Mörkin
0-1 Minamino (4. mín)
0-2 Origi (50. mín)
0-3 Minamino (80. mín)
Gangur leiksins
Það voru ekki liðnar margar mínútur af leiknum þegar fyrsta markið var komið í hús, og rétt eins og í leiknum á laugardaginn kom það eftir hornspyrnu frá Tsimikas. Origi skallaði boltann niður fyrir lappirnar á Minamino sem klobbaði markvörðinn. Gott mark og gaman að sjá Taki opna markareikninginn þetta haustið. Liverpool átti svo meira í leiknum næstu 25-30 mínúturnar eða svo, en svo fóru Norwich að sækja meira. Þeir áttu nokkrar hættulegar sendingar inn fyrir, en Caoimhín “Sweeper-keeper” Kelleher var duglegur að hlaupa út úr teignum og sparka eða skalla boltann í burtu. Þegar um 5 mínútur voru eftir fengu Norwich hins vegar gullið tækifæri til að jafna. Þeir áttu hraða sókn sem endaði með skoti vinstra megin fyrir utan teiginn. Kelleher varði en boltinn barst aftur út í teig þar sem leikmaður Norwich var á auðum sjó. Hann náði reyndar ekki nægilega góðu valdi á boltanum, en Conor Bradley hjólaði klaufalega í hann og gaf frekar ódýra vítaspyrnu. Kelleher gerði sér hins vegar lítið fyrir og varði vítaspyrnuna, giskaði á hægra hornið frá sér séð en skildi lappirnar eftir á miðjunni sem var eins gott því þangað setti Tzolis boltann. Eftir smá japl, jaml og fuður í teignum þar sem Gomez blokkeraði tvisvar, þá náðu okkar menn að hreinsa og áttu meira að segja hættulega sókn í kjölfarið, sem ekkert varð úr.
Staðan 0-1 í hálfleik, og algjörlega sanngjarnt þó vissulega hafi verið smá heppnisstimpill yfir því að halda búrinu hreinu.
Tyler Morton kom inná í hálfleik fyrir Keita sem fékk víst eitthvað spark í fyrri hálfleik, en verður vonandi ekki frá nema í mesta lagi 3-4 mánuði (vonandi er þetta bara grín). Síðari hálfleikur hófst svo eiginlega alveg eins og sá fyrri. Tsimikas fékk þá boltann uppi í vinstra horni leikvallarins, gaf fyrir beint á kollinn á Origi sem stýrði boltanum af öryggi í fjærhornið. 0-2 og hér fékk maður á tilfinninguna að þetta væri svona að mestu komið. Robbo kom svo inn á fyrir Tsimikas á 65. mínútu, og svo í lokin fékk Hendo nokkrar mínútur í stað Jones sem hafði staðið sig mjög vel. Áður en það gerðist náði Taki að pota inn öðru marki eftir að hann og Ox prjónuðu sig snyrtilega í gegnum vörnina og Taki renndi boltanum afar smekklega í nærhornið, og gulltryggði þar með sætið í 16 liða úrslitum.
Bestu/verstu menn
Það voru eiginlega ekki margar neikvæðar hliðar á spilamennsku liðsins í dag. Einna helst að Ox ætti pínku erfitt, við vitum öll hvað hann er fær um en stundum er eins og hann sé að reyna aðeins of flókna hluti. Hann fær þó skráða á sig stoðsendingu svo ekki var þetta alslæmur dagur, og sjálfsagt vantar hann bara fleiri mínútur í lappirnar. Conor Bradley gaf líka víti, og augljóst að þetta er ennþá talsvert hrár leikmaður, en töluverð gæði þarna engu að síður. Minnir um margt á Neco, en munum að þetta er bara 17 ára pjakkur og það er ekkert útilokað að með réttri þjálfun hjá besta knattspyrnustjóra heims gæti hann þróast í gott backup fyrir Trent í þessari stöðu. Svo hljómar kannski öfugsnúið að kvarta yfir leikmanni sem átti mark og stoðsendingu, en það glittir nefnilega stundum í öll gæðin sem býr í Divock Origi og því alltaf smá pirrandi að sjá ekki öll þessi gæði almennilega á stóra sviðinu.
En þá er líka búið að kvarta meira en nóg, því liðið í heild sinni var bara að spila alveg glimrandi. Kelleher sýndi svosem að hann er ekki á sama plani og Alisson (sbr. skotið sem hann varði út í teig), en þetta er samt flottur markvörður, á fullt erindi í að vera markvörður nr. 2 og á að fá bæði þessa deildarbikarleiki og jafnvel fleiri. Hann virðist líka henta Liverpool mjög vel. Jú og hann náði jafn mörgum vítaspyrnuvörslum í þessum leik eins og De Gea hefur gert síðan árið 2016. Miðverðirnir voru virkilega öflugir, Konate er svoddan naut og Gomez er smám saman að finna upphaflegt form. Einstaka sinnum á hann það til að detta úr línunni og spila menn réttstæða, en það kom ekki að sök í kvöld, og hann bjargaði líklega marki eftir vítavörsluna hjá Kweev. Tsimikas sýndi enn og aftur gæðin sem hann býr yfir í fyrirgjöfum og hornspyrnum, það er langoftast þannig að hornspyrnurnar hans skapa usla fyrir framan markið á meðan bæði Robbo og Trent eiga það til að setja boltann á fyrsta varnarmann. Ótrúlega hughreystandi að vita að vinstri bakvarðarstaðan skuli vera svona vel skipuð með þessa tvo. Miðjan var allt í lagi í fyrri hálfleik, þá sérstaklega Jones, og í seinni hálfleik kom Tyler Morton gríðarlega sterkur inn. Ótrúlega yfirvegaður leikmaður, virðist alltaf finna samherja. Það verður gaman að sjá meira af honum á næstunni. Minamino kom sterkur inn með tvö mörk og fær af því tilefni nafnbótina maður leiksins, við erum kannski núna loksins að fara að sjá leikmanninn sem var keyptur til Liverpool kortér í Covid? Nú og að lokum er það Kadie Gordon. Hann átti mjög solid leik, skapaði usla af og til og átti líklega 2 færi sem hefðu getað endað í netinu með aðeins betri slúttum. En það var ljóst að hann var aðeins inni í skelinni, og Klopp átti gott spjall við hann í fyrri hálfleik á meðan það þurfti að hlúa að Ox eitt skiptið. Við eigum klárlega eftir að sjá meira af þessum strák í framtíðinni, munum að hann á ennþá tvær vikur í 17 ára afmælið. Hann á eftir að þroskast, bæði líkamlega og sem leikmaður, varðandi leikskilning og fleira, en grunnurinn lofar gríðarlega góðu. Það er ennþá möguleiki á að hann hirði metið yfir yngsta markaskorara Liverpool af Ben Woodburn, en hann var 17 ára og 1 mánaða þegar hann skoraði gegn Leeds sællar minningar.
Svo má nú ekki gleyma frammistöðu Travelling Kop sem yfirgnæfði heimamenn meira og minna allan leikinn, og tóku ágæta upprifjun á Suarez-söngnum svona til að minna Norwich menn á það tímabil.
Umræðan eftir leik
Það er gríðarlega jákvætt að svona uppstillt lið Liverpool, nánast alveg án þessara hefðbundnu byrjunarliðsmanna, skyldi ná þetta góðum úrslitum. Þetta segir okkur bara hvað hópurinn er sterkur. Jafnframt er líka ofboðslega gaman að vita af þessum leikmönnum sem koma úr akademíunni. Besti hægri bakvörður heims var jú ekki einusinni í hóp en kemur úr akademíunni. Kelleher, Jones, Bradley og Morton koma allir úr henni sömuleiðis, og Gordon er nýkominn í akademíuna frá Derby. Nú svo vitum við af nokkrum öðrum leikmönnum sem bíða rólegir í startholunum, Balagizi var jú á bekk og hefði alveg mátt koma inná þarna í lokin í stað Hendo, og svo erum við með Musialowski, Woltman, Beck, Frauendorf og fleiri á hliðarlínunni. Ef það næst að gera þó ekki nema einn eða tvo þeirra að squad leikmönnum á borð við Jones þá er markmiðinu náð, og allt umfram það er bara bónus.
Það verður svo dregið í næstu umferð á morgun og þá fáum við að vita hver andstæðingurinn verður. Ef eitthvað er að marka drætti undanfarinna ára þá fær Liverpool útileik gegn liði í efri hluta úrvalsdeildarinnar, líklega Chelsea ef ég ætti að veðja á eitthvað. Nei við skulum vona að það fáist andstæðingur sem leyfi aftur svipaða uppstillingu og í kvöld, þ.e. B-liðsmenn með unglingana í bland. Því þó Einar Matthías vilji helst að Liverpool detti sem allra fyrst úr þessum bikarkeppnum, þá er alltaf skemmtilegast þegar Liverpool fær sem flesta leiki á hverri leiktíð. Og með hæfilegri róteringu á liðinu á alveg að vera hægt að vera með í öllum keppnum eins lengi og hægt er, nú og svo er ekki verra ef þátttaka í einhverjum af þessum keppnum endar með bikar!
Engin spurning að LFC er með besta belgíska leikmanninn í deildinni. Og japanska. Og egypska. Og senegalíska. Og írska. Og norður-írska. Og guineíaska. Og brasílíska. Og skoska. Og hollenska. Og franska. Og spænska. Og gríska. Og kamerúnski. Og scouser.
Sælir félagar
Sætur og verðskuldaður sigur. Kelleher greinilega arftaki Alisson og aumingja Adrian situr fastur sem þriðji kostur í markinu. Origi skoraði og vonandi gefur þetta jhonum smá spark til að vinna sig inn í hópinn. Krakkarnir flottir og og Gomes og Konate áttu léttan dag. Minamino flottur sérstakelga í seinni laumunni sem var skemmtilegt mark. Flott að hvíla þá sem mest mæðir á í stórleikjunum og vinna enn einn leikinn með hreinu marki.
Það er nú þannig
YNWA
Glæsilegur sigur.
– Gordon. Þessar hraðabreytingar og þessi tækni. Ég vona að við fáum að sjá miklu meira af þessum strák á tímabilinu og við getum örugglega notið góðs af hans kröftum í þunnskipaðri frammlínu. Þetta er eitt mesta efni evrópu geri ég ráð fyrir.
– Morton (Eða var þetta Busquets?). Þvílík ró og yfirvegun á þessum strák. Gerði gæfumuninn í seinni hálfleik og var lykilskipting Klopp að mínu mati. Stoppaði flæði Norwich sem var orðið heldur of mikið undir lok fyrri hálfleiks.
– Bradley. Var sístur af þessum þremur en kom sér ágætlega frá fyrir utan klaufalegt brot sem gaf víti. Ágætt að vita að það er einhver þarna sem gæti leyst hægri bakverðinn ef allt fer á versta veg.
Virkilega gott að fara í næstu umferð svo þessir strákar fái fleirri leiki. Ennþá betra að geta hvílt byrjunarliðið næstu helgi. Mjög góður dagur.
“Þunnskipuð framlína”?
Fyrirgefðu, ég deili ekki þessu sjónarhorni á framlínunni.
Firmino, Mane, Salah, Jota, hvaða þunnildi sérðu þarna?
Kelleher að sanna sig og gaman að sjá Minamino minna á sig. Þótti Minó betri eftir að hann fór aftar á völlinn í seinni hálfleik. Hann hefur ekki hraðann í að vera kantmaður.
Morton kom sterkur inn.
Þrátt fyrir klaufabrotið þá grunar mig að stutt sé í að Bradley fari fram fyrir Neco í goggunarröðinni.
Allir að standa sig, nema geyið hann OX virðist alveg búinn á því.
Glæsilegur sigur og ekki ekki sjálfsagt að við keyrum yfir úrvalsdeildarlið með okkar C-lið. Það er greinilegt að beinagrindin er orðin sterk og þolir miklar breytingar á milli leikja. Ég vona bara innilega að við séum búnir með meiðslapakkann okkar svo við getum notað breiddina áfram. Þannig getum við farið langt í öllum keppnum. Svo var kvöldið fullkomnað með því að sjá að neverton datt út á móti QPR. I love it. Fáum bara Benitez til að vinna sem scout.
YNWA!
Sæl öll!
Góður sigur gegn hræðilega slöku Norwich liði en enginn spilar betur en andstæðingurinn leyfir og Liverpool voru mikið…. mikið betri í kvöld.
Miðað við framistöðu Tsimikas núna í byrjun þessa tímabils, þurfum við ekki að hafa neinar áhyggjur af stöðu hans og Robertson. C.Jones átti virkilega góðan leik í kvöld en í þessum leik sá ég ekki hvort Bradley er betri en N. Williams og vont að hann var meiddur fyrir leikinn. Uxinn átti mjög fínan leik og sýndi vel hversu margar stöður hann getur leyst og vonandi verður hann heill í vetur því hann er góður, ég elska sprengikraftinn í honum þegar hann tætir af stað. Það var mjög gott fyrir Minamino að skora þessi tvö mörk en að mínu viti er hann ekki nægjanlega líkamlega sterkur fyrir PL og hann er í vandræðum um leið og andstæðingurinn stígur inn í hann. Ég vildi óska þess að vinnusemin hjá Origi væri meiri og að hann væri betri “varnarmaður” en hann er. Gæinn er svo viðkunnarlegur á velli í gegnum sjónvarpið og hann virðist hafa svo lítið fyrir því sem hann gerir að mér finnst að hann ætti að geta þróað leik sinn upp á næsta getustig en það virðist vera útséð með það og hann á líklegast enga framtíð á Anfield. Kelleher þarf ekkert að ræða, stimplaði sig inn sem keeper nr. 2 á síðasta tímabili og var mjög góður og solid í kvöld. Miðverðirnir voru góðir en mér fanst Konate heldur betri því Gomez var pínu villtur í staðsetningum þegar boltinn var ekki á hans helmingi. Af hverju Keita fór út af veit ég ekki en ég er rosalega spenntur fyrir þessum Tyler Morton sem kom inn á fyrir hann.
Og að lokum….. fyrr í haust var mér bent á að Gordon hafi verið keyptur í Janúar og að hann væri eitthvað mesta efni í boltanum. Það var flott fyrir þennan strák að fá þessar mínútur í kvöld en hann sýndi mjög lítið í kvöld og nýtti engan veginn nokkur skipti sem hann hefði getað farið einn á einn heldur spilaði til baka. Ég held mig því við mína skoðun og segji, Gordon á ekki eftir að skipta okkur neinu máli í vetur og Liverpool hefði átt að kaupa sóknarmann í sumarglugganum sem getur veitt aðhald fyrir fremstu fjóra.
Flottur sigur liðsheildar. Origi gôður sem og Morton og Gordon. Konate eins og ungur VVD bara, þvílíkt sterkur og gaman að sjá markmann “svípa” svona upp.
Vonandi fáum við heimaleik næst.
Þetta lið mallar svo þægilega í gegnum þessa leiki, 0-3 þar sem í mesta lagi einn leikmaður byrjaði sem er partur af okkar besta byrjunarliði.
Ég veit ekki alveg hvað fær menn hérna til að tala um að þessi Gordon hafi átt stórleik, þetta er bara 16 ára strákur og geri ég engar kröfur á hann en hann sýndi ekkert í kvöld.
Origi, Minamino, Jones, Tsimikas, Konate og Kelleher voru allir flottir í kvöld.
Flottur sigur með varaliðinu okkar
Þægilegur sigur og gaman að nýta breiddina. Konaté að standa sig vel og það eru aldeilis öflug kaup til framtíðar. Gomez óöruggur enn sem áður, fjórði miðvörður okkar í dag.
YNWA.
Mættur aftur til að drulla yfir Gomez og hrósar Konate samhliða. Var svona mikill munur á þeirra frammistöðu í kvöld?
Merkilegt nokk að mér fannst Gomez mjög öruggur í öllum sínum aðgerðum í kvöld. Stjórnaði vörninni vel og uppskar hreint lak.
Fjögur mörk eftir Tsimikas hornspyrnur, í tveimur leikjum! Já takk.
Því miður þá var Keita algerlega týndur í þessum leik og miðjan betri eftir að Morton kom inn fyrir Keita. Morton og Gordon frábærir leikmenn og Gordon klárlega besti maður leiksins, þrátt fyrir að Minó hafi skorða tvö.
Mikil er æskudýrkunin. Að velja Gordon mann leiksins fram yfir Kelleher, Minamino og Tsimikas lýsir talsverðri firru.
Annars lék strákurinn sæmilega, áttu tvær fínar rispur, sem þó duga varla fyrir nafnbótinni motm