Liverpool 2 – 1 Newcastle

Engin ástæða til að klára þetta eitthvað óþarflega snemma! Þessi 2-1 sigur á Newcastle var svo yndislega sætur, enda fátt betra en að vinna lið sem tefja allan leikinn með því að skora á síðustu mínútu uppbótartíma!

Mörkin

0-1 Isak (38. mín)
1-1 Firmino (61. mín)
2-1 OrigiCarvalho 90+8

Gangur leiksins

Þessi leikur byrjaði ekki alveg jafn vel eins og leikurinn um helgina, þar sem okkar menn voru komnir í 2-0 eftir 6 mínútur. Ákefðin í Newcastle mönnum var meiri en í strákunum frá suðurströndinni, og okkar menn áttu fá færi sem voru líkleg til að verða að marki. Einna helst að Díaz fengi færi þar sem frábært samspil Elliott, Firmino og að lokum Díaz varð til þess að hann náði að spila framhjá Pope í markinu, en var kominn of langt til hliðar og ekki í jafnvægi og setti því boltann yfir. En rétt eins og í öllum síðustu deildarleikjum (fyrir utan Bournemouth leikinn) voru það gestirnir sem komust yfir skömmu fyrir leikhlé. Trent átti glórulausa sendingu beint á miðjumann Newcastle, þeir brunuðu upp, Robbo og Virgil voru stöðuviltir, og skyndilega var Isak frír inni á teig og gerði engin mistök þegar hann skoraði jómfrúarmark sitt í deildinni. Enn og aftur voru okkar menn að gefa andstæðingunum mark í forskot, sem er bara algjör óþarfi og fer að verða ansi þreytt.

Fátt markvert gerðist á síðustu mínútum fyrri hálfleiks, og Klopp gerði engar breytingar á liðinu í hálfleik. Það var svosem ekki mikið öðruvísi lið sem mætti á völlinn í síðari hálfleik, og sami barningurinn hélt áfram. Eftir rúmlega stundarfjórðung náðu okkar menn þó að jafna. Fab fann Elliott í opnu svæði milli miðju og varnar Newcastle, hann sendi boltann fram á Salah sem spilaði upp hægra megin, renndi svo boltanum til baka inn á teiginn þar sem Bobby kom aðvífandi og sendi boltann örugglega í fyrsta í gegnum klof varnarmanns Newcastle og í hornið fjær, óverjandi fyrir Pope.

Þegar hér var komið sögu var talsvert síðan gestirnir voru farnir að tefja óþyrmilega, allar markspyrnur tóku hámarkstíma (og gjarnan vel rúmlega það), og hinir röndóttu lágu gjarnan í jörðinni með alls konar kvilla og hnjask. Í raun er stórundarlegt að þeir hafi allir lifað af þennan leik. Klopp gerði svo þrefalda skiptingu, Trent og Robbo fóru báðir útaf ásamt Hendo. Af þeim þremur var Robbo líklega skástur, en hinir tveir hreinlega slappir. Jafnframt virðist Hendo hafa tognað aðeins aftan á læri og er því auðvitað tæpur fyrir leikinn gegn Everton um helgina. Inná komu Tsimikas og Milner í bakvarðarstöðurnar, og Carvalho á miðjuna. Orkan í liðinu var orðin talsvert betri eftir markið, en Newcastle gerðu sitt allra besta til að drepa allt tempó í leiknum, og tókst það bara alveg ljómandi.

Þegar venjulegum leiktíma var að ljúka var tilkynnt að það yrðu 5 mínútur í uppbótartíma, sá tími hefði hæglega verið helmingi lengri án þess að neinn hefði getað kvartað. Ekki skánaði hegðun Newcastle manna í uppbótartíma, og Pope t.d. tók hátt í 2 mínútur í að láta huga að sér eftir að hafa gripið boltann eitthvað vitlaust eða kannski steig hann á skóreimina sína. A.m.k. var hann greinilega sárþjáður alveg þangað til hann stóð upp. Dómarinn tók sem betur fer eftir þessu og lengdi uppbótartímann sem því nam. Fabinho hafði fram að þessu átt tvær marktilraunir fyrir utan teig sem báðar enduðu vel uppi í stúku, og Gomez átti eina sambærilega sem var nálægt því að enda á einum byggingarkrananum við Anfield Road stúkuna. En þegar uppbótartíminn var í andarslitrunum komst Salah innfyrir en varnarmaður hreinsaði í horn. Milner tók hornið, Gomez var aldrei þessu vant inni í teig í horninu og skallaði boltann inn að markteigshorni fjær þar sem Salah skallaði boltann upp, og eftir svolítið japl, jaml og fuður barst boltinn til Carvalho sem var við hliðina á Salah í þvögunni þarna við hornið og dúndraði boltanum upp í þaknetið. Óhætt er að segja að völlurinn hafi sprungið af fögnuði, þetta var alveg á pari við fagnaðarlætin eftir Origi markið gegn Everton á sínum tíma. Yndislegt alveg hreint, þetta bara verður ekki sætara.

Frammistaða leikmanna

Maður leiksins er Harvey Elliott, hann átti stóran þátt í fyrra markinu og var einfaldlega sívinnandi allan leikinn. Þá kom Carvalho sterkur inn og hlýtur að fá tilnefningu fyrir mark ársins, ekki út af því hvað það var fallegt heldur út af því hvað það var gaman að reka það í andlitið á gestunum eftir allar tafirnar. Nokkrir leikmenn hafa átt betri dag. Trent var afar mistækur, átti lélegar sendingar og hefur oft verið betri. Hendo hefur líka oft átt betri dag. Almennt voru leikmenn bara ekki jafn mikið á tánum eins og um helgina, vissulega kannski erfitt að ná þeim hæðum aftur, en við yrðum alveg sátt við einhvern meðalveg.

Umræðan eftir leik

8 stig eftir 5 leiki er niðurstaðan, á sama tíma eru Arsenal komnir með 15 stig og City 13. Ekki ídeal, verð að játa það. En það er enn nóg eftir af tímabilinu. Hins vegar er meiðslalistinn enn óþægilega langur, nú koma 5 leikir í einum rykk fram að landsleikjahléinu í lok september, og með þessu veseni á Hendo þá hefur þörfin á nýjum miðjumanni líklega aldrei verið meiri. Jú, Jones var á bekknum í kvöld, er það leikmaður sem við viljum að sé í byrjunarliði t.d. á móti Chelsea? Vissulega eru Jota og Nunez að koma til baka, sá síðarnefndi verður a.m.k. á bekk á móti Everton, og vonandi verður Jota kominn í leikform sem allra fyrst. En Liverpool er klárlega ekki komið út úr versta skaflinum hvað varðar meiðsli, og það skiptir öllu máli að hafa góða breidd næstu vikurnar. Því miður eru líkurnar á því að liðið bæti við sig leikmanni ekki miklar, þó ekki alveg 0 samt. Eitthvað er verið að slúðra um Douglas Lúiz hjá Aston Villa sem er kominn á síðasta ár samnings, ekkert endilega leikmaður sem maður sér labba inn í byrjunarlið Liverpool þegar allir eru heilir, en stundum er bara alveg í lagi að kaupa til að auka breiddina. Undirritaður yrði bara mjög sáttur við að fá inn nýjan leikmann sem væri eitthvað aðeins betri en Ozan Kabak. Við erum alveg komin þangað.

Næsta verkefni

Heimsókn á Goodison. Áttum okkur á því að þó svo hinir bláklæddu séu í 17. sæti, þá verður þetta ekki auðveldur leikur. Það verður alveg reynt að tefja og drepa niður tempó, sást bara í leik þeirra gegn Leeds í gær. Við getum reiknað með að sjá miðju þar sem samanstendur af Fab, Harvey og Milner. Munum við sjá Carvaho í byrjunarliði á næstunni? Tja, hann er allur að spilast inn og þessi tvö mörk – sérstaklega í kvöld! – gera helling fyrir sjálfstraustið. En gleymum ekki að Klopp vill slaka mönnum varlega ofan í djúpu laugina, og Fabio litli (sem er nýorðinn tvítugur) kann því greinilega vel að koma inn af bekknum… leyfum honum bara að halda því áfram!

23 Comments

  1. Vá hvað þetta var sætt. Enn sætara en 9-0 sleggjan á laugardaginn.

    Hrikalega góður þessi Carvalho. Og Salah, þrátt fyrir allt, með tvær stoðsendingar.

    Eliott fannst mér samt maður leiksins. Stórbrotinn leikmaður.

    24
    • Allt hár rétt en þarf að taka Firmino inn í umræðuna líka var mikið að minna mig á gamla góða Firmino sem við erum öll búinn að sakna svolítið. Er að hjàlpa liðinu svakalega mikið í kvöld sem og í síðasta leik og vona að hann sé bara kominn til að vera.

      YNWA.

      3
      • Hárrétt. Það munar um minna að fá þann snilling inn í teiginn.

        2
  2. Gott að muna að leikur er ekki búin fyrr en hann er búinn. Svakalegur sigur og pumpa sjaldan slegið jafn hratt. Svona sigrar eru sætir og en sætari vegna uppbótartíma á uppbótartíma.
    YNWA

    12
  3. Djöfull var þetta pirrandi……..og svo á endanum dísætt!
    Mikill karakter að klára þetta gegn óþolandi pirrandi andstæðingi sem var með plan að tefja og vonast eftir kraftaverki, og það gekk næstum því upp.
    En maður minn þvílíka dramað með hjartsláttartruflunum.
    Elskidda!

    YNWA

    7
  4. Það voru tveir menn sem unnu fyrir kaupinu sínu frá fyrstu mínútu til þeirrar lang-lang síðustu… Harvey Elliott og Luis Díaz. Og bónustalan: Carvalho. Hinir úr byrjunarliðinu mega gjöra svo vel og girða sig, allir með tölu.

    Dj. var svo sætt að troða þessu sigurmarki þegar Newcastle var búið að tefja og væla í tuttugu og sjö þúsund mínútur. Dómarar mættu alveg fara að taka fastar á þessum stælum.

    12
  5. Sæl öll

    Mjög sætur sigur en mikið svakalega var þetta erfið fæðing. Þetta lið þarf svo svakalega miðjumann sem er heill og tilbúinn í 80% leikja. Þessir löngu diagonal frá Dijk voru alls ekki að ganga en algjör nauðsyn þegar miðjan er ekki meira skapandi en raun ber. Elliot var mjög góður í leiknum en hann hefur tilhneigingu til að draga sig út á hægri vænginn. Hvort sem það er uppleggið eða bara í “beinunum” að þá finnst mér vanta einhverja ógn fyrir framan D-bogann þegar boltinn er út á vængjunum. Fínt að reyna lveikja á Trent og taka hann út af, drengurinn virðist eitthvað ekki vera með hausinn rétt skrúfaðan þessa dagana. En góður sigur og gaman að sjá Dijk fara á fullu í menn og ekki bakka eða standa bara eins og staur, sá hefur fengið að heyra það eftir fyrstu leikina frá þjálfarateyminu.

    2
  6. Já!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!… Bara varð að garga aðeins! Það er svo sætt að vinna þetta nýja svindlolíuríki.

    10
  7. Sælir félagar

    Þetta var gríðarlega erfið fæðing en hafðist að lokum. Það kom í ljós hvað það skiptir miklu máli að koma tuðrunni inn í teiginn. Þetta endalausa dútl fyrir framan varnir andsæðinganna skilar engu. Hægar og fyrirsjáanlegar sóknir með endalausu miðjudútli eru bara hættulegar fyrir Liverpool og skilar bara því að andstæðingarnir ná að setja upp 11 manna vörn. Ég nenni ekki að tjá mig um miðjuna og varnarleik VvD þar sem sigur vannst en það þarf að fá miðjumann sem getur ógnað vörnum.

    Það er nú þannig

    YNWA

    4
  8. Úff þá bið ég heldur um 9-0 taugakerfið þolir ekki þetta stress.
    Og svo að öðru, þið þarna sem eruð búnir að afskrifa Liverpool strax þið ættuð að skammast ykkar, Liverpool var að spila við eitt af sterkari liðum deildarinnar og voru miklu betra liðið á vellinum og koma til með að standa sig vel í vetur.
    YNWA.

    13
  9. Þetta sigurmark er heldur betur að breiða yfir hversu hræðilega illa þetta lið er að spila þessa dagana. Ef það verða ekki keyptir menn á næstu klst þá mun það illilega koma í bakið á okkur og nú er Hendo líka meiddur.
    Ef þessi gluggi endar svona þá er ég kominn á #FSGout vagninn.
    En, sigur er sigur og þetta var dísætt og algerlega nauðsynlegt, en með svona áframhaldi verðum við í tómu basli.

    5
  10. Kræst! Hendó er meiddur – hamstring. Með þessu áframhaldi verður Klopp sjálfur að spila á miðjunni. Og var hún þó nógu öldruð og þreytt fyrir…

    7
  11. Gomes í hægri og trent á miðjuna? Það mætti alveg skoða.
    Carvalho að sjá um origi mörkin! Þrátt fyrir 2 stoðsendingar salah…. hvað er málið?
    Frábær sigur og nú getur darwin spilað aftur! Mjööög mikilvægt að ná þrem stigum. Megum eiginlega ekki tapa fleiri stigum þetta árið allavega…
    Haaland er 50 marka maður á tímabili, salah þarf að gefa í.

    5
  12. Sætur sigur en þetta á bara alls ekki að vera svona á okkar heimavelli gegn Newcastle sem er bara miðlungslið en blákaldur sannleikurní dag. Ég einfaldlega skil ekki af hverju er ekki verslað inn á miðjuna og þá alvöru 25 ára gæja eins og Ruben Neves? Þessi miðja okkar er alveg hræðileg með þreyttum eldri mönnum og of ungum mönnum. Það er vitað mál að við getum ekki unnið premier league þetta season í enn eitt skiptið. Þetta er orðið svo þreytt í alla staði að áhuginn að horfa á leikina fer dvínandi og held ég að ég sé ekkert einn um það. Hvernig í ósköpunum sjá stjórnendur í LPool ekki að við erum hryggbrotnir á miðjunni sem hægist enn meira á með þreyttum Henderson,Milner, endalaust meiddum Thoago og Keita aumingja, meiðslapésum sem eiga að heita lykilmenn en eru einfaldlega allt of mikið frá? Þetta er orðið svo vandræðanlegt og pirrandi að það nær engri átt. Elska okkar ástkæra félag en þetta tímabil mun enn og aftur verða vonbrigði því miður. Á meðan við höfðum tækifærið að þá styrkja hin liðin í kringum okkur svo mikið að við endum í sama gamla farinu enn og aftur án titilsins sem við viljum framar öllu. Sorry en þetta er orðið einum of mikið to doubters from believers ;(

    8
  13. Magnað að ná í 3 stig ! Aldrei að missa trúna móti svona liðum sem gera ekki annað en að tefja og tefja, án þess að vera spjaldaðir fyrir það, drasl dómarinn mariner er jafn ömurlegur og friend. Hvernig geta þeir enn verið að dæma ? örugglega orðnir 70 ára !

    Nú þurfum við bara tvo miðjumenn á morgun, slömmum bara Tielemans og þessum Douglas, þurfum breidd á miðjuna með Hendó líka meiddann 🙁 Við þurfum alvöru miðjumenn á móti everton, sem eiga eftir að tefja og tefja líka. Ekki höfum við Origi, en erum Carvalho !

    1
  14. Jaaaá, … jú … ég held bara að ég gæti látið mér líka meira en vel við þennan Carvalho. Hann virðist hafa virkilega næmt auga fyrir góðum tímasetningum.

    En VVD hann er bara orðin óþarflega mikið áhugalaus og hægur. Ég skal bara vera fyrstur til að segja það. Við þurfum orðið annan góðan varamann í hans stöðu, einhvern sem setur virkilega góða pressu á hann. Hann er bara orðinn veikur viðkvæmur hlekkur. Áhugaleysið leiðir til þess að hann verður með þessu áframhaldi ekki lengi óskoraður leiðtogi í vörninni. Ekki mun hann verða bakvörðunum okkar fyrirmynd og hvatning til dáða með þessum “performance”. Honum til happs til þessa er að Alisson sýnir ennþá stöðugleika.

    3
  15. Hljótum að fá miðjumann á loka mínútu í dag, trúi ekki öðru.

    1
  16. Geggjaður sigur í restina, var flott að sjá fyrsta markið líka, beint í gegnum miðjuna, á Salah, stoðsending og mark. Ekkert dútl aftast bara 3-4 sendingar og mark. Newcastle lagði mikið uppúr því að loka á kantana en í byrjun seinni hálfleiks spilaði Liverpool nokkrar svona direct sóknir í gegnum miðjuna með góðum árangri, þeas sleppa dútlinu aftast sem endar nánast alltaf annaðhvort með kross sendingu frá VVD á kantinn eða bakvörðum á kantinn.
    Newcastle spilaði ömurlega taktík sér í lagi í seinni hálfleik, töfðu fram í rauðan dauðann, en það var ekki það eina sem pirraði mig
    – Það virðist vera allsherjar leyfi hjá mótherjunum að teika Salah, ekki nóg með að hann sé tvídekkaður yfirleitt þá er nánast alltaf hægt að hægja á honum með peysutogi og almennum leiðindum. Það var fyrst á 72. mínútu sem dómarinn ákvað að dæma eitthvað á það, og það var líka í eina skiptið í öllum leiknum. Algjörlega óskiljanlegt, það skiptir engu máli hvort Salah geri eitthvað úr þessu eða ekki, það er bara ekki dæmt í 90% tilvika, óþolandi.
    – Það var aldrei gefið gult fyrir tafir, aftur algjörlega óskiljanlegt og óþolandi.
    – Eins góður og Diaz er þá fær hann miklu meira pláss en Salah nokkurn tímann og mann fannst hann stundum mega vera aðeins meira direct fyrir framan markið. Annars mjög góður leikur hjá honum.
    – Og svo að lokum, miðjan hefur verið mikið í umræðunni en vörnin verður að taka hluta af sökinni á sig á þessu tímabili, í gær áttu þeir markið frá a-ö og eru að leka mörkum í hverjum einasta leik, það er ekki alltaf hægt að kenna miðjunni um þó hún fái réttmæta gagnrýni.
    En þetta var frábær karakter og frábær sigur.

    4
  17. Arthur Melo er víst á leiðinni til Liverpool á láni samkvæmt slúðrinu
    Ekki alveg sá leikmaður sem ég óskaði mér en ég tek hverju sem er í þessu ástandi

    1
  18. ætlar enginn að segja orð um gríska bakvörðinn sem kæmist ekki í Þrótt Vogum, mikð andsk er hann lélegur, Klopp er í miklu uppáhaldi hjá mér, en þessar skiptingar Robbo út og gríski inn, skil ég bara ekki. Annars ótrúlegur endir, Gomez og Harvey bestir , Firmino magnaður

    • Robbo var algerlega sóknarheftur í þessum leik. Hann virðist ekki eiga neitt svar við því þegar lokað er á bakverðina upp í hornunum og sendi boltann endalaustr til baka á VvD eða miðjumann. Hann var afar dapur í þessum leik en grikkinn bætti svo sem ekki miklu við en átti þó tilraunir til að krossa nokkrum sinnum þegar leikmenn Newc. voru ornir yfir sig þreyttir.

      1

Liðið gegn Newcastle

Gluggavaktin