Eftir að hafa heimsótt Tottenham í Lundúnum síðasta fimmtudag, nánar tiltekið á Tottenham Hotspur Stadium, þá liggur leiðin í rétt rúma 10 kílómetra í suðsuðaustur, eða á London Stadium sem í dag er heimavöllur West Ham. Sá völlur var byggður sérstaklega fyrir Ólympíuleikana 2012, en féll svo í hlut liðinu frá Austur London sem gegnir nafninu West Ham. Leikurinn kemur í kjölfar þess að Everton töpuðu gegn Newcastle, og geta því ekki lengur komist upp fyrir Liverpool þó þeir vinni leik sem þeir eiga inni (í bili a.m.k.), United gerði jafntefli gegn Arsenal, og City vann enn einn leikinn gegn Sheffield. En nóg um það, snúum okkur að andstæðingum okkar í næsta leik, enda er það eini andstæðingurinn sem Liverpool getur tæklað í bili.
Gengi andstæðinganna
West Ham er eitt af þessum liðum sem hefur verið að daðra við efsta hluta deildarinnar, en það hafa í raun verið að bætast ný lið á þann lista eftir því sem líður á tímabilið. Síðasti leikurinn sem liðið tapaði var gegn Chelsea þann 21. desember, svo komu 2 jafntefli, en svo komu 4 sigurleikir í deild og 2 í bikar. Staðan er því sú að liðin sitja hlið við hlið í 4. og 5. sæti í deildinni í augnablikinu, og það mun væntanlega ekki breytast fyrir leik. Hamrarnir gætu því komist aftur upp í 4. sætið með sigri, en Liverpool gæti annaðhvort haldið 4. sætinu eða komist upp í það þriðja ef Leicester vinna ekki sinn leik gegn Leeds.
West Ham hafa reyndar verið með virkari liðum á leikmannamarkaðinum núna í janúar. Sebastian Haller var seldur til Ajax, en í staðinn er Jesse Lingard kominn frá United á láni, og þá keyptu þeir Saïd Benrahma sem hafði verið á láni hjá þeim.
Þess má svo geta í framhjáhlaupi að kvennalið West Ham fékk ágætis liðsstyrk núna í vikunni, þegar landsliðskonan Dagný Brynjars gekk til liðs við kvennalið félagsins, en hún hefur verið stuðningsmaður Hamranna frá unga aldri.
Gengi West Ham hefur ekki verið neitt sérstakt í síðustu leikjum gegn Liverpool, en síðasti leikur sem þeir unnu var í fjórðu umferð bikarkeppninnar árið 2016, annars hefur Liverpool haft yfirhöndina og við vonum auðvitað að það haldi áfram.
Liðin áttust við á Anfield í lok október, og þá fóru okkar menn með sigur af hólmi eftir að hafa lent undir, en náðu að jafna með marki frá Salah og svo skoraði Jota sigurmarkið undir lok leiksins.
Okkar menn
Byrjum á að skoða meiðslalistann. Við þurfum ekkert að ræða stöðuna á VVD og Gomez, Klopp staðfesti í vikunni að Gomez myndi ekki spila meira á þessari leiktíð, en hann hefur ekki ennþá gefið út slíka yfirlýsingu varðandi Virgil. Vonum að það þýði að meiðslin hafi e.t.v. ekki verið alveg jafn alvarleg og útlit hafi verið fyrir, en vonum líka að það verði ekki reynt að flýta endurkomu hans í trássi við bestu mögulegu ráðleggingar lækna. Við treystum læknateymi klúbbsins auðvitað til að gera það sem er best fyrir leikmanninn til lengri tíma litið.
Það sem verra er að við verðum án bæði Fabinho og Matip í leiknum á morgun. Fabinho er eitthvað lítillega meiddur, missti af leiknum á fimmtudaginn, en Matip meiddist jú í þeim leik og það er alls óvíst hvort hann sjáist meira á leiktíðinni, þó það sé ekki fullljóst hve alvarleg meiðslin voru sem hann hlaut í fyrri hálfleik. Í ljósi þess að klúbburinn á núna enga heila miðverði fyrir utan U23 leikmenn (við teljum Nat Phillips í þeim hópi), og að téðir U23 leikmenn eiga talsvert í land með að verða klárir í baráttuna í úrvalsdeildinni (Sepp og Koumetio fengu t.d. á sig 6 mörk í leik U23 í dag), þá hafa líkurnar á því að eitthvað verði verslað í janúarglugganum aukist allnokkuð. Líkurnar eru samt ekki 100%, enda vill klúbburinn eðlilega ekki kaupa bara einhvern miðvörð. Svo virðist sem það hafi verið veðjað á að það væri hægt að selja Lovren síðasta sumar og bíða með að kaupa framtíðar miðvörð í hans stað þangað til sumarið 2021, en það veðmál sprakk heldur betur í andlitið á þeim með meiðslum VVD, Gomez og Matip. En málið er líklega að helstu skotmörk eru einfaldlega ekki laus núna. Spurning hvort það verður farið í skammtímalausn í millitíðinni, það kemur í ljós á næstu sólarhringum enda lokar glugginn seinnipartinn á mánudaginn. En það er nokkuð ljóst að það kemur enginn leikmaður fyrir leikinn gegn West Ham, og því allar líkur á að við sjáum miðvarðarparið Nat Phillips og Jordan Henderson aftur.
Þá eru Keita og Jota ennþá frá, ekkert hefur heyrst um hvenær sé von á þeim til baka.
Klopp verður líklega að spila sínu sterkasta liði, og vona að menn þoli leikjaálagið. Hugsanlega eitthvað hægt að rótera á miðjunni, en lang líklegast er að sterkasta liðinu verði stillt upp og svo skipt inná fyrir þá sem eru tæpastir.
Trent – Phillips – Henderson – Robertson
Thiago – Gini – Milner
Salah – Firmino – Mané
Miðað við hvað Milner var liðinu mikilvægur í leiknum gegn Spurs er ég að veðja á að hann byrji aftur, og að það verði frekar róterað í Brighton leiknum í miðri viku. Það er svo alveg ljóst að það verður að stilla upp allra sterkasta liðinu gegn City um næstu helgi, enda eru þeir komnir á ógnvænlegt skrið og það verður ekkert grín að stoppa þá.
Dómari leiksins á morgun verður John Moss, svo ekki eigum við von á neinum gjöfum frá dómaratríóinu. Ekki að þær hafi verið margar á leiktíðinni, og ekki eins og maður vilji vera að fá gjafir. Það eina sem maður biður um er sanngjörn dómgæsla, ólíkt því sem var t.d. í leik Villa og Saints í kvöld.
Þar fyrir utan biður maður bara um 3 stig. Jú og ég væri rosalega til í ef liðið slyppi við fleiri meiðsli.
Þó svo útivallagengi Liverpool á þessari leiktíð sé ekkert til að hrópa húrra fyrir, þá ætla ég að spá sigri í útileik númer 2 í röð. 1-2 með mörkum frá Salah og Robertson.
KOMA SVO!!!
Þetta er bara leikur sem við verðum að vinna, við verðum að minnka forskot City.
Veralega snúinn leikur. Hörkulið sem vill vera nálægt þeim bestu og gefa því ekkert eftir enda virðist ekki erfitt fyrir flestöll lið í deildinni að gíra sig upp fyrir leik gegn okkar mönnum. Matip úr leik og þarf Phillips að byrja og nú er spurning hvernig það kemur út að vera aðal. Annars hef ég, eins og alltaf, fulla trú á okkar liði…
…sigur ef allir eru á tánum og með hausinn rétt skrúfaðan á
…jafntefli eða tap ef hugarfarið og stemmingin er neikvæð í okkar herbúðum
…er TAA kominn endanlega til baka?
…Firmino skorar
…uppstilling á miðjunni’??
…hvar er Keita??
Annað, glugginn er nánast búinn. Hvar er nýr miðvörður eða eru þær fréttir sem hafa verið allar skot út í loftið ?? Betra er að bulla og blaðra minna og sýna frekar verkin. Nú þyrfti eitt stykki Ragnar Klavan.
Liðið er nú aðeins að hressast, maður sér það alveg. Held að við náum að skora 1-2 mörk.
Westham eru nokkuð sterkir í föstum leikatriðum. Þeir eru með mjög sterka skallamenn. Held að Phillips verði að spila þennan leik….og hann skorar sigurmarkið!
Sælir félagar
Það er eitthvað að mönnum sem ætla að stóla á Matip meidda heila leiktíð og Gomes sem alltaf er meiddur 1/4 undanfarinna leiktíða. Það virðist svo sem menn hafi ætlað VvD að vera ómeiddum alla leiktíðina og Gomes, Matip meiddi og svo Nat og Wiliams hafi átt að dekka hinn helming teigsins á móti honum. Það er svona álíka bjartsýni og hjá mótorhjálamanni sem sér í myrkri tvö ljós hlið við hlið koma á móti sér og ákveður að fara á milli þeirra í þeirri vissu að þetta séu tvö mótorhjól. Staðreyndir sýna þetta svo ekki verður um villst.
Spurning er líka hvað er að plaga Keita? Hann hefur ekki leikið 2 leiki í röð í manna minnum og spurningin er hvort hann er með sama syndrom og Matip meiddi eða hvort hann er með eitthvað annað sem gerir hann nánast einskis virði sem leikmann. Það er svo bæði með Matip meidda og Keita “langt leidda” að ef þeir eru í lagi þá eru þetta afbragðs leikmenn. En er það skynsamlegt að vera með menn í leikmannahópi og á launaskrá sem nánast ekkert leika með liðinu. Persónulega finnst mér þeð glórulaust.
Hvað leikinn í dag varðar þá hefi ég áhyggjur af honum. Antonio hefur verið að skora og leggja upp í hverjum leik eftir að hann kom til baka úr meiðslum. Ég er hræddur um að við lendum í verulegum vandræðum með hann og Sou?ek hefur verið að leika mjög vel líka. Vörnin verður því undir álagi sem VvD og Gomes hefðu ráðið vel við en varamannavörn liðsins gæti lent í verulagu veseni í dag. Hvað um það við sjáum til. Ég spái samt og veðja á framlínuna okkar. Mané með eitt Salah með annað og Milnerinn eitt úr víti.
Það er nú þannig
YNWA
Sælir aftur félagar
Ég bið afsökunar á þessum nöldurs langhundi hér fyrir ofan. En maður hefur svo sem ekkert að gera annað en nöldra.
Það er nú þannig
YNWA
Nú er talað um að Mane sé eitthvað tæpur líka fyrir þennan leik 🙁 en hvað um það við bara verðum að vinna þennan leik. Þetta varnarvesen er bara eitthvað sem er löööööngu hætt að meika sens, hver er með þessa vúdú dúkku á sér og er að stinga prjónum í hana sí og æ ? Vörnin verður þá örugglega Henderson og Philips en hver kemur í staðin fyrir Mane ef hann verður ekki klár er erfitt að segja, Jones,Origi, Minamino eða Shaqiri ? Það kemur í ljós en hamrarnir verða erfiðir með Antonio og tékkann sískorandi fremsta í flokki. Ég spái samt sigri, en er löngu hættur að biðja um að við höldum hreinu.
1-3, Salah með þrennu !
velti fyrir mér hvenær salah og mane enda í vörninni