Spennan verður mikil þegar flautað verður til leiks á sunnudag þegar erkifjendur okkar í Manchester United mæta á Anfield. United menn mæta á toppi deildarinnar með þriggja stiga forskot á okkar menn og í fyrsta sinn í mörg ár eru þessir fornu fjendur báðir í baráttu um titilinn. Leikur leikjanna á þessu tímabili og oft hefur verið þörf en nú er nauðsyn að sigra.
Mótherjinn
United voru frekar óstöðugir í byrjun tímabil tóku aðeins eitt stig úr fyrstu fjórum heimaleikjum sínum í deildinni og meðal þeirra leikja var 6-1 tap gegn Tottenham. Þeir féllu svo úr leik í Meistaradeildinni eftir að hafa komið sér í ansi veglega stöðu eftir fyrstu þrjár umferðirnar. Á þeim tímapunkti var umræðan um að reka Solskjær orðinn ansi hávær en síðan þá hefur liðið ekki litið tilbaka og unnið sjö leiki í öllum keppnum, gert tvö jafntefli og aðeins tapað gegn grönnum sínum í City í bikarnum.
Solskjær er með ansi stóra ákvörðun sem hann þarf að taka fyrir leikinn á sunnudaginn en oftast hefur hann skipt yfir í þriggja manna varnarlínu fyrir leikina gegn Liverpool til að halda aftur af sóknarþríeykinu okkar en nú hefur liðið hans komist á topp deildarinnar með fjögurra manna varnarlínu. Því er líklegra að við sjáum fjögurra manna vörn með tígulmiðju þar fyrir framan, líkt og Solskjær hefur notað í leikjum sínum tveimur gegn City á síðasta mánuðinum.
Það eru nokkrir leikmenn tæpir hjá United fyrir leikinn en Anthony Martial og Nemanja Matic meiddust báðir gegn Burnley í vikunni en gætu báðir náð leiknum. Victor Lindelöf hefur verið frá undanfarið en er byrjaður að æfa aftur en Eric Bailly hefur spilað vel í fjarveru hans og því ólíklegt að Solskjær fari að fikta í varnarlínunni sinni. Auk þeirra eru Marcus Rojo, Phil Jones og Brandon Williams frá en enginn þeirra væri líklegur til að taka þátt í leiknum á sunnudaginn.
Solskjær er líklegur til að nýta svipaðan leikstíl og í fyrri leikjum gegn Liverpool þar sem þeir liggja aftarlega þar sem okkar mönnum hefur gegnið illa með að skora gegn skipulögðum vörnum undanfarið en sækja svo hratt á þá varnarlínu sem við tjöslum saman fyrir leikinn.
Okkar menn
Síðustu vikur hafa verið þungar hjá okkur Liverpool mönnum en tvö jafntefli og eitt tap í leikjum gegn liðum sem við teljum okkur eiga að vinna hafa gerið Manchester liðunum möguleika á að ná okkur í toppbaráttunni. Nú er hinsvegar komið að stórleik og okkar menn hreinlega þurfa að gíra sig upp í þennan leik.
Enn hefur enginn miðvörður mætt á svæðið og maður hefur setið á refresh takkanum að bíða frétta á Joel Matip og hvernig staðan er á honum fyrir leikinn. Klopp staðfesti í morgun að Matip hefði ekki enn æft en væri að ná sér og verið væri að meta hversu sniðugt það væri að setja hann nánast óæfðan í leikinn. Nái hann ekki leiknum verður valið milli Rhys Williams, Nat Phillips eða Jordan Henderson í miðvörðinn.
Hinn símeiddi Naby Keita er að sjálfsögðu enn á meiðslalistanum fyrir þennan leik auk miðvarðanna Van Dijk og Gomez. Þá eru Jota og Tsimikas einnig enn frá og verða ekki með á sunnudaginn.
Klopp, sem stýrir liðinu í sínum tvö hundruðasta deildarleik gegn United, ræddi það á blaðamannafundi að liðið hefði tekið fund eftir Southampton leikinn og rætt hvað betur mætti fara. Eftir aðeins þrettán stig í síðustu átta leikjum væri vissulega hlutir sem hefðu ekki farið nægilega vel en liðið hafi sýnt það á fundinum að þeir vissu hvað væri að og hvað þyrfti að laga en nú þarf að sýna það á vellinum.
Ég er alltaf efins um að Matip snúi aftur úr meiðslum þegar við honum er búist. Hann hefur yfirleitt tekið nokkra daga, eða vikur aukalega og á þá erfitt með að sjá hann byrja leikinn. Hinsvegar hefur hann sýnt okkur það líka að hann þarf yfirleitt ekki mikinn tíma til að spila sig í form þegar hann snýr aftur þannig ef læknateymið telur hann kláran á sunnudaginn þá hef ég engar áhyggjur af honum sérstaklega.
Ef hann byrjar ekki býst ég við að Klopp treysti Henderson best í þetta hlutverk. Rhys Williams hefur átt í vandræðum með hraðan eftir góða byrjun og ég á erfitt með að sjá hann byrja Nat Phillips gegn hröðum og klókum sóknarmönnum United. Henderson verður þá án efa saknað af miðsvæðinu og því tel ég að Klopp reyni að svara því með því að byrja með Milner frekar en Jones eða Chamberlain. Í hópnum eigum við einnig kubbalaga X-factor í Shaqiri sem ég væri alveg til í að sjá byrja leikinn og reyna hrista upp í hlutunum en finnst líklegra að hann verði að sætta sig við að koma inn af bekknum.
Tölfræðin
- Manchester United hefur ekki unnið á Anfield síðan í janúar 2016 þegar Wayne Rooney tryggði þeim sigur undir lok leiks og Liverpool setti Steven Caulker inn á til að reyna jafna metin.
- Eins og áður kom fram mun Klopp stýra sínum 200. deilarleik á sunnudaginn en hann hefur unnið 127 af þeim 199 leikjum sem hann hefur stýrt en aðeins José Mourinho hefur unnið fleiri af sínum fyrstu 200. deildarleikjum í ensku úrvalsdeildinni.
- Á sunnudaginn verða 364 dagar síðan Manchester United tapaði síðast deildarleik á útivelli, en þá töpuðu þeir 2-0 á Anfield.
- Síðan þá hafa þeir spilað 15 útileiki án þess að tapa. Liverpool hefur hinsvegar ekki tapað á Anfield í síðustu 67 leikjum og þar af skorað í síðustu 42 leikjum í röð á Anfield. Því er líklega best að spyrja hvað gerist þegar óstöðvandi afl mætir óhreyfanlegum hlut?
Spá
Það er erfitt að segja til um þennan leik en ég hef trú á því að okkar menn mæti dýrvitlausir inn í þennan leik eftir slakar frammistöður undanfarið og ætla að spá Liverpool 3-1 sigri þar sem Mo Salah sem hefur verið rólegur í markaskorun undanfarið setur tvö snemma leiks en United minnkar muninn en Shaqiri kemur inn af bekknum og gulltryggir sigurinn.
Nú mætast stálin stinn.
Vona að leikmenn mæti ekki hvíldarryðgaðir eins og oft er, að loknu löngu hléi – og standi eins og glópar á vellinum eins og íþróttin sé þeim gleymd og grafin. Ekkert svona: ,,Hvaða hvíta kúla er þetta?” þegar blásið er til leiks.
Sannarlega óska ég þess að Alisson loki rammanum, eins og hann hefur svo oft gert þegar mest hefur mætt á.
Rétt vona að hver og hverjir sem koma til með að manna öftustu varnarlínu verði vel stilltir og loki fyrir sóknarmenn andstæðinganna.
Bind vonir við að sóknartríóið okkar verði baneitrað og grjóthart, vinni sín verkefni á einfaldan og skilvirkan hátt. Ekkert rugl og enga stæla. Það er komið nóg af ruglslúttum.
Bara ætla að vona að miðjumenn núllstilli þann háskalega Bruno og hinn ófyrirsjáanlega Pogba og dæli sendingum á framlínuna.
Og að endingu voooooona ég að Klopparinn skipuleggi þetta vel ásamt starfsliði og hvetji fólk til dáða í þeirri orustu sem framundan er og verður í minnum höfð um ókomna tíð.
Guð minn hvað ég vona að Hendó verði ekki í vörninni. Matip verður bara að ná þessum leik því Hendó verður að vera að brjóta niður og taka nánast úr umferð bruno nokkurn. Það er svo svona 99% líkur á að utd fái víti í þessum leik þannig að það þarf bara að passa að þau verði ekki tvö eða þrjú. Við eigum að vinna þetta utd á venjulegum degi hjá LFC en vona bara að við eigum venjulegan dag, eftir slappa leiki undanfarið. Mikið vona ég lílka að VAR verði ekki aðalumræðan eftir leik. Tökum þetta 3-1, Salah og Bobby með sitthvort, svo væri nú yndislegt að sjá eina sleggju fyrir utan teig.
Þessi leikur kemur væntanlega til með að spilast eins og skemmtileg skák, þó skákin geti virkað þung á köflum þá verða minnstu mistök dýrkeypt. Getulega er Liverpool betra, ekki spurning, þetta kemur til með að snúast um hugarfarið, aðallega okkar hugarfar. Eins og er, þá eru manu í sinni sigurvímu, meðan okkar lið þarf að lyfta sínum anda upp á annað plan, planið sem við þekkjum og vitum að þeir eiga heima. Eithvað segjir mér að þessi leikur verði annað hvort viðhald á slæmu gengi, eða viðsnúningur til þess liðs sem við þekkjum og heimsbyggðin elskar. Leikmenn, Klopp og hans fólk hljóta að vera búnir að vinna í þessum málum og sýni umheiminum hvert er besta lið heims, án vafa. Ekki það, að til þess þurfi að vinna manu, heldur það að vinna þá akkúrat núna, núna! Spái 2-0.
YNWA
Must win leikur en ég er skíthræddur við þennan leik eins og flesta aðra leiki reyndar en set traust mitt á Herr Klopp og hans lið til að sýna Óla hvar Davíð keypti ölið. Tippa á að það verði óvænt uppstilling á morgun, x factorinn Shag verði í byrjunarliðinu, Fab og Rhys hinn ungi í miðvörðum og hið eina sanna þríeyki á toppnum. Spái því miður 2-2 eftir Var vitleysu.
Sælir félagar
Þetta verður hund-erfitt og þarna mætast lið sem hafa mótað sér sigurhefð annað á heimavelli sem er án taps þar í 66 leikjum og hitt á útivelli sem hafa ekki tapað þar í síðustu 15 leikjum. Hvort vegur þyngra er erfitt uma að segja en áhorfendaleysið er útivallarliðinu í hag. Það getur farið svo að tregða Liverpool á að leggja peninga í miðvörð kosti leikinn og ef til vill titilinn. Það væri í bezta falli sorglegt og í versta falli skelfilegt. Þar virðist KLopp vera á þeirri línu að láta slag standa og vona hið bezta. Sumir segja að hann sé að spara fyrir risa-sumarkaup en hvað veit ég.
Leikurinn vinnst eða tapast á vallarhelmingi Liverpool. Ef vörnin lekur ekki nema einu eða engu marki þá vinnst þessi leikur en ef hún stenzt ekki áhlaup MU manna sinn eftir sinn þá tapast leikurinn. Ég er ekki í vafa um að sóknin skilar tveimur til þremur mörkum í þessum leik. Að skora tvö til þrjú mörk ætti að nægja til sigurs svo fremi að vörnin og Alisson standist sóknarlotur MU. Að því sögðu þá spái ég eins og fleiri 3 – 1 og vona hið bezta en óttast hið verzta.
Það er nú þannig
YNWA
Liverpool er að skoða nokkra varnarmenn, Klopp stoppar ekki þá leit. Mörg Lið leyfa ekki viðræður á þessum tíma og sumir hafa engan áhuga á að koma núna og enda svo líklega á bekknum þegar þeir meiddu snú til baka. Sjaldan verið erfiðara að ná í góðan varnarmann. Hvaða lið er að henda í góð kaup núna?
Covid er að gera allar deildir jafnari, allstaðar. Það verða brunaútsölur næsta sumar þegar liðin þurfa að borga skuldirnar. Annars góður. Eina.
Hvað mun Man utd gera á Anfield.
Jú, sama og önnur lið sem mæta þangað en það er að pakka í vörn , nota skyndisóknir og föstleikatriði.
Liverpool verður meira með boltan, Liverpool mun skapa meira og vera meira ógnangi en það þarf að klára færin.
Mín spá er 2-1 sigur og förum aftur á toppinn við stoppum gleðina hjá þeim.
Ef ég ætti eina ósk… þá væri það troðfullur Anfield á sunnudaginn!
Nú má Covid fara að hypja sig heim í leðurblökuhellinn…
Mér líst nokkuð vel á þetta. Oftar en ekki undanfarið hafa þessir leikir leikir valdir vonbrigðum, Utd. pakkað í vörn sem við verið í vandræðum með að brjóta niður- jafntefli týpiskt niðurstaðan. Held að það geti unnið með okkur nú að Utd. eru fullir af (fölsku) sjálfstrausti eftir góð úrslit undanfarið og væru visir með að spila hærra uppi en vanalega á Anfield. Þegar Grant er skoðað hafa Utd. ekkert verið góðir en hafa aulast á góð úrslit í 3 leikjum gegn frekar veikum liðum:
Grísamark gegn Burnley (af 2 varnarmönnum og inn) gaf þeim 1-0 sigur, aftur grísamark af varnarmanni og inn á 93 mínútu gegn Wolves sem voru betri og svo vítamark eftir dífu hjá Pogpa gegn Villa. Alls ekki sannfærandi.
Up the Reds!
það, eina sem ég bið um, er að dómari leiksins standi í lappirnar, þetta verður erfiður leikur fyrirn þann sem dæmir, bara standa í lappirnar og allt fer vel.
YNWA
Nkl. Jón Ormar, nákvæmlega. Ef dómari leiksins drullast til að dæma leikinn en ekki liðin er mikið fengið. Það hefur löngum loðað við enska dómara að dæma lið en ekki leiki. Ef það verður raunin þá getur fátt bjargað Liverpool í þessum leik.
Það er nú þannig
YNWA
Já vonandi ráðast úrslit ekki á einhverju dómara rugli eða VAR þvælu. Og vonandi verður fotboltinn í aðalhlutverki og það sem maður man eftir.
Að öllu jöfnu er Liverpool betra lið en mutd um þessar mundir en að sama skapi finnst mér óraunhæft að miðvarðalaust fótboltalið sé að gera einhverja alvöru atlögu að titlinum. Það getur virkað í stöku leikjum að stilla upp Rhys eða Nat með Fab en ekki í þetta langan tíma. Hendo/Fab uppstillingin er auðvitað galin og veikir miðjuna sem og vörnina. En það er ekki úr miklu að moða og menn verða gera sér að góðu það sem er í boði.
Að því sögðu þá hefur vörnin kannnski ekkert verið aðal klikkið undanfarið, frekar að sóknin hafi ekki verið að skapa eða nýta færi. Síðustu leikir hafa ekkert verið að gefa tilefni til mikillar bjartsýni og Liverpool eru bara bestir með enga hvíld og allt í rugli. Of mikið kósí á milli leikja hefur sjaldnast skilað góðri frammistöðu. Ég er því ekkert sérstaklega bjartsýnn á eitthvað alvöru heavy metal blitz á morgun og spái solid svekkjandi jafntefli þar sem mutd skorar úr (wait for it) vítaspyrnu. En verð jafnframt tilbúinn með ullarsokk ef ske kynni að Jurgen tæki upp á að troða honum smá.
Og ef að þessi leikur tapast og ManCity og Everton vinna sína leiki (reyndar búið að fresta hjá Everton, en samt) þá fara Liverpool í fimmta sæti. Ef hann tapast illa og Spurs vinna þá gæti sjötta sætið verið okkar. Þessir WBA, Fulham, Newcastle leikir gætu reynst dýrkeyptir.
Takk fyrir það. Heldur betur stór leikur og jafnvel einn sá stærsti hingað til. Norður England nötrar og skelfur fyrir þennan leik og sennilega eftir hann líka sama hvernig fer.
Fyrir það fyrsta…
…ég hræðist þennan leik ekki neitt ef menn koma með rétt hugarfar inn í leikinn
…líka mikilvægt að Klopp einbeiti sér að okkar liði, ekki einhverju öðru
…ég bara þoli ekki einhverjar umræður um lélega dómara og að halli á okkar menn. Það er bara helvítis væl og sæmir ekki aðdáendum.
…MU, MC, Leicester eru spræk nú um stundir og fullspræk fyrir minn smekk
…vonandi er Thiago að nálgast fyrra form
…vont að missa Hendo af miðjunni ef hann þarf að spila í miðverði
…TAA kemur vonandi til baka af endurnýjuðum krafti
….þessi deild, þvílík spenna enda á milli.
…hvar er Keita???
Keita er meiddur.
Rythminn hjá honum er að verða þannig að hann er meiddur 4-8 vikur. Þarf svo 2-3 leiki til að koma sér í leikæfingu. Nær síðan 1-3 leikjum þangað til hann meiðist aftur.
Því miður er skrifað í skýin að við töpum þessu 0-1 eftir 5 mínútna VAR skoðun sem enginn skilur hvernig var víti. Allison ver, en VAR segir hann hafa farið 3mm af línunni og Bruno skorar í annarri tilraun.
Sorry með það.
0-0 steindautt jafntefli í leiðinlegum leik enda öll lið búin að sjá fyrir löngu hvernig á að stoppa Liverpool ,og Klopp tekur þetta vanalega rant sitt og kennir dómara og WAR um en mun aldrei viðurkenna að hann er að tapa út af því að hann kann ekki að spila fótbolta á móti varnarsinnuðum fótboltaliðum.