Newcastle 0-1 Liverpool

Þrjú stig á St James’ Park!!!!!!!!!! Top of the league!!!!!!

Markið

0-1   Naby Keita 19.mín

Leikurinn

Heimamenn byrjuðu af krafti og voru duglegir við að pressa okkar menn alveg niður að hinum sultuslaka Alisson sem leysti málin með hjartsláttaraukandi fagmennsku. Sú hápressa skilaði þó ekki merkilegum marktækifærum fyrir the Magpies en hins vegar voru okkar menn nær því þegar Keita átti hættulegt skot á 7.mínútu sem fór nálægt fjærstönginni.

Gíneu-búinn glaðværi var í góðum gír frá upphafi leiks og á 19.mínútu átti Jota góða sendingu á Keita eftir að Milner hafði átt löglega lykiltæklingu á vallarhelmingi Newcastle. Naby keyrði inn í teiginn frá hægri, hótaði réttfættu skoti, fíflaði markvörð og varnarmenn og smellti vinstri fótar skoti í marknetið. Frábært mark og Rauði herinn kominn með forystuna. 0-1.

Markið þaggaði niður í heimavellinum og Liverpool gekk á lagið með því að halda boltanum betur í sínum röðum og Diaz og Jota átti ágætis færi fram að hálfleik sem fóru forgörðum í framhaldinu en almennt var frammistaðan mjög fín í fyrri hálfleik.

0-1 sanngjörn staða í hálfleik

Upphaf seinni hálfleiks var endurtekið efni frá hinum fyrri þar sem að Newcastle byrjuðu með krafti, þrýsting og pressu en ekki markvissum marktækifærum. Þróunin hélt áfram sem ljósritað leikrit af fyrri hálfleik, nema hvað að Liverpool náði ekki að skora um miðbik hálfleiksins þrátt fyrir ágæt færi Milner, Robertson og Mané sem rötuðu ekki í marknetið.

Klopp blés til skiptinga á Mané fyrir Salah og Henderson fyrir Fabinho til að tryggja góða róteringu og kraft á miðju og framlínu. Þær skiptingar skiluðu næstum skjótum árangri þegar að Salah var við það að bruna í gegnum varnarlínu Newcastle en náði ekki að ljúka með skoti og stuttu síðar átti Jota tvö sóknarfæri sem Dubravka gerði vel í að verja vel í bæði skiptin. Thiago kom einnig inná fyrir Milner til að viðhalda góðu miðjuspili og okkar menn voru almennt með boltann undir sinni stjórn í tveimur þriðjuhlutum leiktímans.

Keita bjó til færi fyrir Diaz sem ekki var nýtt þegar að taugar fóru að spennast í aðdraganda leiksloka og allt í einu vorum við einu marki frá því að tapa stigum í blálokin. Þrátt fyrir að hinn almenni Púlari hefði hjartað í buxunum að þá náði Newcastle rétt svo einu skoti frá Saint-Maximin undir lokin sem var ekki meira en skylduvarsla fyrir Alisson í markinu.

Þægilegur 0-1 útisigur Liverpool og sanngjörn 3 stig í titilbaráttunni!

Bestu menn Liverpool

Fyrri hluta blábyrjunar beggja hálfleika þá virkuðu okkar menn þjakaðir af Evrópuþynnku en með góðum varnarleik og almennri vinnslu þá tókum við völdin á vellinum á markvissum vegi í átt að sigri. Liðsheildin var mjög fín og varnarlínan stóð sína fínu plikt með innkomu Matip og Gomez sem báðir stóðu vel fyrir sínu og Robertson var síógnandi upp vænginn. Alisson var sérlega flottur í fótunum í leiknum og skilaði 85% af sínum 39 sendingum á samherja, þrátt fyrir að slík silkifín spilamennska hafi skapað a.m.k. 85% af viðbótar hjartaslögum að meðaltali hjá okkar áhangendum.

Díaz var rólegur á hægri kantinum í fyrri hálfleik en blómstraði í hinum síðari þegar að hann fékk að færa sig yfir á hinn vinstri sem er hans kjörstaða. Jota var mjög þefvís á færin og mikið boltanum þó að ekki hafi hann skorað í dag og hinir massífu miðjumenn Milner og Henderson áttu mjög flotta frammistöðu í vinnslu, sendingum og fyrirgjöfum. Maður leiksins var þó augljóslega markaskorarinn Naby Keita sem var almennt mjög góður í leiknum, bæði við að skapa marktækifæri og að sinna skítverkunum í vinnslunni á miðjunni.

Tölfræðin

Liverpool höfðu mikla yfirburði í að halda bolta og sendingum gegn heimamönnum. Rangstöðutaktíkin hárfína var klárlega að virka og við fengum margar hornspyrnur sem sköpuðu usla og hættu. Einnig vorum við með sérlega mörg markskot þannig að við hefðum klárlega geta skorað 1-2 mörk í viðbót í sérlega sanngjörnum sigri.

Umræðan

Þessi leikur á erfiðum útivelli gegn sjóðheitum Skjóunum var augljóslega efni í baneitrað bananahýði fyrir okkar menn svona stuttu eftir Evrópuleik í undanúrslitum Meistaradeildarinnar. Það mátti búast við góðum krafti frá heimamönnum frá upphafi sem sanngerðist í nettum stresskafla í byrjun og lok beggja háfleikja en sigurvissa og fagmennska okkar manna skilaði sanngjörnum og fagmannlegum sigri.

Við erum því á toppi deildarinnar í nokkra klukkutíma í hið minnsta og sendum okkar allra bestu hugstrauma til Jórvíkurskíris fyrir seinni part dags (7,9,13). Sama hvernig á endanum fer í þessari mögnuðu meistarakeppni að þá vitum við mætavel að þetta Liverpool-lið okkar er algjörlega einstakt hvað varðar hæfni, hæfileika, karakter og að vera almennt elskulegir einstaklingar sem eiga allt gott skilið á sinni sigurvissu vegferð.

YNWA

10 Comments

  1. Mikið af færum og hefðum átt að skora fleiri mörk en hverjum er ekki S$%! sama 3 stig er það eina sem skiptir máli.Keita frábær !YNWA !

    5
  2. Þvílík snilld sem Diaz er! Frábær leikur, hefðum bara átt að nýta eitthvað fleiri af þessum dauðafærum til að róa taugarnar 🙂

    5
  3. Sælir félagar. Mariner er nottla bara auli og sleppti 1000 spjöldum á þá röndóttu en spjaldaði okkar menn fyrir litlar sakir. Þrátt fyrir að hafa dómarann sem 12 mann þá áttu Newcastle aldrei möguleika gerðu enda ekkert nema djöflast og brjóta af sér milli þess sem þeir hentu sér niður og vældu. Ömurlegt hvernig lið eru farin að haga sér gegn svona miklu sterkari liðum eins og Liverpool. Dóaradruslurnar láta þetta viðgangangast leik eftir leik. Þetta heitir að dæma lið en ekki leiki. Hvað okkar menn varðar voru allir góðir en auðvitað misgóðir. Hefðu getað skorað fimm mörk uppá færin að gera en þetta eina mark dugði gegn lélegu liði sem spilaði gróft og leiðinlega. Sanngjarn sigur sem hefði átt að vera miklu stærri en ég er sáttur með stigin 3 🙂 Það er nú þannigYNWA

    8
  4. Það sýnir hvað liðið okkar er frábært, fimm breytingar og algjörir yfirburðir. Þrátt fyrir marka þurrð þá var liðið geggjað, 3 stig og á toppnum

    2
  5. Sæl og blessuð.Stórbrotin frammistaða gegn sjóðheitu hnjúkaseli. Eina sem vantaði var smá klíník hjá sóknarmönnum. Mané, Jota og Salah hefðu mátt gera betur í sínum opnu færum og það hefði róað taugar.Annars … geggjað. Miðja og vörn upp á 10. Milnerinn kom inn eins og herforingi. Góðir dagar og … ykkur að segja … þá hef ég góða tilfinningu fyrir lokaleik dagsins.

    10
  6. Sko. Þetta var ótrúlega góður og sterkur sigur hjá okkur. Við skulum ekkert gera neitt lítið úr honum á nokkurn hátt. Sáuð þið bekkinn hjá okkur? Sennilega sterkasti bekkur í heimi sem ég man eftir. Þvílík gæði! TTA, Thiago, Salah, Konate og fleiri góðir. Jesús Jónas og allir hans frændur! Núna er bara að vonast til að Leeds nái jafntefli.

    5
  7. Vá, hvað ég vona að Keïta sé loksins að komast yfir alla erfiðleikana og nái að blómstra hjá okkur í framtíðinni. Hann hefur sko alveg getuna í það. Takk fyrir markið, Naby, það var vel gert og vel þegið! Shout out á Henderson, Milner, Gomez og Díaz. Mackie-kafteininum okkar leiðist ekki að troða sokk upp í Geordíana. Honum var alveg skítsama þó áhorfendur bauluðu á hann. Mér leist ekki alveg á Milner til að byrja með, hélt kannski að hann hefði ekki krafta í þetta lengur, en gamli naggurinn stóð vaktina með prýði og átti ekta Milner-tæklingu sem bjó til markið. Díaz á að vera vinstra megin, þar er hann algjörlega drepskæður. Hafa Salah hægra megin, takk. Og gaman að sjá Gomez standa sig svona vel. Verst ef hann vill fara en ég held að allir skilji að hann langar í meiri spiltíma. Nú er það bara onwards and upwards!

    3
  8. Frábær sigur og þvílíkir yfirburðir gegn einu heitasta liði deildarinnar. Breiddin í liðinu er ekkert smá góð og leikmenn sem ekki hafa verið að byrja reglulega t.d. Keita, Comez og Milner væru að spila flesta leiki í nánast öllum liðum utan Liverpool og MC. Held að í nútímafótbolta sé það þannig að góð sókn og afburða einstaklingar geta unnið leiki, en góð breidd og öguð varnarvinna vinnur mót. Fótbolti er nefnilega liðsíþrótt sem okkar lið er heldur betur að sanna fyrir öllum þessa dagana. Nú bíður maður spenntur eftir næsta verkefni.

    6

Byrjunarliðin á St James’ Park

Lokaleikur kvennaliðsins – Lewes heimsóttar