Liverpool – West Ham (Upphitun)

Þá er komið að næsta verkefni, þriðji heimarleikurinn í röð hjá ríkjandi Englandsmeisturum, þegar West Ham kemur í heimsókn (laugardag kl. 17:30) áður en við förum í tvo erfiða útileiki fyrir næsta landsleikjahlé.

Formið og sagan

Liverpool hefur gengið nokkuð vel gegn West Ham síðustu árin og hafa til að mynda eingöngu gert eitt jafntefli en sigrað fimm sinnum í síðustu sex viðureignum og þrír sigrar í síðustu þremur heimaleikjum.

Það þarf að leita aftur til þess tíma sem að West Ham spilaði ennþá á Upton Park til að finna síðasta tapleik okkar gegn þeim í deildinni – það var 2. Janúar 2016 en það tímabilið töpuðum við tvöfalt gegn Hömrunum, sælla minninga. Til gamans má geta þess að einungis einn leikmaður af þeim átján sem voru á leikskrá í þessu (ó)eftirminnilega tapi spilar enn með liðinu en það er Firmino. Hópurinn þann daginn sýnir okkur kannski svart á hvítu hve mikið vatn hefur runnið til sjávar á ekki lengri tíma: Mignolet, Clyne, Lovren, Sakho, Moreno, Coutinho, Leiva, Can, Ibe, Benteke og Firmino hófu leikinn og bekkurinn var ekkert slor: Bogdan, Touré, Brad Smith, Randall, Lallana, Allen, Brannagan.

Á undan því? Líklega run sem West Ham vill gleyma, þetta er eini sigur þeirra á Anfield í síðustu 47 tilraunum!

Annars er alltaf erfitt að ætla að lesa í einhverja sögu, það er nútíminn sem telur og gestirnir koma heitir inn í þennan leik eftir gríðarlega erfitt leikjaprógram (líklega það erfiðasta í deildinni fram að þessu). Eftir 2-1 tap gegn Arsenal þá hafa þeir unnið Wolves 4-0, unnu góðan útisigur gegn Leicester 0-3 áður en þeir sóttu ævintýralegt stig, 3-3, í uppbótartíma á útivelli gegn Spurs eftir að hafa lent undir 3-0 og ef þessi fjögur lið voru ekki nægilega sterk svona back-to-back þá var það 1-1 jafntefli um síðustu helgi á heimavelli gegn City.

West Ham kemur inn í þennan leik í 12 sæti með 8 stig af 18 mögulegum, sem verður að teljast ágætis uppskera m.v. þetta leikjaprógram.

West Ham

Þetta West Ham lið olli okkur alveg hellings vandræðum á Anfield í febrúar þar sem við lentum undir og þurftum klúður frá Fabianski og mörk frá Salah og Mané til að koma okkur yfir línuna.

Það hefur ekkert vantað upp á fjárfestinguna síðustu ár en frammistaðan hefur þó ekki verið eftir því. Ég skal vera sá fyrsti sem játa það að ég hafði ekki mikla á David Moyes sem stjóra en hann virðist vera að ná smá stöðugleika með þetta lið – þeir eru þá með fína leikmenn inn á milli og eru lið sem á klárlega að vera að berjast ofar í töflunni en raunin hefur verið síðustu tímabil.

Þegar við höfum mætt þeim síðustu misseri þá finnst mér Michail Antonio alltaf eiga stórleik. Hann tognaði aftan í læri og þurfti að fara útaf gegn City og mun því ekki valda okkur vandræðum þetta árið. Aðrir eru heilir, eða því sem næst, og ætla ég að skjóta á að liðið verði óbreytt frá því gegn City á morgun nema þá að Yarmolenko kemur inn í stað Antonio.

Þeir koma til með að sakna Antonio, ekki bara það að hann hafi reynst okkur erfiður í gegnum tíðina, heldur er hann þeim virkilega mikilvægur í því hvernig þeir spila. Hann getur bæði haldið boltanum en er einnig virkilega fljótur og teknískur og hefur verið fókuspunkturinn í þeirra spili þegar þeir liggja til baka og beita skyndisóknum.

Liverpool

Hellingur að frétta af okkar liði síðan síðast. VVD er auðvitað frá út leiktíðina, þó svo að góðar fréttir hafi borist af honum í dag. Aðgerðin heppnaðist vel og mun bjartsýnari fréttir borist í kjölfarið en það slúður sem hefur verið síðustu tvær vikur um alvarleika meiðslanna.

Þess fyrir utan þá er Henderson klár í slaginn, meiðsli Fabinho eru víst minniháttar (kemur væntanlega til baka eftir landsleikjahlé) og Matip, Keita og Thiago eru allir mjög nálægt því að vera klárir þó sá síðastnefndi sé líklegastur til þess að spila einhverja rullu á morgun.

Ég ætla að skjóta á að við spilum mjög svipað og gegn Sheffield um síðustu helgi, þó Thiago gæti vissulega byrjað þennan leik en það væri þá líklega á kostnað Jota. Það er stór spurning hvað Klopp geri með vörnina en ég ætla að skjóta á að Williams spili við hlið Gomez í miðverði. Verður eitthvað í þessa átt:

Alisson

TAA – Gomez – Williams – Robertson

Henderson – Firmino – Gini

Jota – Salah – Mané

 

Spá

Ég held að þetta verði erfitt. West Ham sýndu það gegn City um síðustu helgi að þeir geta vel lokað miðjunni og eru þéttir til baka. Þeir koma til með að sakna Antonio en varnarlega eru þeir mjög þéttir og það verður ekki auðvelt fyrir okkur að finna leið í gegn.

Það er gíðarlega mikilvægt að sækja sigur á morgun þar sem að næsti deildarleikur er á Etihad eftir stutt stopp á Ítalíu í miðri næstu viku. Ég ætla að skjóta á að við höldum aftur hreinu og tökum þetta 2-0 þar sem að seinna markið kemur seint í leiknum. Salah með bæði mörkin.

Koma svo.

YNWA

3 Comments

  1. Myndi frekar reikna með Nat Phillips í miðverðinum í þessum leik og Rhys Williams í meistaradeildinni í vikunni. Þá gæti Henderson dottið í miðvörðinn ef Thiago er klár að byrja.

    2
  2. Sæl og blessuð.

    Svo skemmtilega vill til að við feðgar vorum á Anfield þetta napra febrúarkvöld þegar lánlaust lið WH kom hressilega á óvart. Þéttur hópur Hamra sem mættur var sunnan frá Lundúnum fór á kostum í söngvum sínum. Þeir veifuðu reyndar svörtum fánum, drullufúlir með stjórnina en að öðru leyti var mikið fjör þar. Svo þegar leið á leikinn máttu þeir sín lítils gegn ærandi hávaða fagurrauðra. Við munum ekki annað eins.

    Það kom vel á daginn í þeim leik að bráðin var sýnd en ekki gefin. Allt benti til þess að stig myndu tapast – 3 eða 2 – en fyrir alla mildi tókst að pota inn marki á elleftu. Það var af ódýrari sortinni.

    Núna eru varnir okkar veikar og hriktir í ýmsum stoðum. Þeir hafa líka sýnt að frammistaðan í fyrra var engin tilviljun. Þeir áttu miklu meira inni en staða þeirra í deildinni gaf til kynna. Þetta verður því tvísýnt og við megum búast við hörkuleik.

    spái okkur samt naumum sigri – 3-2 eins og í fyrra.

    4
  3. Sælir félagar

    Hamrarnir eiga yfirleitt sínu beztu leiki gegn okkur og hafa verið á myljandi ferð undanfarið. Endurkoma þeirra gegn Spurs var ævintýraleg og segir ef til vill meira um karakterinn í Spursliðinu en gæðin hjá West Ham. Ég ræddi við einn stuðningsmann Hamranna í gær sem fylgist afar vel með liðinu sínu. Sá sagði að Antonio yrði ef til vill með og meiðslin minni en haldið var í fyrstu. En ef Moyes spilar honum tæpum með meiðsli aftan í lærinu (hamstring) þá er hann vitlausari en ég hefi haldið. Það er betra að missa hann í 1 – 3 leiki en láta hann spila meiddan og missa hann svo ef til vill í fleiri vikur.

    En hvað um það, eitthvað segir mér að þetta verði tiltölulega einfalt og vinnist nokkuð örugglega 3 – 1. Bæði lið munu koma rólega inn í leikinn en hraðabreytingar Liverpool liðsins munu verða Hömrunum hættulegar. Ef Antonio verður með þá munu meiðslin taka sig upp með hörmulegum afleiðingum fyrir hann. Alvarleg slit aftan í læri og frá í 6 – 8 vikur. Það yrði Hömrunum dýrt svo ég vona að Moyes láti skynsemina ráða. Ég hefi nefnilega taugar til West Ham eins og svo margir stuðningsmenn annara liða. Salah með 2 og Mané með 1 og Firmino leggur öll mörkin upp. Smá klaufaskapur í vörninni mun svo gefa eitt mark og niðurstaðan nokkuð örugg 3 stig

    Það er nú þannig

    YNWA

    2

Um VAR – Aðsendur pistill

Byrjunaliðið gegn Hömrunum – Phillips og Gomez í vörninni