Það er leikur á morgun. Við erum öll frekar dauf í dálkinn svo vægt sé til orða tekið, svona getur frammistaða eins fótboltaliðs frá Englandi haft gríðarleg sálræn áhrif.
Þessi leikur á morgun er síðasti leikurinn í riðlakeppni Meistaradeildarinnar, andstæðingarnir eru Napoli og það er leikið á Anfield. Úrslit leiksins breyta engu um það að Liverpool fer í 16 liða útsláttarkeppnina eftir áramót, og því skipta úrslitin á morgun nánast engu.
Og þó.
Því það er vissulega þannig að liðin sem lenda í efsta sæti riðlanna geta dregist gegn liðunum í 2. sæti. Jafnframt vitum við að lið frá sama landi geta ekki dregist á móti hvort öðru í 16 liða úrslitum. Og þetta vitum við um riðlana:
A riðill: Napoli og Liverpool fara áfram
B riðill: Club Brugge og FC Porto fara áfram, ekki 100% ljóst hvort liðið endar í fyrsta sæti, en Brugge er þar í dag
C riðill: Bayern vinnur, Inter endar í 2. sæti (og Barcelona kemst ekki áfram)
D riðill: Öll lið geta komist áfram, en í augnablikinu eru Spurs og Sporting efst.
E riðill: Chelsea er nánast öruggt með sigur, Milan og Salzburg slást um annað sætið í leik á morgun.
F riðill: Væntanlega vinnur Real, og RB Leipzig er í dag í 2. sæti en Shaktar Donetsk gæti stolið því með sigri í innbyrðis viðureign þeirra liða
G riðill: City og Dortmund fara upp, lang líklegast að City vinni og Dortmund í 2. sæti
H riðill: PSG og Benfica eru með jafn mörg stig fyrir sína leiki á miðvikudaginn.
Semsagt: ef Liverpool verður fyrir ofan Napoli í riðlinum, og við horfum á stöðuna í hinum riðlunum eins og hún er í dag:
Porto, Inter, Sporting, Milan, Leipzig, Dortmund, Benfica
en ef Liverpool lendir í 2. sæti, þá eru þetta kandídatarnir:
Brugge, Bayern, Spurs, Chelsea, Real, City og PSG
Af þessum gæti Liverpool aldrei mætt Spurs, Chelsea og City. Þá standa eftir Bayern, Real, PSG og Club Brugge. Ég veit ekki með ykkur, en þarna eru 3 af 4 liðum sem eru frekar óárennileg, sérstaklega strax í 16 liða úrslitum.
Svo það er til nokkurs að vinna að hirða toppsætið af Napoli. En til þess þarf Liverpool ekki bara að vinna á morgun, heldur að vinna 3-0 eða stærra. Það er a.m.k. þannig sem ég skil reglurnar sem ákvarða hvort liðið kemst áfram ef þau enda jöfn að stigum, og í því tilfelli væri væntanlega farið niður listann og staðnæmst við lið 4 í þessum lista. Útivallamarkið í Napoli gæti því skipt máli þegar upp er staðið. Nú svo er auðvitað sá möguleiki fyrir hendi að Napoli skori á Anfield, og þá þarf Liverpool að vinna með fjögurra marka mun.
Mér finnst endilega eins og það hafi einhverntímann gerst áður… kem því bara ekki fyrir mig…
En semsagt, mér segir svo hugur að Jürgen Norbert Klopp mæti ekki með byrjunarlið með Stefan Bajcetic, Bobby Clark og Oakley Cannonier á skýrslunni. Þ.e. að hann vilji tækla þennan leik af alvöru og gera atlögu að efsta sætinu. Því eins og ætti vonandi að sjást, þá gæti það skipt máli upp á möguleika liðsins í 16 liða úrslitum. Ekki það, að lið sem ætlar sér að vinna Meistaradeildina þarf að vera undir það búið að vinna hvaða lið sem er á hvaða stigi keppninnar sem er. En ef það er hægt að fækka stóru andstæðingunum um einn…
Á hitt ber svo að líta að á síðustu vikum hefur Liverpool einmitt gengið best á móti stærri liðunum (City, Ajax), en örlítið (*hóst*) verr gegn “minni” liðum eins og Leeds og Forest. Svo kannski er einmitt málið að tækla bara stóru liðin strax. Það virðist vera þá sem hópurinn nær að gíra sig upp.
Andlega ástandið
Þetta með að gíra sig upp gegn stóru liðunum – eða kannski öllu heldur þetta með að gíra sig EKKI upp gegn minni liðunum, eins og téð Forest, Leeds, Fulham og Arsenal (sorrýmemmig Nalla aðdáendur, ég bara varð), er það kannski eitt af stóru vandamálunum sem Klopp er að glíma við? Undirritaður gæti alveg trúað að það sé partur af vandamálinu. En það eru örugglega fleiri atriði, sum sem hafa verið nefnd hér áður í pistlum og kommentum á síðunni:
- Aldur leikmannahópsins
Fyrir ekkert svo löngu síðan var Liverpool vel fyrir ofan miðju varðandi meðalaldur leikmannahópsins. Í dag er dæmigert byrjunarlið með því elsta í deildinni. - Eftirköst eftir að hafa tapað tveim titlum í vor
Gleymum því ekki hversu mjög það hlýtur að taka á leikmenn að vera svona nálægt því að vinna bæði deild og Meistaradeild, en ná hvorugu eftir alla þessa leiki. FA bikarinn og deildarbikarinn voru vissulega sárabót, en samt svekkelsi. Og þetta voru ekki fyrstu skiptin sem þetta lið missti af þessum titlum á síðustu árum. - Meiðsli
Gleymum því ekki að lykilmenn hafa misst mikið úr vegna meiðsla, og reyndar er sú tölfræði á pari við martraðartímabilið 2020-2021. Já þetta er svo slæmt. Auðvitað hefur það áhrif, þó ekki nema á hversu mikið er hægt að rótera milli leika. - Liðið hleypur minna
Í leiknum á laugardaginn hlupu leikmenn Leeds 11 km meira heldur en okkar menn. Þetta er sirka það sem einn öflugur miðjumaður hleypur í einum leik. Já, þeir voru effektívt að spila manni fleiri. Það að liðið hlaupi minna gæti auðvitað verið bein afleiðing af þessu varðandi meiðslin, því þeir leikmenn sem eftir standa verða þá að spila meira og hafa þá líklegast ekki orku í að hlaupa jafn mikið fyrir vikið, nú svo er það líka ljóst að eftir því sem menn verða eldri munu þeir að jafnaði hlaupa minna (fyrir utan Milner auðvitað, hann er undantekningin sem sannar regluna), og svo gæti þetta með að hafa tapað titlunum í vor einfaldlega verið komið á sálina hjá leikmönnum. Til hvers að hlaupa eins og vitleysingur ef þetta tapast allt á síðustu metrunum? - Lykilmenn að bregðast
Það er óhætt að segja að menn eins og Fabinho, Virgil, Trent og Salah hafa alveg átt betri leiktíðir. - “Regression to the mean”
Við sjáum þetta reyndar oft á tíðum. Lið spila yfir getu eitt tímabilið, en undir getu það næsta. Þetta jafnast út þegar árangurinn er skoðaður til lengri tíma, en þetta þýðir að við getum fengið tímabil eins og það síðasta þar sem liðið var í reynd ekki alltaf að eiga neitt frábæra leiki, en náði samt í úrslit í öllum keppnum og vann 2 af 4 bikurum sem í boði voru. Mögulega var liðið að spila aðeins yfir getu, en er svo klárlega að spila undir getu í haust.
En gleymum því ekki að þessir leikmenn kunna enn að spila fótbolta. Þeir sýndu það alveg gegn City svo dæmi sé tekið, og hafa sýnt það í öðrum leikjum í haust.
Skoðum líka eitt annað. Þessi tölfræði er frekar sláandi, en hún sýnir í hvaða leikjum Liverpool hefur lent 1-0 undir síðan í maí í vor á fyrstu 20 mínútunum, og hvenær leiks það gerðist:
- Villareal á 3. mínútu
- Aston Villa á 3. mínútu
- Southampton á 13. mínútu
- Wolves á 3. mínútu
- United á 16. mínútu
- Napolí á 5. mínútu
- Brighton á 4. mínútu
- Arsenal á 1. mínútu
- Rangers á 17. mínútu
- Leeds á 4. mínútu
Í vor reddaðist þetta, liðið náði að snúa leikjunum sér í hag. En í haust hefur það ekki gengið eftir, liðið aðeins unnið einn af þessum leikjum sem hér eru taldir upp síðan í haust. Hér erum við að sleppa leikjum eins og Forest (lenda undir á 55. mínútu), og Newcastle (lenda undir á 38. mínútu, en ná að vinna), Palace (lenda undir á 32. mínútu) og Fulham (lenda undir á 32. mínútu).
Þetta að lenda undir er semsagt orðið mjög þreytt, og má gjarnan fara að hætta. Núna takk.
Andstæðingarnir
Við ætlum svosem ekki að eyða miklum tíma í að skoða andstæðingana. Þeir eru einfaldlega á dúndur siglingu, og hafa unnið alla leikina sína í september og október. Reyndar hafa þeir ekki tapað opinberum leik í haust, síðast töpuðu þeir stigum þann 31. ágúst í 1-1 jafntefli gegn Lecce. Það eru tveir leikmenn á meiðslalistanum hjá þeim, en Liverpool sá síðast svo stuttan meiðslalista einhverntímann fyrr á öldinni. Þeir verða því ekkert lamb að leika sér við, og jafnvel þó svo Klopp spili sínu sterkasta liði og þeir leikmenn mæti eins mótíveraðir og mögulegt er, þá er bara ekkert víst að Liverpool nái að vinna þrátt fyrir það. Hvað þá 3-0.
Okkar menn
Meiðslalistinn hefur kannski oft verið verri: Jota, Díaz, Matip, Arthur, Keita. Þar fyrir utan voru Ox og Keita ekkert í leikmannahópnum sem var gefinn upp fyrir Meistaradeildina, Ox er því ekki að fara að spila á morgun og Keita myndi ekki heldur spila þó hann væri heill (sem hann verður líklega daginn sem deildin fer í HM frí, og meiðist svo á æfingu um miðjan desember ef ég þekki hann rétt). Nóg um það.
Henderson sást eitthvað lítið á æfingu í dag, og var í eigin æfingum, svo hann er tæpur. Gæti trúað að hann byrji á bekk.
Jákvæðari fréttir: Konate er leikfær, og Calvin Ramsay er það líka. Hann hefur sést – og skorað! – hjá U21 liðinu, og er því til, en ég stórefast um að hann byrji á morgun.
Líklegast er því að Klopp taki Gomez út úr miðverðinum og setji Konate þangað. Líklega hrærir hann eitthvað upp í miðjunni, kannski kemur Milner þangað. Vafasamt að Thiago sé með skrokk í 180 mínútur á fjórum dögum, og kannski tæpt að hann byrji á morgun, ef svo verður mun hann fara útaf ekki seinna en á 60. mínútu.
Spáum þessu svona:
Hér er ég áfram að gera ráð fyrir tígulmiðju, en það er ekkert víst að Klopp haldi áfram með hana. Kannski er maður bara með taugar til hennar frá því Sturridge og Suarez fóru þar fremst í flokki fyrir 9 árum síðan, sællar minningar. Eins er alls óvíst hverja hann velur á miðjuna. Ég get ekki sagt að mér finnist þessi tillaga eitthvað rosalega sexý, á pappír ættu Fab, Thiago og Hendo að vera þarna, en ef við skoðum stöðuna á skrokkunum á þeim, form síðustu vikur, og hversu mikið þeir hafa þurft að spila upp á síðkastið, þá efast ég um að FTH þríeykið byrji leikinn. Einhversstaðar þarf að rótera, og gleymum því ekki að það er leikur gegn Spurs næsta sunnudag. Reyndar er það þægilega langt í burtu, og sjálfsagt er Klopp ekki með neitt allt of miklar áhyggjur af þeim leik í dag og á morgun.
Eigum við ekki bara að spá því að Liverpool taki þennan leik 3-0? Tvö frá Bobby og eitt frá Nunez.
KOMA SVO!!!
Ekki það, að mín vegna má alveg spila Stefan Bajcetic og Nat Phillips, held þeir eigi það í raun alveg jafn mikið skilið og þeir sem ég set í byrjunarliðið hér að ofan. Ég efast samt um að Klopp geri það.
Væri til í að sjá Ramsey byrja líka ..var hann annars ekki keyptur í stöðuna hans Trent ?
Þurfum að vinna með 4 mörkum skv. heimasíðu UEFA.
Skal alls ekki útiloka að ég sé að skilja þetta vitlaust. Svona leit þetta út á þessari síðu sem ég vísaði í:
1) Head-to-head. Points accrued in matches between both sides is used to separate teams tied on points.
– ef bæði lið vinna hvorn sinn leikinn enda þau bæði með 3 stig úr innbyrðis viðureignum
2) Goal difference in head-to-head games between tied teams.
– ef leikurinn fer 3-0 þá vinna bæði lið með 3ja marka mun og eru því jöfn
3) Goals scored in head-to-head games between the sides in question.
– ef leikurinn fer 3-0 þá munu Liverpool hafa skorað samtals 4 mörk og Napoli samtals 4 mörk og væru því jöfn. Mögulega er hér verið að meina í einum leik, og ef svo er þá hefur Napoli vinninginn, og þá þarf Liverpool vissulega að skora 4 á Anfield.
4) Away goals scored in head-to-head games between the tied sides.
– Ef leikurinn fer 3-0 þá hefur Liverpool vinninginn hér, 4-1 myndi þýða að það þyrfti að fara niður í reglu 5, en 5-2 myndi þýða að Napoli hefur vinninginn.
held að það sé búið að taka út þessa “away goals” reglu alveg út. Á heimasíðu Liverpool kemur einnig fram að þeir þurfa að vinna leikinn með fjórum mörkum eða meira.
Rosalega gott að vera búnir að tryggja farseðilinn í 16-liða úrslit og ég efa að leikurinn verði lagður upp með það í huga að fara all-in til að komast í efsta sætið.
Á síðasta tímabili var háð keppni um að komast ekki i 4. sætið milli liðanna sem voru að berjast þar. Verðum að vera í seilingarfjarlægð þegar HM byrjar og treysta á að Liverpool mæti til leiks á nýju ári.
Liverpool er svo mikið jó jó lið að leikir í meistaradeildinni geta unnist auðverldlega á meðan Liverpool tapar svo skammarlega leikjum á móti botnliðum úrvalsdeildar – Ég er alveg hættur að skilja þetta.
Andskotinn, er strax komið að leik aftur…
Jæja það er eins gott að menn reyni nú að leggja sig fram í þessum leim og hætta að gefa ódýr mörk.
Mér er alveg sama hverjir byrja þennan leik nema að ég væri til í að fá þennan unga skota í hægri bakvörðinn, hann getur varla verið verri en Trent hefur verið í vetur.
Trent og Andy Robertson spila báðir sinn fimmtugasta leik í Meistaradeildinni fyrir Liverpool í kvöld. Ef að Trent spilar verður hann yngsti leikmaður Liverpool til þess að spila 50 leiki í Meistaradeildinni.
Salah hefur skorað 42 mörk í Meistaradeildinni. Didier Drogba skoraði 44 mörk í keppninni á sínum tíma og er sá leikmaður af afrískum uppruna sem hefur skorað flest mörk í Meistaradeildinni.
Og Klopp er að stýra sínum hundraðasta leik í Meistaradeildinni í kvöld. Hann verður fyrsti Þjóðverjinn til þess að ná því.
Trent á miðjuna takk !!