Síðasti leikur Liverpool í Meistaradeildinni var á hinum goðsagnakennda San Siro gegn AC Milan en í Evrópu upphitun fyrir þá viðeureign var einmitt komið inná ástæðu þess afhverju Inter Milan var stofnað.
Ítölsk knattspyrnuyfirvöld vildu sporna við fjölda erlendra leikmanna og settu því á fót nýja deild fyrir tímabilið 1908 þar sem erlendir leikmenn máttu vera með en ítalska deildin yrði eingöngu fyrir ítali. Vægast sagt umdeild ákvörðun og raunar svo bandvitlaus að þetta fyrirkomulag varði ekki lengi. Flest liðanna sem voru með erlenda leikmenn neituðu að taka þátt í ítölsku deildinni sem gjaldfelldi hana algjörlega.
Afleiðingarnar urðu hvað mestar innan herbúða AC Milan, félagið var stofnað af tveimur englendingum tæplega áratug áður sem gerir þetta kannski ennþá skrítnara því það voru þeir sem vildu frekar veðja á ítölsku deildina. Félagið var þá þegar með nokkra leikmenn frá Sviss sem yrðu því sjálfkrafa ólöglegir í þeirri deild. Niðurstaðan varð að félagið klofnaði í tvennt, innflytjendurnir sem stofnuðu AC Milan treystu á ítalina og unnu ekki titil í 43 ár á meðan það voru ítalir sem stofnuðu nýtt félag og kölluðu það eðlilega Internazionale og buðu alla velkomna. Þetta nýja lið vann sinn fyrsta titl tveimur árum síðar og er enn í dag eina félagið á Ítalíu sem hefur ekki fallið um deild.
Deilurnar sem urðu til þess að Inter var stofnað áttu sér stað löngu fyrir uppgang fasista á Ítalíu og ekki fasísk sjónarmið að baki þeirri ákvörðun. Fasistar náðu hinsvar völdum á Ítalíu árið 1922 og sex árum síðar var Internazionale gert að sameinast öðru minna félagi frá Milan, Unione Sportiva Milanese og samhliða því gert að breyta nafni félagsins í Società Sportiva Ambrosiana. Internazionale var auðvitað eins langt frá boðskap fasista og mögulegt var og því ekki hægt að sætta sig við nafn félagsins. Eins var skipt úr svörtu og bláu í hvíta búninga.
Stuðningsmenn Inter hættu hinsvegar aldrei að kalla félagið sitt Inter og sungu áfram um Inter á pöllunum. Næsta tímabil á eftir var aftur skipt yfir í bláa og svarta búninga og árið 1931 gerði nýr forseti félagsins málamiðlun og bætti Inter við nýtt nafn félagsins sem þá varð Associazione Sportiva Ambrosiana-Inter.
Strax eftir heimsstyrjöldina og fall fasista var nafni félagsins breytt aftur í sitt upprunalega nafn.
Moratti feðgarnir og áhrif þeirra
Ítalski boltinn er smátt og smátt að færast frá skrautlegum eigendum eða forsetum félaganna yfir í hefðbundnara eignarhald, erlendir eigendur hafa komið í mjög auknum mæli í ítalska boltann undanfarin ár, AC Milan, Inter Milan, Roma og fleiri lið eru öll í eigu erlendra aðila. Síðasti forseti Inter Milan af gamla ítalska skólanum var Massimo Moratti en hann er ein af frægari fígúrum ítalska boltans í seinni tíð.
Olíuauðjöfurinn Angelo Moratti, faðir Massimo var hinsvegar sá fyrsti í fjölskyldunni til að eignast og stjórna öllu hjá Inter, hann keypti félagið árið 1955. Hans markmið var að gera Inter betur samkeppnishæft við frábært lið AC Milan skipað sænska tríóinu Gre-No-LI og gekk það markmið illa fyrstu árin. Hann var búinn að skipta níu sinnum um stjóra fyrstu fimm árin þegar hann réði Argentínumanninn Helenio Herrera sem tók við liðinu 1960 og stjórnaði næstu átta árin. Þjálfaraár hjá Inter virka eins og hundaár þannig að átta ár hjá Inter eru eins og 60 ár hjá venjulegu liði.
Herrera kom frá Barcelona og tók besta leikmann í heimi (Luis Suarez) á þeim tíma með sér til Ítalíu og skapaði lið sem jafnan er kallað Grande Inter. Það lið vann fyrstu Evróputitla í sögu félagsins 1964 og 1965. Seinna hafa birst greinar þar sem nokkuð áreiðanlega er ásakað Moratti um að hafa hagrætt úrslitum og mútað dómurum til að tryggja Inter þennan árangur, bæði heima sem og í Evrópu.
Liverpool vann Inter 3-1 á Anfield í undanúrslitum Evrópukeppni Meistaraliða árið 1965 en mætti í seinni leiknum einhverjum vafasamasta dómara sem dæmt hefur leik hjá Liverpool. Bill Shankly var allt þar til hann dó staðfastur í þeirri skoðun að þar var ekki allt með felldu í þessum leik. Uppljóstranir og rannsónir seinna sýndu svo fram á að líklega hafði hann og leikmenn Liverpool töluvert til síns máls þó ekki hafi verið fjallað um þennan leik sérstaklega í uppljóstrunum um Moratti (löngu eftir að hann var dauður). Hér er hægt að lesa hvað Ian St. John, Tommy Smith og fleiri höfðu að segja um þennan leik.
Tæplega þremur áratugum eftir að Angelo Moratti steig niður sem forseti Inter keypti Massimo sonur hans félagið og tók við sem forseti árið 1995. Massimo var tekin við stjórnartaumunum í Saras Group, fyrirtækinu sem Angelo stofnaði 1962. Hann ætlaði eins og pabbi sinn að hefja Inter til vegs og virðingar á ný í samkeppni við frábær lið nágrannanna í AC Milan sem og auðvitað Juventus sem er sigursælasta lið Ítalíu. Þetta eru risarnir þrír í sögu Seria A.
Moratti setti gríðarlega fjármuni af eigin auðæfum í félagið og sló félagið sem dæmi tvisvar metið yfir dýrustu leikmannakaup í heimi, annarsvegar með kaupum á Ronaldo (alvöru Ronaldo, ekki þessum með vælusvipinn frá Portúgal) sem þá var á hátindi ferilsins og hinsvegar Christian Vieri frá Lazio. Ekkert gekk þrátt fyrir það að landa titlinum hjá Inter og endaði tíundi áratugurinn sem sá eini í sögu Inter sem félagið vann engan deildartitil. Stuðningsmenn Inter voru oft við það að missa þolinmæðina á Moratti sem er þó ekkert í samanburði við Moratti sjálfan, hann er með þolinmæði á við tveggja ára barn og var hann enda hvað helst frægur fyrir það sem forseti Inter að reka stjóra liðsins ítrekað.
Á 18 árum sem forseti félagsins skipti Moratti tuttugu sinnum um stjóra en áttaði sig á þessum tíma aldrei á því að mögulega var það ekki stjórinn sem var vandamálið heldur mögulega trúðurinn sem var að stjórna félaginu. Jurgen Klopp er einmitt tuttugasti stjóri Liverpool í sögunni en félagið var stofnað árið 1892 sem gerir félagið 130 ára!
Calciopoli og hnignun Seria A
Viku eftir að Ítalía vann sinn fjórða heimsmeistaratitil árið 2006 féll vægast sagt umdeildur og afdrifaríkur dómur í gríðarlegu hneykslismáli sem skók ítalska boltann. Á einu bretti voru allir helstu andstæðingar Inter dæmdir fyrir að hagræða úrslitum með mútum og spillingu. Juventus sem fram að því hafði aldrei fallið um deild var dæmt niður í Seria B á meðan fjöldi stiga var tekin af AC Milan, Fiorentina og Lazio. Skandallinn náði til uppljóstrana eftir símahleranir tveimur árum áður og voru tveir titlar teknir af Juventus sem hafði unnið deildina bæði 2005 og 2006. Engin skráður sigurvegari er fyrir tímabilið 2005 en Inter Milan sem hafnaði í þriðja sætið árið 2006 var dæmdur sigur í deildinni. Þeir voru ekki nema 12 og 15 stigum á eftir Juventus og Milan.
Það væri svona svipað sanngjarnt að Liverpool yrði þá dæmdur sigur í Meistaradeildinni 2007 enda tapaði liðið fyrir svindlurunum í AC Milan í þeim úrslitaleik.
Roberto Mancini var stjóri félagsins þarna og hamraði járnið meðan það var heitt og rústaði Inter deildinni árið eftir. Roma slapp líka við Calciopoli hneykslið og veitti Inter hvað harðasta samkeppni en árangurs.
Moratti sem þarna var loksins farinn að vinna deildartitla var samt ekki ánægður og rak Mancini eftir tímabilið 2008 og réði Jose Mourinho, sá hatar ekkert að taka við liðum í yfirburðarstöðu líkt og Inter var í þarna. Portúgalinn hélt áfram sem frá var horfið og endaði þessa sigurgöngu Inter með þrennu, sigri í deild, bikar og Meistaradeild. Hann fór þá um sumarið og þetta gullaldarlið var komið á tíma. AC Milan og Juventus sem voru að jafna sig eftir Calciopoli unnu tvo næstu titla, AC Milan 2011 og Juventus árið eftir og raunar næstu níu tímabil í röð!
Árangur Inter á þessum árum í Seria A er álíka merkilegur og Evrópukeppni Meistaraliða var frá 1985-1990 þegar bestu liðin fengu ekki að vera með. Það gengur þar að auki mjög illa upp að allir andstæðingar Inter hafi verið svona dirty en olíubaróninn Massimo Moratti, sonur Anagelo Moratti væri hreinn og beinn á sama tíma. Það eru margir á þvi að Moratti og menn hliðhollir honum hafi jafnvel verið á bak við Calciopoli skandalinn. Það eru samsæriskenningar þess efnis að Massimo Moratti forseti Inter hafi raunar verið að hluta til á bak við þennan leka á samtölum andstæðinga sinna. Hvort sem eitthvað er til í því var tími hans hjá Inter ekki mjög merkilegur fram að þessu.
Gullaldartímabil ítalska boltans kom í kjölfar þess að ensk lið voru bönnuð frá þáttöku í Evrópukeppnum í fimm ár. Ítalski boltinn varð t.a.m. sjónvarpsefni á Íslandi á þessum tíma. Frá 1988 var ítalskt lið í úrslitaleik Evrópukeppni Meistaraliða í níu leikjum af tíu leikjum. Fram til 1985 þegar Liverpool mætti Juventus á Heysel höfðu ensk lið verið í úrslitaleiknum í níu af ellefu úrslitaleikjum.
Calciopoli var upphafið á endanum í Seira A sem hefur ekki ennþá náð vopnum sínum. Allir þessir skrautlegu eigendur í ítalska boltanum eru ekkert endilega bestu rekstraraðilarnir og gengur sérstaklega illa þegar það kemst svona rosalega upp um þá við að hagræða úrslitum, eitthvað sem hefur líklega verið íþrótt á Ítalíu í nokkra áratugi. Áhugi á deildinni hrundi.
Ítösku liðin áttu svosem í basli í samkeppni við spænsku risana og ensku liðin fyrir Calciopoli. Ekki einu sinni þetta frábæra Juventus lið síðasta áratugar náði að vinna Meistaradeildina og raunar hefur ekkert ítalskt lið unnið Meistaradeildina síðan Inter vann 2010. Juventus fór vissulega tvisvar í úrslit en tapaði fyrir Barcelona og Real Madíd.
Eftir að Mourinho fór hóf Moratti enn á ný að reka stjóra Inter við hvert einasta tantrum þar til 2013 er hann seldi meirihluta sinn í félaginu til fjárfesta frá Asíu. Árið 2016 keyptu moldríkir kínverskir aðilar meirihluta í félaginu og losuðu það í leiðinni félagið endanlega við Moratti.
Nú skildi blásið til sóknar.
Endurkoma Inter Milan
Inter Milan með Romelu Lukaku fremstan í flokki vann Seria A nokkuð sannfærandi á síðasta tímabili og stöðvaði þar með níu ára einokun Juventus. Fljótlega í kjölfarið bárust fréttir þess efnis að kínverskir eigendur félagsins væru í fjárhagsvandræðum og þyrftu að selja bestu menn félagsins.
Antonio Conte sem tók við liðinu árið 2019 fuðraði upp eins og honum er von og vísa og sagði upp, Inter var ekki að standa við þau loforð sem honum voru gefin. Hann hafði tekið við liðinu 2019 og skilað titlinum í hús á tveimur árum. Höfum reyndar alveg í huga að samstarf Conte og Inter getur aldrei orðið langlíft, hann er skapstyggari en Moratti og Inter hefur rúmlega áttatíu sinnum skipt um stjóra í sögu félagsins. Tvö tímabil saman var nú bara nokkuð vel af sér vikið hjá báðum.
Sigur Inter á síðsta tímabili var samt ekkert öskubuskuævintýri, eigendur félagsins hafa sett mun meiri pening í félagið en maður hefði kannski búist við fyrirfram.
Frá sumrinu 2016 fram sumarglugganum 2021 keypti Inter leikmenn fyrir €712m en seldi á móti leikmenn fyrir €333m. Nettó eyðsla upp á tæplega €380m á fimm árum hjá liði í Seria A. Partur af þessum fjárhæðum eru lánssamningar, en það fara svona 20-30 manns á hverju tímabili á láni hjá meðal ítölsku liði.
Jurgen Klopp tók einmitt við Liverpool á sama tíma en frá sumrinu 2016 fram að síðasta sumri var Liverpool með nettó eyðslu upp á €156m. Félagið keypti leikmenn fyrir €529m en seldi á móti fyrir €373m. M.ö.o. Liverpool er búið að kaupa leikmenn fyrir tæplega €200m lægri fjárhæð og nettó eyðslan er um €230m lægri en hjá Inter.
Svona var rekstur Inter undanfarin ár og liðið sem Conte tók við, miklu meira sett í hópinn hjá Inter en Liverpool hafði verið að gera undir stjórn Jurgen Klopp, hvort sem horft er á nettó eyðslu eða kaupverð leikmanna.
Nettó eyðsla Inter var í plús í fyrsta skipti síðasta sumar síðan kínverjarnir tóku við, Inter seldi leikmenn fyrir €203,6m þar sem bróðurparturinn kom inn fyrir Lukaku og Hakimi. Á móti var keypt leikmenn fyrir samtals um €37m auk þess sem Hakan Calhanoglu, Edin Dzeko og Robin Gosens komu á frjálsri sölu.
Samanburður Liverpool og Inter á markaðnum eftir síðasta sumarglugga er því svona, Inter er búið að eyða meira í leikmenn og selja fyrir hærri fjárhæðir en nettó eyðsla nú er svipuð. Höfum þó í huga að Inter er búið að kaupa og selja MIKLU fleiri leikmenn á þessu tíma en Liverpool.
Hópurinn í dag
Það verður seint sagt um Antonio Conte að hann gefi sig ekki allann í þau störf sem hann tekur að sér. Tottenham í sinni vandræðalegu þjálfaraleit síðasta sumar bauð honum starfið en hann hafnaði þeim á þeim forsendum að hann þyrfti frí eftir tímann hjá Inter sem hefði skilið eftir óbragð sem hann þyrfti að ná úr líkamanum, hann var alveg búinn á því og breytt plön hjá Inter höfðu augljóslega verið honum mikil vonbrigði. Það er svosem líka hægt að lesa í þetta þannig að hann vildi mögulega sjá hvort eitthvað stærra lið myndi hafa samband. Mögulega var sími okkar allra besta Ed Woodward sem dæmi inneignarlaus?
Kínversku fjárfestarnir frá Suning fóru illa út úr Covid líkt og aðrir en eins breyttu Kínverjar á skömmum tíma öllum sínum áformum varðandi fjárfestingar í evrópskum fótbolta. Framtíðin á því aðeins eftir að leiða í ljós hvernig rekstri Inter verður háttað í framhaldinu en það er alveg ljóst að krafan er að reksturinn verði meira sjálfbær en hann hefur verið. Rekstur Inter einn og sér stendur ekki undir rauðum tölum á leikmannamarkaðnum upp á €40m – €140m.
Yfirmaður knattspyrnumála hjá Inter síðan 2018 er gamli Juventus maðurinn Giuseppe Marotta og hann hefur sýnt það áður að hann kann fagið ágætlega, hann sannfærði Conte um að koma til Inter árið 2019 og hann þekkir það líka að finna eftirmann Conte. Hjá Juventus árið 2014 leitaði hann til Massimo Allegri en núna leitaði hann til litla Inzaghi bróðursins, Simone. Sá hefur verið að gera mjög góða hluti með Lucas Leiva og félaga í Lazio undanfarin fimm ár og kom þeim m.a. í Meistaradeildina í fyrsta skipti í 13 ár og var á tímabili með Lazio í titilbaráttu.
Hann smellpassar við hugmyndafræði Conte að því leiti að Lazio liðið hans var mestmegnis að vinna með 3-5-2 kerfið svipað og Conte. Juventus, AC Milan og Inter eru stóru liðin á Ítalíu og aðeins tímaspursmál hvenær Inzhagi tæki við einhverju af þeim. Þessum vistaskiptum var engu að síður ekki vel tekið í Lazio enda hann skömmu áður búinn að handsala framlenginu á samningi sínum við Claudio Lotito eiganda Lazio. Lotito hafði dregið það að bjóða Inzhagi framlenginu sem auðveldaði honum ákvörðunina að yfirgefa höfuðborgina.
Inzhagi þekkir vel að byggja upp lið með takmörkuð fjárráð og hefur unnið það vel úr sölu lykilmanna að liðið er á toppnum um þessar mundir. Edin Dzeko 35 ára kom í staðin fyrir Lukaku og skoraði sjö mörk í fyrstu níu leikjunum. Salan á Lukaku og Hakimo dugði líka til að halda Lautaro Martinez sem Tottenham var á höttunum eftir í sumar. Auk þeirra kom Joaquin Correa á láni frá Lazio í framlínuna og Alexis Sanchez er einnig á mála hjá Inter.
Denzel Dumfries landsliðsmaður Hollands kom frá PSV til að fylla stórt skarð Hakimi. Hakan Calhanoglu kom á frjálsri sölu frá AC Milan og fyllir skarð Christian Eriksen sem má ekki spila í Seria A lengur þar sem hann er með gangráð. Ekki það að Eriksen var langt í frá einhver lykilmaður í liðinu þegar þeir unnu titilinn á síðasta tímabili. Calhanoglu hefur hinsvegar verið frábær og er með sex mörk og átta stoðsendingar í 19 leikjum. Hann tekur föst leikatriði og hefur auk þess verið að setja eitthvað af þessum mörkum fyrir utan teig.
Inter skoraði rúmlega 100 mörk árið 2021 og virðast ekkert ætla að slaka á núna á nýju ári. Marcelo Brozovic er hljómsveitarstjórinn á miðjunni og liðið pressar vel sem heild og vopnabúrið sóknarlega jafnvel fjölbreyttara núna eftir brottför Lukaku. Liðið fær meira frjálsræði sóknarlega hjá Inzaghi en Conte.
Byrjunarliðið sem tapaði gegn AC Milan um daginn var svona og er ansi nærri þeirra sterkasta liði
Markmaður
Handanovic 37 ára er ennþá í rammanum en hann hefur verið hjá Inter í áratug núna.
Miðverðir
Miðverðir Inter mynda eina bestu varnarlínu í boði utan Englands.
Skriniar gæti orðið söluvara fyrir töluverðan pening haldi Inter áfram að lagfæra fjárhag félagsins næstu misseri.
Vrij er einn af þessum miðvörðum sem var ítrekað orðaður við önnur lið en er í dag þrítugur og hefur aðeins spilað fyrir Lazio og Inter eftir að hann fór frá Hollandi.
Bastoni er svo eitt mesta efni ítala, hann kom tvítugur frá frábæru liði Atalanta og hefur verið að festa sig í sessi hjá Inter. Hann er aðeins 22 ára en verður ekki með gegn Liverpool á San Siró.
Vængbakverðir
Dumfries er nú ekkert að fylla skarð Hakimi enn sem komið er en liðið hefur fundið lausnir ágætlega við brottför hans. Króatinn frábæri Ivan Perišic er á hinum vængnum hann er aðeins 33 ára sem er ekki neitt m.v. hvað hann er gamall. Hann gæti verið að fá töluverða samkeppni frá Robin Gosens sem kom í janúar frá Atalanta, hann hefur verið einn besti bakvörður deildarinnar undanfarin ár.
Matteo Darmian og Federico Dimarco eru svo ágætis back-up fyrir þá.
Miðjumenn
Marcelo Brozovic er annar leikmaður sem oft hefur verið orðaður við önnur lið en er í dag 29 ára á sjöunda ári sinu hjá Inter og algjör lykilmaður á miðjunni hjá þeim. Spilar svona rauðvíns Andrea Pirlo hlutverk.
Nicolò Barella er 25 ára og byrjunarliðsmaður í landsliði ítala sem og auðvitað hjá Inter. Hann kom frá Cagliari árið 2020. Hann verður í banni í báðum leikjunum gegn Liverpool.
Tyrkinn Hakan Çalhanoulu var í fjögur ár hjá AC Milan áður hann skipti yfir til Inter.
Framherjar
Argentínumaðurinn Lautaro Martínez er aðalmaðurinn hjá Inter í dag, hann er 24 ára og var t.a.m. hugsaður sem eftirmaður Harry Kane hjá Spurs í sumar. Honum langaði bara ekkert að fara til þeirra. Hann kom árið 2018 frá heimalandinu og er auðvitað lykilmaður hjá landsliðinu í dag og spilar þar frammi með Leo Messi.
Edin Dzeko er líklega einn vanmetnasti framherji seinni tíma og fyllt skarð Lukaku þannig að belgans hefur lítið verið saknað í vetur.
Alexis Sanchez kemur svo jafnan inn af bekknum hjá þeim ásamt Correa.
Leiðin í 16-liða úrslit
Þetta er gott lið sem Liverpool er að fara mæta á skoppandi San Siro. Ítalíumeistararnir eru mun betri en Austurrísku meistararnir í RB Salzburg sem komu fyrst upp úr pottinum þegar dregið var í desember.
Inter fóru sem meistarar beint í riðlakeppnina og náðu öðru sæti á eftir Real Madríd eins og við mátti búast en þetta var þó töluvert minna sannfærandi hjá stórliðunum en búist var við.
Inter var með eitt sig eftir fyrstu tvær umferðirnar og tapaði heima fyrir Real Madríd í fyrsta leik. FC Sheriff vann svo bæði Real Madríd og Shakhtar en Inter bjargaði sínum riðli með að vinna Moldavíu meistarana 3-1 í báðum leikjunum við þá og kláruðu svo Úkraínumennina heima.
Skiptir engu máli hvernig lið komast í 16-liða úrslit en þetta var nú engin flugeldasýning hjá þeim. Þetta er gott lið en Liverpool á að taka þetta einvígi á eðlilegum degi.
San Siro
Liverpool hafði ekki spilað á San Siro í áratugi og hefur raunar ekkert rosalega oft spilað í þessu mikla og sögufræga mannvirki áður en AC Milan og svo strax í kjölfarið Inter komu upp úr hattinum.
Nafnið er dregið af hverfinu, völlurinn var byggður 1926 í San Síró hverfinu í Milan sem heimavöllur AC Milan og var í eigu félagsins. Stjórnarformaður félagsins var Piero Pirelli sonur Giovanni Pirelli stofnanda Pirelli dekkjaframleiðandans og átti hann hugmyndina að staðsetningu vallarins. Pirelli er í dag einmitt einn helsti styrktaraðili Inter.
Sérstaða San Siro á Ítalíu hefur jafnan verið að þetta risa mannvirki var byggt sem knattspyrnuleikvangur, ekki frjálsíþróttavöllur með hlaupabraut eins og venjan var á flestum leikvöngum á Ítalíu. Stuðningsmenn eru því í miklu meiri nálægð við völlinn sem gerir hann að miklu meiri gryfju.
Eftir heimsstyrjöldina keypti borgin völlinn og árið 1947 flutti Inter sig á San Siro af sínum heimavelli sem var í miðborg Milan og fór svæðið undir íbúðir. San Siro var stækkaður töluvert næstu ár á eftir og tók þegar mest var um 100.000 manns áður en það var takmarkað í 85.000 af öryggisástæðum.
Árið 1980 var nafni vallarins breytt í Guiseppe Meazza til heiðurs mesta markaskorara í sögu Inter. Hann spilaði einnig fyrir AC Milan og var lykilmaður í landsliði ítala er þeir unnu HM 1934 og 1938. Stuðningsmenn Inter voru gjarnari á að vinna með Meazza nafnið á vellinum en með tímanum hefur það svolítið dáið út og kalla bæði lið hann bara San Siro í dag. Ekki ósvipað því þegar fasistar vildu breyta nafni Inter.
AC Milan og Inter hafa því verið í sambúð frá 1947 og miðað við áætlanir félaganna í samráði við borgaryfirvöld í Milan munu þau gera það áfram. Byggja á nýjan völl í San Siro hverfinu og rífa hinn goðsagnakenda San Siro. Nýr völlur taki 60.000 manns og uppfylli miklu betur kröfur nútímans.
Ítölsk lið eru komin töluvert langt á eftir öðrum stórliðum hvað heimavelli varðar og eru fyrir vikið að missa af gríðarlegri tekjulind. The Atheltic tók saman aldur heimavalla ítölsku liðanna í grein nýlega sem er nokkuð sláandi, samanlagður aldur heimavalla liðanna í Seria A er tæplega 1.200 ára.
Flestir stóru vellirnir voru teknir almennilega í gegn fyrir HM 1990 og voru tveir vellir byggðir fyrir það mót. Annar þeirra var Delle Alpi sem var vonlaust mannvirki frá upphafi og á endanum byggt nýjan völl tveimur áratugum síðar fyrir Juventus. Hinn var enn heimskulegri út í sveit fyrir utan Bari sem ekki er heldur í notkun í Seria A í dag.
Using Deloitte’s figures from 2017-18, Serie A raised just €177 million in match-day revenues. The Premier League, by contrast, made €603 million — a multiple of 3.41. If we get even more granular and look at the average revenue per seat, Serie A brought in €591.40 whereas the Premier League could count on €1,310.50.
Liverpool
Þá er alvaran að fara af stað í Meistaradeildinni og ríkjandi Seria A meistarar Inter á útivelli er alvöru verkefni. Liverpool hefur aldrei í sögunni farið eins vel mannað inn í neinn leik, það eru allir heilir heilsu og komin alvöru samkeppni í nokkum stöðum. Ef að við röðum leikjum þessa mánaðar í styrkleikaröð þá er þetta stóru leikurinn þar sem Klopp spilar sínu besta liði.
Konate inn fyrir Matip úr því að hann tók leikinn í Burnley spái ég að verði eina breytingin á vörninni.
Henderson dettur vona ég úr byrjunarliðinu fyrir Thiago núna þegar allir eru heilir. Henderson hefur verið ákaflega dapur í undanförnum tveimur leikjum og raunar bara á þessu tímabili. Hann tapaði boltanum í 24 af 48 snertingum sínum gegn Burnley.
Naby Keita byrjaði gegn Burnley og stóð sig vel og var eins mjög öfllugur á AFCON. Hann þarf að spila nokkra leiki til að komast almennilega í gang. Ef ekki Keita þá vonandi Elliott, Jones og jafnvel Ox frekar en Henderson í núverandi formi.
Sóknarlínan verður líklega Mané, Salah og Jota en úr því Klopp ætlaði ekki að nota Mané gegn Burnley er spurning hvort hann verndi hann aðeins gegn Inter. Ef að Mané fer á bekkinn er Firmino auðvitað mun líklegri til að koma inn en Luis Diaz er bara svo miklu meira spennandi valkostur, sérstaklega ef Jota byrjar líka inná.
Spáið bara í þessum valkostum!
Spá:
Samkvæmt Bet365 er Liverpool þriðja líklegasta liðið til að vinna Meistaradeildina á eftir Man City og FC Bayern, hvernig Bayern er líklegra skil ég ekki og því síður að City er 3,75 á móti 6,00 hjá Liverpool. Ætli það sé ennþá verið að taka meiðslatímabilið 2021 með í þessum útreikningum eða þá að Liverpool á erfiðari leik í 16-liða úrslitum? Hvað sem ræður þá verða okkar menn að leggja rosalega áherslu á þessa keppni í vetur. Þetta frábæra Liverpool lið verður að skila verðlaunum í vetur.
Inter liðið er í harðri toppbaráttu við AC Milan og Napoli og voru ekkert sérstaklega sannfærandi í sinum riðli í Meistaradeildinni fyrir áramót, Real Madríd vann þá bæði heima og heiman.
AC Milan endaði á botni B-riðils og Liverpool vann báða leikina gegn þeim, þeir bitu hinsvegar frá sér í þeim báðum. AC Milan vann svo nágrannaslaginn í síðustu viku.
Segjum góður 0-1 sigur á San Siro með marki frá Salah.
Takk fyrir fróðlega upphitun. Ég sakna bara þess hver var búningastjóri Inter 2015-2016. Annað sýnist mér koma fram! YNWA
Yrði svona rúsínan í pylsuendanum að vita það:). Hef engar sérstakar áhyggjur af þessum leik, allir helstu kappar okkar heilir.
YNWA
Þess má geta að Mustapha Medhoun var búningastjóri 2015 og hafði sinnt því starfi frá 2013. Hann er bróðir þriðju eiginkonu Adriano Galliani. Hann var rekinn eftir að upp komst að hann hafði stolið hundruðum búninga.
https://football-italia.net/milan-kit-staff-arrested-for-theft/
Það er *frá árinu 2003 ekki 2013
það er ekki af þeim skafið þessum ítalaskrö…., alla vega sumum.
YNWA
Sælir félagar
Takk fyrir ritgerðina Einar Matthías, einkunn 9,5 🙂 Fellur um 0,5 vegna þess að ekki er greint frá búningastjóranum í ritgerðinni. Hvað um það mín spá fyrir þennan leik ef ekki verður skipt búningastjóra fyrir leikinn 1 – 3. Ef þeir verða með nýjan búningastjóra sem verður þá nýr í starfi fer leikurinn 1 – 5.
Það er nú þannig
YNWA
Það er nú ekki alltaf sem maður setur like hér. Takk.
Vesalings Gini. Hann vermdi bekkinn allan leikinn á móti Real í gærkvöldi. Hefði hann verið áfram í Liverpool er nokkuð öruggt að hann væri alltaf í byrjunarliði í Meistaradeildinni hjá okkur.
Það er ekki alltaf grænna grasið hinumegin við lækinn…
Svakalegt lið og flottur bekkur áfram við..