Upphitun: Stórslagur á Anfield syðri (Wembley)

Á morgun mæta okkar menn á Wembley í undanúrslitum FA bikarsins og mæta þar okkar helstu keppinautum um þessar mundir Manchester City. Liðin mættust í deildinni um síðustu helgi og gerðu þar 2-2 jafntefli í stórskemmtilegum leik þar sem Liverpool byrjaði leikinn langt undir pari og ljóst að við eigum ekki efni á að gera það aftur gegn jafn sterku liði og City eru. Bæði lið eru að elta sögulegan áfanga en með sigri í þessum leik eiga Liverpool enn möguleika á fernunni en City eiga jafnframt möguleika á að vinna þrennuna ef þeir vinna.

Bæði lið áttu leik í Meistaradeildinni í vikunni og fóru bæði áfram í þeirri keppni en leikir liðanna mjög ólíkir. Meðan Liverpool gerði jafntefli við Benfica í miklum markaleik þar sem margir voru hvíldir mætti Man City með sitt sterkasta lið til Madrídar að mæta andstæðingum knattspyrnunnar í Atletico Madrid. Þar gerðu þeir 0-0 jafntefli í mjög erfiðum leik sem endaði í slagsmálum. Vondu fréttirnar fyrir City menn eftir þann leik eru að bæði Kyle Walker og Kevin De Bruyne fóru meiddir af velli og óvíst er með þátttöku þeirra í leiknum á morgun.

Ef þeir eru í raun og veru frá á morgun verður áhugavert að sjá hvernig City liðið verður. De Bruyne er vissulega mikill missir enda þeirra stærsta stjarna, kannski á eftir stjóranum sjálfum, en þeir eiga ansi góða menn til að leysa hann af hólmi í Bernardo Silva og Gundogan en takmarkar liðið aðeins ef þeir þurfa að gera einhverjar breytingar í leiknum. Fjarvera Walker gæti hinsvegar breytt miklu þar sem City eru ekki mjög ríkir í bakvarðarstöðunum. Benjamin Mendy var settur í fangelsi fyrir mót og skildi það eftir skarð í City liðinu því ef Walker er ekki með þarf Cancelo að færa sig yfir í hægri bakvörð og vinstra megin kæmi annaðhvort Zinchenko eða að Guardiola myndi setja miðvörð í bakvörðinn. Þá færi annaðhvort Ake eða Laporte í bakvörðinn og breytir það nokkuð uppspili liðsins.

Í kringum deildarleikinn um síðustu helgi virtust stjórar liðanna vera hinir mestu vinir, töluðu um hvorn annan af gríðarlegri virðingu og hressir eftir leik en báðir lifa sig mjög inn í leiki sinna liða og verður áhugavert að sjá þá á hliðarlínunni ef illa fer að ganga hjá öðru liðinu.

Okkar menn

Enn virðast allir vera til taks hjá okkar mönnum blessunarlega. Talað var um að bæði Jota og Salah væru tæpir eftir Benfica leikinn en Klopp mætti á blaðamannafund og vildi ekkert kannast við meiðsli Salah og sagði að Jota hefði fengið smá högg sem yrði skoðað en liti vel út.

 

Býst við að sjá þetta lið á Wembley á morgun. Henderson fær byrjunarliðssæti þrátt fyrir að hafa spilað í vikunni en geri ráð fyrir að Klopp vilji hafa fyrirliða sinn á vellinum og fer síðan líklega útaf eftir ca klukkutíma leik fyrir Naby Keita. Stóra spurningin er sóknarlínan Mane og Salah fengu báðir hvíld í vikunni og koma inn en Jota, Diaz og Firmino keppast um þriðju stöðuna. Ég held að Klopp vilji hafa Firmino og vinnsluna hans með gegn City og þar sem að Jota er tæpur geri ég ráð fyrir að hann fái að byrja leikinn á morgun.

Spá

Held að þetta verði svakalegur fótboltaleikur en Liverpool nái að stela sigri undir lokinn og spili þar stórt að hafa náð að hvíla vel í vikunni. Spái 2-1 sigri þar sem Diaz kemur inn af bekknum og skorar sigurmarkið og tekur loka skrefið inn í hjörtu allra Liverpool manna.

 

9 Comments

  1. Miðjan okkar lenti í vandræðum með City síðast. Ég reikna með að Klopp prófi Keita á miðsvæðinu.

    Hann getur valið að taka Thiago út og fá þá meiri hreyfanleika á miðsvæðið eða taka Hendo út og fá þá meiri sóknarvalmöguleika. Ég spái því að Thiago byrjar út af og við sjáum miðju sem var líkari Hendo/Gini í den.

    Sóknarlega þá spái ég því að hann veðjar á hraða. Diaz, Mane, Salah.

    Hef trú á okkar mönnum og sigrum við 2-1 í rosalegum leik.

    YNWA

    7
  2. Sæl og blessuð.

    Nú er tækifæri að vinna þá fölbláu. Get alveg trúað því að Keita verði hafður með frá upphafi. Hendo hefur verið að skora lágt í síðustu leikjum og ekki verið með þá vinnslu og skilvirkni sem við eigum að venjast. Gæti best trúað því að einhver meiðsli séu að hrjá hann.

    Er sammála upphitara að hafa gömlu góðu þrenninguna fremsta. Vörnin velur sig sjálf. En á miðjuna: Keita, Thiago og Fabinho.

    Það væri undurljúft að sigra á morgun.

    3
  3. Góð orð hjá Hannesi. Ég er bjartsýnn á að þetta muni hafast svo lengi sem okkar menn spili uppá sitt besta .

    2

Liverpool 3 – 3 Benfica

Byrjunarliðið klárt: Konate og Keita byrja