Þá er komið að næsta verkefni, þriðji leikur liðsins í sömu vikunni og það verða ekki liðnir nema rétt rúmar 60 klukkustundir frá því að Atalanta leiknum lauk þegar Stuart Attwell flautar til leiks kl. 12:30 á AMEX vellinum í Brighton.
Formið og sagan
Liverpool hefur gengið nokkuð vel gegn Brighton síðustu árin og hafa til að mynda unnið síðustu sex viðureignir þessara liða í deildinni og hafa unnið alla sína leiki á AMEX vellinum síðan hann var tekinn í notkun (4 leikir).
Það þarf að leita aftur til þess tíma sem að Brighton spilaði ennþá á Goldstone Ground til að finna síðasta tapleik okkar gegn þeim í deildarleik, reyndar var það í gömlu annarri deildinni og var 14. Janúar 1961 þegar Bill Shankly var stjóri okkar manna!
Heimamenn koma inn í þennan leik í 16 sæti með 9 stig af 27 mögulegum, sem verður að teljast fremur dræm uppskera en þeir hafa þó átt erfitt leikjaprógram og hafa verið að spila mun betur en stigasöfnunin segir til um. Brighton tapaði 3 af fyrstu 4 leikjunum (Chelsea, Man Utd og Everton) en koma inn í þennan leik eftir 1-2 sigur gegn Aston Villa, sem var jafnframt þeirra annar sigurleikur í deild þetta tímabilið. Ég hef séð merkilega marga Brighton leiki þetta tímabilið (veit í alvöru ekki hvernig stendur á því) og hafa þeir verið óheppnir í leikjunum gegn „stóru strákunum“ og í flestum tilfellum ekki átt skilið að tapa (þ.e. gegn Chelsea, Man Utd og Spurs).
Formið á okkur er í raun andstæðan við heimamenn. Þegar flautað verður til leiks erum við jafnir Spurs á toppnum með 20 stig af 27 mögulegum og komum inn í þennan leik eftir frábæran og sannfærandi sigur gegn Leicester (reyndar fyllt eftir með arfa slakri frammistöðu gegn Atalanta en ég skrifa það nú frekar á þreytu og meiðsli en eitthvað annað).
Brighton
Þetta Brighton lið olli okkur alveg hellings vandræðum á AMEX vellinum í sumar þar sem við þurftum að bíða eftir marki frá Salah seint í leiknum til að hrista þá almennilega af okkur í 1-3 sigri.
Það eru alveg skemmtilegir leikmenn í þessu Brighton liði. Fyrir utan auðvitað Adam „okkar“ Lallana þá er Maupay hörkuleikmaður sem getur vel valdið okkur vandræðum. Í lið þeirra vantar þó þann leikmann sem ég tel að við eigum eftir að sjá í einhverju stórliði á næstu árum, hinn efnilega Tariq Lamptey. Hann var að valda okkur allskonar vandræðum þegar við mættum þeim í sumar og hefur verið virkilega sprækur það sem af er tímabili – hægri bakvörður sem var alinn upp í akademíunni hjá Chelsea en, eins og svo margir aðrir, fékk ekki tækifæri þar og hélt því á aðrar slóðir. Lamptey fékk ansi soft rautt spjald í síðustu umferð og missir því af leiknum á morgun.
Aðrir eru nokkuð heilir, reyndar eitthvað talað um það að Lallana sé tæpur í nára en nái samt væntanlega leiknum ásamt því Solomon March sé tæpur í ökla en verði að öllum líkindum leikfær. Þetta Brighton lið er ólíkt öðrum liðum í kringum þá að þeir actually reyna að spila fótbolta og gera það býsna vel!
Liverpool
Það er alltaf hellingur af frétta af okkar mönnum. Hvar eigum við að byrja, líklega fljótlegra að telja þá upp sem að eru leikfærir en við skulum samt sem áður fara yfir standið á mönnum:
Trent er víst farinn að æfa eitthvað og gæti náð leiknum gegn Wolves um næstu helgi en verður ekki klár fyrir morgundaginn. Gomez og Virgil verða frá meira eða minna út tímabilið og eru því allar líkur á að við fáum að sjá sömu varnarlínu á morgun og við sáum gegn Leicester. Reyndar spurning með Milner þar sem hann spilaði 90 mínútur á miðvikudaginn en það eru ekki margir kostir þar í augnablikinu.
Henderson er farinn að taka þátt í æfingum með aðalliðinu og ég gæti alveg séð hann mögulega ná sér í sæti á bekknum á morgun á meðan Ox og Thiago eru báðir farnir að æfa en verða líklega að bíða eitthvað. Ótrúlega svekkjandi, sérstaklega með Thiago. Fá smá sýnishorn af því sem hann getur inn á vellinum en missa hann svo í meiðsli í 6 vikur – og skrítin meiðsli þar sem í þessar 6 vikur hefur hann ávalt verið alveg við það að hefja æfingar að fullu aftur. Keita náði sér í tognun gegn Leicester og verður ekki klár og Shaqiri tókst að ná sér í meiðsli sem hann vissi víst ekki einu sinni sjálfur af (ekki spurja, ég er búinn að reyna en skil ekki svarið). Þú getur ekki einu sinni skáldað þetta.
Það er því í raun bara framlínan okkar sem er ólöskuð eftir að Salah kom til baka í miðri viku. Allir fjórir eru klárir í þennan leik og verður fróðlegt að sjá hvernig Klopp stillir upp.
Ég ætla að skjóta á að vegna manneklu á miðjunni sjáum við Neco Williams í hægri bakverði og Milner fari á miðjuna ásamt því að fremstu fjórir byrji allir leikinn. Liðið yrði þá einhvern veginn svona:
Alisson
Neco – Matip – Fabinho – Robertson
Milner – Firmino – Gini
Jota – Salah – Mané
Spá
Ég held að þetta verði erfitt, drullu erfitt. Brighton hafa verið að spila mun betur en stigasöfnun liðsins ber með sér. Við erum ekki bara að koma laskaðir til leiks með meira en hálft byrjunarliðið frá vegna meiðsla heldur er restin að koma þreytt inn í leikinn í þokkabót. Ég ætla því að spá því að við tillum okkur ekki einir á toppinn í hádeginu á morgun heldur töpum við öðrum leiknum á tímabilinu, í þetta skiptið 2-0.
Mikið vona ég að ég hafi rangt fyrir mér. Þessir strákar hafa troðið ofan í mig sokk áður, vonum að það verði niðurstaðan á morgun líka..
Koma svo.
YNWA
Skal játa að ég var svartsýnni fyrir Leicester leikinn, en þetta “þeir-hafa-tapað-ósanngjarnt” situr vissulega svolítið í manni. Veit ekki hvort ég deili alveg þessari svartsýni hjá Eyþóri, en á samt von á ströggli.
Gæðalega séð er ég nokkuð viss um að við séum með betra lið samt, svona þegar menn eru ekki útkeyrðir.
Spurning hvort Matip verði látinn byrja, er hann ekki búinn að spila 90 mínútur í tveim síðustu leikjum? Gæti orðið einhverskonar met ef hann byrjar (og klárar) þann þriðja í röð. Sæi þess vegna Nat Phillips alveg koma inn í byrjunarliðið í stað hans.
Milner líka búinn að spila tvo 90 mínútna leiki á viku, en býr reyndar að því að hafa ekki verið á einhverju ralli í landsleikjahléinu.
Líka spurning með stöðuna á Mané, ekki kom nú mikið út úr honum á miðvikudaginn. Spurning hvort það þurfi ekki að nýta Minamino betur. Ekki það að Mané er allan daginn hættulegri en Minamino, bara spurning hvort leikjaálagið er farið að segja til sín hjá honum.
Ég hef engar áhyggjur af Mané. Hann kom illa út í síðasta leik af tveimur ástæðum: Leikmenn Atalanta fengu að dúndra hann niður eins og þeim sýndist, og svo var Origi alveg óvirkur í framlínunni við hliðina á honum. Munar um minna.
Nei, nei, nei, við erum ekki að fara tapa þessum leik! við vinnum þennan leik með tveimur mörkum.
Sælir félagar
Allir leikir í efstu deild eru erfiðir. Nú um stundir, þegar verið er að spila við lið sem hvílast í viku milli leikja, eru þeir sérstaklega erfiðir. Potter er að reyna að láta liðið sitt spila alvöru fótbolta og það getur orðið okkar mönnum til láns. Það opnar þá leikinn meira og býður uppá tækifæri í sókninni. Á móti kemur að leikurinn verður hraðari og krefst meiri orku og það er eitthvað sem okkar lið hefur ekki of mikið af nú um stundir. Gæðamunur liðanna (einstaklinganna) er samt augljós og ætti hann að duga til sigurs vona ég. Mína spá er 1 – 3 í hunderfiðum leik.
Það er nú þannig
YNWA
Jamm þetta er soldið dýr reynsla en höldum áfram.
Okay, aðeins ódýrari reynslan. gott.