Lokaleikur tímabilsins: Hodgson mætir í síðasta skiptið á Anfield

Það er nú fallega gert af Liverpool að vera í þeim fámenna hópi sem hefur að einhverju að keppa í lokaumferð ensku deildarinnar vorið 2021, því það þýðir að við fáum einhverja spennu alveg fram á síðustu stundu. Megnið af úrslitum hafa ráðist: við vitum að eitthvað sykurpabbalið vinnur deildina, við vitum hvaða lið endar í 2. sæti, og við vitum hvaða lið falla. Það er ennþá ögn óljóst hvaða lið taka 3. og 4. sæti deildarinnar, og eins eru sæti í Evrópudeildunum tveim ennþá óráðin.

Semsagt, liðin í neðri hluta deildarinnar hafa að afskaplega litlu að keppa, nema hugsanlega gæti orðið einhver smá munur á peningaupphæð í verðlaunafé, en annars eru sjálfsagt margir leikmanna þessara liða farnir að olíubera sólstólana fyrir sumarið. Andstæðingar Liverpool í þessum síðasta leik, Crystal Palace, eru vissulega eitt þessara liða í neðri hluta deildarinnar. En þó er eitt sem gæti spilað inn í hversu mótíveraðir leikmenn verða á sunnudaginn, og það er sú staðreynd að Roy Hodgson er búinn að gefa út að hann hætti sem stjóri CP eftir þetta tímabil og muni svo setjast í helgan stein. Þetta gæti alveg verið hvatning fyrir leikmenn Palace að standa sig, þó það hafi reyndar ekki hjálpað mikið í síðasta leik Roy á Selhurst Park, þar sem Arsenal vann 1-3.

Sætin sem eru í boði

Förum aðeins yfir það hvaða sæti eru í boði og hvaða reglur gilda um t.d. sæti í Meistaradeildinni. Það er 100% öruggt að 4. sætið gefur sæti í meistaradeildinni, jafnvel þó Chelsea verði í 5. sæti en vinni svo City í úrslitaleiknum. Eini möguleikinn á því að 4. sætið hefði EKKI gefið sæti í Meistaradeildinni hefði verið ef Arsenal hefði unnið Villareal í undanúrslitum Evrópudeildarinnar, og hefði svo unnið United í úrslitaleiknum, ásamt því að Chelsea hefðu unnið City í CL en lent í 5. sæti í deildinni. Í því tilfelli hefðu Chelsea og Arsenal komist í CL út á að vinna sínar keppnir, en væru bæði fyrir utan topp 4. Þar sem England má að hámarki senda 5 lið í CL, þá hefði 4. sætið dottið út. En það er engin hætta á þessu lengur.

Síðan eru það Evrópudeildirnar tvær: Europa League og Europa Conference League. EL gefur tvö sæti: fimmta sætið, og svo liðið sem vinnur FA bikarinn. Ef bikarhafinn er nú þegar í CL eða EL, þá fer liðið í sjötta sæti deildarinnar í EL í staðinn. Eitt sæti er í boði í ECL: liðið sem vinnur Framrúðubikarinn/MikkaMúsBikarinn/hvaðsvosemmennviljakallakvikindið. Og sama gildir þar: ef það lið er nú þegar komið í eitthvað af þessum keppnum (CL/EL), þá er það liðið í sjöunda sæti sem fer í þá keppni.

Eins og staðan er í dag myndu Leicester og West Ham fara í EL, og Tottenham færu í ECL. Tottenham geta þó hirt EL sætið af West Ham með sigri á Leicester í síðasta leik, og vonað að West Ham tapi gegn Southampton. Þetta myndi að sjálfsögðu hjálpa okkar mönnum sem þyrftu þá endanlega ekki að hafa neinar áhyggjur af því að komast í CL, því tap Leicester myndi tryggja það (OK, það er lygi, því okkar menn þyrftu að passa að skíttapa ekki gegn Palace). Ef bæði Leicester og Liverpool gera jafntefli þá komast okkar menn áfram, og ef bæði lið vinna en Leicester vinna EKKI upp þetta fjögurra marka forskot sem Liverpool er með í markamun, þá fer Liverpool í CL en Leicester í EL. Spurs gætu misst Everton fram fyrir sig ef Everton ná betri úrslitum í sínum leik gegn City heldur en Spurs gegn Leicester, eigum við ekki að segja að Spurs hafi bara að heilmiklu að keppa?

Semsagt, Liverpool stýrir örlögum sínum nokkurnveginn sjálft. Ég segi “nokkurnveginn”, því auðvitað er sá möguleiki fyrir hendi að Leicester rúlli yfir Tottenham, og þá þyrftu okkar menn að hugsa um markatöluna. En það er þó þannig að ef Liverpool vinnur Palace 1-0, þá verða Leicester að vinna Tottenham 5-0 til að komast upp í 4. sætið, þá á fleiri mörkum skoruðum heldur en Liverpool.

Nýji búningurinn

Í vikunni var kynntur búningurinn sem Liverpool mun nota á næstu leiktíð, og samkvæmt venju mun liðið nota þann búning í síðasta leik tímabilsins núna á sunnudaginn. Það eru nokkuð skiptar skoðanir um þennan búning, hann þykir óþarflega líkur búningi Roma, og hefði líklega farið betur að hafa rendurnar hvítar frekar en appelsínugular. En svo má líka vel vera að hér sé tregðulögmálið að verki: tregðan við að breyta. Við verðum sjálfsagt farin að venjast þessum búningi fyrr en varir. Og mikilvægast er auðvitað að hann er rauður.

Síðasti leikur Gini?

Það er ekkert leyndarmál að samningur Gini Wijnaldum við Liverpool rennur út núna í sumar, og það er ekki búið að framlengja þann samning. Gini hefur samt lýst því ítrekað yfir að hann vilji halda áfram að spila fyrir félagið, en vill greinilega fá betur borgað en hann er að fá núna – og það sem meira er: betur borgað en klúbburinn virðist tilbúinn að bjóða honum. Klopp virðist vilja halda í hann, og hefur ekkert gefið út með að þetta sé 100% síðasti leikurinn hans. Hvað þýðir það? Er e.t.v. samningur á borðinu sem er stutt í undirritun? Eða sér Klopp bara fyrir sér að það verði spilaður kveðjuleikur, e.t.v. til styrktar einhverju málefni? Þetta verður bara að koma í ljós.

Okkar menn

Það er lítið að frétta af okkar mönnum; nokkurnveginn sömu menn eru meiddir eins og fyrir síðasta leik, og nokkurnveginn sömu menn leikfærir. Hendo sást á æfingu með strákunum í dag, en það eru litlar líkur á að hann sjáist á leikskýrslu, enda ekki búinn að spila keppnisfótbolta í ansi margar vikur. Það þarf svosem engan sérstakan spámann til að giska á hvernig liðið mun líta út. Stóra spurningin er kannski hvort frammistaða Gini og Fab kalli á einhverja róteringu á miðjunni. Frammistaða Thiago hins vegar, og þá aðallega núna síðustu vikurnar, er orðin slík að hann fer að verða með fyrstu mönnum á blað. Við sjáum mynd:

Það er því ljóst að við erum farin að sjá alltaf meira og meira af þeim Thiago sem keyptur var sl. haust, í sjálfu sér var ekkert óeðlilegt við það að hann þyrfti sinn tíma til að komast í takt við liðið, og hjálpaði heldur betur ekki þegar liðið í heild sinni tapaði taktinum. En nú má segja að hann hafi fundist aftur, og vonandi helst sá taktur fram yfir lokaleikinn. Það er rétt að taka fram að Hendo er hjá honum þarna efst á myndinni, en er ekki merktur sérstaklega þar sem hann er með of fáar mínútur í miðjustöðunni á þessari leiktíð.

Ég spái því að Klopp geri engar breytingar á liðinu frá síðasta leik:

Ég spái því líka að liðið vinni nokkuð sannfærandi sigur, líklega 3-1. Ég spái því líka að ef staðan er nokkuð örugg þegar skammt verður til leiksloka muni einhver kjúklinganna fá sínar fyrstu mínútur í deildinni, hugsanlega Clarkson, kannski Woodburn, eða mögulega Koumetio (sem þó mun líklega spila með U18 í úrslitum bikarsins degi síðar, svo hann er ólíklegri). Spurs og Leicester munu gera jafntefli, og Chelsea munu misstíga sig gegn Villa. Þið reiknið svo bara út hvað það þýðir varðandi lokasæti Liverpool í deildinni.

10 Comments

  1. Flottur pistill Daníel og góð samantekt, takk!

    Næst á dagskrá er að fara yfir alla möntrurnar og hjátrúnna – í hvaða sokkum og nærbuxum var ég í fyrir síðasta leik. Klippa neglur svo ekkert verði nagað á morgun og gera blóðþrýstingslyfin klár!

    Kaldur á kantinn eða tvo og fagna í leikslok! :0)

    YNWA

    10
  2. Það eru tvær útkomur af þessu tímabili.

    1. Við förum nokkuð sáttir í sumarið. Náðum að bjarga meistaradeildarsæti eftir erfiða leiktíð. Það verður smá bjartsýni um að fá Van Dijk, Gomez og Matip aftur inn eigi eftir að gjörbreytta næsta tímabili og með meistaradeildarsæti í vasanum er hægt að styrkja liðið í sumar.

    2. Þetta verður pirrandi sumar. Evrópudeild framundan og þessi leiktíð verður minnst sem einni af þeim mest pirrandi í sögu klúbbsins. Já við höfum staðið okkur oft verr í deildinni en það er eins og við höfum hent heilu tímabili í ruslið með geggjuðu liði. Evrópudeildar seðlar eru ekki eins miklir og meistaradeildar og það verður erfiðara að fá inn góða leikmenn og bjóða upp á fimmtudags leiki.

    YNWA – Ég hef trú á góða hluti og þetta mark hjá Alisson um daginn má ekki verða tilgangslaust í stóra samhenginu heldur eigum við að minnast það sem markið sem var það mikilvægasta í að koma okkur í meistaradeild.

    9
  3. Takk Daníel fyrir góðar útskýringar fyrir mér er þetta einfalt okkar lið þarf einfaldlega sigur og það með í það minnsta tveggja marka mun því èg hef það á tilfinningunni að menn Brendans vilji og muni klára sinn leik og það örugglega með 4-1 sigri þar sem Kane skorar mark Tottenham og setji pressu á Salah um markakóngstitilinn. Sé þó fyrir mér að þetta verði spenna fram á lokamínutur leiksins en Thiago setji tvö á síðasta korterinu og klári 4-2 sigur og vonandi setur Salah hin tvö og skori því flest mörkin í deildinni þetta árið ? En hvað veit ég svo sem ?

    3
  4. Sæl og blessuð.

    Ég hef fulla trú á að sigur vinnist í dag á CP. Þeir röndóttu munu sprikla framan af leik – minnugir niðurlægingarinnar úr fyrri umferð en svo fjarar eljan út enda að engu að keppa. Og nú hafa okkar menn fundið jafnvægi með þann mannskap sem er í boði, vörnin er vissulega brothætt en þeir eiga með góðri aðstoð frá miðjunni að geta minnkað hættuna frá Saha og co. Salah vill bæta við mörkum og fleiri hafa opnað sinn góða reikning.

    Það verður sannarlega sárabót að ná CL titli og setur þetta tímabil vissulega í annað samhengi eftir hörmungarbyrjun á árinu. Það er þó engu að síður blóðugra en orð fá lýst að lenda í þessum óförum, meiðslum, veikindum og auðvitað þögninni á heimavelli – einmitt núna þegar liðið var búið að ná upp þessu ,,momentum” sem hafði verið í uppbyggingu s.l. fimm ár.

    Yfirburðina frá síðasta tímabili hefði mátt mjólka til fulls – óttann sem sigurvegararnir rauðu höfðu skapað meðal andstæðinga, hugarfarsskrýmslin sem unnu leiki með seiglunni, leiðtogana sem voru í mótun í hverri stöðu – það er þyngra en tárum taki að hafa misst þetta niður einmitt þegar hægt var að fara frá frábæru til einhvers enn stórbrotnara.

    Nú stöndum við í þeim sporum að þurfa að byggja upp að nýju. Liðið reyndist brothættara en við héldum, krosstré hafa brugðist og við þurfum í raun talsverða endurnýjun.

    Það verður verk að vinna að koma sér aftur í gang – ógna titlinum og halda dampi í amk tveimur mótum. Til þess þarf nýja lykilleikmenn og vonandi verða þeir keyptir inn í sumar um leið og dýrir meiðslapésar verða sendir á önnur mið!

    4
  5. Sælir félagar

    Okkar menn þurfa einfaldlega að vinna þennan leik. Þá skiptir engu máli hvernig aðrir leikir fara. Það er öruggt að Leicester vinnur ekki með 5 marka mun sem mun þurfa til að Leicester far upp fyrir Liverpool ef Liverpool vinnur sinn leik með einu marki. Aston Villa getur alveg unnið Chelsea á góðum degi og ef Liverpool vinnur sinn leik og Leicester sinn þá verður Chelsea utan meistaradeildar nema þeir vinni M. City í úrslitaleiknum.

    Þannig að mín draumaniðurstaða er að Liverpool vinni C. Palace örugglega, Leicester vinni Tottenham með einu til tveimur mörkum og Villa vinni Chelsea örugglega. Þá verður þetta svona:

    1. – M. City
    2.. – MU
    3. – LFC
    4. – LCFC

    Svo vinnur M. City meistaradeildina og bláa olíuliðið verður að dúlla sér í Evrópudeildinni á fimmtudögum og allir hamingjusamir. Sá árangur sem Liverpool næði í þessum draumi mínum eftir allar hörmungar liðinnar leiktíðar væri þá ótrúlegur og má fullyrða að ekkert lið annað næði svona árangri með 20 miðvarðarpör á einni og sömu leiktíðinni. T. d. MU hefur dalað gríðarlega mikið við það eitt að missa “Þann dýrasta” núna nokkra leiki svo dæmi sé tekið. Vonandi verður OGSvo? með MU áfram sem lengst.

    Það er nú þannig

    YNWA

    4
  6. Vinna úrslitaleikinn í dag? Í sannleika sagt, ég veit það ekki. CP ætlar ekki að tapa 7-0, og koma þeir pressulausir og í hefndarhug. Þetta verður ekki auðvelt, hvernig mæta okkar menn mótiveraðir eftir stórsigur síðast og með áhorfendur, munu þeir halda að þetta verði auðvelt? Bananahýði.
    Ég vona.

    1
  7. Hef ekki trú á öðru en að við vinnum þennan leik, menn hljóta að gefa allt í leikinn.
    Er meira að segja bjartsýnn á að þriðja sætið verði loka niðurstaðan þrátt fyrir hörmungar meiðslatímabil.
    Brjálaðir aðdáendur munu öskra sig hása í dag og það mun svo sannarlega hjálpa.
    YNWA

    2

Burnley 0 – 3 Liverpool – Vonin lifir!

Byrjunarliðin í lokaleiknum vs. Crystal Palace á Anfield