Liverpool er á leiðinni á Wembley í fyrsta sinn síðan vorið 2016 eftir 0-2 sigur á Arsenal í seinni undanúrslitaleiknum.
Mörkin
0-1 Jota (19. mín)
0-2 Jota (77. mín)
Gangur leiksins
Það skal alveg viðurkennast að Arsenal voru mun meira með boltann fyrstu 15-20 mínúturnar eða svo, og okkar menn virkuðu hálf ryðgaðir. Nallarnir fengu aukaspyrnu á hættulegum stað á 4. mínútu, Lacazette átti skot sem stefndi upp í Samúel en Kelleher var vel staðsettur og náði að slá boltann í þverslá. Matip náði reyndar að setja boltann í netið eftir horn, en var nokkuð greinilega rangstæður og vissi af því. En á 19. mínútu áttu Firmino og Trent gott samspil á miðjunni, boltinn barst til Jota vinstra megin sem fíflaði nokkra varnarmenn Arsenal, spilaði upp að vítateigsboga þar sem hann renndi boltanum snyrtilega fram hjá Ramsdale. 0-1, mögulega ögn gegn gangi leiksins, en 0-0 í fyrri leiknum var líka algjörlega gegn gangi leiksins, svo við erum ekkert að lesa meira í þennan blessaða gang. Eftir þetta var leikurinn í járnum, Arsenal fengu lítið af færum og vörnin okkar var bara að loka ansi vel á sóknir þeirra.
Ibrahim Konate kom inná í hléi fyrir Matip, kannski ekki skrýtið í ljósi þess að þetta var þriðji leikur Matip á viku. Ekki klárt mál hvort hann var eitthvað meiddur, en svo gæti líka hafa spilað inn í að hann var óvenju ónákvæmur í sendingum.
Diogo Jota var svo nálægt því að leggja upp mark fyrir Kaide Gordon eftir nokkurra mínútna leik í síðari hálfleik, þegar sá portúgalski átti flott hlaup upp vinstri kantinn, og lagði boltann inn á teig þar sem Gordon kom aðvífandi og var á auðum sjó en náði einhvernveginn að skjóta yfir markið. Frekar svekkjandi fyrir unglambið sem verður að viðurkennast að átti erfitt uppdráttar í dag, en lærir alveg örugglega af þessum leik. Hann fór svo útaf fyrir Minamino á 60. mínútu, sjálfsagt plönuð skipting. Milner kom svo inn fyrir Hendo á 75. mínútu, hugsanlega var það líka plönuð skipting og menn þá með augun á leiknum gegn Palace um helgina.
Á 77. mínútu unnu svo Fab og Trent boltann hægra megin nálægt miðlínu, Trent sá að Jota var á auðum sjó frammi og lúðraði boltanum fram. Jota gerði engin mistök, tók boltann á kassann og vippaði svo yfir Ramsdale. Aðstoðardómarinn lyfti reyndar flaggi sínu, en þetta fór í VAR og þar kom í ljós að Jota var bara alveg ljómandi réttstæður og markið því gott og gilt. 0-2, og með þetta lítið eftir á klukkunni voru vonir Arsenal manna heldur betur farnar að dvína. Þær vonir urðu svo að engu á 90. mínútu þegar Thomas Partey sem var til þess að gera nýkominn inná fékk sitt annað gula spjald og því rekinn af velli. Þetta fer að verða leiðinda ávani hjá Arsenal mönnum gegn okkar piltum, þ.e. að sjá rautt. Þarna var Neco Williams kominn inná fyrir Firmino, og var ferskur í framlínunni. Leikurinn fjaraði svo út, enda úrslitin ráðin.
Frammistöður leikmanna
Maður leiksins er sá sem skoraði tvö mörk: Diogo Jota. Í báðum tilfellum þurfti hann að hafa vel fyrir hlutunum, og gerði það með sóma. Smá meiri nákvæmni hjá Kaide og þá hefði Diogo verið með stoðsendingu að auki. Aðrir leikmenn voru virkilega góðir, mætti þar nefna Trent, Fab, Robbo, Hendo…. Curtis var mjög öflugur þangað til hann var nánast sprunginn. Gleymum ekki Kelleher sem hélt hreinu og spilaði eins og hann hefði aldrei gert annað en varið mark Liverpool. Sá sem átti erfiðast af okkar mönnum var klárlega Kaide Gordon, bæði var hann ekkert mjög mikið í boltanum og svo klúðraði hann jú þessu færi. Mögulega eru þessi tækifæri að koma aðeins of snemma, við erum sammála um að það búa hellings gæði í þessum pilti, og hann þarf ákveðinn þroska til að sýna þau gæði og þróa þau betur.
Umræðan eftir leik
- Robbo var að spila sinn 200. leik með félaginu.
- Gleymum ekki að þessum árangri náði lið Liverpool sem var án Salah, Mané, Alisson og Thiago. Allt leikmenn sem ættu á góðum degi að byrja ef það ætti að stilla upp sterkasta liðinu.
- Gullið tækifæri bíður Klopp og félaga að hirða Carabao bikarinn, það væri nú ekki ónýtt að bæta eins og einum bikar í safnið. Jafnvel tveim, tops 3. Aldrei fleiri en 4 bikarar á þessari leiktíð.
Hvað er framundan?
Í Carabao keppninni er næsti leikur þann 27. febrúar, og fer fram á Wembley þar sem andstæðingurinn er lið Chelsea. Það er bikar í boði. Þetta er einfaldlega leikur sem Liverpool ætlar að vinna, og mun vinna. Punktur.
En næst á dagskrá er leikur gegn Palace á sunnudaginn. Nú þurfa leikmenn að jafna sig enda litlir möguleikar á að rótera. Möguleikinn á að ná City í deildinni hefur heldur fjarlægst, en ef Liverpool vinnur sína leiki þá getur allt gerst. Þess vegna er svo mikilvægt að taka ekki fótinn af bensíngjöfinni sé þess nokkur kostur.
En í kvöld fögnum við því að við fáum að sjá liðið leika bikarúrslitaleik!
Frábær sigur og Jota geggjaður í kvöld.
Það verður virkilega gaman að sjá Liverpool loksins í bikarúrslitaleik.
Sæl og blessuð.
Hversu mikið afrek?
Með laskað varalið – gegn nöllum sem tóku sér svindlpásu og stilltu svo upp sínu allra sterkasta liði – á eigin stútfullum heimavelli.
Jota átti sinn allra besta leik í langan tíma. Bakverðirnir voru frábærir. Miðjan … hmm … ekki alveg upp á tíu! Fabinho var illa áttaður lengst af, Hendo orkulaus og Jones kom og fór. En vörnin var frábær og já nefndi ég markmanninn með keltneska nafnið? Geggjaður! Yfirvegunin alger, bjargaði þegar á reyndi og spilaði allan tímann sem aftasti sópur.
Með okkar besta lið eigum við að geta unnið önuga Chelseamenn. Það er ekki spurning!
Og þá er amk einn titill kominn í hús. Það væri sannarlega geggjað!
Ótrúleg þrautseigja í þessu liði!
Trent, Robbo, Jones, Jota og Kelleher allir meira og minna frábærir. Mín vegna mætti Kelleher spila miklu fleiri leiki í markinu. Og hverskonar lungu eru eiginlega í Diogo Jota?
Kaide kallinn var skelfilegur. Blessaður kiðlingurinn. Stóð mestallann tímann gaddfreðinn úti á velli og horfði á hina strákana spila leikinn. En hann var þó á réttum stað amk. einu sinni, þó hann mokaði yfir.
Wembley næst og GO, DIOGO, GO!!
Ertu að tala um þennann 17 ára….að hann sé skelfilegur?
Gordon var vissulega ekki að spila vel, enda var eins og Arsenal héldu að Salah væri ennþá í þessari stöðu og gáfu honum lítið pláss. En svo er hann líka bara 17 og er enn að læra og er að koma inn á stóra sviðið. Hans tími mun koma, og þó hugsanlega megi lýsa frammistöðunni sem hræðilegri, þá er þetta alls ekki hræðilegur leikmaður heldur gríðarlegt efni.
Sælir félagar
Þvílikur sigur massívrar liðsheildar. Allir leikmenn stóðu sig frábærlega og Arsenal fékk ekki færi allan leikinn. Jota að öllum öðrum ólöstuðum geggjaður og bezti maður vallarins. Uppsetningin á leiknum hjá Klopp tær snilld og LIverpool með stórlaskaða sókn vinnur “spútniklið” Arsenal 2 – 0 og sigurinn ehfði getað verið stærri. Takk fyrir mig KLopp og félagar.
Það er nú þannig
YNWA
Ætli birgir viti af þessu…..!
Það er von þú birgir sorrý spyrjir.
YNWA.
Einmitt. Samt fyndið með arsenal að þeir hafa verið með spútnikk-lið síðan ég man eftir mér nánast.
Svo miklu miklu betri??
YNWA
Skýrslan er komin inn, ræðið að vild.
Kaide Gordon stóð sig ágætlega, átti fína spretti og með smá heppni hefði hann skorað mark. Vissulega ekki bestur í kvöld, stundum taugaóstyrkur, en sýnir mjög vel hvað hann er efnilegur.
Hvernig kaupir maður miða á ursliteikin LFC meigin.
Frábær og öruggur sigur. Margt jákvætt en því miður líka eitthvað sem maður er hugsi yfir….
…meiðsli Matip??
…þreyta Hendó
…boltaformið hjá Firmino
…ungir guttar fá fleiri mínútur, verulega jákvætt
Mestu máli skiptir að okkar lið er komið í úrslit. Liverpool er stór klúbbur og á að komast í úrslit miklu oftar en þeir gera. Og svo þarf að klára úrslitaleikinn. Sl 10 ár hefur okkar lið lent í sæti nr 2 í öllum keppnum alls 8 sinnum en bara unnið 5 sinnum. Þetta hlutfall þarf að bæta.
Góðan daginn, öll!
Vil bara minna alla á að við erum að fara á Wembely og við ætlum að bæta einum bikar í safnið!
Núna fer að styttast í lok enn einn gluggann þar sem að félagið ætlar sér ekki að gera neitt, Getum við ekki losað út Origi og Nat Philips til Newcastle og losað Barcelona við Ousmane Dembele.
Klopp hefur viljað þann leikmann í langan tíma og það er dauðafæri á að fá hann núna á mjög lítinn pening.
Vissulega eigum við efnivið í Kaide Gordon en hann er langt því frá að vera klár í slaginn þó að hann muni alltaf fá leik og leik núna.
Dembele getur leyst flestar stöður þarna framarlega á vellinum þar sem við erum frekar þunnskipaðir.
Er verið að orða einhverja leikmenn við okkur ?
Martinelli hjá Arsenal er ekta Klopp-leikmaður. Og Klopp nefndi hann meira að segja við fjölmiðla eftir leik, hældi honum. Svo kannski…?
Góðan dag. Stundum finnst mér hér á athugasemdaskrifum að ég hafi ekki horft á sama leik og þið. Það er kannski af því að ég horfi á leikina með algjörlega fulla meðvitund. Búinn að fylgjast með leik okkar liðs nánast í 99% tilfellum og stundum horfi ég aftur á leikinn daginn eftir með öðrum tilgangi. Við erum ekki með betri leikmenn en önnur lið á toppnum en það sem Klopp lætur þá gera er eins og í leikriti þar sem hver staða hefur sitt hlutverk og þá sérstaklega miðjan. Í þessum leik þá áttu þeir að vera til baka til að koma í veg fyrir skyndiáhlaup sem Arsenal hefur treyst á og þannig að opna fyrir sóknarmennina. Í þessum leik sem öðrum þá held ég að miðjumennirnir hafi gert eins og þeim var sagt að gera.
Og þá er það næsti leikur og miðjan mun kannski hafa annað hlutverk.
Enn og aftur eins og síðast líka er Trent með yfirburði og besti leikmaðurinn á vellinum ásamt Jota í gær.
En verð að nefna hvað er líka mikill munur að hafa C.jones á miðjuni og Kelleher finnst mér hafa leyst allt sem hann hefur þurft að gera mjög vel algjörlega frábær markmaður að mínu mati.
Matip meddur er eitthvað sem er búist við og kemur ekki á óvart en það er alltaf missir að hann detti út því hann er það góður og það vita allir sem fylgjast með LFC.
Annars eina sem er að bögga mig er að það er nákvæmlega ekkert að gerast á leikmanna markað.
Kanski eru réttu mennirnir ekki til sölu en td Vlahovic er engin fílingur fyrir honum?..Arsenal ku vera reyna klófesta hann as we speak. Tottenham eru að reyna kaupa A.Traore og ég persóunlega væri til í sjá klúbbinn okkar fara á eftir Raphina það er leikmaður sem heillar mig.
En jújú Elliot er að koma til baka bráðlega! og það virðist vera stóra málið hjá Liverpool að leikmaður sem er búinn að vera frá allt tímabilið útaf slæmum meiðslum að það séu svona eins og ný kaup.
Júhh fara á eftir Vlahovic!
Þetta er fullkominn leikmaður til að leysa Firmino af hólmi, sækir boltann vel niður og frábær striker. Fiorentina er nánast að segja að þeir séu tilbúnir að selja.
Finnst fáranlegt ef við förum ekki á eftir honum!
Sammála !
FSG þarf að fara girða sig vel í brók !
Þeir sem hafa fylgst með FSG ættu að vita að það er mikil bjartsýni að búast við einhverjum í þessum glugga. Við erum með lið sem getur keppt á öllum vígstöðvum og best að njóta þess. Við erum alls ekki að fara að keppa um eftirsóttustu mennina með FSG við stýrið. Við höfum heldur engan pening í alvöru viðskipti án þess að selja.
Sennilega er hins vegar ekki hægt að vera svona samkeppnishæfir aftur án endurnýjunar. Vonandi verður FSG tilbúið með gott plan í sumar. Við ættum sennilega að skipta út Mane og/eða Firmino og svo þarf að laga þessa miðju. Keita, Thiago og Jota hafa svo ekki upp á nógu mikið að bjóða (af mismunandi ástæðum). Bekkurinn má líka við hreinsun, Origi er ekki nógu metnaðarfullur og Chambo er postulín. Við höfum ýtt þessu á undan okkur útaf covid en það mun bíta klúbbinn fast í rassinn ef næsti sumargluggi líður án breytinga.
Mjög skrítið að lesa frá þér ! Þú byrjar ágætlega og segir
“Þeir sem hafa fylgst með FSG ættu að vita að það er mikil bjartsýni að búast við einhverjum í þessum glugga. Við erum með lið sem getur keppt á öllum vígstöðvum og best að njóta þess”
Síðan kemur:
“Vonandi verður FSG tilbúið með gott plan í sumar. Við ættum sennilega að skipta út Mane og/eða Firmino og svo þarf að laga þessa miðju. Keita, Thiago og Jota hafa svo ekki upp á nógu mikið að bjóða (af mismunandi ástæðum).”
Erum með frábært lið og samt ættum við selja Mané og Firmino og þurfum að styrkja miðjuna þar sem Keita, Thiago og Jota hafa ekki mikið uppá að bjóða ! Varstu að fá þér þegar þú skrifaðir þetta?
YNWA.
Eitt ennþá hefði kannski aukið skilninginn 😉 Aldurinn er farinn að bíta í.
Hvað er samt málið með suma hérna og að nefna að Jota sé ekki nógu góður ?
ég ætla staðfesta það hér að þetta eru bestu kaup Liverpool síðan við keyptum Mané,Firmino og Salah.
25 ára og á helling inni..að horfa á Jota spila það er fátt skemmtilegra tæknin,hraðinn og ákveðnin í honum er top level og hann getur skorað allstaðar á vellinum og er jafnvígur á báðum og frábær skalla maður ég bara skil ekki hvað menn eru að röfla yfir.
Sælir félagar
RH við getum allir haft okkar skoðanir á einstökum leikmönnum og frammistöðum þeirra án þess að það þurfi að valda neinum illindum. Ég er einn af þeim sem hefi gagnrýnt Jota og stend við þá gagnrýni fyrir mína parta. Hinsvegar veit ég að aðrir (margir 🙂 ) eru annarar skoðunar og mér finnst það í góðu lagi. Það er þeirra skoðun og hún er góð og gild.
Jota hefur skorað mikilvæg mörk og hefur skipt miklu máli oft á tíðum. Það breytir því ekki að hann á leiki þar sem hann hefur ekki getað blautan og það fleiri en einn. Í síðasta leik á móti Arsenal var hann frábær og ég er fyrstur manna til að segja það þegar svo er. En þegar hann er lélegur þá segi ég það óhikað líka. En mér dettur ekki í hug að skíta í þá sem telja hann frábæran hvernig sem hann spilar. Það er einfaldlega þeirra skoðurn og – allt í lagi.
Það er nú þannig
YNWA
Sigkarl
Takk fyrir góða rökræður. Það er satt ég hefði átt að orða þetta öðruvísi en þetta var ekki sérstaklega beint gegn þér.
Finnst bara mjög fínt að lesa það sem þú hefur að segja um okkar menn.
Þá aðalega hvernig segir hlutina ert yfirleitt ekki að sykurhúða þá.
Haltu því áfram.
En já ég er mikill Jota maður verð líklega pínu hörundsár ef menn sjá hann ekki eins og ég 🙂
RH ég á bróður sem er jafn mikill púllari og ég. Reyndar er öll fjölskyldan mín LFC en hvað um það þessi bróðir minn bara þoldi ekki Hendó sama hvort hann átti góðan dag eða ekki þannig að ég skil allveg hvernig sumir hugsa hér og sama hver rök þín eru þeim verður ekki haggað.
YNWA.