Þá er komið að því að kvennalið Liverpool hefji aftur keppni þar sem þær eiga heima, meðal þeirra bestu. Síðustu tvö ár hafa verið svolítið erfið hvað þetta varðar, en sem betur fer tóku stelpurnar okkar vel á því á síðasta tímabili og tja… jú þær bara rústuðu næstefstu deild.
En nú tekur alvaran við, og talsvert erfiðari andstæðingar sem bíða á komandi tímabili.
Hópurinn
Eins og gengur þá hafa orðið breytingar á hópnum. Í vor var tilkynnt að ekki yrði samið aftur við Jade Bailey, Rhianna Dean, Meikayla Moore og akademíuleikmanninn Evie Smith. Í sjálfu sér ekkert sem kemur þar á óvart, þó má segja að Rhianna Dean hafi verið afar óheppin því hún var sú sem var helst að skora mörk í upphafi móts í fyrra, en meiddist svo og þau meiðsli héldu henni á sjúkrabekknum það sem eftir lifði móts.
Hins vegar hafa allnokkrir leikmenn endurnýjað samninga sína við félagið. Þar fer fremst í flokki fyrirliðinn Niamh Fahey, en ásamt henni hafa Melissa Lawley, Ceri Holland, Megan Campbell, Missy Bo Kearns, Leighanne Robe, Rachael Laws og síðast en ekki síst markamaskínan Leanne Kiernan allar kvittað undir framlengingu á sínum samningum.
Sem betur fer koma nokkrir leikmenn í stað þeirra sem fóru:
-
Emma Koivisto
Emma er varnarmaður að upplagi, getur spilað í báðum bakvarðarstöðunum eða sem vængbakvörður. Hún er í finnska landsliðinu, og kemur frá Brighton. Hún skellti sér á treyju nr. 2.
-
Gilly Flaherty
Gilly er varnarmaður sem lék áður með West Ham þegar Beard var þar við stjórnvölinn. Hún fær skyrtunúmer 25.
-
Eartha Cumings
Þetta er mögulega áhugaverðasta viðbótin við leikmannahópinn. Matt Beard hefur verið duglegur að leita í smiðju leikmanna sem hann hefur þjálfað áður, en Eartha er undantekningin frá þeirri reglu. Hún er markvörður sem spilaði með Charlton í fyrra, og besti markvörðurinn í næstefstu deild á síðasta tímabili var klárlega Rachael Laws, en Eartha gaf henni lítið eftir. Charlton héldu hreinu í 15 klukkustundir samfleytt í öllum keppnum með hana í búrinu. Það verður áhugavert að sjá hversu mikið hún fær að spila, enda Laws væntanlega ennþá númer eitt, en hún fékk þó allnokkrar mínútur á undirbúningstímabilinu. Hún ber skyrtunúmerið 21.
-
Shanice van de Sanden
Þetta er leikmaður sem við könnumst vel við, enda var hún hjá Liverpool fyrir 4 árum, fór svo til Evrópu og lék þar bæði fyrir Lyon og Wolfsburg (en þó ekki á sama tíma!). Hún er einnig hollenskur landsliðsmaður, og verður númer 19 í vetur.
Í vor var tilkynnt að Charlotte Wardlaw myndi hverfa aftur til síns félags, en bara núna í dag var svo tilkynnt að hún myndi snúa aftur til Liverpool, aftur á láni í eitt tímabil. Klárlega jákvætt, enda var hún fyrirliði U21 liðs Englendinga í sumar, og þykir mikið efni. Best væri auðvitað ef hún kæmi til Liverpool endanlega, og það væri ekki þessi lánavitleysa í gangi.
Síðan eru það leikmennirnir sem fara annað á láni. Markvörðurinn Charlotte Clarke var fengin inn í ákveðinni neyð þegar Rylee Foster hálsbrotnaði í bílslysi, hún fékk ekkert allt of margar mínútur og með tilkomu nýs markvarðar var nokkuð ljóst að þeim mínútum var ekkert að fara að fjölga. Hún fer til WBA á lánsdíl. Þá fór Lucy Parry til Hibernian á láni eftir að hafa fengið nýjan samning hjá félaginu, greinilegt að mönnum þykir hún ekki tilbúin í stærstu slagsmálin en vilja samt ekki missa hana enda mikið efni og er jú yngsti aðalliðsleikmaður kvennaliðsins í sögunni. Og að lokum er það svo Ashley Hodson. Hér erum við að tala um leikjahæsta leikmann Liverpool frá upphafi, uppalin hjá félaginu, en hún hefur aldrei náð að festa sig í sessi sem kandídat í byrjunarliðið. Hún fer því til Birmingham á láni, sem er svona svipað og ef Carragher hefði verið lánaður árið 2010, nú eða ef Conor Coady hefði verið lánaður til Everton.
Undirbúningstímabilið
Liðið hefur leikið nokkra leiki á undirbúningstímabilinu. Nú vitum við að þetta blessaða undirbúningstímabil segir okkur voða lítið, en úrslitin hafa a.m.k. ekki kallað á neina svartsýni með tímabilið framundan. Verstu úrslitin voru 0-1 tap gegn United, en liðið gerði svo 1-1 jafntefli við City þar sem Emma Koivisto skoraði, vann lánlaust (og Dagnýjar laust) lið West Ham 5-0 þar sem Leanne Kiernan skoraði þrennu á 8 mínútum, liðið vann Aston Villa 1-0 með marki frá (wait for it) Leanne Kiernan, og unnu 3-1 sigur á Blackburn þar sem Yana Daniels skoraði tvisvar og Katie Stengel eitt. Jú og svo vannst fyrsti leikurinn gegn Forest 6-0, en það var líka algjör æfingaleikur, með þremur 30 mínútna köflum.
Semsagt, stelpurnar líta út fyrir að vera í góðu formi, en svo tekur alvaran við og þá fyrst kemur í ljós hvernig þær pluma sig.
Leikirnir framundan
Fyrsti leikurinn í deildinni verður núna á sunnudaginn, þegar stelpurnar okkar heimsækja Reading. Leikurinn hefst kl. 13 að íslenskum tíma, og við munum að sjálfsögðu gera þeim leik góð skil hér á síðunni. Helgina þar á eftir mæta svo Chelsea, meistarar síðasta tímabils, í heimsókn á Prenton Park, og þar verður um ákveðna eldskírn að ræða.
Það verður svo strax annar stórleikur helgina þar á eftir, því þá mæta stelpurnar okkar á Anfield og spila þar við Everton. Þær náðu einum leik á Anfield haustið 2019 sem tapaðist 0-1 með einstaklega klaufalegu marki, núna kemur ekkert annað en sigur til greina. Miðar á þann leik hafa nú verið í sölu síðan um miðjan ágúst, og það verður gaman að sjá hvort uppgangur kvennaknattspyrnunnar í sumar verði til þess að það mæti fleiri á þennan leik heldur en mættu á leikinn 2019, en þá mættu í kringum 23.000 manns á Anfield að horfa á stelpurnar okkar.
Ætla einhverjir að skella sér á Anfield?
Held það hafi verið full ástæða að færa þessa leikskýrslu dauðans aðeins neðar á síðuna…
Já Daníel, held ég halli mér meira að stúlkunum okkar í Liverpool núna þegar karlaliðið er að gera upp á bak.
Ég myndi svosem ekki reikna með að stelpurnar okkar skelli sér strax í baráttuna um 1. eða annað sætið. Persónulega yrði ég bara nokkuð sáttur ef þær verða um miðja deild á þessari leiktíð. Vill til að það eru ekki það mörg lið í deildinni, og 6. sætið er þar með um miðja deild…
Persónulega væri ég til eins og eitt Gullkast núna. Það mega alveg vera stelpur í því.
Í sumar gaf Pep Lijnders, aðstoðarþjálfari hjá Liverpool, út bók sem skyggnist á bak við tjöldin hjá aðalliðinu. Þar er farið yfir aðferðir Jurgen Klopp og fleira.
ER ÞETTA BARA Í LAGI Þ.E. AÐ GEFA ÚT HVERNIG KLOPP OG CO VINNA SÝNA VINNU. HVAÐ ER Í GANGI ÞARNA HJÁ LFC
Örugglega bara gott að sé búið að fresta leikjum í ensku næstu 2 vikur.
Okkar menn geta æft sig á meðan : )