Mörkin
1-0 Alisson Becker (13. mín) sjálfsmark
1-1 Trent Alexander-Arnold (21. mín)
2-1 Pablo Fornals (67. mín)
3-1 Kurt Zuoma (74. mín)
3-2 Divock Origi (83. mín)
Framvinda leiksins
Á fyrstu sekúndum leiksins sáum við tvær sóknir sem reyndust svo endurtaka sig í sí og æ út leikinn. Við náðum að sækja upp vinstri vænginn þar sem Robertson komst í þokkalega stöðu til að gefa fyrir, en sendingarnar reyndust slakar og West Ham voru búnir að skipuleggja vel hvernig þeir ætluðu að mæta þessari ógn. Það tók West Ham bara nokkrar mínútur að refsa okkur fyrir að mæta ekki á fullu gasi í leikinn, því þeir fengu fyrstu hornspyrnu sína af þremur og réðust að veikleikum okkar og skoruðu. Þetta var svona atriði sem mun aldrei verða sátt um, því Alisson var í markteignum og stökk upp ásamt Ogbonna og þeir rákust saman. Við Liverpool áhangendur munum sjálfsagt alltaf sjá þetta með þeim gleraugum að það var brotið á markverðinum því hann nýtur friðhelgi á svæðinu, en aðrir munu benda á að Alisson stökk u.þ.b. 15° áfram og á leikmann sem stökk beint upp í loftið, og þá gilda allt önnur lögmál. En nema hvað, VAR var notað og markið látið standa. Sjálfsmark hjá Alisson sem snerti boltann ómarkvisst í stökkinu sínu og í eigið net.
Aftur kom upp VAR atriði þegar Cresswell fór með takkana á undan sér í lappirnar á Henderson, og það var metið sem svo að þetta væri bara alveg óvart og ekkert dæmt. Þá var maður farinn að fá þessa ónotatilfinningu að þetta yrði aldrei okkar leikur, og dómarinn yrði meðal okkar verstu óvina.
Fallegasta mark leiksins
Svo kom það. PÆNG. Við fengum aukaspyrnu á 21. mínútu á besta stað sem aukaspyrnusérfræðingar geta hugsað sér. Það var brotið á Salah um 1,8 metra fyrir utan miðjan vítateiginn. Fullkominn staður til að velja sér horn, senda knöttinn yfir varnarvegginn á hvern þann stað sem maður vill. Salah og Trent færðu boltann nokkra sentimetra til hægri og svo sneri okkar maður boltann upp í vinkilinn til hægri og markvarðargreyið átti aldrei möguleika. Þá voru leikar jafnir og við líklegri aðilinn til að sópa þessu upp og taka stigin öll. Okkur tókst þó aldrei að búa til neitt mjög hættulegt fram að hálfleik.
Seinni hálfleikur
Seinni hálfleikur byrjaði þannig að við vorum líklegri, en fljótlega voru menn farnir að taka eftir því að Robertson var búinn að fá nálægt 10 tækifæri til að gefa góðar fyrirgjafir, en þær urðu aldrei að neinu. Þetta pirraði bæði áhorfendur og samherja á vellinum. Á 50. mínútu fengu hamrarnir sína aðra hornspyrnu, og úr henni skallaði Dawson í þverslá. Tvær hornspyrnur komnar og við virtumst ekki eiga nein svör við þeim.
Skipulag West Ham reyndist ansi öflugt og sóknarleikur beit lítið á þá. Þeir voru á sama tíma vakandi fyrir því að stela af okkur boltanum ef við vorum að lufsast með hann aftarlega á miðjunni, og það gerðist einmitt á 67. mínútu, og sóttu hratt á okkur og luku sókninni með meðalgóðu skoti þar sem Fornals var einn á móti Alisson sem náði ekki að stöðva boltann sem lak í netið. Þetta var afleit vinna miðjumanna sem kom varnarmönnum og markverði í vonda stöðu. Að sama skapi var þetta gott skipulag og mikil grimmd West Ham sem uppskar þetta mark, og aftur í forystu.
Þarna vissum við að hamrarnir myndu pakka meira í vörn og verja sinn hlut. En ekki nóg með það, þeir fengu nefnilega þriðju hornspyrnuna sína. Sem er álíka hættulegt og aukaspyrna 1,8M fyrir utan teig hjá Liverpool. Vörnin var alveg úti á túni og Zouma fékk boltann aleinn og yfirgefinn á fjarstöng og skallaði boltann í gegnum Alisson sem átti ekki séns. Barnalega auðvelt mark fyrir hamrana sem voru komnir í 3-1 á 74. mínútu.
Skiptingar og fallegt mark Origi
Í kringum þetta voru gerðar skiptingar, inn á kom Thiago, svo Origi og Minamino. Þeir breyttu engum ósköpum, en leikurinn breyttist þó aðeins. Thiago reyndi það sem hann á að gera, erfiðar sendingar sem geta splundrað, en þær eru fjarri því að virka í hvert skipti. Minamino reyndi sitthvað með litlum árangri, en Origi gerði varnarmönnum West Ham örlítið erfiðara fyrir. Hann uppskar líka á 83. mínútu þegar hann fékk fína sendingu frá Trent í lappirnar á sér inni í teig, og hann lagði boltann fyrir sig með einni snertingu og dúndraði svo í hornið óverjandi. Þá var staðan 3-2 og við áttum allt í einu smá möguleika. Við hefðum átt að jafna þegar Mane fékk dauðafæri eftir aukaspyrnu Trent í uppbótartíma, en lítið annað gerðist. Leikurinn fjaraði út og West Ham tók stigin öll. Verðskuldað.
Maður leiksins
Það var enginn sem virkilega stóð upp úr eða átti góðan leik allan tímann. Ég ætla þó að velja Trent Alexander-Arnold að þessu sinni. Hann skoraði virkilega fallegt mark. Lagði upp markið hans Origi, og var hársbreidd frá því að leggja upp jöfnunarmark fyrir Mane á 91. mínútu. Það var ekki Trent að kenna að það varð ekki mark. Hann átti samt sem áður nokkur slæm augnablik, og það var hann sem ég held að hafi átt að dekka Zouma þegar hann skoraði þriðja mark heimamanna.
Slæmur dagur
Það voru margir undir pari. Eins og var nefnt áður var Andy Robertson mjög slakur á vinstri vængnum. Hann fékk margoft fyrirtaks aðstæður til að skapa usla, ýmist þegar Ox eða Mane lögðu upp á hann til vinstri, og hann hafði góðan tíma til að staðsetja sendingarnar. En þær voru allar afleitar nema ein. Fabinho átti mjög vondan dag á miðjunni, hann hvorki skóp neitt fram á við né stóð vaktina í varnarhlutverki. Alisson kom ekki vel út í dag. Hann hefði mátt gera betur í fyrsta markinu, og sömuleiðis í öðru markinu. Salah hefur ekki verið nefndur á nafn í þessari skýrslu, en hann var gjörsamlega tekinn úr umferð. Honum til varnar, þá má ætla það að þegar sóknarmenn hafa niðurlægt ágæta varnarmenn ítrekað í nokkrar umferðir, þá fara menn kannski svoldið að spá djúpt í það hvernig hægt er að hindra hann. Hann átti þó nokkrar sæmilegar tilraunir til að dansa inn í teiginn, en það kom ekkert útúr honum í dag (nema samvinna við Trent í aukaspyrnumarkinu). Það má alveg nefna fleiri sem spiluðu undir getu, en ég læt staðar numið hér.
Að lokum
Tvær hugmyndir fyrir þjálfarateymi Liverpool:
- Ættum við kannski að splæsa í æfingar í varnarvinnu í hornspyrnum? Við fengum á okkur 3 hornspyrnur, úr þeim komu 2 mörk og einn skalli í þverslá.
- Ættum við kannski að splæsa í æfingar í fyrirgjöfum frá vinstri? Það voru gerðar ansi margar tilraunir til þess. Þá mega kannski mögulega líka samherjar hjálpa til með að hlaupa í hættuleg svæði.
Það má þó benda á að það þannig að við vorum að mæta liði sem er á gríðarlegri siglingu. Fyrir leikinn voru þeir næsta lið á eftir Liverpool á töflunni, 2 stigum fyrir neðan eftir 10 leiki. Þeir voru á heimavelli og voru gríðarlega vel skipulagðir. Þeir unnu sína vinnu vel og það má alveg gefa þeim kredit fyrir það. Við erum aftur á móti með sterkara lið á heildina litið, en samt sem áður að kljást við meiðsli. Það hefur nánast einn leikmaður bæst við á meiðslalistann í hverri viku hjá okkur í marga mánuði og það var nánast útilokað að spila með heillega miðju. Það var eiginlega á hreinu að Ox og Thiago myndu skipta leiknum á milli sín einhvern veginn, báðir að stíga upp úr meiðslum og Fabinho ekki kominn á fullt heldur. Þannig að það er ekkert óeðlilegt að þessi leikur varð mjög tæpur, 3-2 á erfiðum útivelli með skaddaðan hóp. En það er hrikalega frústerandi að horfa á þetta og fá á okkur þessi mörk sem okkur finnst við ekki eiga að geta fengið á okkur. Það gerðist samt í dag. Það sem þó nær að gleðja mig svolítið er að mörkin okkar voru miklu miklu miklu fallegri en mörk West Ham. En við fáum engin stig fyrir það.
YNWA
Biscant
Nú er ég bara alveg orðlaus yfir þessari frammistöðu hjá Liverpool og auglýsi eftir LIVERPOOL !
Sælir félagar
Vinnsla og barátta skóp þennan sigur Hamranna. Tsimikas átti auðvitað að byrja þennan leik og Thiago líka. Uxinn handónýtur leikmaður og er eiginlega bara uppfyllingarefni í liðinu. Það á alltaf að spila sínu sterkasta liði sé þess nokkur kostur. Það er ekki gert með Uxann inná og því miður er Robbo ekki svipur hjá sjón. Fyrsta mark Hamranna átti aldrei að standa en það er sama. Svona frammistaða í vörninni er ekki boðleg. Matip skilur TAA eftir með tröllið Souma og þar átti strákurinn aldrei von. Í stað þess að koma sér á top töflunnar þá sitjum við nú í 4. Sætinu. Skömm til segi ég.
Það er nú þannig
YNWA
Já.
Sagði það nú svosem í podcast mánudagsins að við yrðum að fara í þennan leik og sýna fram á alvöru liðsins til að ná titlinum. Það auðvitað kom bara í ljós að það eru miklir veikleikar í varnarleik liðsins, við sáum þá augljóslega gegn Brentford og Brighton en West Ham keyrðu bara áfram á sama stað og þau lið gerðu, keyra á fullu þegar þau vinna boltann á miðjunni og nýta setpiece þar sem við erum einfaldlega étnir. Ekkert þarna sem kemur á óvart og því miður bara leikmennirnir í dag númeri of litlir. Ekkert kom á óvart í leik West Ham og þeir eru nú verðskuldað ofan við okkur. Við höfum aðeins unnið 1 leik gegn liðum í efri helmingi deildarinnar og lekum mörkum. Verðum góðir í vetur en hingað til er alveg ljóst að við erum ekkert að fara að berjast um titil. Svona stigasöfnun þýðir 76 stig yfir tímabil og það er einfaldlega keppni um sæti númer fjögur.
Að frammistöðu leikmanna þá finnst mér nú frekar undarlegt hjá vini mínum Sigkarli að taka Ox út í leik þar sem við sáum enn eina meðalmennskuframmistöðu Fab sem hefur einfaldlega leikið illa þá leiki sem hann hefur þó náð að spila sökum meiðsla. Ox var vinstra megin á miðju og tee-aði Robbo reglulega upp auk þess að sinna sínum varnarhlaupum vel. Innkoma Thiago var einfaldlega skítléleg, einhvers konar no-look sendingar, klaufabrot og einfaldlega engin sóknarógn.
Við getum bara ekkert horft framhjá því að varnarleikur liðsins alls er hroðalegur og okkar ágæti Virgil er ekkert að ná að stoppa lekann hérna. Við skömmuðum Konaté síðast og Matip fær skammir núna en það er þannig að hafsentapör spila saman og þau leiða varnarleikinn.
Skammir dagsins frá mér fá Fab, Robbo, Matip og minn besti maður, Allison. Framlínan átti erfitt, Salah fær á sig einn og annan í skugga eins og gegn Brighton og þá verða þeir sem eru með að stíga upp og nýta þau færi sem berast. Það gerðu Diogo og Mané ekki. Það að ætla stanslaust að æpa í sömu áttir er einmitt það sem við megum ekkert lenda í. Það skiptir engu máli hvað menn heita, frammistöður eiga að ráða.
Við höfum flissað í áttina að Arsenal síðustu ár en nú bara stöndum við frammi fyrir því að þeir koma í hörkuformi til okkar og komast upp fyrir okkur með sigri.
Stigatöflur þær ljúga aldrei. Hvorki þegar LFC eru efstir eða í fjórða sæti.
Þetta var vont innlegg í að láta okkur dreyma um titilinn. Mjög vont. West Ham verða svo að fá kredit, þetta er hörkulið sem verður klárlega spútniklið vetrarins. Við hlæjum ekkert að Moyes þennan veturinn.
Bara ekki að fatta þessa tölfræði hjá þér 76 stig sé barátta um 4 sætið. 76 stig hafa oftar en ekki dugað fyrir 2 sæti ekki að það sé stóra málið í þessu en við erum með svona úr síðustu 26 leikjum 18-7-1 sigur – jafn – tap og þar á undan er það 10 – 5 – 11 þ.e. 26 leikir þar á undan, ekki að sjá það að þrátt fyrir þetta tap séum við út úr þessari baráttu um 1 sætið síður en svo liðið okkar var í 3 sæti í fyrra með þetta hlutfall inni í því tímabili og náðum við þá 69 stigum og vorum í 3 sæti en hvað um það þá þarf að vísu að fara æfa uppstillingar fyrir föst leikatriði og ekki seinna en strax ! þetta voru verulega ódýr mörk úr þessum hornum og held ég að fyrsta markið hafi aðeins komið liðinu úr jafnvaægi sem maður sér ekki oft hjá þessu frábæara fótboltaliði okkar.
og að lokum þá er ég ekki hræddur við Arsenal eftir hlé held að við eigum eftir að vinna þá 5 eða jafnvel 6 – 0 og töpum ekki c.a. 30 næstu leikjum eða svo.
YNWA.
Undarlegt að segja að uxinn hafi verið slakur. Hann var með bestu mönnum liðsins. Ég myndi horfa á leikinn aftur ef ég væri þú.
Becker, Robertson, Matip, Fabinho, Mané, Salah og Jota allir ógeðslega lélegir í dag. Robbo, Becker og Mané þar af afgerandi verstir.
Ég er alveg þar núna að mér er sama hvort Mané fari í janúar. Hann er búin að vera hrikalega slappur á þessu og síðasta tímabili og spurning hvort Klopp fari ekki að horfa í framtíðina??
Það er eitt sem ég skil svo lítið. Ég horfi á mjög marga leiki í þessari deild og við erum lang lang lang mest með boltan í löppunum á miðvörðum okkar. Hver er logíkin á bakvið það? Það gerist nánast ekkert þegar þeir hanga á boltanum eða er hreyfanleikinn á miðjunni svona ógeðslega lítill?? Djofull sem þetta fer í taugarnar á mér.
Robertson og Mané á bekkinn takk.
Svekkjandi að Westham séu komnir fyrir ofan Liverpool en þeir vildu vinna þennan leik meira en Liverpool það er bara staðreynd.
Ox og Robbo slappir í þessum leik og Alisson fær ekki háa tölu hjá mér eftir þessa skitu.
Jæja, baráttan um 4.sætið verður líklega okkar verkefni. Setja aðal púðrið í að vinna meistaradeildina.
Þetta er tilfinning sem maður hefur ekki fundið lengi sem stuðningsmaður Liverpool að liðið manns tapar fótboltaleik en það er samt staðreynd dagsins.
West Ham eru einfaldlega með hörkulið í vetur og gerðu mjög vel í dag. Það eru samt andartök í leiknum sem setja ljótan svip á leikinn.
Leikurinn var varla byrjaður þegar West Ham fékk gefins mark og það hefur stór áhrif á leikinn.
– Þú mátt stökkva upp með markverði það er ekki brot en um leið og þú notar hægri hendina þína í að slá í hægri hendina hjá markverðinum sem þarf þá að nota vinstri þá ertu brottlegur.
Þarna drullaði VAR á sig og við marki undir. Líklega einhverjir sem segja að Alisson verður bara að vera sterkara, hann mætti vera sterkasti maður heims og koma af fullum krafti í þetta en þetta er samt alltaf brot.
Næsta atkvik átti að vera rautt spjald og ekkert annað en það var mjög svo klaufaleg tækling hjá leikmanni WH þar sem báðir fæturnir fóru í hné hæð á Hendo en það algjörlega rannsóknarefni að VAR herbergið hefði ekki látið ömurlegan dómara leiksins skoða þetta atvik aftur.
Jæja þarna er staðan 1-0 WH og leikurinn var alltaf start stop start stop og því ekkert flæði í leiknum.
Við tökum öll völd á vellinum og náðum að jafna fyrir hlé með flottu marki frá Trent.
1-1 hálfleik.
Hvað gerist svo í síðari? Jú við erum en þá betri og virkum hættulegri án þess að skapa mikið en hættulegasta færið fékk Mane eftir fyrir gjöf frá Andy en skotið fór beint á markið.
WH kemst yfir þar sem
– Fab tekur ekki brotið á sig og hleypur manninum áfram.
– Matip fer af hálfum krafti í pressu og nær ekki boltanum
– Alisson nær ekki að verja skot sem hann hefur kannski einhverntíman tekið.
Við sækjum og sækjum en erum að skapa lítið og þeir bæta við marki eftir að við töpuðum boltanum klaufalega á miðsvæðinu.
Origi skorar flott mark áður en Mane klúðrar færi í blálokinn.
3-2 tap staðreynd.
Alisson, Trent, Andy, Matip, Van Dijk, Fab, Ox, Hendo, Salah, Jota og Mane áttu allir slakkan leik í dag og viti menn þetta er allt liðið okkar og því ekki von á góðu.
Fab er langt í frá tilbúinn ekki frekar en Thiago sem kom inn á. Salah virkaði týndur lengi vel og Jota var týndur nánast allan leikinn, Mane var skástur af þessum fremstu þremur en eftir klúðrið í restina dettur hann í þennan flokk.
Alisson að eiga einn af sínum lélegustu leikjum í Liverpool búning.
Liverpool 4.sæti með 22 stig 4 stigum á eftir 1.sæti Chelsea(tak Burnley fyrir að hafa þetta ekki 6 stig).
– Það er fullt eftir af þessu móti en liðið okkar þarf að gera miklu betur en þeir hafa verið að sýna gegn Brighton og West Ham í síðust tveimur leikjum ef við viljum berjast um titilinn allt til enda.
Næstu leikir í deild Arsenal H, Southampton H, Everton Ú, Wolves Ú og A. Villa H. Þurfum að komast aftur á skrið og ná í 13stig + úr þessum leikjum.
YNWA – Í blíðu og stríðu segja þeir.
Sæl og blessuð.
Ok – töpuðum leik. Fengum fáránleg mörk á okkur – tvö beint úr horni (þriðja hornið hefði getað kostað mark) og eitt upp úr ,,skyndisókn”. Vafaatriði í dómgæslu féllu þeim í hag. Rautt spjald í broti gegn Hendo hefði auðvitað landað þessu (eða skorum við ekki alltaf gegn 10 andstæðingum..?)
Fannst Jota t.d. mjög sprækur, sótti boltann aftarlega og barðist allan tímann. Sóknarmenn okkar áttu auðvitað í basli með alla þessa varnarmenn (risa) sem þjöppuðu sér saman fyrir framan eigið mark. Robertson átti góða sendingu á Mané sem hefði getað gert betur. Salah fékk opið færi en skaut yfir – mannlegur? ok, já. Trent frábær. Fabinho var oftast góður – en í þriðja markinu er hann linur.
Höfðum góða stjórn á leiknum. Áttum aldrei að fá á okkur amk tvö þessara marka. Finnst hart að dæma alla leikmennina sem lögðu allt í sölurnar og uppskáru tvö mörk.
Þessi leikur þróaðist illa og upp í hendurnar á WH. Ég er á því að brotið hafi verið á Allison, en þetta var mjög svipað og hornið sem Havertz skoraði fyrir Chelsea og augljóslega æft fyrir leik. Almennt er þetta svekkjandi af því að við setjum markmanninn í að leysa vanda sem var ekki hans. Hitt hornmarkið á vörnin líka vegna þess að Allison þarf að hafa áhyggjur of Antonio og kemst ekki nógu hratt yfir. Helv góð hornspyrna samt.
En það er mjög kjánalegt að kenna vörninni um þriðja markið. Það er bara afleiðing af því að pressa mjög hátt til að ná að jafna og að svo gerast mistök á versta stað og flöt vörn sem var að halda hárri línu er spiluð í sundur.
Hvaða ályktanir má draga af þessum leik? Getum ekki farið undir á móti jafn vel skipulögðu liði og WH. Við skorum ekki skallamörk gegn svona turnum. Getum ekki tapað boltanum við miðjuhringinn þegar við erum með 10 leikmenn á helmingi andstæðinganna. Þetta eru allt grunnatriði.
Spurningin sem Klöpp og hans teymi hljóta að spyrja er samt: er miðjan að vernda vörnina nóg? Hvernig skipuleggjum við þetta? Sérstaklega núna þegar Firmino er frá, þá minnkar topppressan og þar af leiðandi kemur meiri hraði upp miðjuna. Hendó og Ox saman er mjög hættulegt varnarlega því að þeir hafa ekki hraða. Hvað þá ef TAA er að spila libero.
Þessi leikur tapaðist á taktík — við hreinlega fórum inn með of áhættusamt plan gegn sterku liði og það gekk ekki upp. Næsti leikur.
Menn verða bara að taka ofan (og neðan stundum eins og í dag) fyrir betra liði. West Ham er kannski ekki fallega spilandi lið en eru þéttir og góðir þegar reynir á. Liverpool liðið í dag sýndi bara byrjunina á því sem framundan er þegar kemur að liðsbreidd, en hún er frekar döpur eftir fyrstu 2-3 varamennina.
Á eðlilegum degi eigum við að taka West Ham en það er bara takmarkað sem hægt er að leggja á 12-13 leikmenn yfir heilt tímabil. Skortur á breidd er vandamál og það vantar eitthvað af bekknum til að kveikja í mönnum. Leikmenn eins og Origi og Minamino hafa verið bældir niður vegna þess að þjálfarinn neitar að skipta út leikmönnum.
Gott dæmi í dag er td Matip. Hann er alltaf einum spretti/tæklingu frá langri fjarveru en Klopp er óður í að spila honum en ekki Kounaté. Skilur það einhver? Klopp trúir á þetta gamla að spila alltaf bestu leikmönnunum í öllum leikjum. Hann gleymir hinsvegar að fótboltinn hefur breyst mikið og treysta þarf á allan hópinn meira en áður. Uxinn hefur fengið tvo leiki núna í röð sem er bara vegna meiðsla.
Ég er ekki að nöldra. Bara að benda á staðreyndirnar sem eru gapandi. Við þyrftum að fá inn tvo nýja í janúarglugganum til að halda okkar markmiði og ef ekki á illa að fara. Klopp þarf nýtt blóð.
Cresswell fær ekki einu sinni gult. Holegate fær beint rautt fyrir svipað brot fyrr í dag. Nær bolta en fylgir eftir.
Annars nokkuð verðskuldað hjá West Ham verð ég að segja. Andi í liðinu.
Ég bara trúi því ekki Klopp hafi ekki viljað miðjumann í sumar. Ég veit Elliot meiddist en common. Að Oxdale byrji gegn West Ham. Hvenær, eftir þessi frábæru ár Klopp hjá Liverpool fær hann að versla fyrir alvöru?
Djöfull er þetta erfitt tap. West Ham er bara allt í einu jafn gott lið og Liverpool nema Liverpool er með Salah. Höndla ekki að dragast í baráttuna um þriðja og fjórða aftur. Verum frekar í top3 deildinni.
Þetta ofmetna west ham drasl sem allir eru með hann harðann yfir springur og moyes tekur við utd aftur. Ömurlegur leikur hjá LFC og vörnin skelfileg, miðjan líka.
West ham vildi þetta og Alisson er bara alls ekki nógu grimmur í þessum hornspyrnum. Bara ömurlegur leikur hjá honum. Virgill beygjir sig niður í hornspyrnu ? Hvað er það ? Nú fer það að sýna sig að kaupa ekki miðjumann sl sumar. Meiðslalistinn lengist og svo er Afríkukeppnin í janúar:-( hvað þá ? Hvað er planið þá ?
Planið er að reyna að selja Origi og kaupa miðjumann fyrir peninginn. Ef það er afgangur, þá er það frábært.
Players IN:
Ibrahima Konate – RB Leipzig – £36m
Spent: £36m
Players OUT:
Gini Wijnaldum – PSG – Free
Harry Wilson – Fulham – £12m
Marko Grujic – Porto – £10.5m
Xherdan Shaqiri – Lyon – £9.5m
Taiwo Awoniyi – Union Berlin – £6.5m
Kamil Grabara – Copenhagen – £3m
Liam Millar – Basel – £1.3m
Received: £52.3m
reyndar eru þetta 42,8 sem er tæpar 7 í hagnað, plús einhvern innkoma fyrir lánsdíla.
Samt þurfti að selja til að kaupa, þrátt fyrir ofurdeildina og Kabak Ben Davies reddinguna.
Hvaða drulla var þetta eiginlega?!
Það er áhyggjuefni hvernig seinustu tveir leikir hafa verið, liðið verið hægt og virka þreyttir og búið að vera alveg slökkt á manni eins og Salah
Og 5 mörk fengin á okkur í þessum tveimur leikjum og það gegn Brighton og West ham.
Svakalega eru menn að gera í buxurnar sínar af heimsins mestu heimtufrekju og neikvæðni. Það hlaut að koma að þessuu fyrr en síðar enda sömu menn spilandi aftur og aftur fyrir utan neiðarskiptingar á miðjunni því þar er meiðslahrinan í hámarki. Við vissum alveg að þessi vetur yrði erfiður enda vantar okkur helst 2 klassa miðjumenn. Þetta kapphlaup er samt ekkert búið og við erum í baráttunni og munum vetða það allt til enda. Það er ekkert lið að fara að vinna titilinn með 90+ stig.
Afram gakk
YNWA
Þú neglir naglann svo fast í höfuðið að hann fór í gegnum plankann
“ Við vissum alveg að þessi vetur yrði erfiður enda vantar okkur helst 2 klassa miðjumenn”
Þetta er nákvæmlega það sem menn eru að reyna að koma orðum að og útskýra með röksemdarfærslu og jafnvel gagnrýna þjálfarann/eigendur fyrir að gera ekkert í því sem þú segir vanta. Ef það er neikvæðni og heimtufrekja………
Róa sig aðeins í rauða teipinu. Ekkert lið verður betra nema það naflaskoðar sig eftir hvern leik og gagnrýnir sjálft sig. Ef menn sjá ekkert nema sitt eigið lið þá tapa menn sér í eigin rugli og önnur lið fara fram úr.
Ég endurtek. Tvo nýja menn um áramótin til að lyfta upp andanum og styrkja hópinn. Það er til einskis að vera að koma út í plús í öllum gluggum og nöldra yfir covid, of háu eldsneyti, lestarmiðar í Kína hækkað, sykurskattur á gosi….…eða hvaða afsökun sem það er bara til að fjárfesta ekki í liðinu. Við biðjum ekki um meira en að þeir geri það sem þeir lofuðu.
Eftir ellefu umferðir tímabilið í fyrra vorum við jú með 24 stig en lakari markatölu. Hins vegar voru ManCity þá í 5. sæti með 21 stig … og þeir urðu meistarar. Ég er ekkert að spá endilega öruggum sigri okkar manna í vor, en mér finnst svartsýnin vera of mikil. Hamrarnir unnu verðskuldað og nú þarf bara að girða sig í brók. Salah verður t.d. ekki svona slappur aftur … vona ég YNWA
Hræðileg frammistaða, frá fyrstu mínút, Varnarleikur og varnarvinna liðsins algerlega ömurleg, og er búin að vera það ansi oft. Gáfum mörk, enn einu sinni, núna heil 3.
Einfaldlega ekki nógu gott.
Þetta lið er ekki að fara að gera neitt í vetur, að óbreyttu, ekki neitt. Og það má alveg kalla mig neikvæðan og allt slíkt, þetta er hins vegar mín skoðun.
Það er allt að rætast sem ég sagði fyrir tímabilið í sumar, ömurleg innkaupastefna er að koma í bakið á okkur. Förum inn í mótið með sama lið og byrjaði í fyrra, með alla þessa meiðslapésa og kjarninn í vörninni að koma úr mjög erfiðum meiðslum. ÖLL önnur lið styrktu sig, nema við,FÁRÁNLEGT!
Það vantar ferkst blóð, það vantar einhver á miðjuna í stað Gini, (heldur betur að koma í ljós hversu mikilvægur hann var liðinu) það vantar markaskorara/níu, og það vantar reyndan hafsent, sem ekki er meiðslapési eða að koma úr erfiðum meiðslum.
Sagði það fyrir mót að við yrðum í baráttu um 4. sætið, og ég stend við það.
Væri ekki ráð að fá Lalana lánaðan frá Brighton um áramótin?
YNWA.
Fúl úrslit en þetta er nú samt ekki svona sótsvart.
Horfum á tölurnar:
Hversu oft “missir” Alisson inn þrjú auðveld mörk í leik? Svar: ALDREI nema akkúrat í dag. Liðið skoraði tvö mörk, oftast dugir það til að tapa ekki leikjum.
Horfum á Klopp:
Hann valdi vitlausan mann á vinstri kantinn. Ég er í þeim hópi sem skilur ekki hvers vegna Tsimikas fær ekki að spila fleiri leiki. Robbo er alveg sprunginn í augnablikinu. Og Fabinho greinilega ekki búinn að ná sér alveg af meiðslum. En þar fyrir utan – hvaða menn átti hann eiginlega að velja aðra en þá sem voru inná? Þetta voru nokkurn veginn okkar bestu ómeiddu ellefu.
Það eru fjögur stig í toppsætið. Öll efstu lið hafa verið að tapa stigum hér og þar. Og innan tíðar koma meiddu strákarnir aftur í liðið.
YNWA
Þrátt fyrir að Tsimikas hafi staðið sig betur en Robbo á þessu tímabili, þá var ég nú samt á því að velja Robbo í dag.
En líklega var það röng ákvörðun því Robbo var skelfilegur og það er eins og samkeppnin sé að hafa slæm áhrif á hann. Tsimikas fær slatta af leikjum í törninni eftir landsleikjahlé og hann á góða möguleika á að verða LB nr. 1.
Gleymdi jákvæðustu punktunum. Mörkunum.
Frábær aukaspyrna hjá TAA. Meira svona takk, minnir á gamla gullaldartíma (hitteðfyrra).
Og Origi. Getur verið að honum finnist alltíeinu gaman að spila fótbolta?
Ok, slappur leikur. Ömurlegt.
En að afskrifa titilinn, eins og sumir eru að nefna hérna, finnst mér ansi hæpið. Bara 4 stig í toppliðið sem er búið að vera í formi dauðans. Ég er viss um að strákarnir okkar snúi þessu lélegu gengi við og nái að breyta þessum jafnteflisleikjum í sigra.
YNWA
Það hefði kannski átt að kaupa einhverja leikmenn í sumar? Einhverja plástra kannski?
!Helvítis fokk!!
West Ham voru einfaldlega sterkir, hraðir, ákveðnir, fóru í boltann og leikmenn á fullu og gáfu ekkert eftir.
Sterkir leikmenn og uppskáru.
Allison staðsetti sig illa í hornspyrnum og 2 mörk. Hefði viljað skipta Robba út svo og uxanum.
Gaman fyrir Origi að skora (2 mörk í 2 innkomum í 2 leikjum). Kannski hentar honum vel að hanga inn í teig.
Jafntefli á móti Brighton var óþarfi….strákarnir sofnuðu é verðinum. Ætluðu að taka þessu rólega.
Mótið er ekki búiðþ
Sælir félagar
Hvarnig stendur á því að miðverðirnir okkar vinna ekki eitt einasta skallaeinvígi – hvorki í eigin teig eða andstæðinganna. Við höfum ekki fengið eitt einasta mark frá miðvörðunum okkar á þessari leiktíð. Eru þeir svona linir eða hvað? OK Virgill er góður varnarmaður maður á mann með boltann á jörðinni en skallar inni í teig sjást varla. Öðruvísi mér áður brá þegar hann og Matip voru að setja skallamörk alltaf annað slagið. Eftir að þriðjungur mótsins er búinn er það Jota sem skorar mest af skallamörkum, þessi stubbur.
Eg nenni annars ekki að ergja mig yfir fáránlega lélegum frammistöðum einstakra leikmanna, Robbo, Matip, Mané, Alisson og Fab. Frammistaða liðsins í heild var afar döpur og verður að skrifast á alla líka Klopp og co. Svona gerist eftir vinningsleiki. MU – Liverpool 0 – 5. Svo skítur liðið uppá bak eftir að vera tveimur mörkum yfir á móti Brighton. Tvö núll á móti Atletico og svo skítur liðið á sig á móti WH. Bendir þetta til að hroki og sjálfsánægja sé hugarfar sem sezt í menn eftir vinningsleiki? Nei ég bara spyr.
Það er nú þannig
YNWA
Ég veit ekki með hvort menn eru að ofmeta sig, mögulega eða kannski er þetta eitthvað annað. Þetta er næstum sama lið og tón 99 og 97 stig í deildinni svo þeir vita um hvað deildin snýst.
Trent og VVD voru að mínu mati þeir einu sem léku vel. Hendó og Salah voru þokkalegir. Aðrir áttu off dag og það er of mikið í leik sem þessum.
Annars grunar mig að það eigi ekki mörg lið eftir að fara með 3 stig frá þessum velli.
það er mjög einfalt svar við því afhverju okkar stóru kallar eru ekki að ná inn marki í hornum það er vegna þess að Robbo nær í 90% tilfella ekki yfir 1 mann og þetta er örugglega ekki of lág prósenta hjá Trent er það örugglega c.a. 60% á fyrsta mann sem er að sjálfsögðu varnarmaður andstæðings.Ef téður Tsimikas væri í inná áð taka horn skal ég lofa þér að tilfellinn fara niður í 10% eða jafnvel minna.
YNWA.
Sama vandamálið trekk í trekk er mótherjar pakka í vörn, þá dóla liverpool menn á miðjunni og ekkert gerist.
Maður er með óbragð í munninum yfir þessu tapi. Það er svo sem ekkert skrítið því við erum einfaldlega ekki vanir að tapa nema á 6 mánaða fresti núna.
Það er ekki sama hvernig tapið ber að. Við vorum ekki nægilega sterkir og ákveðnir á móti mjög sterku liði sem er í fantaformi. Svo gott er formið þeirra að það mun klárlega ekki endast út tímabilið.
Annað sem ég bara verð að minnast á og það er rauðaspjaldið sem við fengum ekki á ferilseyðileggingartæklingu þeirra fljótlega eftir ólöglega markið þeirra. Til hvers í fj”#$% er VAR ef það er ekki notað til að staðfesta þessar vitleysur?
Þessar hornspyrnur hjá þeim. Sóknarmaður west ham var bara í Alisson og varnarmenn okkar gerðu ekkert í þvi ?????? Þeir áttu að henda honum frá. Virgill átti að sýna smá grimmd þarna og vernda hann, en nei. Þetta fengu þeir að komast upp með og einbeita sér að því að trufla hann.
Ef ég hefði verið þarna þá hefði ég einhent honum burt þarna.
Ég verð nú bara að segja það að Mané var slakur í þessum leik.Hann klúðrar dauðafæri í stöðunni 1-1 og svo missir hann boltann og gefur WH færi á hraðaupphlaupi sem verður að marki.
Enginn dekkun í báðum hornspyrnunum og auðveld mörk komu þar – alveg frír í fyrra markinu og enginn að fylgja Zuma í seinna hornspyrnumarkinu…..og svo toppar Mané slakan leik með því að hitta ekki markið í lokin.
Ef þessi háa lína á að virka,þá má ekki missa boltann svona eins og Mané gerði.Annars var þetta bara vondur leikur og nú er bara að sleikja sárið koma sterkir inn eftir hlé og taka Nallarana.
Held að við verðum að róa okkur aðeins, West Ham voru flottir og skipulagið þeirra uppá það allra besta, leikurinn fékk aldrei almennilega að fljóta hjá okkur og menn eins og Salah og Mane sáust varla í leiknum. Moyes kann að stilla upp varnarlínu gegn liði sem langar að spila boltanum. Það hlaut að koma að því að Liverpool tapaði leik og nú er lítið hægt að gera annað en að fara aftur í basicina, ég treysti Klopp og félögum til að finna lausnir á þessu en mér hefði nú sem nýji miðvörðurinn okkar sem virðist tröll að burðum hefði að ósekju mátt fá þennan leik sérstaklega þar sem vitað var að við yrðum í vandræðum með stóra og stæðilega framherja þeirra auk þess sem Robbo virðist í einhverjum dvala þessa dagana og Grikkinn hefur verið flottur þá leiki sem hann er að spila. Arsenal næstir og það verður drulluerfiður leikur en sem betur fer heilir 12 dagar í það þannig að það er verk að vinna hjá Klopp og félögum þangað til. Nú er bara að vona að menn komi heilir heim úr þessu landsleikjahléi. En hvað veit ég svo sem ?
Það er ekkert lið sem leikur betur en andstæðingurinn leyfir. Þetta WHam lið er hörkugott og það munu ekki mörg lið labba frá þeim með 3 stig.
það er skelfilegt að lesa það sem þið skrifið. Það er nauðsýnlegt að vera jákvæðir, einmitt þegar við töpum þá eigum við að flikkjast um liðið og verja það. Þið munið Y.N.W.A.
Sælir félagar.
Erum að leka alltof mörgum mörkum eins og sakir standa. Bað til almættisins að VvD yrði jafn góður leikmaður eftir meiðslin og áður, það er í fjarri lagi. Pickford búinn að draga þann sem var einn af 5 bestu miðvörðum í heimi verulega niður. Veit að það tekur tíma að spila sig í gang en hann er búinn að spila fullt af leikjum og kominn tími til að ég sætti mig við raunveruleikann.
Eina ráðið er að prófa Matip og Konaté saman í næsta CL því við erum komnir áfram hvort eð er.