Upphitun: Bournemouth mætir á Anfield

Eftir skelfilega byrjun á tímabilinu fá okkar menn annað tækifæri að finna fyrsta sigur tímabilsins þegar Bournemouth mætir á Anfield á laugardaginn. Eftir góða frammistöðu gegn Crystal Palace, án þess að finna sigurinn, mætti liðið í kolvitlausum gír gegn Manchester United og litu mjög illa út gegn liði sem var í miklu basli. Það er nauðsynlegt fyrir liðið að mæta rétt gírað í þennan leik.

Það eru þó ágætis fréttir að Bournemouth hefur aldrei náð sigri á Anfield. Þeir hafa átta sinnum komið í heimsókn og gert eitt jafntefli og tapað rest. Einnig hefur okkur gengið ágætlega að eiga við nýliða því í síðustu 33 viðureignum Liverpool gegn nýliðum höfum við einungis einu sinni tapað en það var gegn Fulham liði Scott Parker sem er nú stjóri Bournemouth.

Bournemouth komst upp í fyrra eftir tveggja ára veru í næst efstu deild og var þeirra besti maður okkar fyrrum leikmaður Dominic Solanke sem fann loks markaskó sína og skoraði 29 mörk í 46 leikjum og endaði næst markahæstur á eftir Mitrovic. Solanke er hinsvegar eitthvað tæpur og ekki ljóst hvort hann nái leiknum á morgun. Bournemouth fengu hinsvegar hrikalega erfiða leiki til að hefja veru sína í efstu deild, þeir komu öllum á óvart og unnu Aston Villa í fyrstu umferð en steinlágu svo fyrir Man City og Arsenal í síðustu tveimur leikjum.

Liverpool

Það voru ekki sérstakar fréttir á fréttamannafundi Jurgen Klopp í dag þegar hann tilkynnti að það myndi enginn snúa tilbaka af meiðslalistanum fyrir leikinn um helgina en Matip og Jones gætu byrjað að æfa í vikunni og verið í hóp gegn Newcastle í miðri viku. Síðan fer að styttast í Jota og Thiago en “veikindi” Naby Keita eru orðinn “vöðvameiðsli” og því allar líkur á að hann sé að yfirgefa félagið á næstunni.

Klopp ítrekaði einnig stefnu félagsins í leikmannamálum að frekar yrði ekkert keypt ef þeir finna ekki rétta leikmanninn en þeir væru þó sífellt að vinna í því þessum málum og síðustu daga hefur töluvert verið slúðrað um að Liverpool gæti reynt að stela Frankie De Jong sem Manchester United hafa verið að elta allt sumarið eða náð í Matt O’Riley ungan enskan miðjumann hjá Celtic sem auðvitað kom upp í gegnum Fulham unglingastarfið eins og allir bestu ungu strákarnir okkar. Það verður áhugavert að fylgjast með þessu næstu daga því það virðist augljóst okkur vanti að bæta aðeins við á miðsvæðinu.

Það er erfitt að giska á uppstillinguna á morgun, miðað við frammistöðu liðsins á mánudaginn væri maður til í miklar breytingar en þeir sem kæmu inn í staðinn eru bara flestir frá vegna meiðsla. Eitthvað hefur verið rætt hvort Tsimikas komi inn í liðið en hann hefur ekki heillað mig þegar hann hefur verið að koma inn undir lok leikja með alltof mikið af fyrirgjöfum annaðhvort aftur fyrir eða beint á andstæðinga og geri ráð fyrir að vörnin verði því óbreytt. Fabinho var mjög slakur gegn Fulham og Crystal Palace en miðjan virkaði engan veginn gegn Manchester United og hann er okkar besta sexa svo ég geri ráð fyrir að hann taki pláss James Milner á miðsvæðinu. Framlínan er stærsta spurningamerkið, Firmino var flottur í samgerðarskildinum gegn City en hefur verið slakur í þeim deildarleikjum sem hann hefur spilað og Salah og Diaz fengu oftast boltann svo vítt gegn Manchester United að það kom lítið úr þeim. Ég væri alveg til í að sjá þá tvo koma mun innar á völlinn með Carvalho fyrir aftan þá en geri ráð fyrir að Firmino byrji.

Spá

Ég ætla að spá því að liðið vakni til lífsins og slátri Bournmouth 4-0 þar sem Salah setur tvö, Diaz eitt og Trent hristir af sér slenið og setur eitt beint úr aukaspyrnu.

9 Comments

  1. Ég hef ekki séð neitt í spilamennsku liðsins á þessu tímabili sem hefur gefið mér ástæðu til bjartsýni. Það lifnar kannski yfir þessu þegar lykilmenn koma úr meiðslum en þessi leikur gegn Man Und var það leiðinlegur að ég hefði frekar vilja vera staddur við jarðaför.

    Ég ætla að spá liðinu jafntefli. Liðið fái enn og aftur mark á sig í byrjun leiks og nær síðan að jafna í blálokin. Sama gamla sagan.

    Ég vona innilega að ég hafi rangt fyrir mér og liðið sigri 4-0 eins og pistlahöfundur spáir en núna er ég eins og Tómas í Biblíunni og verð ekki sæll og fer að trúa, fyrr en ég sé Klopp færa liðið okkar aftur á þann stall sem liðið á að vera. Eitt af toppliðum Evrópu. Það hefur ekki verið það núna í byrjun þessa tímabils.

    YNWA.

    4
  2. Þessi leikur á alltaf að enda 4-0 ! Ef við höldum ekki hreinu í þessum leik þá er meira en lítið að
    Salah með 3, BOBBY með 1.HÖ OUT 😉

    2
  3. Mikill jafnteflisþefur af þessum leik (ég hef aldrei unnið neitt í getraunum…..), 70% með boltann en lítið gerist.
    Tsimikas krossar þó allavega á þessu tímabili í sendingu. Man ekki eftir einum slíkum hjá robbo á nýju tímabili….
    Við gerðum jafntefli við fulham meðan bournmouth át þá…..
    Árunnni þarf að eyða með glansandi hlandi frá Bruce grobb.

    4
  4. Sælir félagar

    Því miður er engin ástæða til bjartsýni fyrir þennan leik. En það er svo sem engin ástæða heldur til neinnar svartsýni. Miðað nvið það stefnir í jafntefli eina ferðina enn sem er ekki gott. Ég vona samt að Liverpool vinni í þessum leik en það gerist ekki ef vörnin og miðjan halda ekki. Þetta verður jafn erfitt og í undanförnum leikjum ef andstæðingarnir skora á undan. Sóknin skorar 1 til 4 mörk og ef vörn og miðja halda þá dugir eitt mark.

    Það er nú þannig

    YNWA

    3
  5. Því var haldið fram í Podcasti og í Skrifum hér inni að þessi byrjun sè sú versta sem Liverpoo, hefur átt síðan 92/93 en því fer fjarri því Liverpool byrjaði 2012/13 verr eða með 1 stig úr fyrstu 3 leikjum þess tímabils og er það hér með komið á hreint enduðum í 7 sæti þó svo ég hafi enga trú á því að það gerist endilega í ár strákarnir okkar eiga klárlega eftir að finna þráðinn aftur þannig er þetta lið okkar bara innréttað og að því sögðu spái ég okkar liði brjáluðu á morgun og við tökum þetta 3-0 sem er lítið miðað við sóknarfæri okkar manna Salah 2 og Carvalho 1.

    YNWA

    3
  6. Nenni nú ekki að byrja daginn á svartsýni og vonast auðvitað eftir sigri, burst eða tæpt skiptir ekki máli.
    Áfram Liverpool – YNWA

    7
  7. Náum kannski jafntefli, væri gott að vera með 3 stig eftir 4 umferðir. Hugsa að fsg og klopp yrðu sáttur við það.

    1
  8. Augljóslegasta “handa” víti sögunnar bara sleppt. Auðvitað sleppur mu með slíkt.

    2

Spá Kop.is – síðari hluti

Liðið gegn Bournemouth – endurkoma í vændum?