1-0 Jota, 2. min
2-0 Jota, 31. min.
3-0 Thiago, 36. min.
4-0 Van Dijk, 52. min
Það að segja að þessi leikur hafi byrjað fjörlega er líklega understatement. Það voru innan við 15 sec búnar þegar gestirnir fengu fyrstu hornspyrnu leiksins og innan við tvær mínútur búnar þegar knötturinn var kominn í netið hinumegin! Robertson lék þá knettinum á Mané og hélt hlaupinu áfram inn á vítateig, Mané sendi boltann frábærlega á milli fóta Bednarek á Robertson sem sendi hann út í vítateig á Jota sem skoraði örugglega, 1-0!
Mínútu síðar s.a. þá átti Thiago slaka sendingu til baka undir pressu en Alisson kom á móti og bjargaði frábærlega!
Á 11 mínútu áttu gestirnir að fá rautt að mínu mati eftir bæði allt of seina tæklingu á Mané en hún var líka langleiðina aftan í hné. Gult spjald var niðurstaðan (sá ekki að VAR væri að skoða þetta eitthvað) og aukaspyrna á vellinum vinstra megin. Robertson átti þar frábæra sendingu á títtnefndan Mané sem skoraði með skalla en var dæmdur rangstæður (virkilega tæpt!) svo staðan ennþá 1-0.
Leikurinn hélt áfram að vera fjörlegur eftir þetta. Salah átti gott skot rétt framhjá og gestirnir voru óhræddir við að pressa okkar menn framlega og náðu að koma sér í nokkrar ágætis stöður án þess að skapa sér einhver færi. Þeir fengu þó fínt færi á 22 mínútu þegar TAA tók innkast, sendi allt of lausa sendingu á Konate sem Broja komst inn í. Konate náði að hlaupa hann uppi og trufla en Alisson kom á móti og varði (aftur) vel. Við aftur að reynast okkur sjálfum ansi erfiðir með klaufalegum sendingum.
Það var svo á 31 mínútu sem annað mark leiksins kom (loksins), Thiago átti misheppnaða sendingu yfir á Salah sem að gestirninr komust inní, TAA vann boltann, sendi beint aftur á Salah sem tók þríhyrning við Henderson en sá síðarnefndi átti frábæra sendingu á Salah bakvið varnarlínu Southampton. Salah sendi þá boltann fyrir á Jota sem var aleinn á fjarstönginni og kláraði örugglega, 2-0!
Það var svo 5 mínútum síðar sem að Thiago skoraði í öðrum leiknum í röð. Salah sendi háan bolta inn á teig sem var skallaður í burtu, Thiago náði boltanum, kom hlaupandi inn í vítateig, lék á varnarmann gestanna og átti skot með vinstri sem var á leiðinni á markið en fór í varnarmann og inn, 3-0 eftir 36 mínútur takk fyrir!
Southampton fengu gott færi á 44 mínútu þegar Armstrong fékk sendingu frá Borja út i miðjan vítateig, átti gott skot niður í hornið hægra megin en Alisson varði enn og aftur frábærlega í horn. Eftir þessa hornspyrnu hefði Liverpool getað komist í 4-0 en Salah, Jota og Mané komust þrír gegn einum en Salah átti slaka sendingu fyrir sem Jota og Mané náðu ekki í.
3-0 í hálfleik í frábærum leik.
Síðari hálfleikur
Síðari hálfleikur byrjaði nú ekki jafn fjörlega og sá fyrri, enda erfitt. Það tók samt ekki nema um 5 eða 6 mínútur að auka við forystuna þegar að TAA tók hornspyrnu, boltinn barst til Van Dijk sem hamraði boltann viðstöðulaust úr miðjum vítateig í markið, 4-0!
Thiago fór útaf eftir 58 mínútur og inn kom fyrrum Soton maðurinn Ox og Henderson yfirgaf völlinn eftir 66 mínútur og inn kom Milner (hvorugt vegna meiðsla).
Jota var hársbreidd frá því að ná í þrennuna á 73 mínútu. Þá átti Robertson aðra frábæra sendingu fyrir markið en Jota náði ekki almennilega til boltans sem endaði upp í stúku (kannski á kostnað Salah sem var aleinn á fjarstönginni).
Jota fékk svo hvíldina á 80 mínútu þegar Minamino kom inn, fínt að geta tekið Thiago, Henderson og Jota útaf í dag fyrir borgarslaginn á miðvikudaginn.
Það gerðist ekki mikið síðustu 10 mínúturnar eða svo, Liverpool líklegri aðilinn en náðu ekki að bæta við þrátt fyrir fína sénsa. 4-0 því lokaniðurstaðan, virkilega góður sigur í mun þægilegri leik en ég átti von á.
Bestu menn Liverpool
Það er frekar furðulegt að segja það en þrátt fyrir að þetta hafi verið frábær leikur hjá okkar mönnum þá hefur maður þá tilfinningu að liðið eigi eitthvað inni. Sóknarleikurinn var frábær í dag en kannski aðeins á kostnað varnarleiksins (eða kannski vorum við bara að gera okkur erfitt fyrir, sérstaklega í fyrri hálfleik þegar við vorum að eiga slakar sendingar til baka) – þetta skrifast nú kannski líka bara á það hvernig gestirnir mættu til leiks, náðu oft á tíðum upp fínni pressu framarlega á vellinum sem olli okkur vandræðum inn á milli en voru fyrir vikið opnir til baka og Liverpool er lið sem refsar.
Salah oft verið betri en skilaði samt sínu, er alltaf að draga til sín varnarmenn og átti góða stoðsendingu á Jota. Mané var líka virkilega sprækur, sérstaklega í fyrri hálfleik og var óheppinn að markið hans hafi ekki fengið að standa.
Robertson fannst mér eiga sinn besta leik í talsverðan tíma, átti frábært hlaup og góða stoðsendingu í fyrsta marki Jota og hefði átt að leggja upp annað mark í síðari hálfleik þegar hann átti frábæra fyrirgjöf á Jota (ásamt því að eiga “stoðsendinguna” á Mané í markinu sem var dæmt af).
Mínir menn leiksins eru tveir í þetta skiptið. Fyrst er það Diogo Jota sem var með tvö mörk í dag og óheppinn að ná ekki þrennunni á þeim 80 mínútum sem hann spilaði. Það eru ekki margir leikmenn þarna úti sem geta fyllt upp í skarð Firmino en Jota er klárlega einn af þeim. Hinn er Alisson Becker, þvílíkur markvörður. Hann átti þrjár vörslur í fyrri hálfleik sem skiptu gríðarlegu máli, enda leikurinn mjög opinn fyrstu 45 mínúturnar. Það er nánast hætt að koma manni á óvart, hann er að eiga svona vörslur í hverjum leik nánast, fáir sem eru jafn öflugir og hann einn á móti einum.
Umræðan
- Sóknarleikur liðsins. Liverpool er fyrsta liðið síðan Sunderland (árið 1927) til þess að skora amk 2 mörk í 17 leikjum í röð! Sóknarleikur liðsins þessar vikurnar er á pari við það besta sem við höfum fengið að sjá frá þessu liði.
- 3. Liverpool er í dag með þrjá markahæstu leikmenn deildarinnar. Salah með 11, Mané 7 og Jota 7 (Vardy einnig með 7 mörk).
Næstu verkefni
Það er stór vika framundan! Þrjú verkefni og ekkert þeirra á Anfield. Fyrst er það litli bróðir á Goodison Park á miðvikudagskvöldið áður en við heimsækjum Wolves eftir viku. Þriðjudaginn 7. desember er það svo San Siro í leik þar sem ég rétt vona að Klopp skilji nánast alla aðalleikmenn liðsins eftir í Liverpool borg, enda álagið mikið þessa daganna og næstu vikur.
Þar til næst.
YNWA
Þetta Liverpool lið fer með himinskautum þessa dagana. Okkar heittelskuðu leikmenn eru heimsins bestu skemmtikraftar nú um stundir. Léku allir frábærlega í dag og hefðu vissulega getað skorað helmingi fleiri mörk, en það eru bara enginl ið að skora meira.
Jota mögulega maður leiksins.
Alisson með stórleik í markinu. Það eitt sýnir það að mótherjarnir bitu talsvert frá sér í leiknum.
VVD og Fabinho frábærir
Robbo með sinn besta leik í langan tíma.
Maður er hálf ofdekraður að fá að njóta þessa liðs viku eftir viku og megi það halda lengi vel áfram.
Þetta lið með alla leikmenn heila er með bestu liðum heims, á því er engin spurning. Það er stærðin á hópnum sem gæti farið illa með okkur í des og jan en vonandi fáum við liðsauka strax í jan.
En frábær úrslit í dag þó að liðið hefði alveg getað spilað betur, vorum of mikið að missa boltann á slæmum stöðum og gefa færi á okkur en Alisson var frábær í dag sem oft áður.
Konate og Van Dijk voru flottir saman og flott að sjá Robertson koma sterkan til baka eftir smá hvíld.
Miðjan var flott og sóknin síógnandi allan leikinn.
Núna þarf maður að halda með United á morgun þannig að chelsea nái ekki aftur 4 stiga forskoti.
Sæl og blessuð.
Ég vel Robbo mann leiksins en það er auðvitað erfitt að ganga fram hjá leikmanni sem potar honum tvisvar í netið. En mér fannst Robbo ögn betri. Jota gerði t.d. nokkur mistök sem komu ekki að sök en mér fannst Robbo gera allt rétt! Jota hefði t.d. átt að skora fyrir opnu marki eftir stoðsendingu hans (eða það finnst okkur Salah amk).
Þá er gott að Konate og Chambo fái að slípast til. Þetta er demantar sem eru enn að mótast. Alltaf eitthvað að gerast þegar Chambo fær boltann en hann má samt bæta lokahnykkinn í þessum syrpum sínum. Konate er gríðarlegt efni og er í uppáhaldi hjá mér. Hann hefur verið að missa menn bak við sig en við kvörtum ekki þegar leikirnir enda með þeim hætti sem verið hefur. Svo þroskast hann og mótast eftir því sem hann fær fleiri leiki. Á sama tíma minnka líkurnar á að Matip meiðist – en hann hefur líka verið að vaxa með hverri vikunni.
Nú er bara að vona að við kennum blástökkum ærlega lexíu á miðvikudaginn. Hafi einhvern tímann verið tilefni til þess…
Takk fyrir mig!
Sælir félagar
Kærar þakkir fyrir skýrsluna Eyþór. Alisson maður leiksins að mínu mati og Salah kemur honum næstur og svo Mané og Thiago. Jota kemst ekki nærri því að vera maður leiksins að mínu mati og nenni ég ekki að ræða af hverju þrátt fyrir 2 mörk skoruð. Salah nottla nýtur ekki sannmælis vegna þess hvað hann hefur sett “standardinn” hátt með framistöðum sínum á leiktíðinni. Hann leggur upp og skorar og dregur til sín helminginn af vörnum andstæðinganna í hverjum leik. Það ætti að gefa öðrum sóknarmönnum færi til að skora og gerir það. Hann er einhver magnaðasti leimaður heims nú um stundir og verður að njóta sannmælis þegar verið er að gefa leikmönnum einkunnir.
Það er nú þannig
YNWA
” Jota kemst ekki nærri því að vera maður leiksins að mínu mati og nenni ég ekki að ræða af hverju þrátt fyrir 2 mörk skoruð”
Nennir ekki að ræða af hverju vegna þess að ástæðan er getur vart verið önnur en sú að þér er mikið í nöp við Jota eins og ótal innlegg þín undanfarið gefa til kynna. Slæmt þegar svona barnaleg hlutdrægni lamar dómgreindina.
Alisson vissulega með motm kall.
Sæll Birgir
Það er nú þannig að leikmenn koma okkur misjafnlega fyrir sjónir. Mér dettur ekki í hug að agnúast út í þig fyrir að hafa aðra skoðun á Jota en ég hef. Eins finnst mér að ég megi hafa mína skoðun á leikmanninum án þess að þurfa að þola hnjóð fyrir. Barnaskapur minn í þessu efni er líklega á pari við þinn og ekkert nema gott um það að segja. 🙂
Það er nú þannig
YNWA
Þæginlegur leikur og spilaðist nákvæmlega eins og Klopp vildi.
Skoruðum 4dja markið snemma í seinni eins og ég vonaðist eftir og hægt að hvíla menn aðeins fyrir átökin á miðvikudaginn.
Þeir eru bara búnir að klára leikina löngu áður en er flautað af og yfirburðinir eru miklir.
Hef ekki nokkrar áhyggjur af Liverpool þeir eru lang best spilandi liðið á Englandi í dag og þó að Chelsea sé eh stigum fyrir ofan það skiptir engu á þessum tímapunkti margt getur breyst.
39 mörk skoruð so far Chelsea með 30 og City með 25 þetta segir manni margt en er reyndar nokk viss um síðarnefndu eigi eftir að bæta eh við í leikjunum á morgun en kemur í ljós.
Maður leiksins er Jota hann var hársbreidd frá þrennuni í dag.
Verð að vera ósammála nokkrum um að Jota hafi verið maður leiksins. Vissulega potaði hann tveimur inn en að öðru leiti átti hann mikið af feilsendingum og hélt boltanum illa. Sama má segja um Mané og Salah sem mér fannst klappa boltanum alltof mikið og ég hugsa oft út í það hvort þeira tölfræði væri ekki bara betri ef þeir tæku stundum bara gott þríhyrningsspil í stað þess að reyna oftast skotið. Þó þeir geri það Vissulega oft mjög vel. Góð úrslit miðað við að mér fannst fremstu þrír vera fastir í 2.gír.
Robertson frábær í dag og vonandi er þetta sem koma skal eftir erfiða byrjun hjá kallinum. Alisson frábær að vanda og Dijk verður bara betri og betri. Þessir stóðu uppúr á meðan aðrir voru á pari meðan fremstu þrír hafa átt betri daga út á velli.
Nú bara njóta þess að horfa á sunnudagsleikina. Áfram WestHam og ManUtd !
Kv sinni
Skysports að gefa einkunnir í takt við það sem ég var að segja. Mané og Salah fá 6 en allir aðrir fá 7 eða hærra. Jota fær 8 fyrir sín tvö mörk en væri örugglega í kringum 5una ef ekki fyrir þau.
Ekki hrifinn af Konate,er ekki tilbúin fyrir þennan hasar a Englandi enn sem komið er.Matip betri kostur að minu mati.Svo kemur Gomes eftir meiðslin og tekur stöðuna af Matip.
Nostalgían er sexí en Gomez mun aldrei ná fyrri hæðum aftur.
Ég ætla að vera þér algjörlega ósammála, mér finnst hann einmitt búinn að vera fínn og með flottan hraða. Persónulega mundi ég setja Gomes aftast í röðina enda búinn að vera ömurlegur í talsvert langan tíma.
“Konate,er ekki tilbúin fyrir þennan hasar a Englandi enn sem komið er.”
Hvað var ég að heyra ? Þessi maður er skrímsli.Hann myndi flengja King Kong og taka Chuck Norris í nefið. Hann sló næstum því allt Man Und liðið í rot er hann blakaði til þeirra hendinni, þegar Ronaldo var eitthvað að derra sig.
Reyndar var vörnin oft að opnast í þessum en ég myndi segja að það hefði meira með hvernig liðið í heild sinni verst. Allavega tók ég ekki eftir því að hann hafi átt eitthvað verri dag á skrifstofunni en hver annar.
Ég elska þennan leikmann. Gríðarlega mikilvægur.
Konate er mikið efni og framtíðarmaður hjá okkur. Ég hló upphátt þegar Porto leikmaðurinn flaug frá honum eftir smá öxl í öxl og hann fékk gula sjaldið.
Ég held að þessi Konate geri sér ekki alltaf grein fyrir því hvað hann er sterkur.
Það sem mér finnst einkenna liðið síðustu leiki er hvað miðjan er orðin öflug aftur.
Þeir styðja við pressu fremstu manna, vernda vörnina og dreyfa spilinu. Lítur allt út fyrir að vera svo auðvelt.
Athyglisvert að Klopp skiptir frekar út miðjunni til að hvíla menn heldur en bakverði eða fremstu menn sem eru veikari stöður með breidd að mínu mati. Vill greinilega ekki taka neina sénsa.
Að hafa Hendo, Fabiano og Thiago er bilun. Hvað þá að hafa þá inná á sama tíma.
Þetta var ez pz. Þurfum reglu þar sem að leikir eru flautaðir af ef lið kemst í fjogurra marka forskot. Leikrurinn er uninn á þeim tímapunkti. GG. Spara leikmenn, meiðsli. Sýnir einfaldlega fram á gæðamun liða og sparar verri liðum *hóst”Man.Utd*hóst* verri niðurlægingu.
Þrjú mörk eru doable #Istanbul.
Jota maður leiksins. Pirraður útí Klopp að skipta honum út og gefa honum ekki séns á þrennu. Það var það sem dreif leikmenn áfram í að vilja skoira. Leikurinn dó með skiptingunni.
Var það ekki bara planið hjá Klopp? Honum fannst menn vera að hlaupa og ærslast full mikið miðað við stöðuna og programið framundan og skipti þá hungraðasta manninum af velli og allt datt í dúnalogn.
Magnaður sigur hjá okkar stórkostlega liði. Manni langar að vonast til útisigurs hjá nördunum á móti tjelski en því fylgir óbragð í munni.
Fínn sigur.
Konaté fottur í dag, er hann orðinn miðvörður númer 2? Matip þá númer 3, Phillips/Gomez 4-5. Orðin einstaklega góð breidd í vörninni með þessa þrjá mögnuðu miðverði.
Jota góður í dag, Thiago að spila vel, þurfum hann í formi áður en hann meiðist eftir 2-3 leiki
Virkilega áhugaverð niðurstaða á Brúnni í dag.
Sælir allir Liverpool vinir. Það sem ég sá út úr þessum leik var að Klopp var ekki ánægður, held að ástæðan sé sú að Dyrlingarnir leiddu liðið til að spila eins og þeir vildu enda fengu þeir nokkur færi. Klopp vill að liðið spili sinn bolta, alltaf. Mér fannst spilamennska liðsins svolítil óreiða og hef ég ekki séð það lengi. Við vorum heppnir að skora 4 og þeir ekkert. Það sást líka á Virgil að hann var ekki ánægður með að vörnin fór úr stöðu trekk í trekk. Ég er ánægðu með að við unnum og Klopp mun laga þessa hluti fyrir næsta leik, það er næsta víst.
Hluti af varnarvandanum er örugglega tímabundinn og snýst um að Konaté er ekki fullþjálfaður. Hann hlýtur að læra hratt við hliðina á VVD.