Liverpool 1-1 Palace

Ég nenni alveg voðalega lítið að skrifa skýrslu eftir þennan leik þar sem maður er alveg hrikalega pirraður og ég nenni kannski ekki mjög ítarlega í gang leiksins en here we go.

Það var óvænt að sjá Nat Phillips byrja í miðverði hjá Liverpool í dag, þá sérstaklega þar sem Gomez var á bekknum, og þá Milner, Fabinho og Elliott saman á miðjunni. Ég hafði ekkert á móti miðjunni og þeir áttu ágætis leik þeir Milner og Elliott, sérstaklega sá yngri, en Fabinho fannst mér í tómu tjóni alltof oft.

Salah, Diaz og Nunez byrjuðu saman frammi og það var spennandi að sjá að þeir voru saman á vellinum. Allir fengu sín færi og áttu sín moment en enginn náði að skora. Nunez átti skot í stöng og hitti ekki á rammann í góðu færi, Salah átti nokkur ágætis skot og Diaz var líflegur í byrjun en slaknaði svo aðeins og var svo langbestur inn á vellinum eftir að Nunez missti cool-ið og skallaði varnarmann Palace sem var að böggast í honum. Algjör óþarfi og mjög heimskulegt hjá Nunez sem skildi liðsfélaga sína eftir í vondri stöðu og verður ekki með næstu þrjá leikina. Diaz tók þetta til sín og skoraði fljótlega geggjað mark og jafnaði metin fyrir Liverpool.

Það er kannski pínu erfitt að koma því í orð hvar maður stendur eftir þennan leik og sömuleiðis leikinn gegn Fulham. Við sjáum alveg jákvæða hluti inn á milli í þessum leikjum og Liverpool hefur verið að svara mótlæti ágætlega en það er leitt að sjá þá koma sér í þá stöðu tvo leiki í röð þar sem þeir enda með bakið upp við vegg og gera sér erfiðara fyrir.

Liverpool hefur fengið færi í þessum tveimur leikjum þrátt fyrir að uppspilið hafi heilt yfir verið fyrir neðan væntingar og kannski er partur af því sem má skrifa á mikil meiðsli og fjarverur í hópnum en það á ekki að skipta máli því í báðum leikjunum fékk Liverpool tækifæri á að komast yfir en nýtti ekki yfirhöndina og tækifærin og fær mark í bakið. Það er alltof lítið talað um hann en þarna kemur til dæmis inn mjög áberandi dæmi um það hve mikið Liverpool saknar Diogo Jota því þetta er akkúratt stöðurnar og leikirnir sem hann var Liverpool svo mikilvægur í á síðustu leiktíð þegar hann skoraði oft opnunarmörkin og önnur stór mörk sem höfðu mikil og jákvæð áhrif á leikinn.

Ég nenni ekki að vera mjög neikvæður eitthvað og reyni að horfa á þetta jákvætt þó það sé fúlt. Liverpool hefur spilað tvo fyrstu leikina langt frá sínu besta og vel undir getu en þeir tapa þeim þó ekki og koma til baka í þeim báðum sem er merki um áræðni og karakter sem er þó leitt að sjáist bara of seint í leikjum þessa dagana.

Allt sem við höfum séð hingað til er samt eitthvað sem maður sér fyrir sér að muni lagast á endanum, það þurfa kannski bara einn eða tveir kubbar að falla til að domino-ið fari af stað. Uppspilið í leikjunum hefur ekki verið mjög jákvætt en það var geggjað gegn Man City fyrir ekki löngu síðan og þessir leikmenn hættu bara ekkert allt í einu að skjóta réttu meginn við stöngina eða senda boltann á réttum tíma á réttan stað, það á eftir að smella og meiðsli á miðjunni hjálpa vissulega ekki til. Elliott er svo að koma mjög sterkur inn á miðjuna og vonandi heldur hann þessu áfram og gerir enn betur.

Luis Diaz er búinn að skora tvö frábær mörk með svipuðum hætti í þessum leikjum en annað var því miður dæmt af gegn Fulham. Hann er að finna skotfótinn sinn aftur og má alveg endilega nota hann oftar og það mun mæða svolítið á honum næstu vikurnar þar sem einhver bið verður í Nunez og Jota og ég veit ekki hvernig staðan á að vera með Firmino og hvort hann sé líklegur til baka í næsta leik.

Mörkin sem Liverpool hefur verið að fá á sig eru klaufaleg og kjánaleg, miklu frekar einstaklings mistök sem geta alltaf gerst frekar en einhver alvarleg kerfisbundin mistök. Trent gat eflaust gert betur en Mitrovic tróð yfir hann með sterkum skalla á fjærstöng þegar við mættum Fulham og skoraði úr mjög soft vítaspyrnu sem hann fékk og 5.kostur í miðvörðinn hjá Liverpool sem er ekki í miklu leikformi virðist vera hélt ekki línu við vörnina og spilaði Zaha réttstæðan í dag. Engin mörkin eru eins og ekkert sem segir mér að þetta muni ekki lagast.

Það þarf held ég ekki mikið til að þetta smelli og hrökkvi í gang hjá Liverpool, það þarf bara smá breytingu á vindátt og allt í einu fer liðið að klára þessi færi fyrr í leikjum og komast yfir og vinna þessa leiki. Því miður er umhverfið í deildinni þannig að það er rosalega slæmt að gefa Man City strax fjögurra stiga forskot í toppbaráttunni en það er ekkert búið enn þá og þarf í raun ekki nema bara eina hagstæða umferð til að staðan breytist til muna.

Það er vika í næsta leik sem verður gegn Man Utd á Old Trafford og Klopp og félagar munu hafa nóg af hlutum til að vinna í og fínpússa fram að því og við fáum vonandi að sjá Liverpool nær sínu besta í þeim leik og sækja fyrsta sigurleik sinn í deildinni þessa leiktíðina.

39 Comments

  1. Hvað er að gerast með Fabinho. Búinn að vera afleitur í báðum leikjunum.

    4
  2. Sælir félagar

    Þegar upp er staðið voru það mistök að láta Darwin byrja þennan leik. Eins hefði Gomes allan tíman að byrja og fást við Zaha. Í þriðja lagi átti að skipta Darvin útaf fyrir Firmino og hætta að senda þessa háu bolta inn í teiginn þar sem 3 turnar áttu teiginn og hvorki Darwin né aðrir áttu möguleika. Leikskilningur og sköpunarkraftur Firmino hefði komið þar að notum hann hefði hugsanlega getað sett mark eða komið Salah í markfæri.

    Niðurstaðan er að Vieira vann Klopp í uppstillingu og skipulagi leiksins og Liverpool búið að tapa 4 stigum í fyrstu tveimur umferðunum. Það er skelfileg niðurstaða og gerir nánast að engu möguleik liðsins á meistaratitli eins og M. City er að spila. Darwin hagaði sér eins og fífl og fer í þriggja leikja bann og getur nagað táfýlusokka allan þann tíma. Ég segi ekki meira en er verulega ósáttur við byrjun Liverpool á tímabilinu en eitthvað er rotið í danaveldi með öll þessi meiðsli og veikindi – Keita?!? Hvenær á að koma því í verk að selja þennan vesaling og kaupa alvöru miðjumann.

    13
    • Búnir að tapa 4 stigum? Ég upplifi frekar við höfum unnið 2 stig. Heppnir að ná jafntefli í báðum þessum leikjum.

      7
    • Hefði Firmino ekki þurft að vera í hóp til að vera gjaldgengur? Og varðandi leikskipulag þá er nú erfitt að hrósa Viera eitthvað sérstaklega. Ef okkar fremstu menn hefðu skorað úr einhverjum af þessum færum sem við fengum, já við fengum svo sannanlega færin, þá hefði þetta svo sannanlega farið á annan hátt.

      12
      • Það sýndi sig eftir korter að þessir háu boltar inn í teiginn gengu ekki. Eina leiðin var að reyns spila sig í gegnum pakkann og búa þannig til mark. Klopp hafði ekkert plan B í leiknum og leikmenn héldu áfram að dæla misgóðum háloftasendingum inn í teiginn. Gaf nokkur hálffæri og ekkert annað. Það kalla ég að Vieira hafi sett leikinn betur upp en Klopp

        3
    • Viera vann klopp í uppstillingu ? Áttu annan ? hann stillti upp í 5-4-1. Það er bara eins og öll þessi lið stilla upp, og vona síðan það besta. Varnarveggur 10 leikmanna, tefja, æsa upp og koma úr jafnvægi. Það er bara eins og hodgson stillti upp líka.
      Liverpool menn voru bara ekki á skotskónum í kvöld, og það vantar svo Bobby til þess að tengja milli miðju og sóknar. Svo eru nokkriri meiddir hjá okkur líka. Þetta var heppni !

      12
      • Já eða óheppni eftir því hvernig litið er á það en sammála að það var ekkert flott við upp leggið hjá Viera en hef miklar áhyggjur af þessari miðju vill endilega halda Elliott inni hann var virkilega flottur Milner á bara koma inná síðustu 20 til að halda bolta í öruggum sigri og ég veit það ekki þurfum að rífa okkur upp úr þessu og fara hala inn 3 stigum það er næstavíst ef ekki á fara illa í vetur. Þetta hjá Nunez var svakalega vont og mikill óþroski hjá góðum leikmanni. En koma svo við tökum næsta leik og Arsenal og ManC taka down fall verum jákvæð kjæra fólk þetta kemur.

        YNWA.

        4
      • Þessi uppstilling Viera var í raun eina leiðin fyrir Palace að fá eitthvað úr þessum leik. Pakka í vörn, tefja við öll tækifæri og beita skyndisóknum. Liverppol hefur á köflum átt erfitt með að brjóta þessa þéttu varnarmúra niður.

        Það þurfti svosem engan Bobby til að búa til þessi færi. Nunez átti t.d. að skora 2x í fyrri hálfleik,, auk þess fengum við 2 önnur færi sem við áttum að skora úr auk annarra hálffæra sem hefðu endað í netinu á góðum degi.

        5
      • Alltaf magnað þegar menn sem hafa augljóslega ekkert vit á fótbolta eru að blaðra um hann, Sigkarl sér úrslitin og ekkert annað, ef Liverpool vinnur, þá eru þeir bestir í heimi, en ef þeir tapa þá er það þessum og hinum að kenna og allir eru ómögulegir.

        Bara sem dæmi, þá langar mig að spurja þig Sigkarl, ef Zaha hefði skotið í stöngina í færinu sem hann skoraði úr, og Liverpool unnið leikinn 1-0…. Hefði þér þá samt fundist Vieira hafa pakkað Klopp svona saman?

        Liverpool var mikið betra fótboltalið í gær, á allan hátt, yfirspiluðu C.P allan leikinn og voru einfaldlega slakir að nýta ekki færin sem þeir fengu, það hafði ekkert með taktíska snilld frá Vieira að gera.

        Af öðru, dómari leiksins, mér finnst skrítið að engin hafi minnst orði á hann, en þetta var sennilega best dæmdi leikur sem ég hef séð í enska boltanum í ansi mörg ár, prik á dómarann!

        5
    • Mistök að láta Nunez byrja? Maðurinn djöflaðist eins og andskotinn allan tímann og vann eins og skepna hvort sem það var i sókn eða vörn. Þessir háu boltar gáfu okkur aðra vídd í sóknarleikinn og neyddu menn til þess að hugsa öðruvísi í vörninni annað en í Fulham leiknum þegar það vissu allir að Firmino átti að teygja menn út og suður og og þ.a.l. elti hann enginn. Ég held að menn ættu aðeins að horfa á leikinn áður en þeir byrja að froðufella vitleysu hér. Undir öllum öðrum kringumstæðum værum við 3-4 mörkum yfir áður en Zaha markið kemur og notabene Nunez með 1-2 þeirra en inn vildi boltinn bara alls ekki. Það er asnalegt að segja það eftir svona leik en það var þvílíkur kraftur og jákvæðni í spilamennskunni og ég er bara spenntur fyrir næsta leik!

      14
      • Það er málið. Liverpool spilaði ágætlega í fyrri hálfleik. Með því að nýta færin hefði þetta verðið game over eftir 30 mín.

        4
    • Auðvelt að vera vitur eftirá. Darwin var búinn að skora tvö og leggja upp eitt í fyrstu tveimur leikjunum ef við teljum City leikinn með, sem ég persónulega geri. Aldrei mistök að byrja með hann inná langt því frá. Það voru líka engir aðrir kostir, Jota er meiddur og Firmino líka. Þá staðhæfir James Joyce að Gomez sé búinn að vera meiddur og sé rétt svo að komast á ról og ekki nægilega fit til þess að byrja. Það vantar bara uppá hugarfarið svo einfalt er það.

      2
    • Það besta við þetta komment frá Sigkarli er að það var engan Firmino að hafa til að setja inn á í þessum leik.

      Leikskilningur og sköpunarkraftur Firmino kom að engu gagni gegn Fulham og litlu gagni gegn City. Í þeim leikjum kom Nunez inn á sem varamaður, skoraði hann í báðum, lagði upp og fiskaði víti og var síógnandi.

      Þess utan var engan annan framherja að hafa í gær, þó mögulega geti Carvalho spilað upp á top.

      Það er samt gaman af þessum eftir-á-færðum.

      Klopp hefði kannski geta sagt sér að Darwin Nunez myndi missa hausinn í leiknum og þess vegna mistök að byrja honum.

      Svo er spurning hver byrjar upp á top í næsta leik.

      Ég er svosem ekki búinn að afskrifa Bobby, verði hann í 100% standi á annað borð, þó mér finnist hann í dag einungis skugginn af því sem hann eitt sinn var.

      3
  3. Eini ljósi punkturinn í allri leðjunni var Luis Díaz. Hann umhverfðist bókstaflega þegar Darwin var rekinn af velli og spilaði eins og óður maður eftir það. Hann er hér með orðinn minn Mané 2.0!

    14
    • Mér fannst Harvey Elliott líka ljós punktur. Svo reyndi TAA eins og hann gat að búa til mark.

      14
      • Og Elliott. Hárrétt. Hann spilaði vel og af ákefð, nokkuð sem vantaði í mestallan flokkinn. Ætli það geti verið að undirbúningstímabilið hafi hreinlega verið of erfitt í restina hjá Klopp? Þessi meiðslahrúga og þyngsli í mönnum er ekki allt í lagi.

        5
  4. Jæja, þessi leikur spilaðist alveg eins og mig grunaði, en ég var að vona að þeir þyrftu meira en eitt skot á mark okkar til þess að ná að skora. Við verðum bara að spila með sterkari miðvörð en Philips. Virgill er ekki að eiga góða fyrstu leiki heldur.
    Við áttum auðvitað að skora í fyrri hálfleik, en það vantaði aðeins uppá heppnina þar. Síðan lætur Darwin bauna andskotann æsa sig eitthvað upp og hann lék þetta með tilþrifum. Það er samt eitt jákvætt við þetta, það er að við munum koma band brjálaðir í næsta leik, og Klopp sættir sig ekki við neitt annað en 100% fókus og einbeitingu á þann leik og að allir leggji sig 100% fram. Við eigum einn BOBBY í þann leik, og hann á eftir að sína hvað í honum býr.
    Þetta er hundsbit, en það er nóg eftir af þessu móti. Mér þætti gaman að sjá shitty vera með 9-10 menn meidda og valta yfir lið.

    Ég hlakka til að mæta scum, vonandi fá þeir að hlaupa 13,8 km alla daga fram að leik 🙂

    4
    • Vel mælt, skítur skeður og uppgjöf og væl kemur okkur ekki langt 🙂

      4
  5. Þetta er svo skrítin tilfinning að vera endalaust stoltur yfir liðinu en svo svektur með úrslitinn.

    Við spiluðum af þvílíkum krafti í 90 mín að venjulega hefði maður séð okkur slátra liðum með svona framistöðu en færa nýting og heimskulegt rautt spjald skemmdu fyrir okkur.
    Sjá strákana spila hápressu manni færri í hálftíma er eiginlega ótrúlegt afrek, menn voru að hlaupa úr sér lungun og fannst mér við eiga skilið 3 stig úr þessum leik.

    Við sundurspiluðum Palace lengst af í leiknum, við sköpuðum miklu fleiri færi en Palace en úrslitin eru samt sú að þetta dugar bara fyrir 1 stigi.

    Nú fara margir að leita af sökudólgum og er Nunez án efa sá sem menn horfa á og já þetta var heimskulegt hjá honum að láta veiða sig í svona kjaftæði og má alveg gangrína hann fyrir þetta en ég viss um að hann lærir af þessu strákurinn.

    Það sem veldur manni samt áhyggjum er þessi langi meiðslalisti í upphafi tímabils. Matip/Konate/Thiago/Ox/Jones/Gomez(tæpur)/Bobby/Kelleher og núna Nunez í þriggja leikja bann.

    Það sem gefur manni samt von er að kappar eins og Fabio/Elliott fá meiri tækifæri en mér finnst þeir virkilega spennandi leikmenn og þegar hinir koma til baka þá gæti liðið okkar verið en þá sterkara eftir að þeir hafa fengið stærra hlutverk.

    YNWA – Ekkert væl og bara næsti leikur.

    15
    • Gæti ekki verið meira sammála þér Sigurður. Það eru komnir tveir leikir af tímabilinu og í báðum leikjum byrjum við ílla en komum til baka í gegnum mótlæti.

      Það er ljóst að þessi nýja “lína” í dómgæslunni er ekki að hjálpa teknískum og hröðum liðum eins og Liverpool. Fulham komust upp með að spila ruddalega í byrjun þess leiks og þessi danski tíkarsonur hjá Palace hefði átt að vera kominn með spjald á sig eftir 20 mín. Sjallt spilað segja sumir en ég er að horfa til að sjá fótbolta, ekki ruðning. Hef reyndar sagt lengi að okkur vanti “enforcer” í liðið – einhvern sem spottar svona fíflagang og gefur þeim sama vel valið högg í nýrað eða neðar í næsta skallaeinvígi.

      Ekki vafi að okkar menn finni leiðir í gegnum rútubílaþvöguna og fari að taka almennilega yfir leiki.

      Verð reyndar að segja að Phillips verður að finna transfer í eitthvað gott Championship lið. Drengurinn er með gullhjarta en, come on, það eina sem er með honum í þessari neðstu skúffu er Jagermeister flaskan hans Klopp.

      8
  6. Og hvaða fíflagangur er þetta með að lenda alltaf undir í leikjum? Sex leiki í röð!

    4
  7. Það er sorglegt að sjá hér menn verja glæpsamlegan skalla Nunez, að daninn hafi æst hann upp!!! (Konan varð fyrir hnefa mannsins).
    Hann ætti í raun að fá tvö rauð spjöld, (ef það er hægt), því það var í annarri tilraun sem honum tókst svona”vel” til.

    11
    • Fullkomlega sammála þér Kristján Elíasson.

      Aðra eins hegðun hefur maður ekki séð síðan Suarez var bítandi út um allar trissur og kallandi blökkumenn n*gra.

      Óþolandi að góður fótboltamaður, atvinnumaður, sá dýrasti í sögu klúbbsins, fullorðinn 23 ára einstaklingur, geti ekki sýnt lágmarks þroska og yfirvegun á vellinum. Þetta veit ekki á gott.

      9
  8. Sæl og blessuð.

    Mér finnst það furðulegt að amast yfir leikskipulagi þegar það skilar dauðafærum á færibandi. Allt þar til markið kom var liðið einrátt á vellinum. Þeir óðu í gegnum miðjuna þeirra og vörnina, það var bara þegar leikmenn fengu þessa deddara sem þeir klikkuðu. M.ö.o. ekkert var að planinu, miðjunni eða öðru. Bara klára færin. Til þess eru níur.

    Fannst Nunes spjara sig ágætlega fyrir utan teiginn – átti fínar sendingar og vann boltann minnir mig nokkrum sinnum. En þegar á hann reyndi í sínu rétta hlutverki þá var þetta í besta falli vandræðalegt. Carrol mættur aftur? úff ég vona ekki. hefði Minamino skorað? já, sennilega.

    Varðandi markið þá voru tveir hafsentar á móti Zaha, Philips hefur ætlað að spila hann rangstæðan en Virgil var of aftarlega. Fannst Philips fram að því hafa staðið sig ágætlega í vörninni.

    Segi ekki meira. Tvö jafntefli á móti þessum liðum gera brekkuna bæði bratta og blauta. En mótið er rétt byrjað og allt getur gerst. Og gæfan er nú einu sinni þannig að hún kemur og fer.

    7
  9. CP komst yfir með sínu fyrsta skoti í leiknum, þar getum við sett spurningamerki við hvort Phillips er einfaldlega nógu góður. Hann er það ekki btw
    En annars var Miller mjög slakur og líka Robertson. Svona fyrir utan það áttum við að skora áður en CP skoraði. Ég er kannski of neikvæður en þegar upp er staðið þá var það nýtingin á færunum sem kláraði þennan leik, og aldrei byrja með Milner, hann er meira maður sem kemur seint inn með hlaup og hrikalega orku. Fokk kannski á morgun kem ég með betri pistil!

    4
  10. Rautt í 1st leik á Anfield. Hann reyndi að skalla hann áður en honum tókst það svo. Hvað fokking geðsjúkling var klúbburinn að kaupa!? Á hann að vera replacement fyrir mr. nice guy mane? Getum gleymt þessu sísoni. Topp4 barátta og cup run besta sem hægt er að vonast eftir. Robbo var ömurlegur þangað til að hann var söbbaður. Fab er orðinn frat. Hann hlýtur að vera tæpur. Liðið er eitthvað off og er búið vera lengi. Annan striker takk strax og svo fokking miðjumann andskotinn hafi það!

    6
  11. Þetta er svipað og ég bjóst við, heppnin er bara ekki alveg komin ennþá. Vonandi fyrir næsta leik mætir hún til okkar því það væri niðurlæging að missa einhver stig þar því það svífur mjög slæmur andi yfir mu.
    Er annar nunes að koma? Eitthvað heyrist að miðjumanninum matheus nunes sé við það að ganga til liðs við okkur.
    Helvíti bara í gær, það fór allt í skrúfuna.

    3
  12. Þið megið kalla þetta sturlun en ég ætla samt að velta einu upp.
    Gætum við tekið Ronaldo yfir til okkar?
    Við erum í Champa og það fullnægir markmiðum hans. Við fengjum ótrúlegan leikmann og það væri eiginlega þess virði að stela honum frá Utd.
    Framlína okkar mætti alveg við samkeppni.
    Hann er vissulega brjálað egó og fleira eftir því en ég einhverra hluta vegna treysti Klopp til þess að beisla egó hans.
    Mér persónulega finnst það pínu sexy hugsun og spennandi.

    1
    • Passar ekki inn hjá Liverpool, enga menn sem halda að þeir séu stærri en liðið. Hann passar betur hjá Chelsea eða álíka.

      5
    • Ég styð þessa hugmynd 🙂 þurfum eitthvað klikkað dæmi núna til að keyra okkur í gang og ímyndið ykkur hvað þetta myndi spæla ManUtd.

      1
  13. Þetta var hörkuleikur og skemmtilegur og okkar menn að spila sinn leik og hefðu átt að vinna létt ef menn hefðu skorað úr dauðafærum sem voru nokkur. Darwin Nunez hefur skap og ég held að ef einhver getur lagað svoleiðis brest þá er það Klopp svo þess vegna bið ég fólk að anda djúpt af því að drengurinn hefur mikla hæfileika. Ég ætla allavega ekki að missa trúnna út af tveim jafnteflum og mun halda áfram að sjá mitt lið eins og áður .

    8
    • Vel orðað!

      Þurfum að ná okkur aðeins niður og tökum svo fyrsta sigurinn í deildinni næsta mánudag.

      1
  14. Langar að benda skýrsluhöfundi vinsamlega á að andstæðingurinn í gær var Crystal Palace en ekki Fulham aftur eins og kemur fram í fyrirsögn. Að því sögðu er maður furðu lostinn yfir því að varnarmaðurinn sem Darwin skallaði hafi fengið tugi eða hundruði líflátshótana eftir leik! Ömurlegt í alla staði og til skammar. Annars fannst mér leikur okkar manna snarbatna eftir rauða spjaldið. Ekki merkileg frammistaða hjá þessum nýja manni og kórónað með yfirgengilegri heimsku sem verðskuldaði ekkert annað en rautt. Vonandi að Klopp hafi látið hann heyra það eftir leik. Elliot og Diaz voru hins vegar frábærir fannst mér, sívinnandi og okkar langbestu menn. Nat Phillips blessaður stimplaði sig endanlega út í gær held ég, sýndi það að hann er einfaldlega ekki á Liverpool mælikvarða, alltof hægur og silalegur.

    1
  15. Búinn að laga tilvísunina í Fulham í titli og vefslóð.

    Varðandi skot á Nat Phillips: ég held það viti allir – Klopp þar með talinn – hvaða takmörkunum Nat er háður. Hann hefur ekki sama hraða eins og Virgil, Joe eða Konate, ekki sömu hæð og Matip, og svo mætti lengi telja. Hann mætti staðsetja sig betur í öftustu línu á köflum (Virgil ku víst hafa verið að reka hann fram hvað eftir annað), hann mætti snúa sér réttar til að vera viðbúinn að hlaupa til baka þegar andstæðingur reynir gegnumbrot etc.

    En hann er ómeiddur. Annað en Konate, Matip og Gomez (sem var vísvitandi á bekk því honum var ekki treyst í 90 mínútur).

    Og eins og einhver sagði: “Availability is the best ability”.

    Líklega var þetta einn versti leikurinn fyrir Nat að koma inn í – er ekki Zaha einn fljótasti framherjinn í deildinni? Fyrir utan auðvitað Salah og Nunez. Það var bara vitað að auðvitað myndu Palace herja á þennan veikleika. En Nat skilaði því sem hægt var að ætlast til af honum. Markið myndi líklega alltaf skrifast frekar á Fabinho. Nú og svo var bæði sendingin og hlaupið innfyrir mjög vel útfært, og skotið fór á nánast eina staðinn sem það mátti ekki fara á.

    Væri ég til í að sjá einhvern þeirra Konate, Matip eða Gomez frekar í miðverði? Alveg 100%. En á meðan Nat er sá sem þarf að spila ætti hann að fá stuðning okkar allra.

    12

Byrjunarliðið gegn Palace

Gullkastið – Copy/Paste