Jurgen Norbert Klopp verður stjóri Liverpool til 2026 (vonandi lengur) og eru þetta frábærar fréttir fyrir stuðningsmenn liðsins en hvað áhrif hefur þetta á klúbbinn að vita að hann verður tveimur árum lengur hjá okkur.
1. Einn besti stjóri heims (Jafnvel sá besti)
Í heimi fótboltans eru margir góðir leikmenn en það eru samt nokkrir algjörir elít leikmenn en það sama má segja um stjóra. Það er til fullt af góðum stjórum en við erum með Jurgen Klopp og er hann partur af lítilli elítu.
Þar sem hann stjórnar liðum gerast góðir hlutir. Hann veit nákvæmlega hvernig hann vill spila, hann veit nákvæmlega hvernig leikmenn hann vill fá til liðsins og hann er manna bestur í mannlegum samskiptum og ná öllum með sér í að ná sameiginlegu markmiði, þar sem menn þurfa að fórna fyrir liðsheildina. Þetta og margt fleira gerir hann að elít stjóra sem við erum mjög heppnir að hafa.
Að sjá hvernig hann hefur gjörbreytt öllu í kringum liðið er magnað að sjá. Hann var klókur og réði gott fólk í kringum sig sem hann er duglegur að hrósa fyrir þeirra framlag en við vitum að hann er grunnurinn að góðum árangri og þessi góði árangur er öllum sýnilegur.
Hérna er fyrsta liðið undir stjórn Klopp.
2. Stöðuleiki innan vallar sem utan.
Við vitum að það tekur ekki við nein óvissa eftir tvö ár. Það er hægt að byggja lið í kringum Klopp og hans hugsunarhátt og veitir það ákveðna hugarró.
Utan vallar skilar Klopp tekjum til liðsins því að hann sjálfur dregur að sér styrktaraðila og árangur liðsins helst í hendur við gæði stjórans sem skilar tekjum. Þótt að öll tímabil verða líklega ekki eins og þetta í ár þá má reikna með að liðið verður að berjast um alla helstu bikarana á tímum Klopps. Flestir lykilmenn liðsins eru á góðum aldri og ættu flestir að vera á toppi ferilsins árið 2026( held að Milner verður að toppa þá 😉 ) sem ætti að hjálpa okkur að halda okkur á þeim stað sem við viljum vera á.
3. Leikmenn vilja spila fyrir Klopp
Klopp er gríðarlega vinsæll stjóri og eru margir heimsklassa leikmenn sem væru til í að spila fyrir kappann sem auðveldar okkur í að næla í slíka leikmenn. Ungir leikmenn sjá líka að ef þeir standa sig þá fá þeir tækifæri og því hafa margir af efnilegustu leikmönnum Bretlands verið að koma til Liverpool.
Það sem skiptir kannski ekki síður máli er að núverandi leikmenn liðsins sem eru að klára sína samninga t.d Salah og Mane vita núna að Klopp verður lengur við stjórnvöldin og það ætti að auka líkurnar að þeir skrifi undir nýjan samning. Það er ekki víst að það dugi til en það ætti að hjálpa mikið.
4. Steven Gerrard næsti stjóri?
Það er ekkert leyndarmál að þegar Klopp hverfur á brott þá verður Liverpool goðsögnin Gerrard líklega mjög ofarlega á blaði sem eftirmaður. Ég held að þessar fréttir um að Klopp semji til 2026 hafi látið eigendur Aston Villa andað aðeins léttar því að þeir vita að Liverpool mun ekki stela Gerrard af þeim árið 2024. Núna fær Gerrard fleiri ár til að sanna sig sem stjóri á stóra sviðinu og Liverpool fær tvö auka ár til að meta hann sem stjóra. Þetta ætti að vera win win staða fyrir báða aðila.
Það er ekkert víst að Gerrard hafi það sem til þarf til að stjórna Liverpool en við sem höfum fylgst með hans feril frá upphafi vitum að það á aldrei að efast um Gerrard.
5. Njótið
Við sem höfum haldið með Liverpool lengi og vitum hvernig fótbolti virkar vitum að núna er liðið okkur á góðum stað. Að berjast um alla bikara sem til eru og vinna nokkra slíka er alls ekki sjálfgefið. Að vera með þjálfara eins og Klopp er ekki sjálfgefið. Því er um að gera að reyna að njóta þess að vera stuðningsmaður Liverpool á þessum árum því að maður á það til að vera helvíti fúll þegar illa gengur ( muniði Souness eða Roy Hodgson árin?) svo að njótið njótið njótið. Því að það er ekki sanngjarnt að vera fúll þegar illa gengur ef maður nær ekki að vera glaður þegar vel gengur.
Það má líklega telja margt annað sem þetta pennastrik á nýjum samning hjá Klopp hefur áhrif á en ég held að við getum öll verið sammála um að þetta hefur bara jákvæð áhrif á klúbbinn í heild sinni.
YNWA – kæru stuðningsmenn
Þetta eru góðir tímar hjá okkur Púlurum og enn betra að vita af því að Klopp verði með okkur í fjögur ár (a.m.k) í viðbót.