williams og Gomez góðir.

      8
      • Sælir félagar

        Fyrirgefðu Birgir ef ég hefi sært þig. Matip er góður leikmaður þegar hann er heill. Ég hefi aldrei sagt neitt annað. Lallana er farinn og ég nenni ekki að ræða um hann. Saq hefur átt í langtímameiðslum eins og menn geta lent í og það er ekkert við því að segja í sjálfu sér. En Matip er aldrei að spila nema einn og einn leik. Hann á aldrei löng spilatímabil en hinsvegar mörg og mislöng meiðslatímabil. Þannig hefur það verið nánast nema ef til vill rétt eftir að hann kom.

        Svo er nottla OX sem er gífurlega mikið meiddur líka. En hvað sem meiðslum annara leikmanna líður þá eigum við leikmenn í þeirra stöðum svo það gerir minna til. En eftir m,eiðsli VvD þá er afar erfitt að þurfa að reiða sig á meilslapésa eins og Joel Matip. það er málið. Annars bara góður 🙂

        Það er nú þannig

        YNWA

        5
  7. Það er stundum eins og maður sé að hlusta á Útvarp Sögu eða vinna á Neyðarlínunni að koma við hérna. LFC vinnur frekar öruggan sigur í UCL — þriðji sigurinn á 7 dögum eftir Picksfordblótið á Goodison. Ungur strákur kemur inní leikinn og spilar stórvel. Jota að skora að ég held 4 mark sitt fyrir liðið í 6 leikjum. Fremstu menn fengu hvíld sem er nauðsyn.

    Þetta var ekki fallegt og vinnumannabankaliðið frá Jótlandi virtist mest í mun að brjóta fótbein okkar manna. Augljóst að skipun dagsins var bara að klára leikinn án þess að drepa (eða láta drepa) sig.

    Ég vona að Fabinho komi fljótt aftur. Og ég vona að Origi þurfi ekki að spila mikið. Og ég vona að Minamino hætti að vera svona næstum-því-maður. Og ég vona að Milner eigin ennþá einhverja sopa eftir af þessum görótta æskudrykk sem hann hefur drukkið í mörg ár, en virðist vera að spara.

    En látum af þessum hugsunarhætti að mótherjarnir séu allir skítlélegir og að við eigum að spila alla leiki eins og þeir séu úrslitaleikir í UCL. Suma daga þarf bara að styðja liðið og styrkja hjartað með Gulli.

    Djöfull eru LFC góðir að ná góðum úrslitum í fótboltaleikjum.

    Andri

    41
  8. Sigkarl 6.1.1

    Óþarfi að hafa áhyggjur af því að hafa sært mig, og það er líka í góðu lagi að hafa ólíkar skoðanir. Við vitum allir að Matip er meiðslapési en að mínu mati hefur hann nær alltaf staðið sig vel í þau skipti sem hann hefur spilað fyrir Liverpool. En finnast þér þessi ummæli fullorðnum manni sæmandi:

    “Það er nottla skelfilegt að vera með mann eins og Matip sem hluta af hópi. Hann er hreinlega ónýtur þessu liði endalaust meiddur líkamlega eða tognaður andlega. Ég veit ekki hvort er – nema hvorutveggja sé”?

    Eða gætir þú útskýrt hvað þú átt við með þessari andlegu tognun?

    6
  9. Man þegar allir voru að missa sig yfir komu thiago i byrjun.
    Eg sagði að það væri ástæða fyrir þvi að bayern væru að leyfa honum að fara, hann er meiðslahrúga ! Spilar einn leik og er svo meiddur i næsta ! Eru menn hættir að vinna heimavinnu þarna.

    Við virðumst vera að taka út öll meiðslin ut nuna fyrir seinustu ár !

    2
    • Ég veit ekki hvernig meiðslasaga Thiago var í Þýskalandi en hitt veit ég að hann var tæklaður svo illa í leik um þarsíðustu helgi að við megum þakka fyrir að hann verði bara frá í nokkra leiki, en ekki í 7-10 mánuði.

      18
  10. fannst fyrri hálfleikur afskaplega rólegur af okkar hálfu lítið að gera hjá markverði dana fram að hálfleik. Enn ég tók eftir því að þulurinn á BT talaði um að leikmennirnir þyrftu að nýta þetta tækifæri sem þeir fengu í kvöld til að sýna að þeir ættu heima í þessu liði. Fannst aftur á móti Trent spila sinn besta leik á tímabilinnu frábærar sendingar hjá honum áttu að skila honum 3 stoðsendingar. Alison er alveg 2-3 levelum ofar en Adrian hann kemur með svo mikið sjálfstraust fyrir öftustu línuna. Jota er að standa sig vel í vera réttur maður á réttum tíma og pota inn mörkum. Frábær byrjun hjá honum í Liverpool treyjunni.

    Eina sem mér fannst leiðinlegt í þessum leik var að horfa á þjáningarnar hjá Origi að reyna spila fótbolta.. Eins og hann er mikil Cult hetja fyrir fyrri afrek þá er pínlegt að horfa á hann í kvöld :/

    Héltum hreinu náðum í 3 stig Trent er búin að stimpla sig inn eftir að hafa ekki sést á þessu tímabili. Margt jákvætt úr þessum leik að taka! þurfum ekki að ræða Fabinho vitum allir hvað þarf að gera í Janúar!

    5
  11. Real Madrid er á botninum í sínum riðli með eitt heilt stig eftir tvo leiki. Nú er hún Snorrabúð stekkur…

    2
  12. Að byrja að tala um Thiago sem meiðslahrúgu er ótrúlega skrýtið. Hann fékk víst í sig veiru sem kallast Covid og sumir eru að tala um ( Þó ekki útgerðarmenn á Ísafirði) og því næst er hann skrúfutæklaður svoleiðis að ferillinn hefði vel getað klárast.

    26
    • Sigur er sigur hvernig sem hann kemur. Mér finnst margir hérna á síðunni full neikvæðir út í spilamennsku ofl sem er algjör óþarfi ef 3 stig koma í kladdann. Klopp átti erfitt verk fyrir höndum og hefur hann örugglega verið fyrst og fremst að hugsa um að komast sem léttast í gegnum leikinn og missa menn ekki í meiðsli sem tókst jú ekki. Leikjaprógrammið er rosalega stíft þessar vikurnar og svo kemur landsleikjahlé þar sem stór hluti leikmanna liðsins er í einhverjum verkefnum. Sennilega þó heldur færri en venjulega enda nokkrir meiddir. Ég eins og fleiri hef því miklar áhyggjur af framhaldinu og miðvarðastöðunni eða skort á leikfærum miðvörðum réttara sagt. Ætli meistari Milner þurfi ekki að leysa stöðuna?.

      8
      • Algjörlega sammála þér. Hvernig væru þessir einstaklingar ef þeir myndu t.d. styðja lið eins og everton, arsenal eða manjút?

        Ég hef líka séð Milner fyrir mér í miðvarðarstöðunni og sú tilfinning er ekki svo slæm enda um frábæran atvinnumann að ræða.

        1
      • Ég hef nú í gegnum tíðina varið mitt lið en tel það ekki til neikvæðni að segja að liðið hafi spilað illa þegar það spilaði illa. Leikurinn var að stærstum hluta illa spilaður og ég er nokkuð viss um að Klopp hefði viljað sjá meiri ákafa og betri stöðu í hálfleik. Betri staða í hálfleik hefði nefnilega þýtt minni pressu og einfaldari skiptingar…..hefðum s.s. getað hvílt menn fyrir komandi átök. Að tala um að lið spili illa þýðir samt ekki að leikmennirnir séu lélegir og gefur manni ekkert leyfi til að hrauna yfir þá enda er maður bara að tala um tiltekinn leik. Auðvitað er allur undirbúningur og allt umhverfið öðru vísi en venjulega og ber deildin t.d. keim af því. En blessaður drengurinn hann Origi var samt að spila manna verst og hefur verið svolítið í þeim gír í haust. Hann á að leggja sig fram hvar svo sem stjórinn spilar honum og það er hans að sýna kraft, dug og þor. En annars er ég bara góður 🙂

        3
  13. Varðandi Origi þá var hann látinn spila á vinstri kanti og spurning hvort það sé ekki betra fyrir hann að spila sem fremsti maður.

  14. Smá punktur um VAR og afhverju VAR virkar ekki eins og það er sett upp. Þetta er bara mín kenning sem þó er byggð á rannsóknum.

    Margir hafa spurt sig hvað er að VAR og af hverju það virkar ekki sem skyldi. Nú virðast ensku dómararnir ekki hafa leyst neitt sérstaklega vel úr þessu nýja tæki sem þeim var gefið til að hafa betri yfirsýn. En hvað veldur?
    Vandamálið er að VAR kerfið eins og það er uppsett í Bretlandi er í eðli sínu mein gallað og kallar fram þekkt sálfræðilegt vandamál sem nefnist dreifing ábyrgðar ,,Diffusion of responsibility“.
    Á heimasíðu Premier leage eru nákvæmlega skilgreind þau atriði sem farið er eftir í framkvæmd VAR og hver vinnuregla og nálgun Premier league er í framkvæmdinni; ,,the minimum interference – maximum benefit“
    VAR will only be used for “clear and obvious errors” or “serious missed incidents” in four match-changing situations:
    – Goals
    – Penalty decisions
    – Direct red card incidents
    – Mistaken identity

    Á heimasíðu Premier Leage eru eftirfarandi grundvallarreglur við notkun á VAR settar fram:
    • The final decision will always be taken by the on-field referee.
    • VAR will not achieve 100 per cent accuracy but will positively influence decision-making and lead to more correct, and fairer, judgements.
    • VAR will automatically check the four match-changing situations. Players do not have to ask or signal for it.
    • Players must always play to the whistle.
    • There will be a high bar for VAR intervention on subjective decisions to maintain the pace and intensity of Premier League matches.
    • Factual decisions such as whether a player is onside or offside, or inside or outside the penalty area, will not be subject to the clear and obvious test.
    • Yellow cards will be issued to players who aggressively make the VAR signal to a match official.
    • Real-time speed replays will be used initially to check for intensity. Slow-motion replays will be used to identify point of contact.
    • VARs are match officials and their appointments will be announced for each match round as part of the refereeing team.

    Fyrirbærið dreifing ábyrgðar (diffusion of responsibility eða the bystander effect). Er þekkt sálfræðilegt hugtak. Það að viðvera/nálægð annars breyti hegðun einstaklingsins þannig að þeir finna fyrir minn ábyrgð á afleiðingum gjörða sinna (Bandura, 1991). Sjá einnig Kitty Genovese morðið í New York þar sem 37 vitni horfðu á morðingjan að verkum en gerðu ekkert.

    Tilfinningin að vera fulltrúi einhvers er að maður hafi stjórn á atburðum með eigin íhlutun. Þessi tilfinning skiptir miklu máli á samskiptum og er þar af leiðandi tengt ábyrgðartilfinningu.
    Í ritrýndri rannsókn Beyer og félaga (2017) sýndu þeir fram á að aðkoma annars fulltrúa veldur því að að ábyrgð dreifist þannig að fulltrúinn beri minni ábyrgð og veldur minni tengingu á aðgerðum fulltrúans við niðurstöðuna. https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC5390744/

    Það sem óneitanlega flækir þetta er að ákvarðanatakan er oft í neyðaraðstæðum s.s hættu, stressi eða menn undir pressu. Eftir því sem fleiri koma að ákvarðanatöku þeim mun minni ábyrgð finnur fulltrúin fyrir afleiðingum ákvarðanna sinna.

    Þegar einn dómari sem ber ábyrgð á dómgæslunni er kominn með teymi í kringum sig er ábyrgðin farin að dreifast á meðal eftirtalinna fulltrúa:
    • Dómarinn (ber ábyrgð á dómgæslunni)
    • tveir línuverðir (gæta rangstöðu, línuvarsla og aðstoð við dómgæslu
    • þrír VAR dómara (ákvarðanir varðandi mark/ekki mark, víti/ekki víti, beint rautt spjald, mistök við spjöldun leikmanna)

    Vinnuregla Premier league sem segir ,,the minimum interference maximum benefit“ veldur því að VAR dómarar skerast ekki í leikinn nema nauðsyn sé.
    Vandamálið er að með því að vera með hið svokallaða silent check frá VAR dómurunum getur dómarinn treyst því að VAR sjái atvik betur en hann sjálfur. Þessi vitneskja veldur í eðli sínu dreifingu á ábyrgð. Í Bretlandi er VAR aftur á móti þannig að þeir vilja lágmarka íhlutun. Þannig að í með þessari vinnureglu mun dómarinn nánast undantekningalaust treysta meira á að VAR heldur sína eigin dómgreind þegar VAR tilkynnir ákvörðun.
    Það sem er enn alvarlegra er það að traust dómarans á VAR mun ávallt samkvæmt fræðunum slæva/minnka ábyrgð hans á ÖLLUM umdeildum atvikum leiksins sem aftur bitnar á gæðum dómgæslunnar.
    Þetta hefur margskonar eftirtaldar afleiðingar fyrir leikinn:

    • Engin ákvörðun tekin í ákveðnum aðstæðum þar sem taka þarf erfiða ákvörðun verður jafnvel enginn ákvörðun tekin því VAR vinnur skv. minimum interference og á samkvæmt reglunum ekki að fara með valdið. Dómarinn treystir á að VAR hafi með ,,silent check“ séð atvikið og tekið ákvörðun.

    • Rangur dómur dómarinn telur sig sjá atvikið en dæmir rangt. Ábyrgðin færist yfir á VAR teymið að grípur inn í en gerir það ekki vegna pressu, álags eða hræðslu við umræðu (Champon, 2014)

    • VAR sér brot en ákveður að gera ekkert samkvæmt vinnureglunni um minimum interference. Dómarinn sjálfur gæti hafa séð atvikið og hann á að bera hina endanlegu ábyrgð. Hvenær kallar atvik á interference? Hvenær nær það hinu huglæga marki sem kallar á íhlutun?

    Niðurstaðan er sem sagt sú í stuttu máli að VAR er ekki að virka eins og það er upp sett og sérstaklega í Bretlandi vegna óskýrleika í verklaginu minimum interference.

    18
  15. Origi er hreinasta ráðgáta. Snjall í fótbolta, en… samt vantar eitthvað.

    Hann ku vera mjög rólegur í tíðinni, svo rólegur að hann er alltaf að gleyma hlutum hér og þar, símanum eða heyrnartólunum. Gæti hugsanlega verið einhver útgáfa af athyglisbresti (mér finnst hann reyndar alltaf líta út fyrir að vera high, en það getur varla verið). Það eru þessi ógurlegu rólegheit sem sjást svo vel í líkamstjáningunni inni á vellinum. „Can’t be arsed”, segja sumir í Englandi, að hann hafi einfaldlega ekki nægan áhuga.

    Amk. á hann ekki heima í liði sem spilar svona ákafan pressubolta og alltaf á 110% gasi eins og Liverpool. Berið þið vinnuframlagið bara saman við menn eins og Mané eða Henderson. I say no more. Samt er hann með samning til 2024 hjá Liverpool, einhverra hluta vegna. Í mínum augum er hinsvegar alveg ljóst að hann verður að fara í annað lið til að klára sinn feril.

    Ég er allsekki að gera lítið úr hans framlagi, sem felst reyndar aðallega í nokkrum góðum mörkum, en hann passar bara ekki í Klopp mótið.

    • Við erum í algjörri dilemmu með kauða.
      Hann ætti að vera æviráðinn hjá okkur fyrir þau fjölmörgu gullnu andartök sem hann hefur gefið okkur.
      En samt vil ég síður sjá hann inni á vellinum, þar sem hann gefur okkur almennt of lítið. En svo koma gæðin í ljós einstaka sinnum.

      Ég er að tala í hringi hérna…

      1
      • Þú ert bara alls ekkert einn um að tala í hringi. Skoðum bara 3 eftirminnilegustu mörkin hans:

        * Origi 90+6 gegn Everton
        * Corner taken quickly ORIGIIII!!!!
        * Sigurmarkið í Madríd

        Þetta er allt á sömu leiktíðinni, og þá erum við að sleppa fyrra markinu gegn Barca eða sigurmarkinu gegn Newcastle helgina á undan. Hann var talsvert frá eftir að hafa lent í Funes Mori á sínum tíma, aldrei að vita hvert hann hefði farið sem leikmaður ef hann hefði haldist heill þá.

        En því verður bara ekki neitað að það kemur svakalega lítið út úr honum síðasta árið eða svo. Jú hann sýndi í fyrsta deildarbikarleiknum í haust hvernig á að vera ósýnilegur nær allan leikinn, en ná samt að skora. Það er svo mikið hann.

        Akkúrat í augnablikinu er maður á báðum áttum með hann og Minamino. Það verður þó að segjast með Takumi að hann er bara rétt að byrja, er ungur og efnilegur, og gæti sprungið út hvenær sem er. Origi er kominn yfir þann punkt á ferlinum, sérstaklega með Liverpool.

        2
  16. Liverpool voru alltaf að fara að bjóða Origi nýjan samning á sínum tíma en ætli maður hafði ekki verið í minnihlutanum sem vildi ekki semja við hann aftur.
    Það er svo skrítið að segja þetta en Origi var ekkert að spila sérstaklega vel út á vellinum þegar hann var að skora öll þessu mikilvægu mörk. Hann átti þarna tímabil sem hann var bara mjög oft réttur maður á réttum stað (sem er auðvita mjög mikilvægt ) en maður fannst eins og þetta myndi aldrei endast.
    Pickford markið var rosalegt, Trent fljótur að hugsa og hann klárar vel og svo meistaradeildarmarkið sem seint gleymist.
    Hann er líklega einn af mjög fáum sem manni finnst ekki hafa sýnt miklar framfarir síðstu tvö ár undir stjórn Klopp. Hann virkar oft latur miða við samherja sína og áhuglaus. Hann er líkmalega sterkur en missir boltan alltof oft í þeim stöðum sem hann þarf að skýla bolta, hann tekur alltof oft rangaákvörðun í ákjósalegum stöðum og manni finnst sóknin oft bitlaust þegar hann er á svæðinu.
    Hann verður goðsögn þegar við skoðum sögubækur en ég held að það verða mjög fáir sem verða sárir þegar hann verður seldur frá klúbbnum.

    Takk fyrir minningarnar Origi en þú mátt endilega fara að hjálpa öðru liði en okkar.

    p.s Fór á Liverpool – Newcastle á síðasta tímabili og fékk Origi að byrja þann leik og liðið virkaði algjörlega bitlaust fram á við. Origi meiddist og fór af velli og Firmino kom inná á 37 mín og önnur eins breytting á einu liði hefður maður varla séð. Allt í einu fór allt á fullt, flæðið var meira, ógnin var meiri og það lifnaði yfir öllum öðrum leikmönum liðsins.

    4

Byrjunarlið á Anfield gegn Midtjylland

Um VAR – Aðsendur pistill