Newcastle – Liverpool (Upphitun)

Eftir vonbrigði sunnudagsins þá er fínt að fá næsta verkefni strax. Þetta er leikur tvö af þessum fjórum sem við eigum í þessari jóla- og áramótatörn sem spannar rétt rúma eina og hálfa viku og eru andstæðingarnir í þetta skiptið Newcastle og sviðið St. James Park (kl. 20 á morgun, miðvikudaginn 30. Desember). Það verður reyndar að setja fyrirvara á þessa dags- og tímasetningu þar sem að það er víst til umræðu um að setja mótið á ís næstu tvær virkunar í ljósi aðstæðna (met smit, bæði í UK sem og deildinni), en við sjáum hvað setur.

Formið og sagan

Okkur hefur gengið nokkuð vel gegn Newcastle síðastliðin tvö ár eða svo og erum á 5 leikja sigurhrinu gegn Newcastle í deild (3 sigrar í röð á Anfield og 2 á St. James Park). Liverpool hafði ekki unnið á St James’ Park undir stjórn Klopp þar til Origi skoraði dramatískt sigurmark á lokamínútum leiksins í maí á síðasta ári (2-3 sigur) sem liðið fylgdi svo eftir með 1-3 sigri í sumar þegar Virgil, Origi og Mané trompuðu mark Gayle á fyrstu mínútu.

Síðasta tap okkar á þessum velli kom einmitt í desember mánuði en árið var 2015, stjórinn var reyndar Klopp en byrjunarliðið í þessum 2-0 ósigri var nokkuð ólíkt því sem við eigum að venjast í dag þar sem að eingöngu tveir leikmenn í byrjunarliðinu þann daginn eru enn að spila enn þann daginn í dag – Firmino og Milner. Skrtel skoraði sjálfsmark í þeim leiknum áður en Georginio nokkur Wijnaldum skoraði gegn okkur á lokamínútum leiksins. Ég held að það sé óhætt að segja að það hafi talsvert vatn runnið til sjávar síðan.

Eftir nokkuð sterka byrjun þá er Newcastle núna án sigurs í síðustu þremur leikjum og eingöngu safnað einu stigi af mögulegum níu. Eftir að hafa byrjað desembermánuð ágætlega með 2-1 sigri gegn WBA þá fylgdi í kjölfarið slæmt tap gegn Leeds, jafntefli gegn Fulham og svo tap gegn City um síðustu helgi. Þeir sitja því í 14 sæti þegar flautað verður til leiks með 18 stig eftir 14 leiki, 7 stigum frá fallsæti og ættu að öllum líkindum að spjara sig, neðstu liðin eru bara það slök.

Liverpool kemur í talsvert betra formi í þennan leik þó svo að jójó frammistöður séu farnar að láta bera á sér, eitthvað sem við eigum ekki að venjast s.l. 24 mánuði eða svo. Ef við horfum eingöngu í tölfræðina þá er desember mánuður bara nokkuð góður. Liðið hefur hingað til spilað 7 leiki, 2 í meistaradeildinni og 5 í deild. Uppskeran var 1 sigur og 1 jafntefli í CL á meðan að uppskeran í deild er 11 stig af 15 mögulegum, taplausir með 3 sigra og 2 jafntefli. Það sem situr kannski helst í manni er sú staðreynd að þessi fjögur stig sem við höfum tapað í desember voru gegn liðunum í 18 og 19 sæti, Fulham og WBA (stigin eru 6 ef við teljum leikinn gegn Brighton í lok nóvember með).

Það verður líklega að teljast eðlilegt að það gæti smá óstöðugleika í leik liðsins, og kannski ósanngjarnt að gera kröfu um annað m.v. að:

  • Við erum að spila með miðjumann og ungling eða vara-, vara-, varamann í miðverði leik eftir leik
  • Við erum varla að ná að stilla upp sama liði á milli leikja
  • Við áttum varla í bekk lengi vel og höfum verið án algjöra lykilleikmanna lengst af tímabils og átt í miklum erfiðleikum með að hvíla leikmenn

Newcastle

Þetta Newcastle lið er alveg með leikmenn og hraða í sínu liði til þess að skapa vandræði. Þeir eru ekki að treysta mikið á að vera með boltann, eins og hefur verið harðlega gagnrýnt á þessari leiktíð, en þeir reyna að láta þau skipti sem þeir eru með hann telja og eru beinskeyttir með átta marka manninn, Callum Wilson fremstan.

Það er ákveðið spurningamerki við Lascelles og Saint-Maximin í þessum leik. Þeir voru meðal þeirra Newcastle manna sem náðu sér í COVID fyrr í mánuðinum en hafa verið að glíma við eftirköst þess og hafa ekki enn spilað þrátt fyrir að hafa eitthvað verið að æfa.

Aðrir eru nokkuð heilir utan mögulega Jonjo sem missti af City leiknum sökum nárameiðsla.

Liverpool

Enn og aftur, það er hellingur að frétta af okkar mönnum. Það er lítið að frétta af vörninni nema þá að Matip er auðvitað (enn og aftur) meiddur eftir leikinn gegn WBA. Það hefur ekki spurst út hve lengi hann verður frá en það verða einhverjar vikur.

Thiago tók þátt í æfingum í dag og var Klopp búinn að segja að ef menn ná æfingu þá eru þeir í hópnum ef það eru engin eftirköst, við megum því búast við honum á bekkinn hið minnsta – getur verið okkur virkilega mikilvægur í þessum leikjum sem við dóminerum boltann. Það þarf svo varla að taka það fram en Keita er að veita Matip verðuga samkeppni um hver sé brothættasti leikmaðurinn og mun missa af þessum leik vegna vöðvameiðsla númer 300. Aðrir eru heilir, Ox fékk nokkrar mínútur undir beltið á sunnudaginn og fer vonandi að spila sig í form.

Fremstu þrír eiga allir að vera á sínum stað og við þurfum að bíða eitthvað lengur eftir Jota. Shaqiri er svo orðinn leikfær, var auðvitað ónotuð skipting s.l. sunnudag.

Vonandi fáum við að sjá viðbrögð eftir vonbrigði sunnudagsins. Á meðan við erum að sjá Henderson, Firmino og Mané vera að stíga upp þá eru nokkrar þarna sem þurfa að fara sína meira (TAA þá sérstaklega). Við megum ekki við mörgum off-tímabilum hjá leikmönnum liðsins á svona tímabili þar sem við náum varla að manna vörnina sökum meiðsla. Liðið hefur sýnt nokkra frábæra leiki það sem af er tímabils (Leicester, Atalanta, Wolves, Crystal Palace) en hefur oftar en ekki fylgt slíkri frammistöðu eftir með vonbrigðum (Brighton, Fulham & WBA).

Miðjan hjá okkur er því farin að líta mun betur út, kostirnir orðnir mun fleiri og innkoma Shaq veitir okkur a.m.k. einhverja möguleika fram á við, þ.e. aðra en Origi – sem hefur átt skelfilegar innkomur í talsvert langan tíma núna.

Ég ætla að skjóta á að liðið verði svipað og gegn WBA en með tveimur breytingum, Shaqiri komi inn í stað D.Jones og Rhys byrji í stað Matip. Thiago verði svo á bekknum og komi inná um miðjan síðari hálfleik og afsanni þær samsæriskenningar um að hann sé í raun ekki til. Þetta sé þá einhvern veginn svona:

Alisson

TAA – Fabinho – R. Williams – Robertson

Henderson – Shaqiri – Gini

Salah – Firmino – Mané

 

Spá

Ég trúi því að liðið sýni sitt rétta andlit í þessum leik og bæti fyrir frammistöðuna gegn WBA og sæki öll stigin, 0-3, með mörkum frá Salah (x2) og Shaqiri.

Ég minni svo á Gullkastið frá því í gær, finnið það hér. Við munum svo gera upp þetta stórkostlega fótboltaár eftir áramót. Ég vil svo nota tækifærið í þessari síðustu upphitun ársins og óska öllum lesendum og hlustendum Kop.is fyrir samfylgdina á árinu. Jafnframt vil ég óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs og vonandi verður 2021 jafn árangursríkt innan vallar og ekki jafn hrikalega ömurlegt utan hans!

Þar til næst.

YNWA

13 Comments

  1. Sæl og blessuð.

    Væri ekki tveggja vikna pása kærkomin með alla þessa löskuðu leikmenn?

    Er enn að jafna mig á jafnteflinu gegn WBA. Annars þokkalegur.

    2
  2. Sælir félagar

    Heppnissigur MU á Úlfunum var ógeðslegur. Nú er MU aðeins 2 stigum frá okkur á toppnum og leikir sem við höfum verið að tapa 6 stigum á eru að bíta okkur í rassg . . . Ég ætla engu að spá um leikinn gegn Newcastle heldur horfa á hann og tjá mig svo.

    Það er nú þannig

    YNWA

    5
    • Þetta verður mjög erfitt en ég vona svo innilega að Thiago sé að koma til baka og verði a.m.k. á bekknum í kvöld. Með tilkomu hans mun liðið okkar ná betri stjórn á leikjunum og gæðin munu aukast. Við eigum helling inni og það vitum við öll.
      Nenni ekki að tjá mig um þetta mu-lið nema að ég er sammála þér að sigurinn í gærkvöldi var algjör grís. Á meðan við klárum okkar þá hef ég ekki áhyggjur.

      4
  3. Er eiginlega sammála Sigkarli, hefur undanfarið verið annaðhvort í ökla eða eyra. En vil sjá stöðugleika nú í næstu leikjum, með eða án hlés, þó væri ekki nema til annars en að troða upp í manu kjánana, sem færa sig upp á skaftið við smá meðbyr, aðallega með hjálp VAR.

    YNWA

    5
    • Sammála og ekki oft sem þeir vinna án þess að fá VAR-víti.

      3
      • Liv og utd búnir að fá jafn mörg víti á þessari leiktíð eða 5 talsins, leicester búnir að fá lang flest eða 10 🙂

        2
  4. Verður væntanlega erfiður leikur í kvöld hjá okkar mönnum en ég trúi því að við munum rífa okkur upp á rassgatinu í kvöld og landa nauðsynlegum 3 stigum EF leikurinn fer fram. Eins illa og mér líkar við þegar utd stelur leikjum eins og í gærkvöldi verð ég að taka hatt minn ofan fyrir þeim fyrir að hætta aldrei fyrr en lokaflautið gellur eitthvað sem við eigum að venjast hjá okkar ástkæra liði þó það hafi ekki verið raunin uppá síðkastið. Nóg um utd. Nú ríður á að girða sig í brók og taka Newcastle í smá kennslustund í fótbolta 101. Spái 2-0 fyrir Liverpool

    5
  5. Vonum það besta með kvöldið og við náum inn 3 stigum sama hvernig það verður gert. Óþolandi að hafa ónefnt Manchester lið andandi ofan í hálsmálið! Held að það verði fljótt að breytast hjá þeim þegar og ef þeir þurfa að eiga við meiðsli lykilmanna!

    Annars veit maður ekki hvort á að hlæja eða gráta þegar horft er á 0 – 5 úrslit WBA og Leeds. Hvað gerðu Leedsarar sem við gátum ekki á Anfield?!

    Svo verður fróðlegt að fylgjast með fyrstu dögum á nýju ári 2021 – munu Klopp og félagar koma með óvænt útspil í leikmannamálum eða ætla þeir að treysta á unglinga í meiðslahrjáðri vörn??

    3
    • Sælir félagar

      Já Graeme það voru athygliverð úrslit. Leeds sem hefur verið jójó lið ársins tekur WBA og snýtir þeim 5 – 0 en við, meistararnir megum þakka fyrir jafnteflið gegn þeim. Vitandi um gæðin í okkar leikmannahópi er þetta í bezta falli einkennilegt og í versta falli ???? Einhverjir leikmenn verða að gera svo vel að fara að skila því sem þeir eiga að skila eða fá að sitja á bekknum ella. Ég hefi grun um að Klopp setji einhverja á bekk í byrjun til að sýna þeim að ef þeir leggja sig ekki fram þá fái þeir flís í rassinn.

      Það er nú þannig

      YNWA

      5
  6. verður eitthvað þessi leikur, stressaður yfir þessu já satt að segja, vörnin hjá okkur í lamasessi og við ekki alveg verið upp á það besta.

    sé fyrir mér annað jafntefli í kvöld þvímiður.

  7. Sæl öll

    Þessi miðja í byrjunarliðinu vekur smá óhug hjá mér. Að mínu viti hefði mátt setja C.Jones á bekkinn og Ox inn. Okkur vantaði í síðasta leik ógn fyrir utan teginn þ.e. skot og tilraunir að stuttu spil í gegn. Huggu harmi gegn er að mikil sköpun og “þyngd” er í leikmönnum á bekknum. Við VERÐUM að vinna og Liverpool oft góðir með bakið upp við vegg, 1-3 fyrir okkur.

    E.S. Mér hefur fundist vanta í vetur sá eiginleiki Liverpool að koma betur “stilltir” inn á mótherjann í seinni hálfleik. Síðustu tvö tímabil hefur mér funndist Liverpool ganga betur að loka á sendingar og stýra leikjum betur í seinni hálfleik. Það virkaði á mann sem greininga-, og þjálfarateymið væri að vinna mjög góða vinnu á meðan leik stóð.

Gullkastið – 2020

Byrjunarliðin á St. James’ Park í síðasta Liverpool-leik 2020