Þetta er að byrja!
Kickoff á laugardaginn þegar okkar menn rúlla á Cravenkofann til að spila við Fulham og þá þekkið þið þetta, hin ógleymanlega spá okkar drengjanna mætir á staðinn. Að þessu sinni erum við 11 sem sendum inn spá og þetta er einfalt. Það að vera spáð 1.sæti gefur liði 20 stig og svo rúllar þetta niður í það að liðið sem er í 20.sæti fær 1 stig.
Við leggjum stigin saman og röðin myndast þannig, minnst er hægt að fá 11 stig og mest 220 stig. Ef að lið standa jöfn að stigum fær það hærra sæti sem að er spáð hærra sæti af einhverjum okkar pennanna. Leggjum af stað, hér kemur 11. – 20.sæti í spánni okkar og seinni helminginn kynnum við í sérstöku upphitunarpodcasti sem við tökum upp á Sólon á morgun með sérstökum gesti.
Af stað, byrjum neðst og vinnum okkur upp!
20.sæti Bournemouth 17 stig
Við erum sammála Scott Parker stjóra Bournemouth, liðið hans er ekki tilbúið í efstu deild. Þetta öskubuskuævintýri suðrstrandarinnar er vissulega skemmtilegt og þeir eru að spila fínan fótbolta. Munurinn á deildunum er rosalegur og hann er enn ekki búinn að ná inn leikmönnum sem gætu bjargað liðinu. Þeir eru enn að mausa það að sækja Nat okkar Phillips og eitt þeirra stærsta verkefni í sumar var að gera nýjan samning við Dom nokkurn Solanke, hann er lykill að sóknarleik þeirra og það er spennandi leikmaður á miðjunni þeirra, Phillipp nokkur Billing. Aðeins einn okkar telur þá eiga séns á að halda sér uppi og þeir eru afgerandi neðstir í spánni!
19.sæti Brentford 37 stig
Annað öskubuskuævintýri rúllar niður með Bournemouth. Býflugurnar danskættuðu frá London lenda í hinu klassíska “second season syndrome” og falla niður eftir frábæra frammistöðu í fyrra. Við sáum þá sannarlega lenda í vanda þegar á tímabilið leið og við auðvitað erum enn eilítið súr eftir að segja má að jafnteflið við þá síðasta haust hafi verið eitt af lykilstigunum sem við misstum af og þar með af titlinum. Þeir náðu ekki að halda Eriksen og hafa ekki náð að styrkja liðið sitt nú í sumar. Lykilmaður að þeirra árangri er framherjinn Ivan Toney, alger durgur sem er frábær klárari, og markmaðurinn David Raya er mjög öflugur. Það mun ekki duga þeim og þeir rúlla úr deild þeirra bestu.
18.sæti Fulham 37 stig
Sami stigafjöldi en tveir okkar telja þá ná 13.sæti og það setur þá í sætið ofan við Brentford á markatölu! Drengirnir hans Marco Silva eru eiginlega uppskriftin að jójó liði, þeir hafa farið upp og niður reglulega síðustu ár og við erum á því að þannig verði það áfram. Þeir segjast ætla að nálgast verkefnið á annan hátt en síðast, þá versluðu þeir endalaust af leikmönnum og fengu aðra lánaða alveg á grilljón en það dugði ekki neitt. Nú ætla þeir að treysta á þá leikmenn sem komu þeim upp úr Championshipdeildinni og bæta við sig færri og sterkari leikmönnum en þá. Þeir verða með Bernd Leno í markinu og sóttu öflugan varnarmiðjumann, Joao Paulinha til Sporting en ef að þeim á að takast að halda sér uppi er alveg ljóst að Aleksandr Mitrovic verður að færa formið sitt úr næstefstu deild í þá efstu. Hann er markavél í neðri deildum en hefur aldrei náð því í Úrvalsdeildinni en það þarf að breytast ef að vel á að fara. Við höfum ekki trú á því.
17.sæti Nottingham Forest 44 stig
Við fögnum því að gamall risi er mættur á ný í efstu deild. Fyrir okkur sem munum níunda og tíunda áratug síðustu aldar munum eftir bardögunum við Forest og þeim ríg sem að var augljós á milli liðanna þá og við sáum glitta í þegar þau léku saman í bikarnum í fyrra. Það eru tengingar milli liðanna í dag, stjórinn þeirra Steve Cooper var alinn upp sem þjálfari í yngri liðunum okkar auk þess sem að í sumar voru Neco Williams og okkar fyrri leikmaður Taiwo Awoniyi, en hann þekkir Cooper frá veru þeirra hjá LFC. Þessir tveir eru hluti 12 leikmanna sem liðið hefur keypt eða fengið lánað til að halda sér uppi, þeir hafa eytt rúmum 100 milljónum punda auk þess að láta Jesse Lingaard fá risasamning, eru virkilega að leggja mikið undir til að eyða meiri tíma á meðal þeirra bestu. Við teljum það takast en vissulega verði það naumt!
16.sæti Everton 52 stig
Okkar bláu nágrannar eru í basli. Það er klárt. Þeir þurftu að selja leikmenn til að haldast innan fairplay reglnanna, stærsta nafnið þar Richarlison og enn sem komið eru þeir ekki farnir að ná í neina leikmenn sem geta styrkt þá til að gera nokkuð annað en berjast gegn falli. Everton er einfaldlega í miklu brasi, eignarhald þeirra er eiginlega óljóst eftir að hafa misst fjármagn Uzmanovs karlsins sem var bannaður vegna tengsla við Pútín, stóra áhersla félagsins er að byggja nýja völlinn í miðbænum þó ekki séu peningarnir margir og í dag kom það svo upp að þeirra langmikilvægasti leikmaður Dominic Calvert-Lewin verður frá í nokkrar vikur vegna meiðsla. Það var þannig að fjórir af okkur telja þá munu falla og það er einfaldlega þannig að eins og staðan er núna myndu flestir Everton aðdáendur bara þiggja sautjánda sæti deildarinnar. Blessaðir karlarnir eru enn á ný komnir á þær slóðirnar…æjæjæjæjæjæjæ…eða!?
15.sæti Leeds 61 stig
Ofan við Everton er annað stórt nafn sem virðist aðeins vera á einhverri hliðargötu miðað við það sem þeir ætluðu sér. Eftir flott tímabil 2020-2021 fór allt í skrúfuna hjá Bielsa og að lokum fór svo að sú goðsögn var látin fara og Jesse Marsch falið að halda liðinu uppi. Það tókst honum en nú í sumar seldu þeir svo sína sterkustu leikmenn í Raphinha og Kalvin Phillips og í stað þeirra hefur Marsch leitað inn á markað sem hann þekkir þegar hann sótti Brendan Aaronson og Tyler Adams frá Salzburg og síðan vængmanninn Luis Sinisterra til Feyenoord. Þetta eru allt óreyndir leikmenn sem eiga að fylla skörðin, Marsch segir liðið nú á miklu betri stað en þegar hann kom til þeirra, hann er að leggja mikið upp úr varnarleiknum sem var vissulega skelfilegur lengst af í fyrra og segist ekki endilega vera hættur að versla, en muni þó bara sækja leikmenn sem styrkja byrjunarlið þeirra. Verða í ströggli en halda sætinu.
14.sæti Southampton 73 stig
Við erum svolítið að tala um svona eitt af skuggaliðum deildarinnar í Southampton, við erum með þá í flakki í neðri hlutanum en bara einn okkar telur þá geta fallið. Við höfum töluverða trú á stjóranum Hassenhuttl sem hefur náð fínum árangri og sótt leikmenn sem við höfum lítið þekkt áður en þeir komu þangað og í sumar er hann enn að því. Keypt sex leikmenn sem engir hafa reynslu af deildinni en hafa hæfileika til að ná fótfestu þar, helsta nafnið er Joe Aribo sem hefur verið lykilmaður á miðjunni með Rangers og mun leika þar með langbesta leikmann Dýrðlinganna, James Ward Prowse. Óspennandi tímabil svo sannarlega en áfram sæti á meðal þeirra bestu haustið 2023.
13.sæti Crystal Palace 95 stig
Það er töluverður stigamunur milli sæta 13 og 14, við teljum lærisveina Patrick Viera verða vel ofan við fallbaráttuna og sigli lygnan sjó. Það var virkilega eftirtektarvert að sjá leikstíl þeirra á síðustu leiktíð, eftir varnarliðið sem Woj karlinn hafði búið til var komið lið sem vildi halda boltanum, þorði að pressa og nýta hraða sem bjó í þeirra sóknarlínu. Árangurinn fínn og við teljum að svo verði áfram og þetta kröftuga lið úr Suður London verði áfram örugglega í hóp þeirra bestu með sinn háværa og sterka heimavöll. Þeir héldu í alla sína lykilmenn og stærstu kaupin eru í Cheikh Doucoure, öflugum varnarmiðjumanni frá Lille sem ætlað er að fylla skarð Conor Gallagher sem fór aftur til Chelsea eftir lán á Selhurst Park á síðustu leiktíð. Lykilmaðurinn er áfram Wilfred Saha og svo eiga þeir einn mest spennandi hafsent í deildinni utan stóru liðanna, Marc Guehi. Ernirnir fljúga áfram á meðal þeirra bestu.
12.sæti Wolves 102 stig
Þetta ólseiga Úlfalið færist aðeins neðar í töflunni að okkar mati en algerlega orðnir miðjuklúbbur í deild þeirra bestu. Nú þegar Burnley hafa kvatt deildinni eru nokkrir okkar á því að hér sé mætt leiðinlegasta lið deildarinnar, þeir eru vissulega fyrst og síðast lið sem lokar varnarleiknum sínum í lás og eru tilbúnir að standa í vörn sem allra mest og keyra skyndisóknir, ekki alveg það skemmtilegasta til að horfa á en hefur svínvirkað fyrir þá. Stóru kaupin enn sem komið er koma frá Burnley, hafsentinn Nathan Collins auk þess sem Adama Traore er kominn aftur eftir Barcalánið og virðist ætla að vera þar í vetur. Það eru enn mikið af slúðursögum um leikmannabreytingar þar, bæði inn og út og svolítið erfitt að átta sig á því hvernig það fer, það eru lið á eftir stærri nöfnunum í leikmannahópnum eins og Coady og Neves og það eru mörg nöfn sem eru sögð á þeirra radar, þar á meðal á þeirra vinsælasta kaupmarkaði, Portúgal. Matty góðvinur okkar Kop-ara fullyrðir það að heimavöllur Úlfanna sé sá erfiðasti í deildinni, við trúum kappanum alveg og teljum Úlfana verða geirneglt miðjudeildarlið í vetur.
11.sæti Brighton 105 stig
Efsta liðið í neðri hlutanum í spánni okkar eru mávarnir hans Graham Potter. Potter hefur lagt mikið upp úr að spila skemmtilegan fótbolta og búið til leikmenn á sama tíma. Þeir seldu Yves Bissouma sem lengi var orðaður við okkur og stærsta nafnið sem er að koma þar inn er Julio Enciso, ungur framherji frá Paraguay. Það er í raun Potter og hans plan sem við teljum að sé lykillinn að því að þetta lið sem er í raun ekki stórlið á neinn mælikvarða verði á lygnum sjó og áfram drulluseigt og gefi öllum liðum leik alls staðar. Það er ólíklegt að bakvörðurinn Cucurella verði þarna áfram og þeir verða að stóla á að leikmenn eins og Trussard, Dunk og Maupay verði í góðum gír áfram og við teljum að Brighton muni kaupa sér leikmenn fyrir gluggalokin sem Potter mun gíra upp í sinn fótbolta og niðurstaðan verði 11.sætið.
Þar með er fyrri hlutinn mættur, við förum yfir efri hlutann í podcastþættinum okkar frá Sólon á morgun og setjum inn þá röð í kjölfarið. Heyrumst þá!