Upphitun: Leicester & Rodgers heimsækja Anfield

Landsleikjahléið er látið, lengi lifi landsleikjahléið!

Leikmenn allra liða eru að skrönglast aftur heim til sinna úrvalsdeildarliða eftir bardaga í fjarlægum löndum, með fætur í fatla eða smitaðir af heimsfaraldri. But, the show must go on!

Mótherjinn

Kunnuglegt andlit kíkir í sunnudagskaffi þegar að Brendan Rodgers og blárefir hans sækja Rauða herinn heim. Sem fyrrum herforingi Rauðliða þá gefur það boltabardaganum öllu meiri sprengikraft en Rodgers mislukkaðist í báðum sigurtilraunum sínum á síðasta tímabili gegn okkar mönnum.

Leicester-liðið byrjaði deildina sérlega vel í fyrra og mættu LFC í hörkuleik á Anfield sem var kláraður síðbúið með vítaspyrnu James Milner í blálok uppbótartímans til að tryggja 2-1 sigur. Liðin mættust svo aftur á annan í jólum í meistarauppgjöri þar sem Liverpool kom með öskrandi háværa yfirlýsingu um væntanlega meistaratign sína með rosalegum 0-4 útisigri.

Leicester voru þó í nokkuð öruggu topp 4 meistaradeildarsæti þegar að leikar voru stöðvaðir vegna Covid á vordögum en náðu aldrei flugi við endurbyrjun og brotlentu hressilega á endasprettinum. Bognir en þó óbrotnir eru refirnir frá Leicesterskíri mættir öflugir til leiks á nýju tímabili og tróna á toppnum, einu stigi á undan gestgjöfum Liverpool. Á leið sinni á tindinn hafa þeir unnuð afar áhugaverða sigra á Man City, Arsenal og Wolves og eru á núverandi 6 leikja sigurgöngu í leikjum Úrvalsdeildar og Evrópudeildar. Þeir verðua því ekkert lamb að leika sér við enda refir.

Bláliðar mega una vel við hóflegan meiðslalista og eingöngu tyrkneski varnarjaxlinn Çaglar Söyüncü og Wilfred Ndidi sem teljast vera lykilmenn sem vantar við þeirra liðsval. Hlaupagaukurinn Vardy hefur fengið væna hvíld sem er ávísun á veruleg vandræði og hinir efnilegu Maddison og Barnes komust ekki í enska landsliðshópinn.

Rodgers hefur verið að keyra á þremur hafsentum sem hefur gengið vel upp eins og úrslit leikjanna sanna. Liðið hefur verið vel skipulagt og skynsamt á boltanum þó að þeir liggi á köflum aftarlega en beita síðan leifturhröðum skyndisóknum þegar tækifæri gefst. Líklegast er að þeir fari varkárir inn í leikinn á Anfield en reyni að herja á varnarveikleika í samantjaslaðri varnarlínu Englandsmeistaranna.

Refir Rodgers verða væntanlega uppstilltir á eftirfarandi máta:

Líklegt byrjunarlið Leicester í leikkerfinu 3-4-2-1

 

Liverpool

Hvar á að byrja? Í það minnsta ekki á að telja upp allan meiðslalistann því að það yrði alltof langur pistill en af nýjustu fregnum að dæma verður Henderson ekki leikfær og Salah væntanlega ekki laus úr sóttkví. Það styttist í Thiago og Fabinho en manni finnst líklegast að að þeir væru í mesta lagi á bekknum miðað við að þeir eru að stíga upp úr meiðslum og sama gildir um Ox sem er líka byrjaður að æfa.

Fjöldamargir af þeim sem munu þurfa að byrja leikinn hafa verið að spila 2-3 landsleiki í fjarlægum löndum síðustu daga eins og Firmino, Mané, Gini, Shaqiri og Robbo þannig að það er klárlega hætta á þreytu og meiðslum hjá þeim leikmönnum. Framlínan ætti að segja sig sjálf en flóknara er að ráða í uppstillingu á miðju og vörn.

Hugsanlegt er að Tsimikas og Milner komi til greina í sitt hvorn bakvörðinn en ég giska á að Robbo og Neco hefji leik þó að þeim fyrrnefndu gæti verið róterað í þessar stöður síðar. Rhys Williams kemur líka til greina í hafsent en ég held að hann verði sparaður fyrir CL-leikinn gegn Atalanta í ljósi þess að Nat er ekki gjaldgengur í þeirri keppni.

Á miðjunni er alveg hægt að rökstyðja að Keita ætti að fái að byrja eða jafnvel Minamino eða Curtis Jones, en ég hallast að því að reynsluboltarnir Shaq, Gini og Milner fái kallið. Einnig má spekúlera um breytta taktík í 4-2-3-1 eða aðrar útfærslur en líklega verður 4-3-3 spiluð verandi sú leikaðferð sem liðið þekkir hvað best.

Byrjunaliðið í slembiuppstillingu yrði því eftirfarandi:

Líklegt byrjunarlið Liverpool í leikkerfinu 4-3-3

Blaðamannafundur

Klopp hélt sinn fyrsta blaðamannafund í AXA-æfingamiðstöðinni í Kirkby um hádegisbil á föstudegi og upplýsti margt varðandi heilsufar leikmanna, komutíma Salah o.fl.

Brot úr blaðamannafundi Brendan Rodgers:

Tölfræðin

Leicester hefur ekki unnið á Anfield í Úrvalsdeildinni síðan árið 2000 er þeir sigruðu 0-2 undir stjórn Martin O’Neill en á þeim tíma var það þeirra þriðji sigurleikur í röð á Anfield. Síðan þá hafa liðin spilað 9 deildarleiki á rauðum velli Bítlaborgarinnar og Liverpool unnið 7 af þeim leikjum með 2 jafntefli til viðbótar.

Liverpool hefur unnið 29 af síðustu 30 heimaleikjum sínum í Úrvalsdeildinni og skorað í það minnst 2 mörk í 28 af þessum 30 leikjum. Að sama skapi hefur Leicestur unnið síðustu 4 útivallarleiki sína í Úrvalsdeildinni þannig að eitthvað þarf undan að láta þegar að liðin mætast.

Liverpool undir Klopp jafnaði met Bob Paisley og co. frá árunum 1978 til 1981 með 63 deildarleikjum án taps á heimavelli með því að sigra West Ham um daginn. Með því að tapa ekki fyrir Leicester eða gera betur myndu þeir bæta það magnaða met.

Í fréttum er þetta helst

Upphitunarlagið

Brotnir, barðir, bilaðir, bóluefnalausir og bugaðir boltabardagamenn en sýningin þarf að halda áfram!!!

Spaks manns spádómur

Það verður hörkuleikur og toppslagur á sunnudaginn kemur og það verður tæpt á tölum í miklum markaleik en Rudy Giuliani mun efast stórlega um lokatalninguna. Liverpool er klárlega með mun betra lið þegar allir eru heilir en meiðslamartröð síðustu mánaða hefur tekið sinn toll og jafnað leika heldur betur.

Í raun er merkilegt að við séum í þessari stórgóðu stöðu í deild og CL-riðli miðað við hörmungurnar sem hafa dunið á hópnum. Það er þó langt mót eftir og miklu sem lítt reyndir hafsentar, misungir miðjumenn og síspilandi sóknarmenn þurfa að bjarga á tímum Covid og í linnulausu leikjaálagi.

Klopp og klárir kappar hans munu því þurfa á allri sinni meistaraheppni að halda til að landa fyrirhuguðum 3-2 sigri en það mun hafast á endanum með VAR-vítaspyrnu-veseni sem Milner klárar síðbúið í uppbótartíma. Aðrir markaskorar verða Bobby Firmino og Nat Philips fyrir heimamenn en vandræðaunglingurinn Vardy skorar bæði mörk Leicester úr vitavitlausum vítaspyrnum að hætti enskra VAR-dómara.

YNWA

19 Comments

  1. Sæl og blessuð.

    Og takk fyrir hugvíkkandi upphitun. Ekki veitir af að lyfta andanum nokkra spönn. En að kemur manni fljótt aftur á jörðina að sjá uppstillinguna – örþreyttir framherjar og einkennileg miðja. Vörnin – ræðum hana ekki meir.

    Aftur væri það fagnaðarefni ef liðið næði jöfnu. Stórbrotið væri það ef sigur fengist. Maður tæki því af karlmennsku ef þeir bláu hefðu betur.

    Það er alveg morguljóst að allt sem liðið hefur upp úr þessari rimmu verður afrakstur 100% baráttu og vinnusemi. Mögulega fylgir sú gæfa allri ógæfunni að við sjáum ný andlit blómstra. Hver veit?

    Og ekki orð um það meir.

    6
    • Það er nefnilega Lúðvík, ný andlit munu blómstra, og önnur munu stíga upp. Klopp og stákarnir hans eru nefnilega engir sætabrauðsdrengir, við höfum séð það og munum sjá það marg aftur.
      Spái 3-1.

      YNWA

      4
    • Eitt orð um það meir:

      Takk. Satt. Sammála mestmegnis.

      Vonin býr á bekknum ef Thiago og Fabinho hafa næga heilsu. Heimsklassa innáskiptingar ef þörf krefur. Lifum í voninni.

      Beardsley

      5
  2. Ágætt að fá einn Liverpool leik svona í skammdegið.

    Áhuga á að vita hvort Gini hafi verið boðinn nýr samningur eða hvernig staðan er á því ef einhver veit.

    Ég held að þetta verði stál í stál 2-2

  3. Takk fyrir góða upphitun. Ég þori engu að spá fyrir um úrslit – þetta verður strembinn leikur. En orð stjórans á blaðamannafundi í gær veita manni hugarró………

    “I don’t think my players have to prove anything we always handle difficult situations well.

    “We will fight with all we have and that means if the problems become bigger we will get closer. If somebody thinks we will give up before the game because some of our best players or most important players are not available I cannot help him.
    “We have to accept the situation and use it.”

    “We just take it game by game.
    “There’s no season when you don’t have injury problems.
    “It is always the same, it’s slightly different in that a lot of players in the same position have got injured and seriously injured, which makes it tricky.

    “Nobody here feels self-pity or sorry for ourselves, it’s just the situation. At the moment it hits you but the next moment you are in the solution process.
    “We have players available and as long as we have 11 players we will fight for three points with all we have.”

    5
  4. Mín spá er að Fabinho byrjar í miðverðinum, Milner í hægri bakverði, og Gini/Keita/Jones á miðjunni.

    1-1 þar sem Jota jafnar eftir að Vardy kemur þeim yfir.

    Maður leiksins verður Jota en Leicester munu leggja mikla áherslu á að stoppa Mane.

  5. Það verður áhugavert að sjá hvernig verður stillt upp á morgun, og líklegt að læknateymið/fitness ráði þar miklu um.

    Þessir eru örugglega frá, út af meiðslum og Covid:

    Virgil, Gomez, Henderson, Trent, Salah

    Þessir eru tæpir eftir því sem maður best veit:

    Thiago, Fabinho, Oxlade-Chamberlain, Robertson, Neco, Rhys (6 samtals)

    Af þeim er t.d. Ox búinn að vera lengi frá og afar ólíklegt að honum verði hent út í djúpu laugina, hafandi fyrst sést á æfingavellinum í vikunni eftir nokkurra mánaða hlé. Thiago líka búinn að vera on-off á æfingasvæðinu og ég reikna í mesta lagi með honum á bekk. Maður er vonbetri með restina, Robbo hefði svosem gott af smá pásu enda gríðarleg törn framundan og ekki fékk hann neitt frí í landsleikjahrinunni, plús það að hafa verið tæpur.

    Þessir eru heilir eftir því sem best er vitað:

    Alisson, Adrian, Matip, Milner, Phillips, Tsimikas, Gini, Keita, Jones, Jota, Firmino, Mané, Shaqiri, Minamino, Origi (15 samtals)

    Þessir ungliðar voru ekki á leikskýrslu hjá U23 í dag:

    Jake Cain, Billy Koumetio (EDIT: Leighton Clarkson sömuleiðis hvergi sjáanlegur)

    Það eru einhverjar smá líkur á að þeir sjáist á bekk ef þessir sem eru meiddir reynast ekki leikhæfir.

    18 manns á skýrslu mun semsagt alveg nást, en það fer að verða óþarflega tæpt, og ekki mjög gott að þurfa að leita mikið í U23 hópinn umfram það sem nú er. Eins gott að meiðslalistinn lengist ekki mikið meir úr þessu.

    4
  6. Tilfinningin fyrir þessum leik er ónotarleg. Andstæðingar okkar að þessu sinni, gætu hentað meiðslahrjáðu sóknarliði okkar afar illa. Báðir fljótustu miðverðir okkar eru meiddir, auk besta hægri bakverði í heiminum. Það ætti að koma sér vel fyrir Jamie Vardi sem þarf ekki mikið pláss til þess að skapa sér færi, tala nú ekki um gegn varnarmönnum sem skortir hraða til þess að hlaupa hann uppi.

    Einn heillögu framlínuþrenningunni, egypski kóngurinn okkar, er víst orðinn có-viti og skipstjórinn sjálfur, Jordan Henderson kemur hnjaskaður úr landsleikjahléinu.

    Klopp verður því nota þá sem hann hefur og sjá hvort það dugi ekki til þess skrapa saman almennilegu liði.

    Mane- Firmino- Jota
    Wijnaldum- Fabinho- Thiago
    Robertson- Matip- Phillips- Milner
    Alison.

    Þetta er nokkuð gott lið. Held að Klopp lýti á Thiago sem algjöran lykilmann í þessu liði og hann noti þennan leik til þess að koma honum af stað.

    Ef Leicester verður samkvæmt sjálfu sér, liggur liðið aftarlega og lætur okkur hafa tímabundið forræði yfir boltanum. Þeir munu reyna að refsa okkur fyrir hver einustu mistök sem við drýgjum og miðað við hvað miðverðir okkar eru svifaseinir, tel ég þá hafi góðan möguleika á því.

    Á móti kemur að við erum Liverpool, rauði herinn, eitt sterkasta lið allra tíma. Gæðin t.d á miðju og í sókn eru rosaleg og breiddin er með því besta sem þekkist í boltanum. T.d eigum við Shaqiri, Minamino, Champerlain, Origi, Keita, Jones, Kostas til að verma varamannabekkinn og grípa tækifærið ef þarf óþreytta fætur, þegar líður á leikinn. það er furðulega skítþokkalegt sé horft til þess hve meiðslaplágan er skæð sem hrjáir Liverpool fc um þessar mundir.

    2
    • skv. síðustu upplýsingum verður Thiago ekki klár í leikinn.

      Ég hugsa að R. Williams henti betur gegn Vardy en Phillips.

      3
  7. Sælir félagar

    Þetta verður hunderfitt og enginn veit hvernig liðinu verður stillt upp eða hverjir eru leikfærir. Áhyggjuefnin eru því mörg fyrir okkur dauðlega stuðningsmenn og konur. Samt er það nú svo að ekkert getur tekið frá manni trúna. Spái 3 – 1

    Það er nú þannig

    YNWA

    1
  8. Sælir félagar

    Þetta verður hunderfitt og enginn veit hvernig liðinu verður stillt upp eða hverjir eru leikfærir nema Klopp. Áhyggjuefnin eru því mörg fyrir okkur dauðlega stuðningsmenn og konur. Samt er það nú svo að ekkert getur tekið frá manni trúna. Klopp leysir vandamálin eins og honum einum er lagið. Spái 3 – 1

    Það er nú þannig

    YNWA

    5
    • Sammála. Enginn dans á rósum, kannski sigur, kannski vandræðalegt tap, en eitt er víst að ég get ekki beðið eftir leiknum.

  9. David Coote strikes again. Einbeittur vilji hans færði United sigur í kvöld. Lokamínútur Everton leiksins helltust yfir mig aftur.

    7
    • Að þessi trúður skuli fá að vera þarna ætti að vera rannsóknarefni.

      2
  10. Virkilega spennandi leikur og reynir nú á liðið sem er heilt og ég tali nú ekki um hvernig Klopp setur upp leikinn. Vel hefur gengið síðan Liverpool fékk skellinn gegn Aston Villa fyrr í haust og greinilegt að menn lærðu mikið á því. Þá voru reyndar miklu færri meiddir. Leicester er einfaldlega með hörkulið og í sama gæðaflokki og árið sem þeir urðu meistarar sællar minningar fyrir þá. Meistaraárið fengu þeir 81 stig en stefna í 85 stig núna með sömu stigasöfnun og hingað til. Deildin gæti unnist núna í vetur á 80-85 stigum þó allt og snemmt sé að hugsa um slíkt eftir fáeinar umferðir. Reyndar ætla ég að spá því að 80 stig dugi til að vinna deildina. Eflaust eru Leicestermenn því extra vongóðir núna þegar hin stóru liðin eru að tapa stigum strax í upphafi tímabils og þeir sjálfir búnir að tapa 6 stigum eða missa af 6 stigum. Spurs 7 stig, Liverpool 7 stig, Chelsea 9 stig, MU 11 stig, MC 12 stig, Arsenal 12 stig.
    Erfiðasti leikurinn hingað til í deildinni en okkar lið er Liverpool sem sigrar flesta leiki sama hvað.

    4
  11. Þrátt fyrir öll þessi meiðsli erum við alltaf með 6-7 menn í startinu sem færu allir í byrjunarlið Lester þannig við erum alltaf sigurstranglegri. Tala um tap eða jafntefli er uppgjöf sem fer okkur ekki vel. Enda er ekki neitt sem heitir uppgjöf í okkar leikmannahópi.

    Allisson
    Neco Fab Matip Robbo
    Milner Gini Curtis
    Jota Bobby Mané

    Mögulega sjaum við Milner í hægri bak og Keita inná miðju en þetta er lið sem á að hafa góða stjórn á leiknum. Spái Mané í stuði.

    Ynwa

    4
    • Eins og spilamennskan/meiðslalistinn er myndi ég setja: Alisson, Matip, Robbo, Gini, Jota, Mané í liðið hjá þeim. Og þá ættu þeir 5 í byrjunarliði. Undir venjulegum kringumstæðum ættum við sennilega 10 manns í byrjunarliðinu, þetta verður þungt.

Derbyslagur hjá kvennaliðinu

Liðið gegn Leicester