Upphitun: heimsókn frá Manchester

Það er komið að sjöundu umferð úrvalsdeildarinnar, og þá fær Liverpool (ljós)bláklædda gesti á Anfield. Það verður ekki langt að fara fyrir gestina enda örstutt milli Liverpool og Manchester. Eðlilega er nokkur spenningur fyrir þessum leik enda eru hér að mætast meistarar síðustu ára.

Áður en tímabilið byrjaði vissi maður ekkert hvar þessi tvö lið yrðu stödd í töflunni þegar þau mætast í fyrra skiptið, en það þarf svosem ekki að koma neitt stórkostlega á óvart þó staðan sé sú að þessi lið séu í 1. og 2. sæti í töflunni. Brighton hafði vissulega tækifæri til að skemma þetta á mánudaginn var, en þeim tókst bara að krækja í jafntefli gegn Palace og eru því í 6. sæti, reyndar með jafnmörg stig eins og City (og 3 önnur lið) en lakara markahlutfall. Brighton eru enn sem komið er spútniklið leiktíðarinnar, fyrstu 4 liðin eru “the usual suspects” og svo er eitthvað bláklætt lið að villast í 5. sæti, rétt á undan Brighton. Tvö af Lundúnaliðunum eru svo eitthvað að væflast um miðja deild, sem kemur kannski ekkert rosalega á óvart (samt (samt ekki)).

Gengi gestanna

City hófu þessa leiktíð á að kaupa dýrasta leikmann úrvalsdeildarinnar – Jack Grealish – og voru svosem ekki eina liðið sem hefði getað nýtt sér krafta hans. Reyndar náðu þeir líka að krækja í meistaradeildarmedalíuhafann Scott Carson. En á móti hafa þeir líka misst nokkra leikmenn. Sergio Agüero er farinn (enda orðinn fjörgamall), Garcia sömuleiðis, nú og svo er einn af þessum fjölmörgu 50m+ varnarmönnum þeirra frá útaf dottlu. Þeir misstu því líklega sinn besta markaskorara síðustu 10 árin eða svo, og fengu engan í sambærilega stöðu. Þeir koma inn í umferðina með 4 sigra í 6 leikjum, hafa svo gert eitt jafntefli (gegn Saints) og tapað einum leik (gegn Spurs). Í augnablikinu er tilfinningin sú að þeir séu ekki með sams konar lið og síðustu ár sem muni valta yfir deildina, en vissulega gríðarlega sterkt lið þrátt fyrir það. Síðasti leikur þeirra var einmitt gegn Chelsea, og þar sýndi City að þó þeir séu e.t.v. ekki jafn sterkir í fremstu víglínu þá skyldi ekkert lið vanmeta þá.

Þó það hafi gengið vel í síðasta deildarleik gegn Chelsea, þá mæta þeir að vissu leyti eins og sært ljón inn í þennan toppslag, hafandi lotið í gras fyrir öðru olíuveldi í miðri viku. Ekki það að þá hafi vantað einhverja hvatningu til að standa sig vel gegn okkar mönnum, en tilhugsunin um að tapa tveim leikjum í röð er alveg klárlega ákveðin mótívasjón. Við skulum því gera ráð fyrir þeim dýrvitlausum.

Okkar menn

Byrjum á nýjustu hópmyndinni af okkar mönnum:

Þá að gengi okkar manna. Hlutskipti liðanna í Meistaradeildinni í vikunni var talsvert ólíkt, þar sem okkar menn koma frá Portúgal með 5-1 sigur í pokahorninu á meðan City tapaði í Frakklandi. Hins vegar er meiðslalistinn hjá okkar mönnum örlítið áhyggjuefni. Trent er sá síðasti sem bættist á þann lista, og búið að útiloka hann frá þessum leik. Eins er Thiago ekki orðinn leikfær, og Keita bara nýfarinn að æfa. Elliott verður að sjálfsögðu frá í lengri tíma. Hins vegar var mjög jákvætt að sjá Firmino koma af bekknum í vikunni og setja tvö mörk.

Meiðsli Trent skapa líklega mesta hausverkinn fyrir Klopp og Lijnders. Hvaða leikmann eiga þeir að setja í hægri bak í staðinn? Það eru líklega þrír kostir í stöðunni – og reyndar staðfesti Klopp að kostirnir væru þessir þrír í dag:

a) Nota James Milner áfram. Hann stóð sig vel gegn Porto, og er almennt að spila vel í öllum þeim stöðum sem hann er beðinn um að tækla. Hann spilaði í miðri viku en kom ekkert við sögu gegn Brentford, svo líklega er líkamlega ástandið ekki að koma í veg fyrir að hann spili. En hvort hann þyki rétti maðurinn til að halda Grealish í skefjum (plús fleiri leikmenn sem Pep kýs að senda upp vinstri kantinn hjá þeim) verður að koma í ljós.

b) Gomez hefur brugðið sér í bakvarðarhlutverkið endrum og sinnum. Undirritaður er ekkert allt of hrifinn af þeirri lausn, enda er hann miðvörður að upplagi.

c) Svo eru það ungstirnin Neco Williams – sem er kominn til baka eftir meiðsli – og Conor Bradley. Persónulega tel ég sístar líkur á að þeir verði kallaðir til. Ef þetta væri ögn viðráðanlegri andstæðingur þá væri ekkert út úr kortinu að sjá Neco þarna, en þetta eru núverandi meistarar. Ef þetta væri deildarbikarinn þá væri Bradley kallaður til ef Neco væri meiddur (eins og gerðist á móti Norwich).

Curtis Jones aftur á móti spilaði sig inn í hug og hjörtu aðdáenda með leiknum á miðvikudaginn (og var nú reyndar kominn langleiðina þangað með fyrri frammistöðum, t.d. markinu gegn Everton á sínum tíma o.s.frv.). Hann spilaði um 70 mínútur um helgina og allan leikinn á þriðjudaginn, hugsanlega spilar líkamlega ástandið á honum inní hvort hann byrji á sunnudaginn en í ljósi meiðsla annarra miðjumanna þá kæmi lítt á óvart að sjá hann þar. Ox hefur ekki verið að heilla, en það er ekki útilokað að Keita fái sénsinn.

Síðan er það spurningin um framlínuna. Jota er búinn að vera ögn mistækur í síðustu leikjum, svipað má kannski segja um Mané þó svo hann setji nú samt reglulega inn mörk hér og þar. Er Firmino kominn á þann stað að hann geti byrjað? Undirritaður er ekki viss, en hann mun nánast örugglega koma við sögu.

Skjótum á þessa uppstillingu:

Alisson

Milner – Matip – VVD – Robertson

Henderson – Fabinho – Jones

Salah – Jota – Mané

Jújú, Klopp er íhaldssamur að eðlisfari, og vill sjálfsagt stilla upp sínu sterkasta liði. Honum þykir liðið líklega ekki komið það djúpt inn í leiktíðina að það sé ástæða til að rótera eitthvað massívt, og 5 dagar milli leikja er líklega alveg viðráðanlegt fyrir atvinnumenn á þessu leveli. Helst er líklegt að Firmino komi í staðinn fyrir Jota, og hugsanlega Kostas í stað Robbo. Nú og svo veit maður aldrei hvort eitthvað hnjask taki sig upp á síðustu æfingum sem gæti haft áhrif á endanlega uppstillingu.

Endum á að spá: 2-1 sigur með mörkum frá VVD eftir horn og Jota, og ljúkum þessari upphitun með nokkrum myndum (ekki útaf neinu sérstöku):

16 Comments

  1. Sælir félagar

    Takk fyrir góða upp hitun Daníel og skemmtilegar myndir af Bondaranum – nei ég meina Klopp. Ekki það að Bondarinn sjálfur (Craig) er eldheitur stuðningmaður Liverpool enda bæði flottur og skynsamur jaxl. En hvað um það þá er ég viss um að Firmino kemur inn fyrir Jota og spilar í 60 mín og setur eitt. Jota kemur svo inn á og setur 3. markið því Salah setur það fyrsta. Ég held að Gomes byrji þennan leik og klárar hann ef honum gengur sæmilega að ráða við Grealish og Sterling. Hann hefur alla vega hraðann í það að halda Sterling niðri. Mín spá 3 – 1

    Það er nú þannig

    YNWA

    4
  2. Spurning verður hvort að Gomez eða Milner verði í hægri bakverðinum og hvort Firmino eða Jota verði frammi. Miðjan ætti að vera nokkuð ljós með Hendo, Fabinho og Jones.
    Gríðarlega erfiður leikur sem má allavega ekki tapast, united töpuðu svo 2 stigum á móti Benitez og félögum sem er vel.

    4
  3. Við sáum Milner ráða við Zaha um daginn sem er leikinn, hraður og áræðin svo að við reiknum með Milner í hægri bakverði.

    7
  4. Milner verður að byrja í hægri bak. Annaðhvort Matip eða Konaté með van Dijk í miðverði.

    3
  5. Man utd og Everton skildu jöfn í dag. Það er alltaf gott þegar þau lið tapa stigum.

    Svo eru að A-liðin frá sömu borgum á morgun.

    Hef trú á því, að ef við náum hápressunni í gang strax í upphafi þá missi MC kúlið og sigur getur unnist.

    3
  6. “Klopp er íhaldssamur að eðlisfari,” Get eiginlega ekki verið meira ósammála. Vissulega heldur hann í vissar hefðir sem virka eins og faðma leikmenn eftir leiki og væntanlega er öll umgjörð fyrir leiki svipuð. En ég fæ ekki betur séð en hann er mjög opin fyrir nýjum leiðum og alltaf til í að prófa eitthvað nýtt. T.d fékk hann innkast þjálfara og svo var það Henderson sem benti honum sjálfum á að hann gæti líka spilað sem átta og Klopp lét það eftir honum. Hann var efins um að kaupa Salah en skipti um skoðun þegar njósnarar liðsins tóku yfir. Það er ekki íhaldssömum þjálfara að gera slíkt.

    Skil eiginlega ekki hvernig þú kemst að þessari niðurstöðu. Hann er t.d búinn að nota alla miðverðina í vetur en auðvitað stillir hann upp sínu besta byrjunarliði gegn erfiðustu andstæðingum. T.d er Van Dijk, Robertson, Alison, Mane og Salah alltaf að fara að spila þennan leik ef þeir eru heilir. Trent líka ef hann væri heill.

    Reyndar er leikur liðsins mjög agaður en innan rammans fá leikmenn frelsi til að gera mjög marga hluti. Þannig skildi ég allavega Lijnders.

    1
  7. Hvernig væri að henda í 343 í ljósi meiðsla. Vvd, konate, matip miðverðir , milner, robbo, hendo og fab miðjan og sslah, mane og bobby tres locos.

    3
  8. Virkilega spennandi leikur og nú reynir á Klopp og liðið. Nú í vetur eru mörg lið sem halda okkar liði vel á tánum og skiptir því öllu máli að tapa alls ekki gegn þeim, MC, Chelsea, MU. Jafntefli er enginn heimsendir ef hin toppliðin taka stig hvert af öðru. Sami sperringurinn er núna og fyrir ári síðan hjá Everton sem endist væntanlega ekki til vors. Fyrir ári eftir 7 umferðir var Liverpool með 16 stig, Everton, 13, Chelsea 12, MC 11 og MU 10. Hinir stórklúbbarnir eru að gera betur nú í vetur en fyrir ári síðan.

    3
  9. Takk fyrir upphitunina Daníel.

    Gomez hefur mér fundist ekki í takt þegar hann spilar á þessu tímabili svo ég mundi helst ekki vilja sjá hann byrja í dag. Firmino skoraði 2 í miðri viku á meðan Jota, sem ég hef miklar mætur á, gerir ekki annað en að klúðra færum og brjóta niður eigið sjálfstraust, svo ég held að Bobby byrji þennan leik. Hendo, Fabinho og Jones á miðjunni. Verður rosalegur leikur sem ég hef trú á að við munum vinna.

    3
  10. Virkilega spennandi leikur og þetta verður mjög erfitt hjá city. Vinnum 3-1.

    YNWA!!

Árshátíð Liverpoolklúbbsins

Kvennaliðið heimsækir Coventry