Spá Kop.is – síðari hluti

ATHUGIÐ

Ritstjóri á sextugsaldri taldi sig vera búinn að tímastilla grein sem hann lagði vinnu í föstudag fyrir fyrsta leik í móti. Þessir gráhærðu gömlu gæjar!!! Hún er komin hér – og við stöndum við hana þrátt fyrir fyrstu leikina þrjá. Þetta er á leiðinni krakkar.

Á fimmtudagskvöldið sáum við hvaða liðum við félagarnir spáum falli og upp að miðju, hér horfum við á efri hlutann, hvar Evrópa liggur, hverjir fá meistaradeildarsætin og hver fer í deildarmeistararútuferð í maí.

Munið. Ellefu sem spá, 20 stig fyrir fyrsta sætið, 1 stig fyrir neðsta sætið, max hægt að fá 220 stig, minnst 11. Byrjum þetta partý.

10.sæti Newcastle 118 stig.

Ríkasta knattspyrnulið heims fær 10.sætið í okkar spá og mögulega hefðum við sett þá enn ofar ef við hefðum getað beðið eftir lokum leikmannagluggans því við erum sannfærðir um það að þeir eru sannarlega ekki hættir að versla núna, þann 5.ágúst. Þeir hafa verið að bjóða í leikmenn og verið að fá “nei” í svör með hækkun verðmiða í huga en við eum svolítið á því að þeir svo taki skrefin í lok gluggans. Newcastle er stór klúbbur með mikinn fanbase og í raun alveg gaman að fá þá í efri hlutann útfrá því en eigendahópurinn skyggir svo sannarlega á margt hjá félaginu. Þeir hafa í raun bara sótt tvo leikmenn hingað til, Nick Pope í markið og Sven Botman í hafsentinn. Þeir verða á efri blaðsíðunni í vor að okkar mati og ef að þeir bæta duglega í hópinn gætu þeir blandað sér í Evrópubaráttuna.

9.sæti Leicester 124 stig.

Brendan karlinn Rodgers þarf núna að hrista töfrahattinn og sýna úr hverju hann er gerður. Peningarnir virðast af afar skornum skammti, Kasper Schmeichel bara farinn á braut og svo virðist sem að verið sé að eltast við alla þeirra helstu leikmenn, Maddison þegar verið boðið í af Newcastle, Iielemans á þeirra radar og West Ham og Fofana hjá Chelsea. Það skiptir öllu fyrir Brendan að hann haldi i þessa menn og vonandi finna pening fyrir viðbótum í hópinn. Það má þó ekki gleymast að þeir náðu góðum árangri í fyrra miðað við meiðslavandræðin og innan þeirra raða eru margir góðir fótboltamenn, sér í lagi ef áðurnefndir verða áfram bláir 1.sept. Það er þó óumdeilt að frægðarsól Leicester virðist nú vera að síga duglega.

8.sæti Aston Villa 137 stig.

Ég held að okkur sé óhætt að nefna þetta lið sem mögulegt spútniklið vetursins svona miðað við frammistöðu þeirra síðustu ár og okkar spá um þá er nú töluvert jákvæðari en flestra. Við vitum öll hver ástæðan er, stjórinn Stevie G er enn í háum metum hjá okkur og okkur langar að hann nái árangri í starfinu sínu. Hann kom inn í fyrra eftir að tímabilið hófst í fyrra og fær nú sumarið til að fara enn lengra með sínar áherslur og leikmannahóp. Hann hefur þó enn sem komið er ekki bætt við nema einu stóru nafni, hafsentinn Diego Carlos er kominn frá Sevilla en það er klárt að fleiri verða sóttir til að styrkja hópinn. Gerrard segir lágmarkskröfu sína vera að vera i efri hlutanum og hann ætli að keppa um Evrópusæti og bikarana, það sé næsta skref. Við höldum að hann verði ekki langt frá því!

7.sæti West Ham 142 stig.

Rétt ofan við Villa í spánni sitja lærisveinar David Moyes í West Ham, í fyrsta mögulega Evrópusætinu sem gefur Euro Conference League sæti. Moyes hefur náð að festa Hamrana í sessi í efri hlutanum og í raun keppt um Meistaradeildarsæti síðustu ár. Þeir hafa farið út fyrir England í sínum stærstu kaupum, ítalski framherjinn Gianluca Scamacca kemur frá Sassuolo og hafsentinn Nayef Aguerd frá Rennes auk þess sem þeir tóku Maxwell Cornet frá Burnley. Moyes er grjótharður á því að sess þeirra sé að keppa í Evrópukeppnum hvert á og við teljum þá verða á þeirri braut, drullusolid lið sem hann hefur byggt upp.

6.sæti Man United 166 stig.

Þá hittum við fyrsta liðið af þeim “sex stóru” og við teljum að í keppni þeirra muni United enda neðstir. Mikilvægustu leikmannakaup þeirra teljum við stjórann Erik ten Hag, grjótharðan nagla sem vill spila posession fótbolta og pressa boltalaust. Hann er bara einfaldlega ekki kominn með þann leikmannahóp sem þarf til að ná meiri árangri og hann þarf að auka jafnvægið í leikmannahópnum og finna leiðir til að láta stjörnurnar spila saman. Hann sækir mikið af leikmönnum sem hann þekkir frá Hollandi og það verður fróðlegt að sjá hvernig þeim tekst að taka næsta skref yfir í enska boltann. Kaupin á Christian Eriksen eru forvitnileg og hvernig þeir para saman hann og Fernandes verður forvitnilegt. Svo er það Ronaldo málið…semsagt enn fullt af farsa og United fer ekki í Meistaradeild á næsta ári.

5.sæti Arsenal 181 stig.

Það er töluverður munur í stigum milli 5. og 6.sætis og í raun teljum við að Arsenal verði töluvert sterkari en United og muni gera atlögu að meistaradeildarsætinu sem þeir klúðruðu í fyrra. Þeir hafa átt stóran glugga með kaupum sínum á Fabio Vieira, Gabriel Jesus og Zynchenko, allt leikmenn sem að munu gera tilkall til byrjunarliðssætis og sérstaklega verður spennandi að sjá Jesus í því hlutverki að bera upp sóknarleik liðs, hann hefur sko hæfileikann og með Saka og Martinelli sitt hvoru megin verður sóknarlínan ansi öflug. Það er ofboðsleg bjartsýni á meðal Arsenalaðdáenda og liðið svo sannarlega komið nálægt fyrri slóðum en við teljum þá ekki ná inn í Meistaradeildina næsta haust.

4.sæti Chelsea 183 stig.

Semsagt, Chelsea ná meistaradeildarsæti eftir harða baráttu við Arsenal. Eftir öll ævintýrin sem félagið gekk í gegnum síðasta vor og þangað til eignarhald var staðfest í sumar held ég að Chelseaaðdáendur séu býsna brattir. Nýr eigandi hrúgar inn leikmönnum og Tuchel alveg grjótharður á því að þeir ætli sér stóra hluti. Þeir eru enn ekki búnir að finna sér níu til að leysa Lukaku af eftir hroðalegt tímabil en það er ekkert útséð með að þeir séu hættir að versla. Raheem Sterling er mættur aftur til London eftir að við sóttum hann til QPR, Kalidou Koulibaly er ætlað að fylla skarð Rudiger og þeir voru rétt að gera Cucurella að dýrasta bakverði heims. Eigandinn segir nóg til og sér um það sjálfur að klára samningana. Tuchel er frekar þurr týpa sýnist manni en hann hefur náð býsna góðum árangri í gegnum tíðina og það er alveg viðbúið að þeir vinni nú bikarúrslitaleik í vetur, þ.e. ef þeir hitta okkur ekki fyrir og tapa í vító.

3.sæti Tottenham 195 stig.

Antonio Conté mætti til London í fyrra og reif þá hvítsvörtu í gang – alla leið í meistaradeildarsætið. Maðurinn er fæddur sigurvegari og hefur í sumar gert öllum ljóst að hann ætlar sér að bæta árangurinn í vetur, hlakkar til að komast í stóru leikina í Evrópu og talar um að íþróttin gangi út á það að vinna titla. Til að sjá til þess hefur hann sótt Richarlison til Everton, Yves Bissouma til að þétta varnarmiðjuna í 3-4-2-1 kerfinu sínu, Ivan Perisic á vinstri vænginn og Djed Spence á þann hægri. Þessir allir styrkja Tottenham en það er þó fyrst og síðast fullkomnunarsinninn og eldhuginn Conté sem við höfum trú á að nái út úr þessum keyptu mönnum í ofanálag við Kane, Son og Harry Winks…eða…þið vitið. Spursarar verða næst því að búa til kepnni við efstu tvö liðin og nokkuð örugglega í Meistaradeildinni haustið 2023.

2.sæti Manchester City 210 stig.

Þá vitiði það, meistararnir tapa titlinum þetta árið og verða vel ofan við liðin fyrir neðan. City eru líklega að færa til leikstílinn sinn, í stað fljótandi framherja og miðjumanna hafa þeir fjárfest í norska risanum Haaland sem er ætlað að verða afgerandi sóknarmaður og beri sóknarleikinn þeirra uppi. Þeir eru sannarlega liðið sem þarf að vinna og það er enn logandi eldur í maganum á Pep, hann vill vinna titilinn áfram og hið heilaga gral, Meistaradeildarbikarinn, er enn á radarnum þeirra. Þeir hafa verið að losa stór nöfn líka svo það má alveg telja líklegt að þeir bæti við sig…en…það dugar ekki til að halda titlinum krakkar mínir!

MEISTARAR Liverpool 219 stig.

Þá hafiði það, við spáum okkar manni titlinum og að við náum tuttugustu Englandsmeistaratigninni, draumatölu ansi lengi í okkar huga, segjum ekkert út af hverju samt. Lykillinn til að þessi spá sem tíu af ellefu pennum leggja upp með rætist er að liðið sé tilbúið frá fyrsta degi og að við höldumst meiðslafríir, þó sérstaklega á miðjunni þar sem við myndum alveg þiggja að lyklar næðu 30+ deildarleikjum. Kaupin á Darwin munu líklega þýða það að við færum aðeins til sóknaráherslurnar okkar og vinnum meira með hefðbundna níu í liðinu okkar en á síðustu árum. Við hlökkum líka til að sjá Luis Diaz heilt tímabil, þeir munu vonandi og væntanlega fylla upp stórt skarð sem Sadio okkar Mané skilur eftir.

Rútuferð í maí 2023 krakkar mínir – búið ykkur undir það!!!

Þá er það klárt, eftir nokkra klukkutíma mæta okkar menn til leiks við Thamesána í Lundúnum, spáin er klár svo ekki er eftir neinu að byrja – HEFJUM ÞETTA PARTÝ.

10 Comments

  1. Sælir félagar

    Mín spá var fyrir efstu 6 er óbreytt. Þrátt fyrir slæma byrjun Liverpool í deildinni þá held ég mig við mína spá frá því áður en deildin byrjaði. Eins og Kop-ararnir fer ég ekki að breyta neinu þó að ýmislegt hafi komið í ljós sem maður reiknaði ekki með í upphafi leiktíðar

    1. Liverpool
    2. M. City
    3. Arsenal
    4. Chelsea
    5. Tottenham
    6. Brighton & Hove Albion F.C.

    Og framhaldið svona til gamans:

    7. West Ham
    8. M. United

    2
  2. Í fullri hreinskilni þá tel ég möguleika okkar manna á þessu titli ansi litla og myndi jafnvel tippa frekar á Arsenal, en maður getur jú látið sig dreyma.

    3
  3. Full mikil bjartsýni í kop mönnum finnst mér. Olíu veldið er alltaf að fara að taka þetta. Eins finnst mér þið bjartsýnir fyrir hönd Moyes og hömrunum. Svona verður þetta !

    1. Oil shitty
    2. Celski
    3. Liverpool
    4. Tottenham
    5. Arsenal
    6. man utd
    7. Newcastle
    8. Brighton
    9. Wolves
    10. West Ham.

    Það skiptir miklu máli fyrir okkur að fá nýjan miðjumann fyrir þetta hraðmót, ef ekki þá gæti Liverpool endað í 4-5 sæti. Þessir tindátar sem við erum með eru nú þegar byrjaðir að hrynja í meiðsli og Virgill virðist ekki kunna að verjast lengur ef hann er með aðra en Matip og Konate við hliðina á sér.
    Lið eins og Tottenham, Newcastle, Arsenal og Chelski eru að styrkja sig allt of vel fyrir minn smekk, en Liverpool ekki neitt að styrkja sig. Liðið er alls ekki eins gott og lið okkar á síðasta tímabili.

    2
    • ES
      Hingað til hefur mér fundist kaup stefna FSG frábær en það er auðvitað meistara Klopp að þakka hvað hann gerir nánast alla leikmenn sem hann snertir að stórstjörnum.

      En finnst að FSG verði að bregðast við hratt og örugglega aðstæðum eins og við erum í núna til að við getum gert alvöru atlögu að titlinum. Og þá í staðinn losa út leikmenn sem geta ekki haldist heilir 1/3 af tímabili.

      2
  4. Þetta var staðan hjá Liverpool 31.des. 2021. í 3 sæti og 9 stigum á eftir City og fáir trúðu á að Liv gæti orðið meistari. Þið þekkið framhaldi. Gæti gerst aftur. Man ekki betur en áhangendur hefðu verið mjöööög ósáttir við stöðuna. Bara segi svona. Réttlætir samt ekki nísku eigenda sem eru jú fjárfestar og vilja bara arð og aftur arð.

    Premier League table after close of play on 31 December 2021
    https://www.11v11.com › league-tables › 31-december-…
    Pos Team Pld W D L GF GA GD Pts
    1 Manchester City 20 16 2 2 51 12 39 50
    2 Chelsea 20 12 6 2 43 14 29 42
    3 Liverpool 19 12 5 2 50 16 34 41

  5. Liverpool og City berjast um fyrsta sætið og Arsenal og Tottenham um þriðja sætið.
    Ég held að Chelsea, Newcastle og man utd þurfi meiri tíma til að stilla liðin svo þau blanda sér ekki í topp baráttuna núna og vonandi aldrei.
    1. City
    2. Liverpool
    3. Tottenham
    4. Arsenal
    5. Chelsea
    6. Newcastle
    7. Man utd

    • Þessi lið falla og það verður ekkert leiðinlegt að sjá á eftir Everton niður um deild.

      18. Everton
      19. Notting Forest
      20. Bournemouth

      1

Dregið í Meistaradeildinni

Upphitun: Bournemouth mætir á Anfield