Annað illa geymt leyndarmál síðustu daga virðist nú vera að komast upp á yfirborðið, en innstu koppar í búri hafa gefið það út að Liverpool og Bayern München hafi náð samkomulagi um að Sadio Mané gangi til liðs við þýsku meistarana. Það er talað um að kaupverðið séu 35m punda, en eins og gengur þá er hluti þeirrar greiðslu tengdur árangri leikmanns og liðsins í heild.
Þetta var viðbúið, sérstaklega í ljósi þess að Mané átti aðeins eitt ár eftir af samningi. Ef Liverpool ætlaði að fá eitthvað fyrir kappann, þá þurfti að selja hann núna, eða leyfa honum að spila í eitt ár til viðbótar og láta hann fara frítt að ári.
Hér er klárlega um ákveðin tímamót að ræða, enda hefur þríeykið Salah-Mané-Firmino myndað eina allrabestu framlínu heims – ef ekki þá bestu – síðustu 4-5 ár.
Mané hlýtur að verða minnst sem eins besta leikmanns sem hefur klæðst Liverpool treyjunni, ef ekki væri fyrir þær tölur sem Salah hefur verið að framkalla þá hefði Mané líklega alltaf verið aðalstjarna Liverpool síðustu ár. Að vissu leyti skilur maður ef hann vildi fá nokkur ár á toppnum án þess að vera í skugga Salah, sem dæmi þá hafa fréttir af samningamálum Salah tröllriðið fjölmiðlum á síðustu leiktíð, en nánast ekki heyrst múkk um samningamál Mané. Það er alveg ljóst að Mané á skilið alla þá virðingu sem við Liverpool aðdáendur getum sýnt honum, enda hefur hann verið einn áreiðanlegasti leikmaður félagsins á síðustu árum. Hann náði að vinna allt sem hann gat unnið með félaginu, og við kveðjum hann með þakklæti í huga.
Svona til að dempa aðeins sorgina, þá var gefið út að Jay Spearing hefur gengið til liðs við félagið að nýju, og mun aðstoða við þjálfun U18 ásamt því að spila með U23. Vissulega sérstakt að 33 ára leikmaður sé fenginn til að spila með unglingaliðunum, en við fögnum þessu að sjálfsögðu enda Spearing ákveðin “költ” hetja hjá klúbbnum.
Velkominn Spearing, bless Mané, og gangi þér allt í haginn!
Takk fyrir allar góðu minningarnar Mane, frábær leikmaður og verður alltaf goðsögn hjá LFC. Hann á mörg æðisleg tilþrif og mörk fyrir okkur og mér er efst í mynni markið sem hann skoraði einmitt á móti Bayern, þegar hann plataði alla vörn þeirra og markmann upp úr skónum og setti hann í mark þeirra á heimavelli Bayern.
Gangi honum allt í haginn, nema þegar hann spilar á móti okkur 🙂
Spearing svo kominn aftur , hee hmmmm :-). Jæja, hann getur allavega komið baráttu í guttana.
Alltaf verið aðdáandi Mane, innan sem utan vallar. Mun sakna hans verulega en óska honum góðs gengis á nýjum vettvangi. Sammála því sem kemur fram í pistlinum að hann er einn af þeim Stóru sem hafa spilað fyrir félagið. Ég finn því bæði fyrir tilhlökkun og kvíða gagnvart næsta tímabili. Það er ljóst að það verður ekki sama Liverpool liðið sem mætir á völlinn síðla sumars (haust) en samt þá er hryggjarstykkið í liðinu enn til staðar og nýir spennandi kostir í stöðunni. Ég er ánægður að það er verið að yngja upp með framtíðarstjörnum svo vonandi heldur veislan áfram a.m.k. í nokkur ár í viðbót 🙂
Sæl og blessuð.
Mané var geggjaður fyrstu tímabilin og allt fram til 2019. Svo fannst mér halla undan fæti þegar fram liðu stundir. Er ég einn… eða eru fleiri hérna sem grettu sig þegar hann djöflaðist áfram og missti oftar en ekki boltann? Hann skaut þegar hann átti að gefa og gaf þegar hann átti að skjóta. Svo náði hann aftur vopnum sínum vetur og endar vel.
Svo fannst mér óþarfi af þessum öðlingi að vera að bera saman Afríkubikarinn sem hann vann við … alla bikarana sem hægt var að vinna og hann innbyrti með okkar ástkæra félagi.
Að því sögðu. Takk fyrir okkur Mané meistari. Einn fyrsti heavy-metal leikmaðurinn sem Klopp fékk til liðs við félagið.
ha? fannst þér í alvöru farið að halla undan fæti hjá Mané tímabilið sem við urðum meistarar 2020? Skoraði 18 mörk, flest allra leikmanna liðsins úr opnum leik og var lykilmaður í langbesta liði deildarinnar.
birgir segðu okkur bara hvernig ferill Mané var hjá Liverpool þá getur restin farið í sumarfrí….
Einn sá allra besti.
Mané hærra skrifaður hjá mér en Gerrard.
Birgir,
Ha? Meiri metum en SG? Það er ekki viska.
Fyrir utan að vera frábær leikmaður þá var hann aldrei meiddur, það var or er alveg ótrúlegur kostur, sérstaklega á þeim tímum þar sem backup-ið var nú ekkert spes. Kveður klúbbinn sem legend, leiðinlegt að hann ná ekki að kveðja hann almennilega.
Ótrúlegur missir af þessum frábæra fótboltamanni og manneskju, algjört legend hjá klúbbnum og fer í hóp þeirra bestu. Vonandi að Darwin Nunez nái að fylla út í skó hans
Munum klárlega sakna Mané þetta er leikmaður sem kom með mikil gæði í þetta lið og kom líka með mikla gleði alltaf brosandi mikil hetja að fara frá okkur við munum sakna hans.
YNWA
Birgir skamm skamm……..
Frábær leikmaður kveður nú Anfield og verður hans sárt saknað. Það verður erfitt fyrir arftakann að fylla í skarðið en vonandi tekst það. Maður kemur í manns stað. Ef ég hefði þurft að velja á milli Mane eða Salah um hvor þeirra ætti að fara hefði ég allan daginn frekar viljað halda Mane. En auðvitað helst viljað halda þeim báðum.
Stórkostlegur leikmaður kveður Liverpool sem á skilið endalausa virðingu okkar.
Ég var svo heppinn að vera á Anfield í febrúar og sá hann skora með hjólhestaspyrnu gegn Norwich.
Takk fyrir mig Mané og gangi þér vel.
YNWA
Sælir.
Kannski breytir Klopp úr 4-3-3 í 4-2-3-1 með Darwin Nunez uppi á topp. Diaz, Fabio Carvalho (eða Firmino) og Salah þar fyrir aftan. Hendo og Fab verja vörnina.
Ég vona að Klopp hafi pláss fyrir Thiago í byrjunarliðinu.
En þar sem þessi þráður snýst um Mane, þá þakka ég honum kærlega fyrir allt sem hann hefur gert til að gleðja mig síðustu ár. Hann á mjög stóran þátt í velgengni Liverpool, þvílíkur leikmaður, og hans verður sárt saknað. Vonandi nær Úrúgvæinn að gleðja okkur eitthvað í líkingu við landa sinn (og þá er ég ekki að tala um Coates).
Mér fanst Kalli koma með einn góðan punkt. Mane var stöðugur. Hann var sjaldan meiddur. Þetta síðara er algjört gulls ígildi. Hann gæti orðið missir einmitt út af því hve sjaldan hann er meiddur. Þurfum þannig leikmenn sem búa yfir topp gæðum.