Litið eftir lánsmönnum LFC

Liverpool FC hefur í vetur eins og undanfarin ár sent nokkra leikmenn í lán frekar en að hafa þá utan hóps hjá okkur eða að spila með U23ja ára liðinu. Hugsunin alltaf sú að láta þá annað tveggja öðlast reynslu til að verða síðar aðalliðsmenn hjá liðinu eða að þeir nái þannig árangri að félagið geti selt á góðu verði.

Ég fór aðeins yfir þessa runu í nýlegu podcasti en set hér aðeins ítarlegri útgáfu á blað.

Harvey Elliott – Blackburn

Harvey var keyptur frá Fulham sumarið 2019 og hefur nú þegar leikið 9 keppnisleiki fyrir LFC. Í haust var tekin ákvörðun að senda hann á lán þar sem að hann yrði einn aðalmanna en í liði sem spilar pressufótbolta í ætt við okkar. Fyrir valinu urðu nágrannar okkar í Blackburn Rovers og þar hefur Elliott blómstrað, lengst af verið fastamaður í byrjunarliði þeirra. Liðið byrjaði tímabilið vel en lenti í brasi og er nú um miðjuna. Stewart nokkur Downing leikur með Blackburn og lét fyrir stuttu síðan hafa eftir sér að Elliott væri eitt mesta efni sem hann hefði séð og langbesti leikmaður liðsins, enda komið að 15 mörkum í þrælerfiðri Championshipdeildinni.

Næsta tímabil? Harvey mun fá góðan séns á að skína á undirbúningstímabilinu með LFC. Tilfinningin er þó sú að ef að hann verður ekki kominn á þann stað að verða í stóru hlutverki verði hann lánaður aftur og þá í PL.

Harry Wilson – Cardiff

Harry er líklega stærsta “næstum því nafnið” sem ég man eftir í langa tíð. Uppalinn hjá LFC og lengi verið rætt um hann sem framtíðarmann. Í vetur virtust Burnley vera búnir að kaupa hann en á síðustu stundu datt það uppfyrir og því voru góð ráð dýr. Flest úrvalsdeildarliðin búin að loka leikmannahópunum en í hraði stukku Cardiff til og fengu þennan velska landsliðsmann til sín. Hann hefur í vetur verið í stóru hlutverki þar, lenti þó í því að í stjóraskiptum kom hann fyrst um sinn meira inn af bekknum hjá Mick McCarthy en síðustu vikur hefur hann aftur verið fastur í liðinu, spilar undir senter í liði sem er á hörkuflugi og stefnir í playoffs. Lék í vikunni landleik númer 24 fyrir Wales!

Næsta tímabil? Klárlega til sölu enda orðinn 24ra ára. Hlýtur að fást peningur fyrir hann enda sannað sig sem toppmaður í Championship og góður kostur fyrir lið þar eða í neðri hluta PL.

Adam Lewis – Plymouth

Stevie G. viðhafði stór orð um þennan strák þegar hann stýrði U18 ára liðinu á sínum tíma, talaði um hann sem mesta efnið í leikmannahópnum (t.d. meiri en Curtis Jones) og gaf honum stórt hluverk á miðsvæðinu. Meiddist illa 2019 en hefur fengið að æfa með aðalliðinu og í haust var hann lánaður til Amiens í frönsku B-deildinni sem er oft til marks um að menn ætluðu honum hlutverk. Það lán gekk þó alls ekki og hann kom til baka og í janúar lánaður til Plymouth í C-deildinni. Þar hefur áfram verið bras, hann er inn og út úr liðinu sem wingback í 3-4-3 kerfi í liði sem er í botnbaráttu deildarinnar.

Næsta tímabil? Vonbrigði í vetur, nýbúinn að skrifa undir samning, væntanlega annað lán framundan. Er þó 22ja ára á þessu ári og viðbúið að yrði seldur ef að gott tilboð kemur.

Anderson Arroyo – Salamanca

Kólumbískur hafsent sem keyptur var í febrúar 2018 en fékk ekki atvinnuleyfi og hefur flakkað síðan um Evrópu sem lánsmaður til að ná þeim gæðum að fá atvinnuleyfi á Englandi. Gengur alls ekki vel, er ekki einu sinni fastur í liði Salamanca í spænsku B-deildinni.

Næsta tímabil? Ekkert að frétta. Samningur til 2023 svo líklega áfram á lánsflakki en mun aldrei spila fyrir Liverpool.

Marko Grujic – Porto

Fyrstu leikamnnakaup Jurgen Klopp en hefur verið á flakki um Evrópu síðustu ár og í sumar fór hann til Porto eftir að þýsku liðin sem höfðu verið að eltast við hann höfðu ekki efni á að kaupa hann á því verði sem upp var sett. Hefur verið inn og út úr liði Porto og aðeins komið við sögu í 13 leikjum af 32, lenti m.a. í því að vera skipt útaf eftir 23 mínútur í leik nýlega og búið að gefa út að Porto mun ekki nýta sér kaupréttinn. Er búinn að vera hluti af serbneska landsliðinu í vetur og síðustu 2 ár.

Næsta tímabil? Er til sölu, með samning til 2023 en viðbúið að verðmiðinn hafi lækkað verulega.

Loris Karius – Union Berlin

Skuggi Kiev er enn að voma yfir Karius karlinum. Lán í Tyrklandi varð ekki til þess að hann fengi samning þar og hann var aldrei að fara að stoppa í Liverpoolborg. Valdi að fara til Þýskalands og er varamarkmaður Union Berlin sem er klárlega spútniklið Bundesligunnar, spilað í bikarkeppninni og 2 leiki í deild vegna meiðsla aðalmarkmanns, hefur lýst í viðtölum í vetur hversu glaður hann er með veruna í heimalandinu, kærastan hans er þýsk ofurfyrirsæta og sú mun búa áfram í Þýskalandi.

Næsta tímabil? Samningur rennur út 2022 og verður seldur á útsölu í sumar. Þýskaland líklegasti staðurinn.

Taiwo Awoniyi – Union Berlin

Nígerískur framherji sem kom til Liverpool 2015, þá 18 ára gamall og talinn eiga framtíð hjá félaginu. Hefur verið á lánsflakki um Evrópu, 114 leikir og 22 mörk í Þýskalandi, Belgíu og Hollandi síðustu 6 ár. Er hluti aðalliðs Union Berlin í vetur, hefur þar spilað 19 leiki og skorað 5 mörk. Öflugur strákur en aldrei verið líklegur til að verða hluti aðalliðshóp LFC.

Næsta tímabil Samningur rennur út 2022, til sölu og fer á meginlandið.

Liam Millar – Charlton

Kanadískur framherji sem kom til LFC sumarið 2016 og hefur átt ágætis feril með yngri liðunum en þó aldrei verið líklegur til að komast í aðalliðið. Fór á lánsblokkina í fyrra, var lykilmaður hjá Kilmarnock í skosku deildinni og í ár verið fastur maður í aðalliði Charlton í League One og hefur átt góðu gengi að fagna í London. Á þó engan séns á frama á Anfield.

Næsta tímabil? Samningur hans er til 2023. Til sölu, Championshiplið verið að horfa til hans og líklega á leið þangað fyrir ekki of mikinn pening.

Kamil Grabara – AGF Aarhus

Þessi pólski markmaður var keyptur 17 ára gamall til Liverpool í janúar 2016 og er metinn afskaplega hátt hjá þjálfarateymi LFC, markmannsþjálfarinn Achterberg lýst því að hann sjá strákinn hiklaust geta orðið aðalmarkmann LFC á næstu árum. Fóru í lánsrútuna 2019, var í fyrra hjá Huddersfield í Championship og í vetur völdu þeir að senda hann til AGF Aarhus. Þar er hann fastur maður í toppliði danska boltans. Hefur leikið frábærlega í vetur, búinn að halda hreinu í 6 af síðustu 8 leikjum og var rætt um að hann væri á leið í pólska landsliðshópinn í þessum landsleikjaglugga en var þó ekki valinn.

Næsta tímabil?Mikil velgengni í vetur svo það er alveg möguleiki að hann verði markmaður LFC númer 2 næsta vetur og Kelleher fari á lán eins og stefnt var að. Annars lánaður í topp 5 deild í Evrópu.

Takumi Minamino – Southampton

Nýjasta lánið og sá eini sem er ekki á ungu línunni heldur lánið klárlega hugsað á þann hátt að þarna fái hann sjálfstraust í að verða öflugur í liðið LFC. Fastur maður í byrjunarliði Southampton og náð fínu flugi.

Næsta tímabil? Ralf strax farinn að tjá sig um það að hann vilji halda Taki á suðurströndinni, verður alveg spurningamerki hvað gerist, mun væntanlega líka ráðast af öðrum leikmannamálum. Sé bæði að hann fái séns hjá LFC en til sölu ef verðið verður rétt.

Sheyi Ojo – Cardiff

Lögðum mikið á okkur til að sækja þennan strák til MK Dons árið 2011, þá 14 ára. Hefur frá þeim tíma náð að safna alls 8 leikjum fyrir félagið í hinum ýmsu keppnum en líka verið á miklu lánslflakki, hefur á síðustu 5 árum leikið 128 leiki og skorað 15 mörk í Championship, frönsku deildinni og skoska boltanum. Í ár fór þessi lipri og fljót vængmaður til Cardiff og hefur verið lykilmaður í liðinu í allt tímabilið, komið að 12 mörkum og í miklu uppáhaldi hjá Cardifffólki.

Næsta tímabil? Samningur rennur út 2022 og er til sölu. Heilmikill áhugi á honum og ætti að fást fínn peningur fyrir hann.

Sepp van den Berg – Preston

Hollenski strákurinn kom til LFC fyrir ágætis verð og eftir baráttu við nokkur lið. Hefur ekki náð að komast af krafti inn í aðalliðsbaráttuna, í vetur fóru bæði Rhys Williams og Nat Phillips fram úr honum og úr varð að hann fór sem hluti af dílnum fyrir Ben Elliott á láni út tímabilið og í samningnum er klásúla um “first-option” á lán til PNE á næsta tímabili svo að það virðist ljóst að LFC telur hann ekki tilbúinn næsta vetur heldur. Kom inná í fyrsta leik eftir skiptin, svo ekki með í næsta en var svo settur í hægri bakvarðarstöðu í þriðja leik og hefur leikið alla leikina síðan og töluverð ánægja með kappann.

Næsta tímabil? Virðist langt frá aðalliði LFC og annað lán framundan, annað hvort í Evrópu eða í Championshipdeildinni.

Vitezslav Jaros – St. Pat’s

Tékkneskur markmaður, 2001 módel sem kom til Liverpool 16 ára gamall, lék undir stjórn Stevie G og var lykilmaður í liðinu sem vann FA Youth cup á sínum tíma. Hefur leikið mikið með U23ja ára liðinu og gerði 5 ára samning við liðið síðasta sumar. Var ákveðið í janúar að senda hann í lánsrútuna og gekk til liðs við St. Patricks Athletic í írsku deildinni nú í febrúar. Tímabilið í Írlandi var þá nýhafið og hann byrjaði fyrsta leikinn eftir að hafa verið fenginn í lán, en svo fór deildin inn í landsleikjahlé.

Næsta tímabil? Væntanlega annað lán, þá í League One eða í B-deild annarra stóru fimm landanna.

Svo að ef að við förum hér yfir þá eru af þessum strákum tveir sem í raun gætu eitthvað haft af LFC að segja næsta vetur, þeir Elliott og Grabara. Vonandi tekst að selja Wilson, Grujic, Awoniyi og Ojo fyrir einhverjar upphæði og svo má vera ljóst að Millar, Arroyo og Karius verða settir á útsöluhilluna. Sjáum hvað verður um Van den Berg og Taki og svo er Jaros bara enn verk í vinnslu.

7 Comments

  1. Frábær samantekt, en voðalega er þetta óspennandi nema helst Harvey Elliott. Hann virkaði vel á mann.

    5
  2. góð samantekt Maggi en ég er nokkuð sannfærður um að Grujic hefði spilað töluvert meira hjá liverpool en hann hefur gert hjá Porto þannig að svona eftirá mistök að lána hann þetta tímabilið.

    2
    • Grujic er miðjumaður og það er sú staða sem við erum að drukkna í mönnum. Já það eru meiðsli en ég myndi setja Grujic aftarlega á listan.
      Fabinho, Henderson, Thiago, Gini, Keita, Jones, Ox og Milner eru allir á undan honum í röðinni í dag. Fabinho/Henderson að spila mikið í miðverði en þá eru samt 6 aðrir þarna á undan og þótt að sumir þarna skiptast á að meiðast þá hefði Grujic líklega lítið fengið að spila með okkur í vetur.

      2
      • Ox, Keita (og Milner) lítið sem ekkert spilað, hendo og Fabinho spilað miðvörðinn, hvað eru þá margir eftir og hvað eru margir leikir á tímabilinu? svo hefði Grujic alveg getað tekið miðvörðinn í staðinn fyrir Hendo líka.

        3
      • Það þar líka að átta sig á því að þegar Grujic er lánaður þá erum við með Van Dijk, Matip, Gomez tilbúna í miðverðinum + alla þessa miðjumenn.
        Grujic hefði verið aftar en allir þessir kappar því ef hann væri það ekki þá væri hann líklega í leikmanna hóp Liverpool 🙂
        Það hafa verið mikil meiðsli hjá Liverpool en við höfum samt alltaf náð að manna miðsvæðið af einhverjum af Fabinho, Henderson, Thiago, Gini, Keita, Jones, Ox eða Milner á þessari leiktíð. Þeir hafa nefnilega ekki alltaf verið meiddir allir á sama tíma.

        2
  3. Sælir félagar

    Takk fyrir þetta Maggi þetta er flott yfir ferð. Ég er sammála Hafliðasyni um að allt er þetta frekar óspennandi nema Harwey Elliot. Svo er það af því að maður vill alltaf meira. Hvenær kemur yfirferð um Akademíuna? Mér skilst að þar séu nokkrir spennandi guttar.

    Það er nú þannig

    YNWA

    2

FSG fær nýja hluthafa (og £538m)

Landsleikjahléi lokið – Arsenal á morgun