Upphitun: Nottingham Forest á City Ground

Eftir áratuga skógargöngu þá eru Nottingham Forest loks komnir til byggða og munu mæta Rauða hernum á City Ground í deildarleik í fyrsta sinn í 23 ár. Sá útivöllur hefur ekki reynst mikil matarhola fyrir okkar máttugu menn þannig að við þurfum að vonast eftir áframhaldandi vinningsvelgengni um hádegisleytið á laugardagsmorgni. Hitum því upp!!

Mótherjinn

Liverpool hefur ekki unnið deildarleik á City Ground síðan ég var 7 ára (28. október 1984) þó að vissulega fengum við smá upphitun með FA Cup sigrinum síðasta vor er við unnum heimamenn 1-0 með síðbúnu marki hins núverandi meidda Diogo Jota. Staðreyndin er að í stuttan tíma í fótboltasögunni að þá var Nottingham Forest stórveldi í heimsknattspyrnunni sem gat tvisvar sinnum státað af því að vera besta lið Evrópu og þótt víðar væri leitað.

Sú ótrúlega upprisa hringsnýst auðvitað um einn öflugasta og einharðasta enska knattspyrnustjóra sem fótboltinn hefur upplifað þegar að Brian Clough tekur við liðinu í janúar 1977 stuttu eftir viðburðaríkan 44 daga stjórnartaum hjá Leeds United. Clough stýrði Nottingham í 18 ávaxtasöm ár en hápunktinum var náð á árunum 1977-1979 þegar að liðið undir hans stjórn hampaði einum enskum meistaratitli, tveimur Evrópumeistaratitlum, einum Super Cup og tveimur deildarbikartitlum. Þetta var á tíma þegar að Liverpool var í sínum hæstu hæðum og í raun var enski fótboltinn sá langbesti í allri Evrópu með 6 Evrópumeistaratitla í röð frá 1977-1982 og Liverpool splæsti í einn til viðbótar 1984 áður en Heysel-bannið dæmdi ensk lið í útlegð til 1990.

Brian Clough var að ósekju fótboltastjórasnillingur sem náði að gera sitt lið að miklu meira sigursælli liðseiningu heldur en hefði átt að vera hægt. Forest-liðið á þessum tíma var alls ekki fullt af leiftrandi fótboltasnillingum heldur massíf liðsheild með trausta leikmenn eins og Trevor Francis, Viv Anderson og landsliðsmarkvörðinn Peter Shilton. Enda unnu þeir báða úrslitaleikina um Evrópu 1-0 með grjótharðri varnarvinnu og unnu m.a. Kevin Keegan og félaga í Hamburger Sport-Verein árið 1980.

Liverpool voru upp á sitt besta á þessum tíma og Nottingham Forest undir Clough veittu okkur áhugaverða og öfluga mótspyrnu án þess þó að verða einhverjir erkifjendur enda ekki nógu nálægt okkur á landakortinu. Eftir hápunktana þá náðu Forest aldrei sömu hæðum aftur þrátt fyrir að vera mjög öflugt lið fram eftir 8. áratugnum. Einn af frægari leikjum Liverpool með heimsklassa frammistöðu var einmitt þegar að Barnes, Beardsley, Aldridge & co. rústuðu Forest á Anfield vorið 1988 til þess að fara langt með gulltryggingu á titlinum það árið. Hvet alla púlara til að renna augunum yfir myndbandið af hálftíma hápunktum þess leiks:

Liverpool hefur keypt tvo af bestu mönnum Nottingham Forest í gegnum tíðina þegar við keyptum Nigel Clough (son Brian) og Stan Collymore fyrir stórfé á hvorn leikmann en báðir ollu miklum vonbrigðum í frammistöðu og sérstaklega miðað við verðmiða. Almennar tilfinningar til Forest eru heilt yfir jákvæðar nema hvað að Brian Clough tók upp á því í endurminningum sínum frá 2006 að gefa skít í þolendur í Hillsborough-slysinu með því að kasta ábyrgð á þá sem létust. Fyrir þau lélegheit erum við Púlarar aldrei sáttir við helstu goðsögn Nottingham Forest og sér í lagi þar sem Brian Clough var stjóramótherji Liverpool þennan sorglega dag þann 15. apríl 1989 og ætti að vita mikið betur.

En núna er nútíminn og hann er trunta. Forest eru nýliðar í úrvalsdeildinni og hafa keypt sér splunkunýjan 22 leikmannahóp í sumar. Þar virðast þeir ekki hafa lært af fyrri tilraunum QPR og Fulham sem splæstu í miklar mannabreytingar við upphefðina af því að komast upp um deild. Þar vanmátu þeir það sem heitir liðsandi eða liðseiningu og það að lið nái að spila sig saman. Innkaup sem þessi kunna að skila fínum árangri í CM eða FM en í raunveruleikanum eru slíkar innkaupaferðir ekki til þess fallnar að ná árangri á fótboltavellinum.

Engu að síður eru margir sem Forest keyptu í sumar alveg ágætir fótboltamenn og með ágætis ferilskrá. Fæstir þeirra hafa þó náð að sína sitt rétta andlit enn sem komið er og er Jesse Lingard er plakatspiltur fyrir það með sinn eins árs ofursamning og lélegt skorkort. Það er engin leið að spá um uppstillingu Forest þar sem þeir hafa keypt svo marga leikmenn þannig að ég læt það vera að þessu sinni.

Liverpool

Okkar menn eru loksins komnir á smá ról eftir erfiða byrjun á tímabilinu. Eftir magnaðan 1-0 sigur á Man City að þá fylgdum við því eftir með sömu markatölu gegn West Ham en þó á ögn minna sannfærandi máta. Við fylgjum þessari ágætu sigurhrinu vonandi eftir með flottri frammistöðu gegn fallkandídötum Forest sem hafa einungis 6 stig eftir 11 deildarleiki.

Við ættum klárlega að hafa nægan skotkraft til þess að skora nógu mörg mörk til að vinna leik gegn heimaliðinu þrátt fyrir að þeim hafi tekist að halda hreinu marki í síðasta leik. Við eigum reyndar erfiðan leik í meistaradeildinni beint á eftir gegn Ajax sem mun ráða úrslitum í riðlinum. En við höfum ekki efni á neinu kæruleysi á City Ground þannig að það er eins gott að við höldum áfram að girða brókina almennilega til að bjarga tímabilinu.

Auðvitað eru meiðsli að vanda en það virðist sem nokkrir séu að koma inn af sjúkraborðinu þannig að kannski ná þeir að ljá okkur liðstyrk og létta undir með hinum heilbrigðari. Allar líkur eru á að Klopp okkar sé í hliðarlínubanni eftir að segja sannleikann í of mörgum desíbelum við sjóndapran aðstoðardómara gegn Man City.

Það er orðið ögn erfiðara að spá fyrir um uppstillinguna eftir að Klopp fór að leika sér með 4-4-2, eða 4-2-2-2, og stundum 4-2-3-1, en spáum þessu svona:

Kloppvarpið

Okkar maður:

Tölfræðin

  • Nottingham Forest hafa ekki unnið síðustu 9 deildarleiki í EPL.
  • Liðin hafa spilað 117 gegn hvort öðru með 58 LFC-sigrum og 30 töpum.
  • LFC hafa þó tapað 21 leik á heimavelli Nottingham með 18 sigrum okkar manna.

Upphitunarlagið

Nottingham-skíri er ekkert að flæða með tónlistarsnillinga eða hljómsveitir sem hafa gert garðinn góðan. En þeir geta þó státað af bandinu Stereo MC’s sem mætti þýða sem víðóma miðjurómandi miðvallarspilara en ég tók að mér að íslenska augljósa meiningu:

Upp vinstri kant, til hægri vængs,
Stígið upp, stígið upp, it‘s Gegenpress
Upp vinstri kant, til hægri vængs,
Tékkið nýja leikmanninn, it‘s Gegenpress

Þögn er engum þægðin
Því VAR er þvílíkt þvaður
Klopp heldur ekki kjafti
Sér sannleikann í sýn

——–

To the left to the right
Step it up, step it up it’s alright
To the left and to the right
Check the new ride out it’s alright

Silence ain’t in season‘Cause there ain’t no good in griefCan’t stop my mouth from breathin’Or seein’ what I see

Spaks manns spádómur

Okkar menn bara hreinlega verða að vinna þennan leik. Þetta er alger skyldusigur, þó að það sé á útivelli. Nottingham Forest eru í bölvuðu basli með sína Úrvalsdeildar-tilveru sem gerir þá reyndar að hættulegum mótherja í leik sem þessum. Við höfum líka verið lélegir í leikjum sem þessum en vonandi erum við komnir nógu mikið í gang til þess að klára leik sem þennan.

Mín spá fyrir þennan leik er að okkar menn setji í góðan gír og skori slatta af mörkum í öruggum sigri. Ég segi að Salah skori 2 mörk og Harvey Elliot setji eitt í 0-3 útisigri okkar manna.

YNWA

Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan og á Facebook.

6 Comments

  1. Frábærar fréttir. Klopp sleppur fyrir horn og verður ekki kærður fyrir útlendingahatur vegna ummæla fyrir leikinn gegn City.
    .
    Nottingham Forest eru eitt allra lélegasta lið deildarinn og krafan er sú að vinna sannfærandi.

    3
    • ertu með einhverjar fréttir af mögulegu leikbanni sem VVD gæti fengið fyrir að traðka á punktinum?

      Hvað með hitt bannið sem Klopp átti að fá?

      Verða aðdáendurnir sem köstuðu peningum í Guardiola í banni í þessum leik?

      Hvað með Henderson raismann gegn Arsenal. Fer hann í bann?

      Skilst að það sé eitthvað verið að skoða atvikið þegar Milner spilaði boltanum út í horn gegn West Ham. Samt verður það liklega ekki nema einn leikur í bann fyrir að éta klukkuna.

      1
      • Vá, af hverju ert þú á þessu spjalli, virkar eins og bitur City maður.

        5
      • Heldur betur. Fullt af fréttum af öllum þessum spurningum:

        Liverpool hefur unnið 19 Englandsmeistaratitla og 6 Evrópumeistaratitla ásamt öðru.

        Allt án þess að vera keyptir af sugar-daddy sport-washing olíuveldi sem svindlar á öllum reglum.
        Svarar það spurningunum?

        6
      • Þeir örfáu City-menn sem þvælast hér um hafa engan þráð til að fara inn hér á landi og því er ekki að undra að þeir vilji ljá sína rödd einhversstaðar….ómurinn er er hávær í byrjun en þagnar fljótt í tóminu.

        5
  2. Sæl og blessuð.

    Þvílíkur snilldarpistill sem mætir manni hér í morgunsárið.

    Jæja – ,,skyldusigur”. Úff, orðið hljómar ekki vel í mínum eyrum satt að segja.

    Á von á hverju sem er nú á eftir.

    1

Gerrard rekinn frá Villa

Liðið gegn Forest