Það verður ekki annað sagt en að Liverpool hafi byrjað meistaradeildina vel þetta tímabilið. Tveir sigrar í fyrstu tveimur leikjunum setur okkur í þá stöðu að sigur í kvöld myndi fara langt með að tryggja okkur farseðil í 16 liða úrslit, eitthvað sem væri kærkomið miðað við styrkleika riðilsins og hve erfiða leið okkar menn fara oft í þessum riðlakeppnum.
Þessi upphitun verður diet útgáfan af upphitun Einars síðan í febrúar 2020. Ég hvet alla til þess að rifja það meistaraverk upp fyrir leik kvöldins, enda saga liðsins og stjórans rakin með ítarlegum hætti eins og vænta má þegar kemur að upphitun EMK fyrir útileik í Evrópu.
Formið og sagan
Þó svo að saga þessara tveggja liða sé löng og mikil þá hafa þau ekki mæst nema í sex skipti í keppnisleikjum þar sem að Atlético hefur yfirhöndina með þrjá sigra gegn einum sigri okkar manna sem kom í Europa League árið 2010 þegar Atlético komst áfram á útivallarmörkum eftir að hafa unnið fyrri leikinn á Vicente Calderon 1-0.
Eins og menn eflaust muna þá mættust þessi lið í 16 liða úrslitum í febrúar og mars 2020, korteri áður en heimurinn lokaði vegna COVID. Það svíður ennþá tapið á Anfield og margir hverjir hafa ekki geta drukkið San Miguel síðan þeir hentu okkur út úr keppninni fyrir um 17 mánuðum síðan.
Atlético Madrid
Heimamenn koma ferskir til leiks eftir að spænska knattspyrnusambandið frestaði leik helgarinnar vegna landsleikjabullsins og þeirrar staðreyndar að leikmenn væru enn að ferðast og væru að koma til Spánar korter í leik. Eitthvað sem að FA mætti taka sér til fyrirmyndar en ég skal alveg viðurkenna það að ég er að pirra mig talsvert minna yfir þessu í dag eftir yfirvöltunina á Watford en ég var að gera fyrir leik.
Spænska deildin er jöfn, rétt eins og PL. Atlético situr í 4 sæti deildarinnar eftir 8 leiki, jafnir Real Madrid, Sevilla og Osasuna á stigum (17) og eiga leik til góða á Real Sociadad (20) sem situr á toppi deildarinnar. Í meistaradeildinni sitja þeir í öðru sæti riðilsins eftir að hafa gert jafntefli á heimavelli gegn Porto í fyrstu umferð áður en þeir náðu dramatískum sigri í uppbótartíma gegn AC Milan í síðustu umferð.
Þó svo að heimamenn hafi fengið hvíld um helgina þá eru þeir samt að glíma við meiðsli í vörninni en Jose Gimenez og Stefan Savic eru báðir frá vegna meiðsla. Það er því líklegt að inn komi Felipe og Kondogbia með Hermoso.
Annars hefur Simone úr nokkuð sterku liði að velja, það verður að teljast líklegt að hann spili sínu hefðbundna 5-3-2 kerfi með Trippier og Carrasco í vængbakverði, Koke, Lemar og De Paul á miðjunni með stórvin okkar Suarez á toppnum rétt fyrir framan Correa eða Griezmann. Breiddin er ekki mikið vandamál þarna, sérstaklega ekki fram á við þar sem tveir af þeim Correa, Griezmann og Felix þurfa að sætta sig við bekkjarsetu í þetta skiptið.
Liverpool
Af okkar mönnum er allt gott að frétta. Curtis Jones æfði í vikunni á meðan að Thiago gerði það ekki. Aðrir ættu að vera leikfærir og kannski stærsta spurningamerkið er hve mikil áhrif leikurinn á sunnudaginn hefur á liðsvalið (Man Utd á Old Trafford). Erum við að fara að sjá Henderson, TAA, Robertson, VVD og Matip alla spila 3 leiki á einni viku? Það er hæpið. Á móti kemur er þetta frábært tækifæri til þess að fara langt með að klára þessa riðlakeppni og gefa okkur hellings svigrúm til að hvíla leikmenn í nóvember og desember.
Alisson og Fabinho flugu beint til Spánar eftir landsleikjaævintýrið. Þeir ættu því að vera með ferskar fætur og koma beint inn í liðið.
Ég ætla að skjóta á að Klopp hvíli Matip (held að hann hafi ekki þrjá leiki í viku í sér), TAA (nýkominn til baka eftir vöðvameiðsli) og Henderson (sama og með Matip) og inn komi þá Konaté í miðvörðin, Milner fari í bakvörðin og Curtis Jones og Fabinho fari inn á miðjuna. Það væri alveg möguleiki á að setja Jota inn í stað Firmino, með annað augað á Old Trafford, en ég ætla samt að skjóta á að Jota verði áfram á bekknum og Firmino haldi sæti sínu eftir þrennuna gegn Watford. Liðið myndi þá líta út einhvernveginn svona:
Alisson
Milner – VVD – Konate – Robertson
Keita – Fabinho – Jones
Salah – Firmino – Mané
Spá
Sigur. Spilamennska Liverpool í síðustu þremur leikjum (Porto, City og Watford) hefur verið frábær og þá sérstaklega sóknarleikurinn (12 mörk). Ég get alveg séð okkur skora snemma í þessum leik og við vitum alveg hvað getur gerst þegar lið þurfa að sækja á okkur, sérstaklega með þessa heilögu þrennu á toppnum í svona formi. Þetta er samt langt langt langt frá því að vera auðvelt, ekki margir erfiðari útivellir þarna úti og alveg ljóst að við þurfum að eiga samskonar frammistöðu í þessum leik og við höfum verið að sína síðustu 3 vikur ef við ætlum að fá eitthvað úr honum. Ég ætla að skjóta á 1-2 sigur eftir mörk frá Salah og Firmino.
Minni annars á gullkast gærkvöldsins þar sem er farið ítarlega ofan í Watford leikinn sem og leik kvöldsins.
Þar til næst.
YNWA
ooohh Salah er svo mikill toppmaður ! ef þetta er satt að hann sætti sig við 400 k til að skrifa undir THEN JUST PAY THE MAN ! Flottur að vilja ekkert 600 k eða vilja verða launahæstur í deildinni .. bara sanngjarn og FLOTTUR !
.. og Oblak má alveg eiga smá off dag í dag !