Rauði herinn mætir Rodgers & refahóp hans í deildarbikarnum kenndum við Caraboa í þessum þéttpakkaða jólamánuði. Í gær ákváðu ensku úrvalsdeildarfélögin á fundi sínum að ekki yrði gert hlé á keppnum þrátt fyrir fjölda Covid-smita leikmanna sem hefur valdið mörgum frestunum leikja síðustu vikur.
The show must go on og því hitum við hér með upp fyrir þennan rauðbláa bikarslag með upphitaðri jólaglöggvun!!
Mótherjinn
Fyrir rétt rúmum tveimur áratugum þá fóru Leicester City mikinn í deildarbikarnum og virtust sérhæfa sig í þeirri keppni undir stjórn Martin O’Neill. Árin 1997 og 2000 unnu þeir deildarbikarinn ásamt því að komast í úrslitin árið 1999 en liðið var á þeim tíma vel mannað breskum kjarna með ungan Emile Heskey í framlínunni ásamt harðnöglum eins og Neil Lennon, Robbie Savage, Gerry Taggart og Matt Elliott.
Þá kom Arnar Gunnlaugsson við sögu í sigurgöngunni árið 2000 með því að koma tvisvar inná sem varamaður í keppninni og skora úr sínum spyrnum í vítaspyrnukeppnum eftir framlengingar. Arnar náði þó ekki að vera í hópnum í sjálfum úrslitaleiknum gegn Tranmere Rovers og var lánaður stuttu síðar til Stoke City þar sem hann spilaði og sigraði í úrslitaleik Auto Windscreen Shields á Wembley.
Brendan Rodgers snýr aftur á sinn fyrri heimavöll með Leicester City sem ríkjandi FA Cup meistara hafandi brotið þann bikarmúr sem stjóri ensks liðs en einnig nældi hann í marga skoska bikara með Celtic. Sökum Covid-smita þá hafa Leicester ekki spilað fótboltaleik í 10 daga og munu því líkt og Tottenham um helgina mæta hvíldari til leiks þó að vissulega vanti þá einnig leikmenn útaf smitunum. Hversu mikla áherslu Rodgers leggur á þessa keppni mun koma í ljós en hann var með nokkuð blandað byrjunarlið í síðasta deildarbikarleik liðsins gegn Brighton & Hove Albion.
Nokkuð líklegt þykir að Patson Daka fá tækifæri í fremstu víglínu en hann skoraði m.a. fjögur mörk gegn Spartak Moskvu í Evrópudeildinni og sitt annað úrvalsdeildarmark gegn Newcastle í síðasta leik. Hugsanlegt er að okkar fyrrum leikmaður Danny Ward fái að spila þessa keppni en það hafa verið hans einu spiluðu leikir í vetur ásamt því að verja mark Walesverja í öllum landsleikjum þeirra.
Líklegt er því að Brendan Rodgers stilli liðinu upp á þennan máta:
Liverpool
Þrátt fyrir töpuð stig í síðasta bardaga gegn Tottenham, Paul Tierney og VAR-dómgæslu þá hefur aðventutörnin gengið glymrandi vel hjá Liverpool með stanslausa sigra og flottar frammistöður. Núna er þó farið að þynnast í leikmannahópnum með meiðslum, Covid-smitum og leikbönnum þannig að deildarbikarinn er kærkomið tækifæri til að gefa ungum og ferskum leikmönnum leiktíma.
Tyler Morton ætti að halda sæti sínu á miðjunni og það er helst spurning hvort að Milner byrji inná en ég veðja á að hann komi af bekknum. Ungstirnið Kaide Gordon fær séns í sókninni með Mino-bræðrunum Fir og Mina. Í bakvarðarstöðunum byrjar gríska goðið Tsimikas ásamt Nico velska Williams með Írann Kelleher í markinu. Þá verður áhugavert að sjá hvernig bekkurinn verður skipaður og hvort þar verði kornungir og lítt þekktir leikmenn.
Lijnders-varpið
Pep Lijnders annaðist blaðamannafund dagsins og fór yfir stöðu mála á hreinskilinn og beinskeyttan hátt. Hann staðfesti einnig að Divock Origi hafi ekki jafnaði sig og verði ekki leikfær:
Upphitunarlagið
Með bláliða í heimsókn í Bítlabænum hálftíma fyrir hátíðarhápunktinn þá kemur ekkert annað til greina en að heyra sjálfan leðurklæddan kónginn Elvis Presley taka Blue Christmas. Verða þetta Brendan-blúsuð og blá jól eða heavy metal rockandi rauð Klopp-Christmas???
Spakra manna spádómur
Bæði lið verða án margra leikmanna hvort sem þeir verða óleikfærir eða hvíldir en fyrir vikið gæti leikurinn verið opnari og með fleiri mörkum. Sér í lagi gæti miðjuspil beggja liða skipt sköpum en öll byrjunarliðsmiðja Liverpool er ekki í boði frá byrjun eða bekk. Spáin gerir ráð fyrir að í venjulegum leiktíma verði staðan jöfn 2-2 en ég get mér þess til að lokatölur verði 3-2 eftir framlengdan leik.
Markaskorarar heimamanna verða Minamino, Firmino og varamaðurinn Salah sem skorar í framlengingunni til að koma Liverpool áfram í næstu umferð.
Carabao
Vel gert meistari
Vona að Liverpool liðið verði skipað mun meira varaliði en þetta. Vill helst ekki sjá neinn af þeim sem er að fara taka þátt í næst þremur leikjum í deildinni.
Vonandi verður liðið eitthvað á þessa leið:
Kelleher
Owen Beck – Gomez – Phillips – Neco Williams
Morton – Ox – Dixon-Bonner
Minamino – Firmino – Gordon
Skil ekki afhverju þessi keppni er ennþá til, skil enn verr afhverju stærstu liðin eru ennþá með í þessu og botna ekkert í því afhverju það er allt i einu spilað tvo leiki í undanúrslitum strax í kjölfarið á desember leikjaálags geðveikinni. Eða jú þeir sáu þarna séns á að kreista aðeins meiri pening út úr þessari keppni.
Þessi keppni er enganvegin þess virði þegar liðið er í bullandi titilbaráttu, reyndar ekki heldur þegar liðið er í baráttu um Meistaradeildarsæti og satt að segja bara í einhverskonar baráttu í deildinni.
Nat reyndar ekki leikfær. Svo er röðin í tómu rugli, Gordon væri alltaf á hægri kantinum með sinn vinstri fót, Morton í sexunni frekar en Ox. Neco frekar á hægri kantinum, þó hann hafi vissulega tekið leik og leik með landsliði Wales í vinstri bak (eða vinstri vængbakverði).
Það var nógu erfitt að raða inn mönnum sem gætu spilað þennan leik, hvað þá að hugsa fyrir réttar stöður! Já og ég steingleymdi Phillips. Djöfull.
Bíddu er spilað heima og að heiman í þessari keppni ? FOKK ! í alvöru ? En hvort sem það er einn leikur eða tveir þá líkur okkar þátttöku hérna. Við erum með alltof veikt lið fyrir Leicester sem teflir fram sínu sterkasta liði í þessum leikjum.
Já en bara í undanúrslitum, ekki á neinu öðru stigi keppninnar.
Fullkomlega galið.
Rosalega var Elvis flottur en hver er søngkonan sem tekur lagid med honum?
Martina McBride 🙂
Ég hélt að þeir væru hættir með Framlengingar í deildarbikar og færu beint í vító.