Já það er veisla í dag því bæði aðallið félagsins spila í bikarkeppnum. Það er bikar í húfi hjá strákunum okkar og þeim verða gerð góð skil síðar í dag, en í millitíðinni mæta stelpurnar okkar (toppliðið í næstefstu deild) liði Arsenal (sem er toppliðið í efstu deild) í 16 liða úrslitum FA bikarsins. Fyrirfram verður að reikna með að lið Arsenal sé sigurstranglegra, en þetta er bikarkeppni og allt getur gerst. Leikurinn hefst kl. 12:00 á Prenton Park.
Liðið sem hefur leik verður skipað sem hér segir:
Robe – Fahey – Roberts
Daniels – Holland – Kearns – Hinds
Kiernan – Stengel – Lawley
Bekkur: Clarke, Wardlaw, Campbell, Bailey, Furness, Humphrey, Hodson, Silcock, Parry
Það eru allnokkur tíðindi að Matt Beard virðist vera að breyta frá sinni hefðbundnu 3-4-3 uppstillingu sem hefur gefist svo vel, og er líklega að stilla upp í 4-4-2 en mögulega er þetta meira 4-3-3. Kemur í ljós í byrjun leiks. (EDIT: virðist sem að þetta sé áfram 3-4-3, með Lawley Daniels í vængbakverðinum).
Hjá Arsenal byrja nokkrar kanónur á bekknum: Vivianne Miedema, Tobin Heath, og Jordan Nobbs svo dæmi séu tekin, en það er feykinóg af öðrum sterkum leikmönnum í byrjunarliðinu.
Leikurinn er sýndur beint á The FA Player (EDIT: það er víst bara hægt að hlusta nema maður sé með breskt VPN í gangi), og við uppfærum færsluna með úrslitum að leik loknum.
Leik lokið með 0-4 sigri Arsenal, gestirnir voru vissulega betra liðið í leiknum en markatalan gefur samt alls ekki rétta mynd af leiknum. Ef Leanne Kiernan hefði nýtt aðeins betur þau færi sem hún fékk, og ef Arsenal hefði ekki skorað tvö mörk sem markaskorararnir eiga sjálfsagt aldrei eftir að endurtaka aftur á ferlinum, þá hefðu úrslitin án efa orðið jafnari. Það er því ljóst að ef liðið fer upp í efstu deild – og næsta helgi mun ráða talsverðu þar um – þá þarf liðið að bæta sig nokkuð ef það ætlar að berjast á toppnum.
Fall er fararheill fyrir leikinn á eftir