Leeds 0-3 Liverpool

Liverpool vann öruggan 3-0 sigur á Leeds sem hefði átt að vera miklu stærri en það. Liverpool spilaði leikinn frábærlega, stjórnaði öllum þáttum fótboltans, óð í færum og hefði átt að skora meira. Fótbrot Harvey Elliott eftir tæklingu leikmanns Leeds, sem fengu að komast upp með ansi mikið hjá dómara leiksins, setur hins vegar svartan blett á þennan annars frábæra sigur.

Alisson og Fabinho fengu að spila með Liverpool í dag eftir að FIFA og brasilíska knattspyrnusambandið ætlaði að meina brasilískum leikmönnum sem leika í ensku deildinni að spila því liðin meinuðu þeim að fara í landsliðsverkefni vegna Covid faraldurs í Brasilíu. Þeir byrjuðu leikinn, Thiago byrjaði sinn fyrsta leik og Elliott byrjaði sinn þriðja leik í röð.

Liðin byrjuðu leikinn af krafti og ljóst að það stefndi í hraðan og opinn leik um leið og hann hófst. Bæði lið náðu að fá hálf færi strax í upphafi leiks en fyrsta alvöru færið kom á 15.mínútu eða svo þegar frábær sending Salah endar hjá Jota sem tekur boltann á kassan en nær ekki nógu góðu skoti á markið. Skömmu síðar er leikstjórnandinn Matip að dandalast í kringum vítateig Leeds, hann þræðir boltanum inn á Trent sem keyrir inn af vængnum og leggur hann fyrir Mo Salah sem skorar flott mark. Verðskuldað fyrsta mark Liverpool í leiknum og Salah hafði verið alveg frábær í upphafi leiksins.

Það sem af lifði fyrri hálfleik þá var Liverpool stöðugt að ógna marki Leeds, komust í góð færi en tókst bara ekki að koma boltanum í netið og ná þessu mikilvæga öðru marki. Salah átti reyndar geggjaða fyrirgjöf á Thiago sem stangaði hann í netið en því miður var það dæmt af því Salah hafði verið rangstæður í aðdragandanum.

Liverpool hefði átt að vera meira yfir og Leeds í raun alveg getað verið manni færri þegar liðin héldu til hálfleiks en svo var ekki raunin. Það var alveg sama formúla í seinni hálfleik, Liverpool stýrði leiknum, Leeds komst ekki lönd né ströng, Liverpool skapaði færin og dómari leiksins leyfði Leeds að komast upp með það sem þeir vildu þegar kom að því að brjóta á leikmönnum Liverpool.

Loksins tókst Liverpool að skora aftur þegar Fabinho skoraði eftir að hornspyrna rataði á kollinn á Van Dijk sem barst svo til Fabinho sem tók boltann niður og skaut honum í netið. VAR gerði sitt besta til að ætla að taka það mark af þar sem að Mane stóð víst innan 10 metra frá markverðinum þegar Fabinho skaut en réttilega fékk það mark að standa.

Liverpool var að undirbúa skiptingu á 60.mínútu, líklega var Harvey Elliott að fara út af fyrir Jordan Henderson. Boltinn berst upp kantinn til Harvey Elliott sem er straujaður niður af leikmanni Leeds og sá maður ökklann hangandi niður í sokknum hans, Salah stóð við atvikið og viðbrögð hans voru á þá leið að þetta væri slæmt og var sjúkrateymi Liverpool mætt inn á völlinn löngu áður en leikurinn var stoppaður. Á viðbrögðum þeirra sem voru nálægt þessu þá var þetta slæmt og enn eitt brotið sem dómari leiks ætlaði að leyfa Leeds að komast upp með en hann dæmdi ekki einu sinni aukaspyrnu á þetta. Þeir í VAR herberginu náðu þó að grípa inn í og segja honum að veita leikmanni Leeds beint rautt spjald. Harvey Elliott var borin út af og skelfileg meiðsli fyrir þennan efnilega og frábæra leikmann sem var greinilega orðinn alvöru leikmaður í þessu Liverpool liði. Klopp segir að ökklinn hafi dottið úr lið en ekki brotnað sem er vonandi skárra af tvennu slæmu og vonum við að hann verði mættur aftur á völlinn fyrr en seinna.

Skiljanlega kom smá óróleiki í leik Liverpool sem voru í hálfgeru losti fyrstu mínúturnar eftir þetta. Leeds héldu áfram að tækla og náðu aðeins að ógna Liverpool sem svaraði þó í sömu mynt og fengu nokkur ansi góð færi, þá sérstaklega Sadio Mane en boltinn bara ætlaði ekki inn hjá honum!

Í sínu tíunda skoti í dag náði Mane hins vegar loksins að skora þegar hann tók við sendingu frá Thiago þegar hann snéri bakinu í markið, náði góðum snúning og þrumaði boltanum niður í fjærhornið. Verðskuldað mark hjá Mane sem þurfti gífurlega á því að halda. Hann hafði verið frábær í öllu nema því að klára færin sín í dag og með réttu hefði hann átt að skora fjögur í dag.

Þar við sat og Liverpool vann góðan 3-0 sigur og líta bara ansi vel út í upphafi leiktíðar en þó þannig að manni finnst þeir enn eiga töluvert inni sem boðar vonandi bara gott.

Van Dijk og Matip voru mjög öflugir í vörninni, bakverðirnir og þá sérstaklega Trent fannst mér. Framlínan var frábær, hápressan hjá þeim og færasköpunin var til fyrirmyndar. Þeir hefðu allir getað og mögulega átt að skora fleiri mörk. Mane var rosalega líflegur og komst í svo mörg færi en gekk illa að klára þau, Salah var frábær og skoraði mark en hefði í raun líka átt og getað fengið tvær geggjaðar stoðsendingar í dag. Elliott var líflegur en á tíma gekk honum pínu brösulega að klára metnaðarfullar sendingar sem komu liðinu í tvö eða þrjú skipti í pínu óþægilega stöðu.

Menn leiksins, ásamt Salah, eru klárlega Fabinho og Thiago sem voru frábærir á öllum sviðum í dag. Þeir vörðust fáranlega vel, stjórnuðu spilinu á miðjunni og tæknilega séð skoruðu þeir báðir góð mörk. Thiago lagði upp mark Mane og Fabinho skoraði annað markið. Þeir voru frábærir og eru svo ógeðslega góðir miðjumenn. Get ekki gert upp á milli þessara þriggja, þið getið valið sjálf einn þeirra ef þið viljið.

Næsti leikur er AC Milan í Meistaradeildinni í miðri viku og svo heimaleikur við Crystal Palace um næstu helgi.

27 Comments

  1. 3 stig og sterk frammistaða. Meiðsli Harvey Elliot er það sem skyggir á leikinn. Vonandi er brotið “hreint” og vonandi verður hann komin tilbaka sem fyrst. Fjórir leikmenn meiddir og það eru bara búnir 4 leikir. Það verður okkur dýrkeypt að hafa ekki bætt við einum sóknarmanni í glugganum.

    10
  2. Frábær sigur en skelfilegt að missa Harway Elliot út í langan tíma með ljót meiðsli, vonandi kemur hann sterkur til baka.
    En liðið var flott í dag og virkilega verðskuldaður sigur sem hefði alveg getað verið stærri.
    Þetta Leeds lið á eftir að taka stig af stóru liðunum en það tókst sem betur fer ekki í dag.

    4
  3. Skyldusigur gegn döpru liði Leeds, og það nokkuð sannfærandi. 3-0 er flott og markvörður okkar bjargaði nokkrum auka fantasy stigum í lokin. Hræðileg meiðsli hjá Elliot, fjarvera stráks á þessum aldri getur hamlað þróun ferilsins meira en ég þori að viðurkenna.
    YNWA

    3
  4. Sæl og blessuð.

    1. Gefum upp á bátinn bikarkeppnina. Sendum U18 liðið í leikina og pælum ekki meira í þeim díl.
    2. Kaupum alvöru mann í janúar – helst tvo: miðju- og sóknarmann.
    3. Mané þurfti á þessu marki að halda … en mmmmmaður minn hvað hann er óklínískur. Eigingirnin og flumbrugangurinn í drengnum – hefði getað gefið á dauðafría samherja oftar en einu sinni og tvisvar en kaus að dúndra honum.
    4. Chambo er óralangt frá því sem hann var þegar hann var upp á sitt besta. Skelfilegt að sjá hann þegar hann mætti gegn 10 manna andstæðingi. Sá þarf að sanna sig.
    5. Elliot … nú bíðum við í ofvæni eftir fréttum. Var það ofdirfska að tefla fram 18 ára leikmanni leik eftir leik eftir leik???

    4
  5. Tókuð þið eftir því að Origi var ekki á bekknum?

    Firmino meiddur, Taki meiddur, Origi gufaður upp, Ox ryðgaður eins og skipsflak á Snæfellsnesi og Harvey Elliott stórslasaður. Þrír menn í sókn næstu vikurnar. Takk fyrir.

    Þetta lítur hrikalega illa út.

    11
  6. Þetta var flottur sigur en meiðsli Elliot settu dökkan skugga á hann. Sem betur fer er breiddin mikil á miðsvæðinu. Það voru t.d fjórir miðjumenn á varamannabekknum í þessum leik en engu að síður hörmuleg tíðindi að okkkar allra efnilegasti leikmaður, sem byrjaði þessa leiktíð með miklum glæsibrag, sé líklega kominn á sjúkrabörunnar út alla leiktíðina.

    Mér finnst þetta Leeds mjög sterkt og skemmtilegt lið. Það er hvergi bangið og áttu þónokkuð af færum og hálffærum í þessum leik. Mér þótti miður hve oft Bamford komst í hlaup inn í svæði á milli Van Dijk og Matip og var oft ansi líklegur til að komast í dauðafæri. Mér finnst þetta lið vel spilað og er nokkuð viss um að þeir geti verið fyrir ofan topp 10. Það er fullt af gæðum í þessu liði og þónokkuð að leikmönnum sem ég gæti vel trúað að Liverpool sé með undir ratarnum enda spila bæði þessi lið blússandi sóknarbolta.

    2
  7. Talað um að Elliott hafi farið úr lið á ökkla svo hann spilar alla vega ekki meira á þessu ári

    2
  8. https://www.youtube.com/watch?v=Pnf_Xnx09wI&ab_channel=WesleyGamesBr

    Lítur hræðilega illa út maður veit ekkert hvort ökklinn komi til baka úr þessu 100% eða hvað gerist og að missa út líklega 9-12 mánuði af æfingum og spilatíma þegar maður er 18 ára er virkilega slæmt og skemmir mikið af því sem maður á að vera að læra og bæta á svona mikilvægum tímapunktu á ferlinum. Ekkert smá sorglegt og verðum bara að vona hið besta. YNWA

    2
  9. Besti maður leiksins var Fabinho, Henderson lélegur og sama með Uxan, aðrir leikmenn Liverpool frábærir, það sem liðinu vantar er að skora úr þeim færum sem við fáum. Vonandi nær Elliott sér fljótt og vel.

    6
  10. Þetta var frábær sigur og mjög verðskuldaður. Meiðslin eru hræðileg og ég segi aftur að þegar menn fara aftan í og skapa svona skaða að þá eiga þeir að fá alvöru bann. Svona þarf að stoppa! Ef menn kunna ekki að tækla þá eiga þeir að gjalda þess ef þeir eyðileggja aðra leikmenn. Maður krossar bara fingur um að Elliot komi til baka innan 12 mánaða eins flottur og hann var núna. Hræðileg meiðsli og ekki virðist tímabilið okkar byrja vel hvað þau varðar.

    Áfram gakk og sem betur fer erum við með besta þjálfara heimsins við stýrið en ekki einhvern pappakassa.

    13
    • Algjörlega sammála þér, Svavar, með tæklingar sem stórslasa leikmenn. Það ætti að vera amk. 5, ef ekki 10 leikja bann fyrir svona lagað.

      Munið þið þegar Suarez fékk 10 leikja bann fyrir að narta í öxlina á leikmanni? Og hvað fær Struijk fyrir að taka (sennilega) heila leiktíð af Elliott? Eins leiks bann?

      Grrr!!!

      8
      • Ég er alveg hlynntur því að leikmenn sem stórslasa aðra leikmenn fari í lengri bönn enn tíðkast! Ég viðraði þessa skoðun mína eftir Virgil var klára af Dickford í fyrra að hann ætti að fara í langt bann! enn rökin voru samt þetta var slys..Þetta var óviljaverk hjá Dickford og þetta sé partur af leiknum! Menn taka áhættu að spila leikinn upp á meiðsli og þvíumlíkt! Enn engu að síður þarf stundum að vernda leikmenn meira enn gert Mane hefði getað lend í sömu meiðslum nánast copy paste tækling á hann 15-20 mins síðar minnir mig. Tæklingar hafa alltaf verið hluti af leiknum eins og menn segja og því miður þá munu margir lenda á sjúkralistanum áður enn eitthvað verður gert! Það er nóg að horfa á sögu síðustu 20 ára til sjá hvaða leikmenn hafa farið illa út úr meiðslum eftir tæklingar enn þetta er víst partur af leiknum því verr og miður :/

        1
  11. Mér er sama um stiginn 3. Allur minn hugur er með Harvey Elliot þessa stundina. Ég átti erfitt
    Að horfa á restina af leiknum þrátt fyrir fína frammistöðu vonandi jafnar drengurinn sig sem allra fyrst.

    15
  12. Algjörlega ömurlegt. Úrslit góð eða slæm hverfa úr huga manns þegar svona gerist. Megi hinn stórefnilegi Harvey Elliott jafna sig hratt og örugglega. Maður liggur á bæn. YNWA.

    6
  13. Er þetta ekki bara það sem koma skal í enska boltanum eftir að hálfvitarnir í FA ákvaðu að dómarar ættu að leyfa meiri hörku.
    Ég skil ekki svona dómgæslu að leyfa tuddaliðum að njóta vafans frekar en léttleikandi skemmtilegum liðum.
    Þetta verða ekki fyrstu langtímameiðsli leikmanna í deildinni, hvort það sé LFC eða einhver önnur lið.

    8
  14. Fyrir utan þetta ömurlega atvik. Mikið var þetta skemmtilegur leikur á frábærum Elland Road. Leeds mætir til að spila fótbolta og áhorfendur mættir til að styðja við bakið á sínum mönnum, og það hentar okkar liði mjög vel.

    Ég var ánægður með Mane í þessum leik. Og ánægður með að Klopp hafi haldið honum inn á til loka. Hann varð bara að fá að skora þetta mark. Held þessi leikur hafi gert honum gott.

    Ég var hinsvegar ekki jafn anægður með Hendarson. Hann virðist eiga langt í land. Virkaði bara ekki tilbúinn í 30 mínúta bolta og það einum fleiri. Liðið má ekki við meiðslum.

    Næsti leikur AC Milan og svo Palace sem litu ekki illa út gegn Tottenham. Mér fannst þeir skemmtilegir og ég býst við hörkuleik þar. Þetta er svo gaman þegar Liverpool er að vinna leikina. Höldum okkur þar!

    8
  15. Sælir félagar

    Meiðsli Elliot setja dimman skugga yfir þennan annars skemmtilega leik. Vonandi nær hann sér að fullu en það verður bið á að við sjáum hann aftur á vellinum því miður. Minn maður þessa leiks var Thiago. Loksins fær maður að horfa á þessi afburðagæði sem hann hefur yfir að ráða. Hvílíkur knattspyrnumaður sem hann er. Salah og Fab líka frábærir sem og Elliot.

    Það þarf ekki að ræða um öftustu 5, allir mjög góðir. Mané gafst ekki upp og náði að lokum marki en anzi þurfti hann mörg dauðafæri til. Mér fannst Jota slakur og Uxinn var skelfilegur þegar hann kom inná. Það var erfitt fyrir Hendo að koma inn í stað Elliot en hann náði sér og komst vel inn í leikinn að lokum. Liðið hefði að sönnu átt að skora 4 – 5 mörk í viðbót en þetta dugði.

    Það er nú þannig

    YNWA

    6
  16. Vonandi jafnar Elliott sig fljótt og vel og nær fullum bata en ég get ekki tekið undir það að þetta hafi verið grófur leikur hjá Leeds, þeir brutu vissulega oft af sér og fengu réttilega gul spjöld fyrir það en mest fyrir peysutog og svoleiðis brot.
    Það var einfaldlega slys að Elliott skildi slasast svona ýlla.

    1
  17. Ég held að það væri hægt að gera margt vitlausara en að skera upp herör gegn þessum hættulegu tæklingum sem valda margra mánaða meiðslum.

    Ein leið sem velt hefur verið upp er að láta þann leikmann sem veldur meiðslunum í jafnlangt leikbann eins og meiðslin vara.

    Önnur útfærsla væri sú að liðið sem tapar leikmanni í langtímameiðsli megi velja einn leikmann úr leikmannahópi þess liðs sem olli meiðslunum. Svo væri það útfærsluatriði hvort sá leikmaður myndi einfaldlega spila fyrir þetta tímabundna lið sitt (kannski vafasamt að sá leikmaður verði mótíveraður til að spila fyrir andstæðingana), eða fylgjast með af hliðarlínunni.

    Þetta kæmi vonandi í veg fyrir að lélegur leikmaður valdi meiðslum hjá besta manni andstæðinganna, því þá ætti “árásarliðið” á hættu að missa sinn besta mann í stað leikmannsins sem varð valdur að meiðslunum.

    7
    • “megi velja einn leikmann úr leikmannahópi þess liðs sem olli meiðslunum”

      Aldrei heyrt annað eins rugl. Burt séð frá því þá verð ég að segja að mér finnst fótboltinn miklu miklu skemmtilegri á þessu tímabili. Leikurinn fær að fljóta og smá meiri harka er í flestum tilfellum bara skemmtilegri. Eins finnst mér VAR talsvert skárra núna. Og stemmningin á Elland Road í dag var frabær. Þeir voru orðljótir en ég er að njóta þess að horfa á fótbolta aftur. Þetta var slys í dag og algjört óviljaverk hjá Struijk, hann er pottþett ónýtur yfir þessu. Pickford slapp hinsvegar allt of vel frá sinni árás.

      Kannski verður þetta til að FSG pæli í janúarkaupum. Það væri gaman.

      8
    • Ég skil þessa hugsun en finnst þetta ansi miklar tilfærslur. Ég vil a.m.k. að leikmenn sem eyðileggja marga mánuði fyrir öðrum (jafnvel ár) eigi að fá alvöru refsingu. Við lifum ekkert lengur á tímum keane’s og ruddock’s þar sem menn voru gerðir að hetjum fyrir að kála andstæðingum. Ég vil helst að brotlegi leikmaðurinn fylgi hinum meidda í tímarammanum. Fékk velgju að sjá pigford bregða fyrir annað slagið í fyrra á meðan VVD var í sjúkraþjálfun í marga mánuði.

      4
      • Það á að sleppa leikmanni Leeds við bann. Elliot segir sjálfur að samstuðið var slys og ekki hefði átt að gefa rautt spjald.

        1
  18. Fékk einhver annar gæsahúð þegar Mané fagnaði markinu sínu? Ég hef ekki séð þessar tilfinningar í langan tíma. Augljóslega mikilvægt fyrir hann að skora og hann veit það manna best að hann hefur ekki verið uppá sitt besta. Ég held að með tímanum muni hann fara sýna betri frammistöður og sá held ég að verði í stuði þegar líða fari á og við syncum betur. Fagna þessari greddu og það mun sannarlega styrkja okkur að hafa hann og Salah í stuði.

    8
  19. Mjög góð frammistaða flestra og mjög góður sigur. Að sjálfsögðu skelfilegt að sjá þessi meiðsli hjá Elliot en þetta nánast lá í loftinu að eitthvað svona gæti gerst því það virðist vera sem það sé búið að skipa dómurum að leyfa meiri hörku en hefur tíðkast síðustu árin ? Vonbrigðin að mínu mati er að Uxinn virðist eiga langt í land og virkaði bæði drullustressaður og út úr stöðu, vonandi eitthvað sem lagast með meiri spilamennsku. Tökum þrjú stig og áfram gakk.

    3
  20. Ég held að það verði að gera eitthvað til að skora úr dauðafærunum. Ótrúlegt að sjá copy paste frá í fyrra þegar liðið gat bara ekki skorað. Komst ekki í gegnum varnamúrana og ekki nokkur maður sem getur skorða utan vítateigs. Ótrúlegt. Skil ekki hvað uxinn er að gera ennþá með liðinu. Kanski væri hægt að selja 2 fyrir einn (uxann og Origi). Hefðum unnið Chelsea ef canonurnar væru rétt stilltar.
    Mane no comment.

    2

Liðið gegn Leeds

Gullkastið – Svartur blettur á góðum sigri