Liverpool 5, Watford 0 (skýrsla uppfærð)

Helgin byrjaði bara ágætlega. Liverpool fór til Lundúna og spiluðu við Watford. Andstæðingarnir voru með nýjan mann í brúnni en það hjálpaði þeim bara nákvæmlega ekki neitt, því þetta var ein mesta einstefna sem maður man eftir. Yndislegt hreinlega

Fyrri hálfleikur

Okkar menn byrjuðu af krafti og það var ekki mínúta liðin þegar Salah setti boltann í slánna. Mínútu seinna vann Liverpool hornspyrnu þegar Van Dijk sendi sextíu metra pílu á Salah og Egyptinn átti skot sem var varið í horn. Ekkert kom úr horninu, né því seinna sem okkar menn unnu skömmu seinna.

Í upphafi leiksins var Salah nánast að níðast á Watford og Liverpool lásu það vel. Aftur og aftur fór boltinn á hægri vænginn og greyið Watford mennirnir réðu ekkert við kónginn okkar. Á áttundu mínútu skallaði Matip boltann niður á Salah sem tók snjalla gabbhreyfinu og sendi frábæra stoðsendingu á vin sinn Sadio Mane, sem þakkaði pent fyrir sig með því skora í fyrsta! Þriðju Afríku maðurinn í hundrað mörk og múrinn brotinn! Skömmu seinna kom upp biluð tölfræði: Liverpool búnir að vera 84% með boltann fyrstu tíu!

Rétt áður en 20 kom upp á klukkuna komust Watford yfir miðju í næstum þrjár sendingar. Upphaf þessa leiks voru bara þannig að það var fréttnæmt. Salah hafði haldið uppteknum hætti og kom sér þrisvar í góð færi en Ben Foster gerði mjög vel tvisvar og í þriðja skiptið var það varnarmaður sem skemmdi fyrir okkur. Það var líka augljóst að Watford voru hreinlega dauðhræddir. Kannski besta dæmið um það var þegar Bobby fékk boltann á miðjum vallarhelmingi Watford. Hann byrjaði að dansa með knöttinn og andstæðinarnir hrukku í kút áður en þeir þorðu að ráðast gegn brassanum.

Þegar tíu mínútur voru til hálfleiks kom svo annað markið, sem var búið að liggja í loftinu síðan það fyrsta var skorað. Liverpool unnu boltann á miðjunni og komust í hálfgerða skyndisókn, fjórir gegn fjórum. Mane setti boltann í gegn á aldursforsetann James Milner, sem hefði verið í fullum rétti til að taka skot úr þröngu færi. En kallinn setti frekar boltann á Bobby Firmino sem fær ekki mikið auðveldara færi á ferlinum og hann skoraði! Staðann orðin 2-0 og okkar menn komnir með pálmana í hendurnar. Keita gerði svo heiðarlega tilraun til að auka forystuna en boltinn fór af varnarmanni í slánna í horn.

Staðan í hálfleik: 2-0, sjö skot á markið á móti engu, sjö hornspyrnur gegn engri. Kómískir yfirburðir Liverpool.

 

Seinni hálfleikur

Sá seinni byrjaði eins og sá fyrri: Með Liverpool marki. Okkar menn komust í skyndsókn og Andy Robertson sendi boltann í átt að Mohammed Salah en Watford komust inn í hana, boltinn skoppaði af hendi Ben Foster og út… þar sem Roberto Firmino var mættur eins og gammur til að potta boltanum í netið!

Þá steig ég upp til að sækja kaffibollan, væntanlega stærstu mistök mín þessa helgi. Þann tíma sem ég nýtti í að ná í bolla, nýtti besti leikmaður heims í að skora sitt hundraðasta og fjórða mark í ensku úrvalsdeildinni. Muniði eftir markinu hans gegn City fyrir landsleikjahléið? Þetta var flottara! Hann lék léttan dans í kringum varnarmenn Watford, sendi tvo þeirra á rassinn og skoraði! Gjörsamlega sturlað mark í alla staði og vel þess virði að jafna metið hans Drogba.

Í örfáar mínútur eftir markið slakaði Liverpool liðið aðeins á og Watford náðu að skjóta á markið! Kelleher greip boltann örruglega og um allan heim mulduruðu púllarar „Æ já, Alisson er ekki með í dag.“

Klopp byrjaði að gíra liðið niður fyrir Madridar leikinn með því að taka bakverðina báða útaf. Ekki slæmt að geta sett Tsimikas og Chamberlain inn á til að hvíla menn.

Í uppbótartíma kom svo kirsuberið á kökuna. Eftir þónokkra pressu frá Watford komust okkar menn í skyndisókn og Neco Williams mynti hressilega á sig með því að gefa gullna stoðsendingu á Firmino, sem kláraði þrennuna! Maður veit að leikurinn var einstefna þegar Liverpool skorar og myndavélarnar sína stuðningsmenn hins liðsins hlæja að því Jon Moss flautaði til leiksloka og Liverpool komnir á toppinn, í það minnsta þangað til seinna í dag.

 

Twitter

 

 

Vondur dagur

Það á engin púllari skilið þessa nafnbót.

Maður leiksins

Ég er bara með hreinan valkvíða. Mane og Salah skiluðu frábærri vakt í dag, Keita var öflugu, Hendo og Milner unnu frábært verk, Matip og Van Dijk voru örrugir í sínum hlutverkum, bakverðirnir skiluðu sínu og Kellher náði að sofna ekki þannig að hann varði vel í lokin. En Firmino setti þrjú og þá fá menn þennan titil, svo einfalt er það!

Punktar eftir leik

  • Ranieri er með ærið verk fyrir höndum. Svona slátranir gerast ekki nema annað liðið sé geggjað og hitt hörmulegt.
  • Það er augljóst að okkar menn elska að halda hreinu. Miðað við að staðan var 4-0 var magnað að sjá þá berjast í teignum í lokin.
  • Rangstöðugildran virkaði fullkomnlega í dag. Watford náðu nokkrum skyndisóknum en í hvert einasta skipti fór flaggið á loft.
  • Gefið Salah nýjan samning. Núna!

Næst á dagskrá

Meistaradeildin á þriðjudaginn. Við eigum ágætra harma að hefna gegn Athletico Madrid, þó við eigum líka fínar minningar af vellinum frá því fyrir nokkrum árum…

33 Comments

  1. Athyglisverðir punktar sem varða þennan leik

    *Mane kominn í 100 marka hópinn í ensku úrvalsdeildinni.
    * Salah með stoðseningu og enn annað með glæsimarkið
    * Firmino með þrennu.
    * Liverpool var — 77% boltann í þessum leik og hefðu verið með hærra hlutfall ef þeir voru ekki farnið í stutt helgarfrí í enda leiksins..
    * Vörnin var með hreint lak.

    Glæsileg frammistaða hjá okkar mönnum.

    Fyrir mér er Salah maður leiksins. Hann er ekki bara einn vanmetnasti leikmaður í heimi, heldur sá besti um þessar mundir.

    13
  2. Firmino að spila eins og alvöru framherji, þefar uppi færin. Veit á gott fyrir framhaldið.

    Um Salah þarf ekki að hafa mörg orð: Einfaldlega bestur í heimi um þessar mundir. Minnir mjög á Salah á fyrsta tímabilinu, sjálfstraustið í botni, leikgleðin skín úr augum hans og skapar líka færi fyrir samherjana. Yrði FSG til ævarandi skammar að ná ekki samningum við hann.

    10
  3. Liverpool með þvílíka yfirburði hissa að þeir skoruðu ekki 10 mörk.

    5
  4. Gaman að horfa á svona snilld

    Vörnin hélt hreinu,
    Markmaðuðrinn tók þetta eina skot sem slapp í gegn,
    Miðjan stjórnaði leiknum,
    báðir kantmenn skora og
    framherjinn með þrennu.

    Megi þetta halda lengi svona áfram

    YNWA

    5
  5. Sælir félagar

    Frammistaðan í dag nánast fullkomin. Það er erfitt að halda einbeitingu út leikinn þegar staðan er 0 – 4 en okkar menn gerðu það nánast og skoruðu svo 5. markið í lokin. 0 – 5 er ekki einfalt þó andstæðingurinn sé slakur. Sarr er ein efnilegasti framherji deildarinnar en vörn Liverpool tók hann einfaldlega í fóstur og hann var fyrir vikið bara þægur og gerði ekkert af sér.

    Frammistaða leikmanna hvers fyrir sig var nánast gallalaus, miðverðirnir spiluðu eins og framliggjandi miðjumenn og “Milnervélin” var meira inn í teig Watford en Sarr í teig Liverpool. Þrátt fyrir 3 mörk Firmino þá er ég sammála þeim sem velja Salah mann leiksins. Salah er án efa bezti leikmaður heims nú um stundir og ógnun hans og áræðni, gríðarlega flott fótavinna ásamt miklum leikskilningi og afburða boltameðaferð gerði það að verkum að vörn andstæðinganna var í endalausum vandræðum og varð að leggja allt kapp á að stöðva þennan snilling. Það gaf svo öðrum færi á að skapa og gera mörk.

    Firmino er nottla snillingur og lestur hans á leikstöðum og framvindu leiksins gerðu honum kleyft að gera þrjú mörk. Það sást berlega í 5. markinu þar sem Mané var töluvert framar en Firmino en skilningur hans á leiknum og stöðunni gerðu það að verkum að hann skoraði markið en Mané náði ekki til boltans. Ótrúlegut fótboltahaus á þessum dreng og hann hefur fyrir vikið verið minn uppáhalds. Það verður veizla þegar hann er kominn í almennilegt leikform. En takk Liverpool fyrir magnaða skemmtun í dag.

    Það er nú þannig

    YNWA

    15
    • Ég væri geðveikt til í ef Brentford myndu setja eins og eitt eða tvö ber á tertuna til skreytingar!

      12
  6. Erfitt að kjósa ekki Firmino mann leiksins með þrennu en Salah er sturlaður leikmaður og þetta mark hjá honum stal allri athygli úr þessum leik gegn lánlausu liði Watford.

    7
    • það var bara allt að gerast í kringum Salah. Bobby vissulega mættur til að koma boltanum yfir línuna og átti frábæran leik, en Salah var bara eitthvað annað í dag.

      11
  7. Mér þótti Keita vinna sig vel inn í leikinn og í seinni hálfleik var hann virkilega góður og sífellt mættur til að hirða boltann af andstæðingnum. Vá hvað við gætum notað þennan leikmann væri hann oftar í standi.

    8
    • Já væri alveg til í að sjá Keita ná 3 leikjum eða svo í röð hann er nefnilega helvíti efnilegur 🙂

      6
  8. Algjörlega ótrúlegt að sjá Chelsea taka öll þrjú stigin hjá Brentford.

    Fullt af veikleikamerkjum hjá keppinautum okkar.

    6
    • Sá bara brot úr Chelsea leiknum, en Man Utd, djísus!

      Það er EKKERT að frétta.

      Ole ætlar ekki að takast að búa til lið eða liðsanda úr öllum þessum skvilljón punda leikmönnum sem hann hefur. Hann er ábyggilega einn af lélegustu þjálfurunum í gjörvallri úrvalsdeildinni. Ekkert leikplan, bara ellefu milljónamæringar í tómu tjóni.

      13
      • Sammála og hann er reyndar með gamla rauðnefinn alltaf hjá sér. Vonandi fær þessi gaur nýjan langtímasamning.

    • Chelsea getur þakka Mendi fyrir að hafa ná sigri, ég held að ég hafi aldrei séð þvílíka frammistöðu hjá markmanni áður.

      3
  9. Pínu svekktur með skiptingarnar. Reyndar bara eina…
    Hefði vilja sjá Minamino inná í stað Ox. Held að það sé fullreynt með Ox, enda gerði hann ekkert þessar 30 mínútur sem hann var inná sem annaðhvort auðveldar hann að finna nýjan klúbb eða kemur honum í byrjunarliðið. Mino hefur staðið sig vel þegar hann kemst inn og á undirbúningstímabilinu og á amk lengri tíma eftir á samning. Tel það mikilvægara fyrir liðið að fá hann í gang frekar en að reyna að jumpstarta uxanum.
    Tók reyndar eftir einu atviki þar sem Ox forðaði sig frá tæklingu, sennilega hræddur við stöðug meiðsli.

    2
    • Ég veit að sumir hér eru alveg ósammála mér um (meint) gæði Uxans en ég hafði bara enga trú á því að setja Ox á miðsvæðið í leiknum á laugardaginn. Hans tankur er búinn að vera galtómur lengi. Og hann var enn jafntómur þegar Uxinn fékk að spila smástund, nema bara að í staðinn fór miðsvæðið að mígleka því Milnerinn var tekinn þaðan og settur í hægribak. Ég vil núna fá að sjá ungu strákana með háu númerin á bakinu úti á velli í næstu leikjum, þeas ef meiðsli kalla á aukamenn, og láta gott heita með Alex Oxlade-Chamberlain. Lofa honum bara að finna sér vinnustað við hæfi í rólegheitunum.

      3
  10. Úr því minnst er á Minamino. Hver er eiginlega staðan á honum? Hann er ekki meiddur en hann fær ekkert að spila þó helmingur miðjumanna séu annaðhvort meiddir eða hálftæpir. Hvar væri hann í röðinni ef engir væru fjarverandi. Ef hann fer ekki fram á sölu er það mjög skrýtið enda á góðum aldri. Minamino, Ox, Origi, hvað er að frétta með þessa gaura.

    5
    • Já hann meira segja vogaði sér að skora um daginn þegar hann fékk loksins að spila staðan á honum og Konate er mér ráðgáta ég er bara ekki sáttur við þeir séu ekki að spila.

      5
      • Það er greinilegt að Konate var keyptur, ja í hálfgerðum áætluðum meiðslum á miðvörðum. Staðan í miðverðinum sl vetur var það skelfileg að Klopp hefur alls ekki, undir neinum kringumstæðum, viljað lenda í þvíumlíku aftur. Því hefur verið ákveðið að hafa frekar fleiri en færri í þeim stöðum. Vona bara að Konate, Phillips og Comez taki alla bikarleikina og jafnvel einhverja Evrópuleikina. Hvíla verður Matip eins og hægt er og VvD líka ef mögulegt er. Matip er meiðslagjarn, en rosalega góður þegar hann er heill, og þakka ber fyrir hvern leik sem hann nær.

        8
    • Held bara að engin þeirra sé nógu góður fyrir Liverpool og þess vegna eru þeir ekki að spila nema í neyð

      1
      • Ég var þarna að tala um minamino óx og origi, gerði reply undir vitlaust svar

  11. Jæja, þá er það Þórðargleðin!

    Moyes kominn ofaní hálsmálið á Man Utd. Verður ekki leiðinlegt þegar hann siglir fram úr Óla…

    5
  12. Hvað segið þið um að reyna að giska á hver þorir að taka við eyðimerkur-kaleiknum og verða næsti stjóri Newcastle? Eru veðbankar ekkert að taka við sér?

  13. Þetta yrði geggjað djobb fyrir Gerrard og ef ég réði einhverju þarna tæki ég hann alla daga fram yfir TD Lampard sem ekkert hefur afrekað. En Rodgers væri efstur á blaði þarna ef ég væri að ráða næsta mann inn. En yrði flott fyrir Gerrard að venjast deildinni og allt það áður en hann tekur við Liverpool þegar Klopp hættir sem er auðvitað verst geymda leyndarmál fótboltans.

Byrjunarliðið klár: Milner, Keita og Hendo á miðjunni

Gullkastið – Hin Heilaga Þrenning með sýningu