Í þriðja skiptið á fjórum árum ferðumst við til Porto í Portúgal að mæta heimamönnum í Meistaradeildinni. Hin skiptin voru bæði í útsláttarkeppni en Drekavöllur, heimavöllur Porto, hefur reynst okkur afarvel þar sem í þessum tveimur leikjum höfum við unnið 9-1 samanlagt. Það er því vonandi að okkur gangi jafnvel þar í ár.
Estádio do Dragao eða Drekavöllur er heimavöllur Porto og tekur rúmlega 50.000 manns í sæti.
Heimavöllurinn hefur hinsvegar reynst Porto vel undanfarið þó okkur hafi gengið vel þar. Þeir eru taplausir í síðustu átján leikjum í öllum keppnum og hafa unnið síðustu sex deildarleiki sína og ekki fengið mark á sig í síðustu fjórum. Drekavöllur er því erfitt vígi og Porto liðið ekkert lamb að leika sér við en í fyrra féllu þeir úr leik í Meistaradeildinni gegn Chelsea í átta liða úrslitum með 2-1 tapi í einvíginu gegn verðandi meisturum.
Porto liðið var stofnað 1893, ári seinna en Liverpool, eftir að vín innflytjandi hafði ferðast til Bretlands og orðið ástfanginn af íþróttinni. Liðið lifði þó ekki lengi því um 1900 hafði stofnandinn ekki tíma til að standa í uppbyggingu íþróttafélags og lagðist því félagið í dvala. Sex árum síðar snéri hinsvegar portúgalskur námsmaður, da Costa, heim frá Bretlandi og hafði einnig heillast af fótboltanum og tók við stjórnartaumunum á félaginu og var da Costa forseti Porto allt til ársins 1925. Eftir nokkur ár af vináttuleikjum og héraðskeppnum átti Porto þátt í því að setja á laggirnar útsláttarkeppni á landsvísu árið 1921 sem varð svo loks að Taca de Portugal, bikarkeppni landsins, og sigraði Porto fyrsta árið sem keppnin var haldin og bættu við sig tveimur titlum í viðbót á næstu árum áður en deildarkeppnin var loks stofnuð 1934.
Deildarkeppnin í Portúgal er hinsvegar frekar einstök. Við heyrum oft rætt um topp x lið í vissum löndum. Topp sex á Englandi síðustu ár, topp tveir á Spáni en hvergi á þetta jafnvel við og í Portúgal þar sem Porto, Benfica og Sporting hafa skipt á milli sér deildartitlinum frá stofnun fyrir utan tvö skipti. Annarsvegar 1946 þegar Belenenses sigraði og svo 2001 þegar grannar Porto í Boavista unnu titilinn.
Eftir sjö umferðir í ár eru það einmitt þessi þrjú stóru lið sem eru að stinga af í Portúgal. Sporting og Porto eru með 17 stig eftir fimm sigra og tvö jafntefli en Benfica hefur forrustuna í ár með fullt hús stiga.
Í liði Porto eru nokkrir leikmenn sem margir ættu að þekkja. Við seldum þeim Marko Grujic fyrir tímabilið og í vörninni er hinn 38 ára gamli brjálæðingur Pepe sem mun þó líklega missa af leiknum vegna meiðsla. Einnig er þar sóknarsinnaði miðjumaðurinn Otávio var svo mikið orðaður við okkur í sumar og einhverjir gætu kannast við Mbemba og Vitinha frá tíma þeirra í enska boltanum með Newcastle og Wolves.
Marko Grujic hefur ekki verið fastamaður í liði Porto en gæti byrjað á morgun.
Leikmaður sem færri þekkja en við gætum þurft að óttast er íranski sóknarmaðurinn Mehdi Taremi. Sóknartvíeikið Abubakar og Marega sem leiddu línuna hjá Porto til skiptis frá 2015 þar til í fyrra eru báðir farnir til Sádí Arabíu að sækja seðla og það hefur fallið til Taremi að taka við af þeim. Hann kom til Portúgal með hjálp frá Carlos Queiroz, sem var þjálfari hans hjá íranska landsliðinu, og fékk hann tækifæri hjá Rio Ave en eftir aðeins eitt tímabil þar sóttu Porto hann og á tveimur árum hefur hann skorað 27 mörk í 56 leikjum. Íraninn er stór og sterkur en hans helsti styrkleiki er að hann virðist alltaf ná að vera á réttum stað á réttum tíma til að koma boltanum í netið.
Okkar menn
Liverpool byrjaði á góðum sigri heima gegn Ac Milan í Meistaradeildinni meðan Porto og At. Madrid gerðu jafntefli þannig með sigri á morgun verðum við komnir í ágætis mál í þessum hrikalega erfiða riðli. Um síðustu helgi gerðum við hinsvegar 3-3 jafntefli við Brentford þar sem við sáum bresti í varnarleiknum og erfiðleika á miðjunni. Það er vonandi eitthvað sem er búið að fara vel yfir á æfingasvæðinu.
Leikurinn gegn Porto litast líklega einnig mikið af því að við spilum við Manchester City um helgina og mun Klopp því líklega halda áfram að rótera liðinu aðeins, þó ekki of mikið þar sem við þurfum auðvitað að vinna Porto líka.
Thiago, Elliott og Keita eru enn frá vegna meiðsla en þó jákvæðar fréttir af þeim síðastnefnda þar sem Keita er farinn að æfa aftur en verður líklega ekki í hóp í vikunni. Gætum þó séð hann á bekk um helgina. Við gætum því séð ansi undarlega miðju gegn Porto þar sem ég býst við að Henderson hvíli enda var hann ansi slakur um helgina og þurfum að hafa hann í toppstandi gegn City.
Með stórleikinn við City handan við hornið held ég að Klopp vilji gefa Firmino einhverjar mínútur til þess að hann nái að byrja þann leik og því gæti ég vel séð hann fá klukkutíma á morgun til að koma sér í stand og held að Mané fái að víkja fyrir hann og Jota taki sér sæti á bekknum gegn City. Set Milner og Chamberlain á miðjuna til að fá reynsluna hjá Milner og Chamberlain virðist alltaf mun betri þegar hann fær að spila í Meistaradeild en í deildinni. Þó er vissulega séns á að Jones fái aftur tækifæri eins og um síðustu helgi. Tsimikas og Konate kæmu svo inn til að hvíla Matip og Robertson.
Spá
Porto er með hörkulið en á venjulegum degi erum við betri. Það sem truflar mig helst er að City leikurinn er handan við hornið en er strax farinn að efast um að Klopp geri jafn rótækar breytingar og ég spáði hér fyrir ofan. Það er ljóst að leikmenn þurfa hafa hugan við þetta einvígi og ég hef fulla trú á okkar mönnum og spái okkur 2-0 sigri með tveimur mörkum frá okkar stórkostlega Egypta Mo Salah
Sæl og blessuð.
Nú er maður nett örvæntingarfullur eftir frammistöðu varnarinnar s.l. laugardag og þar á áður gegn Milanó. Það er ljóst að Portómenn eiga eftir að skunda eftir hægri vænginum og treysta á að okkar maður Trent standi eða liggi þar einn gegn þremur framherjum.
Óttast að við fáum á okkur tvö mörk eða fleiri.
Virðist vera ljóst að Trent spili ekki á morgun, þar sem hann ferðaðist ekki með liðinu. Ekki góðar fréttir fyrir sköpunina í sókninni, en það kemur svosem maður í manns stað. Spurning hvort Milner fari aftur í hægri bakvörðinn?
Það verður áhugavert að sjá hverjir verða í hafsentastöðunum hjá Porto ef að Pepe er meiddur og Chancel Mbemba ekki með þar sem að hann er í leikbanni. Þessir tveir eru þeirra aðalhafsentapar. Þar að auki er aðalmarkmaður Porto meiddur og líklega verður hinn ungi Costa í markinu.
Er með áskrift hjá símanum. Porto vs Liverpool er ekki í boði. Hvað veldur. Kveðja Ólgunn.
Sæll Óli
Síminn er bara með efstu deildina í Enska boltanum og sýnir alla leiki frá henni. Stöð2 er með meistaradeildina og er með hana í læstri dagskrá. Ég horfi á þetta í gegnum russneska dreifingaraðila sem kostar mig um 1100 krónur á mánuði. Það heitir NECRO IPTV. Mannvinurinn Pútin er sem sagt minn bezti vinur í þessu 🙂
Það er nú þannig
YNWA
RIP Sir Roger algjört Ljverpool legend
Takk. Er reyndar með stöð 2 líka. Halla mér snarlega að Pútín.
Kveðjur.
ER ekki hægt að kaupa leikinn á stöð 2 stakann ? ? ?
Viaplay á þennann leik en er einhver með link???