Liverpool – West Ham 1-0

1-0 Nunez, 21 min

Klopp gerði 5 breytingar frá því í sigurleiknum gegn City s.l. sunnudag. Inn komu Tsimikas, TAA, Henderson Carvalho og Nunez í stað Robertson, Milner, Fabinho, Elliot og Jota.

Leikurinn fór nokkuð rólega af stað, okkar menn sterkari án þess að skapa sér nein sérstök færi. Það var svo eftir korters leik sem að Nunez fékk langa sendingu yfir vörn gestanna og átti frábært skot með vinstri sem Fabianski varði vel í horn.

Rétt rúmum 5 mínútum síðar kom fyrsta mark leiksins. Thiago sendi boltann út á vinstri kanntinn þar sem að Tsimikas átti frábæra fyrirgjöf á Nunez, sem kom á ferðinni á milli tveggja varnarmanna West Ham og skallaði niður í jörðina og upp í hornið hægra megin – frábær afgreiðsla og fyrsta mark hans fyrir Liverpool á Anfield staðreynd.

Liverpool var með öll tök á leiknum eftir þetta og áttu m.a. frábæra sókn á 35 minútu. Boltinn barst að lokum út hægra megin í vítateig West Ham á TAA sem sendi á Salah í miðjum vítateig gestanna en skot hans fór rétt framhjá. Fjórum mínútum síðar átti Thiago geggjaða sendingu á Firmino sem Zouma skallaði frá, Nunez kom á ferðinni, tók boltann með kassanum og átti frábært skot sem small í stönginni, Fabinaski átti aldrei séns ef þetta hefði verið á rammann og Darwin Nunez óheppinn að vera ekki kominn með amk tvö mörk.

Aðeins mínútu síðar átti West Ham fína sókn, boltinn barst á Bowen en Gomez kom á ferðinni og fór beint í bakið á þeim fyrr nefnda – ekkert var dæmt fyrst en eftir VAR hljóp Attwell að skjánum góða og dæmdi vítaspyrnu (réttilega að mínu mati). Upp steig Bowen sjálfur en Alisson gerði sér lítið fyrir og varði frábærlega!

1-0 í hálfleik, hefðum líklega átt að vera a.m.k. 2 mörkum yfir á þessum tímapunkti.

Síðari hálfleikur

Síðari hálfleikur byrjaði svipað og síðustu 5 mínútur þess fyrri. Við í brasi, með slakar sendingar og aðeins á hælunum og West Ham að komast meira og meira inn í leikinn (voru meira með boltann fyrsta korterið í þeim síðari)

Klopp beið ekki lengi, gerði þrefalda skiptingu strax á 56 mínútu þegar að Fabinho, Jones og Elliot komu inn í stað Thiago, Carvalho og Nunez. Skil betur Thiago (spilaði gegn City en á móti var hann búinn að vera frábær og leiknum langt frá því að vera lokið) og Carvalho (hefur átt betri leiki) en fannst skrítið að Darwin Nunez færi útaf þar sem hann var bæði búinn að vera sprækur og byrjaði ekki leikinn gegn City.

Bobby var næstum búinn að tvöfalda forystuna á 62 mínútu þegar vel útfærð skyndisókn endaði með því að Henderson sendi boltann út í miðjan vítateig en skot Firmino fór í varnarmann og hárfínt framhjá. Úr horninu kom svo annað færi þegar Bobby nokkur Firmino átti skalla úr markteig en beint á Fabianski.

Á 74 mínútu kom annað færi, fyrst var það Bobby þegar boltinn endaði inn á markteig eftir einhvern barning en skot hans var varið. Frákastið barst til Jones út í miðjum vítateig en skot hans fór í varnarmann og í horn. Merkilegt hvað við þurfum mörg færi til þess að skora!

Þremur mínútum síðar kom önnur fín sókn. Salah sendi á Henderson við vítateigshornið hægra megin, fyrirgjöf fyrirliðans var hættuleg en Zouma náði að koma tánum í boltann sem skoppaði svo í slánna og afturfyrir. Hársbreidd frá því að skora sjálfsmark á Kop endann.

West Ham komst í hættulega sókn á 79 mínútu þegar að skyndisókn þeirra kom þeim í álitlega stöðu, 3á3, en slök ákvörðun Scamacca og enn slakara skot kom í veg fyrir að þeir skyldu jafna metin. Mínútu síðar gerði Klopp sínar síðustu breytingar, inn komu Robertson og Milner í stað Tsimikas og Firmino. Á þessum tímapunkti var komið ansi mikið kliður á Anfield og ekki laust við að maður væri orðinn skíthræddur við jöfnunarmarkið.

Á 85 minútu fengu gestirnir sitt langbesta færi. Boltinn barst upp kanntinn vinstra megin, Benrahma fór framhjá TAA eins og að drekka vatn, sendi boltann út í vítateig þar sem að Bowen dansaði í vítateignum, sendi svo fyrir markið þar sem Soucek kom í skotið nánast á markteig en Milner náði að setja tánna í boltann áður en Alisson varði frábærlega með fótunum í horn af örstuttu færi!

Liverpool landaði að lokum sigrinum í leik sem hefði átt að klárast mikið fyrr og aldrei verða eins jafn og raunin varð í síðari hálfleik. Dýrmæt þrjú stig!

Bestu menn Liverpool

Tsimikas og VVD áttu góðan dag í vörninni á meðan að mér fannst TAA vera frekar tæpur og Gomez í raun lélegur í síðari hálfleik. Á miðjunni var Thiago okkar besti maður, áður en hann fór útaf og Darwin Nunez var virkilega sprækur þær 58 mínútur sem hann spilaði. Maður leiksins er samt klárlega Alisson nokkur Becker. Varði ekki bara vítaspyrnu í lok fyrri hálfleiks heldur átti hann líka stórbrotna markvörslu undir lok leiksins og tryggði okkur þrjú stig í kvöld.

Umræðan

  • 5. Eingöngu KDB (11) er kominn með fleiri stoðsendingar en Tsimikas (5) þetta tímabilið (í Úrvalsdeildinni). Verður að teljast ansi gott m.t.t. að hann hefur ekki spilað alla leikina.
  • 7. Liverpool er komið upp í sjöunda sæti eftir sigur kvöldsins, fjórum stigum á eftir Chelsea í fjórða sætinu. Næstu tveir leikir í deildinni eru N. Forest og Leeds á Anfield áður en við heimsækjum Spurs. Það má ekkert klikka ef við ætlum að ná topp fjórum þetta tímabilið.

Næstu verkefni

Nýliðar Nottingham Forest mæta á Anfield laugardaginn 22. október n.k.áður en við förum í stutta heimsókn til Hollands og sækjum Ajax heim þremur dögum áður en við tökum svo á móti Leeds í þriðja heimaleiknum í deildinni í röð á innan við tveimur vikum! Allt eru þetta úrslitaleikir, það er bara þannig. Við ættum nú að vera orðnir ansi vanir þeim eftir síðustu ár.

Þar til næst

YNWA

26 Comments

  1. Djöfull var þetta sloppy og lélegt. Erum bara gjörsamlega búnir á því. Líka þeir sem spila minna?

    Góður sigur engu að síður.

    10
  2. Eina sem skipti máli voru þessi 3 stig.
    Nunez heldur áfram að skora virkilega jákvætt.

    YNWA

    9
  3. Við höfum alveg gert jafntefli og tapað gegn þessu liði í gegnum tíðina,jafnvel þegar vel gekk…..góður sigur og 3 stig í höfn.

    7
  4. Virkilega góður sigur erum með laskað lið og meigum ekki við að missa fleiri í meiðsli og þurfum að fara varlega og dreifa álaginu er mjög sáttur með 3 stig þó mér hefði liðið betur með annað mark áður en þrefalda skiptingin var gerð í seinni.

    5
  5. Lang bestur í leiknum Alison Becker ver víti og heldur markinu hreinu þvílíkur maður.

    YNWA

    13
  6. Markmið 3 stig og 3 stig náðust.

    Vorum miklu betri en West Ham í fyrri hálfleik og áttum að vera búnir að ná í stærri forskot fyrir síðari. Gáfum þeim samt víti en Alisson sá til þess að við vorum en þá yfir. Dæmi gert samt fyrir Liverpool að West Ham komst varla yfir miðju fyrstu 45 mín en fengu víti.

    Síðari hálfleikur fór ágætlega af stað og við með fín tök en smátt og smátt kom smá stress í okkar menn og West Ham menn fóru að færa sig framar en þökk sé Milner/Alisson náðu þeir ekki að jafna í blálokinn.

    Bestu menn Liverpool voru að mínu mati Alisson og Nunez. Nunez skoraði flott mark, var sífelt ógnandi og var óheppinn að skora ekki annað. Fannst pínu sérstakt að taka hann af velli eftir flottan leik og hafa byrjað á bekknum gegn Man City.
    Það sem Klopp var samt að hugsa með þessari þreföldu skiptingu á 57 mín að fá ferskar fætur í Elliott/Jones til að hjálpa Trent/Tismikas en þá betur á könntunum og svo Fab til að loka miðsvæðinu með Hendo en Fab leit skelfilega út fyrstu 10 mín sem hann var inn á.
    Svo var komið að Andy og Milner til að hjálpa en þá meir að loka þessu og fórum við í 4-5-1 sem þýðir að við leyfðum þeim að fá aðeins meira pláss á sínum vallarhelming en náðum að loka miðsvæðinu betur.

    Þegar þétt er spilað þá snýst þetta um þessi 3 stig og er maður sáttur að þau duttu í hús.

    YNWA

    13
    • Það er nefnilega akkurat það að þetta snýst um þrjú stig og ekkert annað eins og þú segir það mann enginn eftir þessum leik í vor þegar við teljum stigin sem við fáum í vetur.

      5
  7. Sælir félagar

    Frammistaðan í fyrri hálfleik allt í lagi en seinni hálfleikur var ömurlegur. Skiptingar Klopp einkennilegar í bezta falli og mér óskiljanlegar. Eini sóknarmaðurinn sem var á lífi tekinn útaf og miðjumennienir sem eitthvað gerðu og gátu teknir útaf??? En hvað veit ég sosum? Aðalatriðið eru þau 3 stig sem í boði voru og þau voru hirt en það var enginn stórmeistarabragur á afar slökum leik Liverpool og þó sérstaklega í seinni hálfleik.

    Það er nú þannig

    YNWA

    5
  8. Seiglusigur. Liðið er þunnskipað og margir leikir fram undan og maður hafði það á tilfinningunni að dagsskipunin í seinni hálfleik væri að verja forystuna eftir fantafínan fyrri hálfleik. Það tókst og 3 stig í hús. Það er það eina sem maður biður um þessa dagana og að fleiri bætist ekki á meiðslalistann. Fallegri og ákafari spilamennska kemur þegar meiðslalistinn styttist.

    5
  9. Engin flugeldasýning en samt 3 stig og það er allt sem skiptir máli. Við þurfum að fara að nýta færin betur. Þurfum að spila betur í næsta leik. Alisson bestur, og þessi víta dómur , guð minn gôður:-(

    2
  10. Geggjað að vera komnir á sigurbrautina á nýjan leik. Þrjú stig og málið dautt! Næsta verkefni!

    4
  11. Hvað er toppliðið Arsenal búið að hala inn mörgun eins marks sigrum í vetur? Ætli þeir séu að svekkja sig yfir þeim sigrum?

    Það þarf ekki alltaf að vera flugeldasýning. Að halda markinu hreinu tvo leiki í röð gefur liðinu öllu meira sjálfstraust í komandi leiki enda erum við alltaf að fara skora amk eitt mark í leik.

    Vissulega áttu ekki allir stjörnuleik og Klopp var knúinn til að rótera hópnum þar sem leikjaálagið er mikið. Engu að síður skilaði liðið því sem öllu máli skiptir þ.e. 3 stig og sjálfstraustið vex.

    10
  12. Það er séns að við getum verið að keppa um titilinn. Það eru 28 leikir eftir. Ekkert má fara úrskeiðis og heldur óraunhæft.

    En á móti kemur að til að ná þeim ca. 70 stigum til að komast í UCL sæti þá þarf í sjálfu sér bara pínulítið að bæta í og nóg að vera með um 2 stig að meðaltali í leik. Sýnir vel hvað síðustu ár og stiga söfnun City hefur verið út úr korti.

    RESULTS OF REMAINING GAMES
    W D L Points. Per game Average
    Winners 23 4 1 89 2.60
    UCL (4th) 15 9 4 70 1.93

    3
  13. Sæl og blessuð.

    Toppmál. Ekki sjálfgefið að sýna stjörnuframmistöðu eftir að allir katlar voru á fullum afköstum gegn mc. Geggjað að núnesinn sé að tikka í gang. Hrikalega væri nú gaman ef hann blómstraði í vetur og yrði x-faktorinn sem gefur okkur fleiri dollur.

    Veisla framundan en svo dettur allt í dúnalogn.

  14. Fáum við að sjá þrefalda skiptingu á laugardag gegn Forest. Þetta lukkaðist vel gegn City. Ekki spurning. Mikið var það skemmtilegur leikur. En hvort það lukkaðist gegn West Ham er önnur spurning, þrátt fyrr sigurinn.
    Mér finnst eins og þannig skiptingar séu oft vænlegri þegar þarf að sækja mark frekar en að verjast. Segi bara eins og Sigkarl, en hvað veit ég sosum?

    En frábær sigur í gær. Lífsnauðsynleg stig.

    2
    • Klopp útskýrði þetta nú eftir leik, Nunez var tæpur og of dýrt að taka séns með hann. Svipað með Thiago og guð minn góður hvað við þurfum að fara varlega með hann.
      Carvalho fyrir Elliott var líklega alltaf planið

      7
      • Já þetta á auðvitað allt rétt á sér. En það er samt sem áður nýtt að gera þrefalda skiptingu og ég er að velta fyrir hvort þetta sé eitthvað sem Klopp mun stunda. Skipta þremur út þegar hálftími er eftir. Klopp var spenntur fyrir fimm skiptingum og kannski er þetta hugmyndin. Ein af þeim.

        2
  15. Flottur sigur og margt jákvætt í leik okkar manna. Höldum hreinu annan leikinn í röð. AB með enn eina klassa frammistöðuna. VVD og Gomez að ná vel saman í miðri vörninni. Thiago flottur á miðjunni þó að það taki á taugarnar hvað hann er gjarn á að henda sér í rennitæklingar sem eru oft á tíðum ansi tæpar. Hörkuvinnsla í Darwin Nunez og gott mark hjá honum. Maður sér það samt í hverjum leik sem hann spilar hversu hrár hann er, en hann stefnir í rétta átt undir handleiðslu Klopp og co. Flott að geta róterað liðinu þrátt fyrir meiðsli. Svona seiglusigrar eru alltaf sterkir og gefa mönnum meiri trú. Ekki sammála því að menn hafi verið búnir á því í lok leiks, þetta West Ham lið er einfaldlega þrælöflugt.

    3
  16. Fara á eftir Declan Rice strax í janúar ekkert kjaftæði. Virkilega öflugur leikmaður 23 ára gamall.

    6
  17. Veit einhver hvort Van Dijk fái bann fyrir að eyðileggja vítapunkt á Anfield í aðdraganda vítisins sem Alisson varði?
    Annars góður sigur og allir léttir.
    YNWA

    3
    • Hann steig á vítapunktinn, eyðilagði hann ekki. Já og ef hann fékk ekki refsingu fyrir á meðan leik stóð væri gjörsamlega galið að taka það upp eftir leik (er einhver að tala um það?).

      Þannig að já, líklega er hann á leið í þriggja leikja bann.

      1
  18. Smá leiðrétting a leikskýrslunni í sambandi við næstu leiki. Við eigum útileik við Nottingham Forrest á laugardaginn, ekki heimaleik. Gæti orðið einhver hasar, vonandi sleppa allir heilir þaðan.

    4

Liðið gegn West Ham

Gerrard rekinn frá Villa