Burnley 0 – 3 Liverpool – Vonin lifir!

0-1 Firmino (43. mín)

0-2 Phillips (52. mín)

0-3 Oxlade-Chamberlain (89. mín)

Menn áttu erfitt með að stilla taugarnar til að byrja með í þessum mikilvæga leik í baráttu um Meistaradeildarsæti. Fyrstu mínúturnar reyndust okkur erfiðar þar sem Burnley menn pressuðu mjög hátt upp völlinn og okkar menn voru í allskonar vandræðum með það. Til skiptis var boltinn annað hvort gefinn á andstæðing eða að Burnley menn voru einfaldlega ákveðnari og hirtu boltann af löppum okkar manna.

Besta færi Burnley manna kom svo eftir 25. mínútur þegar það kom langur bolti frá Lowton inn fyrir vörnina rataði á Wood, mjög óvanalegt að Alisson var alveg límdur við línuna frekar en að koma og sópa upp, en Wood náði ekki að stýra boltanum á markið.

Færanýting síðustu vikna hélt svo áfram fyrir okkar menn því á aðeins tveggja mínútna millibili rétt fyrir hálftímaleik komust bæði Thiago og Mo Salah í góða stöðu en báðir settu boltann ekki á rammann. Slakar sendingar, lélegar ákvarðanir og undarlegt spennustig hélt áfram að einkenna leik Liverpool það sem eftir lifði hálfleiks. Færin komu en það gekk ekkert að koma boltanum á markið fyrr en á 43. mínútu þegar Robertson og Mané spila saman upp vinstri kantinn áður en Robertson kom boltanum fyrir þar sem Bobby Firmino stýrði boltanum í netið framhjá Norris í marki Burnley manna sem hefði átt að gera betur. Fyrsta skotið á markið og viti menn það rataði í netið.

Liðið var hinsvegar töluvert hressara þegar það kom aftur út á völlinn eftir hálfleikshléið og aðeins á 52. mínútu var forustan tvöfölduð. Aftur eftir samspil Robertson og Mané en nú var það Mané sem kom boltanum fyrir og Nat Phillips skallaði boltann í netið með skalla sem Alisson hefði verið stoltur af.

Burnley menn gáfust þó ekki svo auðveldlega upp því um miðjan hálfleikinn gerðu þeir smá atlögu þar sem John Brownhill var nánast búinn að sleppa inn fyrir áður en Nat Phillips þurfti svo að bjarga á línu eftir hornspyrnu sem Tarkowski var búinn að ná að skalla yfir Alisson. Taugarnar voru aftur farnar að taka á okkar menn og illa gekk að halda boltanum og Burnley menn ógnuðu þó án þess að gera sig virkilega líklega eftir þetta.

Síðasti naglinn kom svo á 89. mínútu þegar Alex Oxlade-Chamberlain, sem hafði komið inn fyrir Firmino, fékk boltann inn á teig Burnley manna náði að stilla boltanum upp fyrir sig og hamraði honum í netið og skoraði sitt fyrsta mark á tímabilinu.

Bestu menn Liverpool

Þetta var kvöldið hans Nat Phillips vissulega átti hann á köflum erfitt með Wood og í byrjun leiks átti hann erfitt með að koma boltanum frá sér en með mark og björgun á línu er erfitt að horfa annað en til Phillips. Mané og Robertson voru líklega meðal slökustu manna vallarins fram að fyrsta markinu en fyrir fyrri tvö mörkin áttu þeir gott samspil og leggja upp sitt hvort markið og skiluðu að lokum ágætis dagsverki. Það verður svo að ræða Thiago, hann átti erfitt með að fóta sig þegar hann kom loks inn í liðið eftir meiðsli og Covid-veikindi en guð minn almáttugur hvað hann hefur stigið upp að undanförnu og hann var flottur í dag eins og síðustu leiki.

Vondur dagur

Þrátt fyrir góð úrslit var þetta ekki besti leikur sem margir okkar manna hafa spilað. Eins og áður kom fram var mikið stress í mönnum framan að og það gekk ekkert að koma boltanum manna á milli stóran hluta fyrri hálfleiks. Þegar það gekk komust við í fín færi en fórum hrikalega illa með þau og fáir sem hefðu getað sloppið við þennan titil fyrir 43. mínútu leiksins. Aftur átti Fabinho slakan dag og gerði það okkur oft erfitt fyrir. Salah fór illa með þau tækifæri sem hann fékk í leiknum og Gini Wijnaldum hefur átt marga betri daga í rauðu treyjunni. Vonandi að hann verði flottur um helgina og við getum kvatt hann með flottri frammistöðu.

Umræðupunktar

  • Nat Phillips var í kvöld fimmtándi markaskorari Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í ár en aðeins Chelsea og Man City eru með fleiri (16)
  • Alex Oxlade-Chamberlain var svo sextándi markaskorari Liverpool í ár seinna í leiknum og því Liverpool jafnir þessum liðum.
  • Liðið er sem stendur í fjórða sæti deildarinnar og á möguleika á því þriðja ef við gerum betur en Chelsea í lokaumferðinni!

Næsta verkefni

Mjög einfalt Crystal Palace á sunnudaginn í lokaumferðinni í kveðjuleik Roy Hodgson þar sem liðið þarf aðeins að gera betur en Leicester gegn Tottenham fyrir framan stuðningmenn á Anfield til að tryggja sig í Meistaradeildina að ári. Það er varla hægt að biðja um meiri hvata en það!

16 Comments

  1. Magnaður sigur ! Gefa Nat samning til 5 ára, þvílík barátta hjá honum, annað en það var að sjá frá fyrirliðanum. Af hverju er maður sem er að fara fyrirliði ? KLOPP ? Nat maður leiksins !

    11
  2. Vel gert!
    Áfram gakk.
    Nat maður leiksins án nokkurs vafa, hvað hann hefur stigið upp og axlað ábyrgð!

    9
  3. Frábær sigur og Liverpool er það lið sem er í besta formi deildarinnar eins og er.
    Við ætlum og verðum að klára næsta leik og tryggja okkur í topp 4 og meistaradeild á næsta tímabili.
    Af þessum leikjum sem að Liverpool, chelsea og Leicester eiga eftir þá erum við í betri málum en hin liðin.
    Við erum á heimavelli með 10.000 brjálaða scousera á vellinum að öskra liðið áfram en chelsea eiga erfiða Villa menn með Grealish í liðinu og Leicester eiga Spurs eftir sem mega alls ekki tapa því þá detta þeir úr evrópusætinu.
    En þetta er alls ekki gefið, við getum tekið 3 sætið rétt á eftir united og endað tímabilið á ótrúlegan hátt,
    eða við getum dottið niður í sæti og tímabilið hálfónýtt.

    5
  4. Hver hefði trúað því í lok Mars að við værum á þessum stað. Að fara á Anfield með áhorfendur í 4.sæti á móti crystal palace og þurfa bara sigur ?.
    Nú er það bara að klára palace, Leicester að vinna Tottenham og Aston Villa vinnur Chelsea þá fáum við þriðja og Leicester fjórða

    13
  5. Nat Phillips að troða vöðlum með ullarsokkum utan á ofan í Magga og Steina eftir síðustu hlaðvörp – Ryan Williams var engu síðri og þetta er í höndum LFC fyrir lokaleikinn.

    12
  6. Sælir félagar

    Takk fyrir Nat, Thiago, Firmino og Ox. Takk fyrir lika allir hinir og Klopp og aðeir sem vinna með liðinu og styðja það Takk

    Það er nú þannig

    YNWA

    7
  7. Nat the cat er heldur betur að stíga upp þessa dagana. Frábært tímabil fyrir hann!

    3
  8. Takk fyrir frábæran sigur. Það verður gott að taka þetta góða form inn í næsta tímabilið og þá með flesta heila! Meiriháttar góður sigur!

    4
  9. vonin lifir, crystal palace eru ekki auðveldir en að vera með áhorfendur á anfield gæti blásið nýju lífi í liverpool, hafa mannskap til að peppa sig áframm.

    hreinn úrslitaleikur um helgina.

    3
  10. “…og Nat Phillips skallaði boltann í netið með skalla sem Alisson hefði verið stoltur af.”

    Epísk setning 🙂

    Hlakka til að sjá lokaleikinn og hef trú á að þetta hafist en að spennustigið verði hátt. 12. maðurinn kemur okkur alla leið.

    Btw. Nýji búningurinn lúkkar.

    2
  11. Úff þetta reyndi á taugarnar, of mikið miðað við endanlega markatölu.
    Kunnuglegt taugastríð sem að maður var orðin vanur síðustu 3 ár að sleppa við.

    En frábær úrslit og nú er bara að kveðja Roy H. með virktum og þakklæti fyrir ekkert sem hann gerði fyrir okkur og tryggja okkur sæti í deild þeirra bestu.

    YNWA

    7
  12. Glæsilegur og öruggur sigur. Menn stíga upp hægri vinstri þegar á reynir. Ef ég tel rétt þá hefur okkar lið ekki tapað 9 síðustu leikum í deildinni (7 sigrar, 2 jafntefli) og 23 stig. Að vera bara að berjast á topp fjórum miðað við þetta sýnir hve slaki kaflinn í vetur var ofsalega slakur, réttara sagt ónýtur með öllu. Frábært nú í lokin að stinga upp í þá sérfræðinga sem upp á síðkastið hafa sagt að okkar lið sé of fyrirsjáanlegt og með of slaka miðverði til að ná 4. sætinu eftirsótta. Ekki er það mikil virðing gagnvart andstæðingum Liverpool sem lotið hafa í gras gegn okkar liði og alls ekki vegna þess hve slakir þeir voru. Vel getur farið svo að Liverpool endi fyrir utan CL en sénsinn er þó allavega til staðar fram í síðasta leik. Það gerir mótið bara enn skemmtilegra. Svona í framhjáhlaupi, og án þessa skemma nokkuð ánægjuna yfir CL titlinum sl vetur, þá fannst mér síðasti fjórðungur mótsins það tímabil frekar dapur. Yfirburðir Liverpool voru bara einfaldlega of miklir til að einhver spenna væri.

    8
  13. Flottur sigur á spræku Burnley liði , ekki hægt að biðja um meira, liðið sýndi hversu mikið þeim langar í þetta CL sæti. Uxinn sýndi framherjunum að það er í lagi að skjóta á ramman, Nat spilaði eins og VVD á góðum degi og eina sem ég græt er að Salah skyldi ekki nýta eitthvað af þessum færum eða hálffærum sem hann fékk til að taka markakóngstitilinn en það verður að gefa miðvörðum Burnley credit fyrir flotta takta og tæklingar. Komið með næsta lið takk og ljúkum þessu með sóma

    2
  14. Erum við að tala um að Roy Hodgeson komi Liverpool í meistaradeildina 🙂

    7
  15. Nuno að hætta með Úlfana. Hann skyldi þó ekki vera á leiðinni til Tottenham?

Byrjunarliðið gegn Burnley

Lokaleikur tímabilsins: Hodgson mætir í síðasta skiptið á Anfield