Gulir fuglar koma í heimsókn, upphitun fyrir heimsókn Norwich

Eitt af því magnaða við þetta Liverpool er að þeir eru nú búnir að fara tvær ferðir á San Siro á sama tímabili, unnið tvisvar og engum finnst það neitt stórmál. Rauðliðarnir unnu geggjaðan sigur í vikunni en eins og oft vill verða þá fylgir raunveruleiki deildarinnar fast á hæla Evrópu drauma. Klukkan þrjú á morgun koma Norwich í heimsókn á Anfield og freista þess að vinna okkar menn í fyrsta sinn síðan á síðustu öld.

Andstæðingarnir

Annað til þriðja hvert tímabil hefur lið leik í ensku deildinni og eftir einn-tvo mánuði byrjar menn að spyrja sig: Gæti verið að þetta sé liðið sem slær stigamet Derby frá 2007-08. Norwich voru það lið í ár. Í upphitun minni í ágúst fyrir leik Norwich og Liverpool hrósaði ég þeim fyrir að hafa haldið tryggð við Farke þrátt fyrir slæmt gengi síðast þegar liðið var í Úrvalsdeildinni en hroðalegt gengi í upphafi móts kostaði Farke stafið í nóvember. Norwich hefur gengið eilítið betur síðan Dean Smith tók við, en það breytir því ekki að kanarífuglarnir þurfa hreinræktað kraftaverk til að bjarga sér frá falli.

Muniði eftir Project Big Picture fyrir rétt rúmlega ári? Um var að ræða tillögur frá eigendum stærstu félaga Englands, sem áttu að gera rekstrarumhverfi ensks fótbolta heilbrigðara. Margt við þessar tillögur var ámælisvert, en eitt var hárrétt í greiningu þeirra á vandamálum knattspyrnuheimsins: Gjáinn milli neðstu sæta Úrvalsdeildarinnar og efstu sæta B-deildarinnar er allt of stór. Með hverju árinu sem líður finnst manni ólíklegara að liðin sem komu upp haldi sér uppi og fjárhagshöggið sem fylgir falli er svo gífurlegt að ítrekað taka lið í fallhættu ótrúlega áhættu til að halda sér uppi, svo ekki sé talað um fjöldan allan af liðum í B-deildinni sem hafa rekið sig skelfilega í von um að stökkið upp í Úrvalsdeildina bjargi rekstrinum. Derby, Sunderland og Leeds eru dæmi um lið sem hafa lent í svakalegum ógöngum útaf þessu umhverfi.

Hvernig tengist þetta Norwich? Því þeir hafa séð þetta vandamál, áttað sig á að þeir eru einfaldlega ekki nógu öflugir til að festa sig í deild þeirra bestu og hagað rekstri sínum eftir því. Þeir hafa gert það að list að hoppa á milli deildanna tveggja án þess að allt fara í uppnám í hvert sinn sem þeir fara niður og án þess að missa sig í gleðinni þegar þeir fara upp.

Vandamálið er auðvitað að það er nánast ómögulegt að halda sér uppi án þess að taka einhverja áhættu á leikmannamarkaðnum. En er það verra að vera í þessu hoppi en liðin sem festa sig í drepleiðinlegum fótbolta til að tóra í fimmtánda til sautjánda sæti ár eftir ár? Taka svo einhverja massa áhættu til að halda sér uppi, klúðra og vita að það mun taka áratug að koma sér aftur í deild þeirra bestu? Ég veit það ekki, en væri forvitinn að heyra hvað stuðningsmenn Sunderland/Stoke annars vegar og Fulham/Norwich hins vegar hafa um þetta að segja.

Okkar menn

Liverpool liðið er einfaldlega í góðum gír. Þeir hafa ekki tapað leik síðan í lok desember, eru komnir í úrslit mjólkurbikarsins, með annan fótin í átta liða úrslitum Meistardeildarinnar og það er ennþá örlítil von um að ná í skottið á City í deildinni. Heill (sjúkra)bílfarmur af leikmönnum er komin aftur eftir meiðsli, Salah og Mané eru komnir heim eftir Afríkukeppnina og Luis Diaz hefur vægast sagt heillað. Það er ekki lengur bara samkeppni um að byrja leiki hjá Liverpool, það er svakalega samkeppni um að vera á bekknum.

Trúi því að við sjáum þetta markabros á morgun!

Nokkrir leikmenn geta gengið af sæti sínu vísu. Alisson verður alltaf á sínum stað, Salah er Salah, Van Dijk lætur vélina ganga og Trent er kannski sá eini í liðinu sem er ekki með neina samkeppni um stöðuna sína. Kannski má bæta Fabinho í þennan hóp. Ég held að allir þessir kappar byrji leikinn gegn Norwich.

Ég að Mané víki fyrir Diaz og hefði spáð Jota inn en hann meiddist í vikunni svo Firmino fær tækifæri til að fylgja eftir markinu á miðvikudaginn. Á miðjunni mun Henderson vera við hlið Thiago og Matip snýr aftur í vörnina. Þó ég sé afar spenntur fyrir meiri Tsimikas þá held ég að Robbo haldi sinni stöðu. Þetta verður þá svona:

Spá

Ég ætla að vera svo svakalega djarfur að spá því að Liverpool vinni þennan leik nokkuð öruggt: 3-0, Diaz, Jota og Salah með mörkin. Einfalt og gott.

6 Comments

  1. Ég ætla vera enn bjartari en skýrsluhöfundur og segja 6-0 anskotinn hafi það kominn tími á að taka markasúpu með aspas.

    YNWA.

    4
  2. Nokkuð sammála skýrsluhöfundi, nema hvað Henderson verður hægra megin á miðjunni og Thiago vinstra megin. Svo skorar Jota ekki í þessum leik, þ.a. hann fer 2-0 fyrir Liverpool.

    3
  3. Sæl og blessuð.

    Sé fyrir mér svipaða byrjunar-miðju og síðast.

    Í vörn verður Gómezinn í stað Trents og mögulega fær sá grjótharði Tsimikas að byrja. Konate fær að byrja aftur. Svo á hann hann þrjár innáskiptingar ef þarf að fara í plan B.

    Díazinn verður með Salah og Firmino frammi.

    En nú erum við í bráðskemmtilegu leikja-rönni og þá er eins gott að bjóða ekki upp á sparistellið í hvert skiptið.

    2

Inter 0 – 2 Liverpool

Byrjunarliðin á Anfield – Liverpool gegn Norwich