Liverpool – Derby 0-0 (3-2 eftir vítaspyrnukeppni)

Klopp gerði 11 breytingar frá því í sigurleiknum gegn Spurs s.l. sunnudag og nánast allir þeir ungu leikmenn sem hafa viðloðnir aðaliðið fengu tækifæri í kvöld í bland við reynslumeiri leikmenn sem hafa þurft að sætta sig við bekkjarsetu undanfarið. Kelleher var í markinu með þá Tsimikas, Phillips, Gomez og Ramsey fyrir framan sig. Á miðjunni voru það Bajetic, Ox og Clark með Frauendorf, Carvalho og Stewart að leiða línuna.

Leikurinn byrjaði afskaplega rólega og var það í raun þessar fyrstu 45 mínútur. Það dróg fyrst til tíðinda á 15 mínútu þegar Ox tók boltann, sem barst til hans eftir hornspyrnu frá Tsimikas, í fyrsta en skotið var naumlega framhjá.

Besta færi okkar manna féll þó til Stewart á 30 mínútu, eftir góða pressu frá Stewart þá vann hann boltann af Cashin, tók þríhyrning við Carvalho og átti fínt skot en naumlega yfir.

Afskaplega lítið gerðist það sem eftir lifði hálfleiks, jú einhver krafa um vítaspyrnu á Gomez en mér fannst afskaplega lítið í því  og staðan þvi 0-0 í hálfleik.

Síðari hálfleikur

Síðari byrjaði af krafti. Gestirnir fengu sitt besta færi á 49 mínútu þegar að skot þeirra úr miðjum vítateig vinstra megin fór naumlega framhjá. Í næstu sókn átti Ox skot fyrir utan teig sem fór í varnarmann gestanna en Wildsmith var vel á verði og varði vel.

Tveimur mínútum síðar átti Derby fína skyndisókn en slök sending kom í veg fyrir að gestirnir væru komnir einir í gegn gegn Kelleher.

Liverpool átti svo fínar sóknir í kjölfarið. Fyrst var það skot rétt fyrir utan teig frá Carvalho eftir talsverða pressu sem var ágætlega varið frá Wildsmith (hefði nú líklega átt að grípa skotið). Aftur á 56 mínútu kom fín sókn þar sem að Tsimikas sendi góða sendingu á fjærstöng, þar var Frauendorf mættur, skallaði boltann út í teig en skot Ox var slakt og endaði í Kop stúkunni.

Klopp henti nokkrum þungarvigtarmönnum inná á 66 mínútu þegar Firmino, Nunez og Elliot komu inn í stað Clark, Stewart og Frauendorf. Á 74 mínútu kom svo hinn 16 ára gamli Ben Doak inn í stað Carvalho, en Doak kom frá Celtic í sumar!

Ox átti flotta sendingu á 81 mínútu á Elliot en Wildsmith varði frábærlega. Fjórum mínútum síðar átti Firmino skalla rétt við markteiginn, eftir sendingu frá Ramsey, en títtnefndur Wildsmith varði vel.

Það gerðist ekki mikið síðustu mínúturnar og ekki dugðu þær fimm mínútur sem bætt var við venjulegan leiktíma. Vítaspyrnukeppni því staðreynd.

0-1 McGoldrick skoraði nokkuð auðveldlega með föstu skotið á mitt markið
0-1 Wildsmith varði frá Bajcetic.
0-1 Kelleher varði vel spyrnu Hourihane
1-1 Ox skoraði örugglega, stöngin inn. “Aldrei” hætta.
1-1 Kelleher ver sína aðra spyrnu, nú frá Forsyth
1-1 Firmino með skelfilega spyrnu yfir markið.
1-2 Sibley kemur gestunum aftur yfir, skot Sibley beint á markið
2-2 Nunez jafnar en Wildsmith var í boltanum.
2-2 Kelleher varði frábærlega, sína þriðju spyrnu í kvöld!
3-2 Elliot tryggir sigurinn með öruggri spyrnu. 3-2 sigur því staðreynd.

Bestu menn Liverpool

Það var frekar fátt um fína drætti í kvöld. Enginn sem stóð uppúr í raun af þeim útileikmönnum sem hófu leikinn. Ramsey byrjaði leikinn nokkuð vel og var sprækur. Ég er alltaf hrifinn af baráttunni og hugarfarinu hjá Tsimikas, þó það komi kannski ekki alltaf mikið út úr því. Doak kom mjög sprækur inn, ekki nema 16 ára gamall (tveimur dögum frá 17 ára afmælisdeginum) en ef þetta er smjörþefurinn af því sem koma skal þá er ég spenntur. Það er eiginlega ekki hægt annað en að velja  Kelleher sem mann leiksins, það er ekki á hverjum degi sem menn verja þrjár vítaspyrnur. Þó hann hafi haft ákaflega lítið að gera þessar 95 mínútur þá var hann greinilega að spara sig fyrir vítaspyrnukeppnina og átti þar frábærar þrjár vörslur og tryggði okkur farseðil í næstu umferð!

Umræðan

  • 90. Liverpool hefur ekki unnið heimaleik í deildarbikarnum á 90 mínútum í 6 ár! Ennþá merkilegri tölfræði þegar við höfum í huga að Liverpool vann keppnina í fyrra.
  • 4. Kelleher hefur unnið fjórar vítaspyrnukeppnir í 18 leikjum fyrir félagið!

Næstu verkefni

Stjóralausir Southampton menn heimsækja okkar menn á laugardaginn í síðasta leik liðsins þar til á öðrum degi jóla! Hluti af mér er smá feginn að fá frið frá fótbolta næstu vikurnar eftir heldur erfitt haust en á sama tíma veit ég að ég mun sakna enska boltans um þar næstu helgi.

Þar til næst, þó langt sé!

YNWA

32 Comments

  1. Sælir félagar

    Það var ekkert sem gladdi augað í þessum leik – nema ef vera skildi Doak. Hann sýndi meira þessar fáu mínútur sem hann spilaði en félagar hans margir allan leikinn. Leikmenn eins og Carvaliho og Ox alveg afspyrnulélegir en vörnin skilaði sínu sem var svo sem ekki mikið afrek. Ramsay ágætur varnarlega en sóknarlega steingeldur. Tsimikas var bara Tsimikas og lagði lítið til. Krakkarnir virtust skíthræddir um að gera einhver mistök og þorðu ekkert að reyna nema áðurnefndur Doak. Mjög slakt hjá Liverpool og engum til sóma sem að kom

    Það er nú þannig

    YNWA

    2
    • Sælir aftur félagar

      Það var ef til vill óþarfi af mér að hafa Caoimhin Kelleher í hópi þeirra sem litlu skiluðu. Ég hefi lengi dáðst að þessum dreng fyrir ótvíræða hæfileika hans og nú orðið getu hans. Hann er orðinn einn af beztu markvörðum á Bretlandseyjum og þó víðar væri leitað. Með hann sem varamarkvörð númer eitt erum við líklega bezt mannaða liðið í þeirri stöðu í Evrópu. Caoimhin Kelleher er magnaður ungur maður og betri á sínum aldri en Alisson var á sama aldri er ég viss um. En hvað veit ég sosum.

      Það er nú þannig

      YNWA

      8
      • frábær markvörður. En hann er vissulega 24 ára gamall. Á þeim aldri var Alisson orðinn landsliðsmarkvörður Brasilíu og búinn að skrifa undir hjá Roma.

        8
      • Algerlega þér sammála varðandi flesta sem voru inná í þessum leik fyrir utan eitt Ramsay hann leit að mínu viti bara nokkuð vel út og lítið hægt að segja um hans leik með alla þessa kjúlla inná í einum og sama leiknum held að þessi gæji eigi eftir að veita TAA töluverða samkepni verðu að taka mið af því hverjum þessir menn eru að spila með og spila tíma sem þeir hafa fengið osfrv. Og síðan að lokum er það varðandi leikinn þá var bara helvíti gott að fara áfram þrátt fyrir allt ef maður horfir til úrslita annara leikja þar sem mörg stór lið féllu út.

        YNWA

        3
  2. Hundleiðinlegur leikur en geggjað drama í lokin!

    Og nú hljóta lið að fara að slást um Kelleher. Hann er betri en flestir aðrir markmenn í deildinni, að Alisson undanskildum.

    4
  3. Gerðum það sem gera þurfti. Margir að fá mikilvægan leik undir beltið og dýrmæta reynslu. Aðeins ein spurning sem brennur á mér eftir þennan leik og það er hvenær dómarar fara að dæma á tafir. Þeir gefa einhver merki blása aðeins oftar í flautuna en svo gerist ekkert meira. Fimm mínútur í uppbót eru síðan fáránlega fáar mínútur ef mið er tekið af töfum og skiptingum. En annars bara góður og lifi í voninni um að einhverjir olíu auðmenn komi ekki nálægt kaupum á Liverpool né aðrir glæpamenn.
    YNWA

    11
    • Já, þessar Pickford-teppaleggingar hjá markvörðum eru óþolandi. Ætti bara að gefa gult strax.

      4
      • Ef dómarar legðu línuna þá kæmu kannski gul spjöld eina umferð og menn væri búnir að læra sína lexíu. Kæmi meiri hraði og meiri skemmtun ef þessar endalausu tafir væru drepnar í fæðingu. Í raun má markmaður Derby þakka fyrir að hafa hreinlega ekki fokið af velli. Þvílíkir stælar sem hann komst upp með. Reyndar fannst mér okkar menn vera með full mikla stæla í vítunum en það slapp 🙂
        YNWA

        4
  4. Doak vá, sá mun verða öflugur. Annars góðar mínútur fyrir Ramsey, Gomez, Bajcetic (mjög hrifinn af hans stíl), Ox, Kehleher og Carvalho.

    Flott að komast áfram, Chelsea, Arsenal, Tottenham, West Ham og Everton meðal annars dottið út þannig möguleikar okkar aukast.

    Þoli ekki þessi hægja á sér víti eins og Bobby, Núnez og Bajectic tóku.

    YNWA

    7
      • Eftir Leed leikinn:

        Sinni:
        Klopp að negla síðasta naglinn? Þvilikur aumingi.

        Sorry klopp auminginn þarf að fara

        Eftir Forest leikinn:

        Sinni 22.10.2022 at 13:23
        Klopp er búin ásamt haug af leikmönnum. Því miður.

        6
    • Já úff, maður getur verið ansi reiður eftir að tapa á móti tvem lélegustu liðunum í deildinni, meira segja í röð ? sorry ef þú tókst þetta inná þig. Hann er auðvitað legend og það dýrka hann allir, þar á meðal ég, en hann hefur ekki verið að gera gott mót á þessu tímabili. 8 leikir af 13 spiluðum sem við höfum tapað eða gert jafntefli og svo ég rifji aðeins upp fyrir þig eru það meðal annars: Fulham, Forrest, Leeds, Everton, Palace og Brighton. Á þessum tímapunkti tímabilsins er það bara alltof mikið ;). Ef hann vinnur næstu 5 leiki og kemur inn með 1-2 góð kaup í byrjun jan þá er ég tilbúin að endurskoða hvort ég sé á vagninum en ef afhroðin halda áfram, þá má blessaður kallinn fara fyrir mér.

      Annars var þetta ekkert sérstakt í kvöld og kannski ekki við öðru að búast og hann tók að mínu mati óþarflega mikinn séns. Skilaði sér í dag en verkefnið verður erfiðara um helgina.

      3
    • Ég ætlaði fyrst að hrauna yfir þig fyrir að segja að möguleikar Liverpool hafi aukist við að Everton séu dottnir út, en svo fattaði ég hvað þú átt við. Ef Liverpool dregst gegn þeim þá eru náttúrulega yfirgnæfandi líkur á að nokkrir meiðist og þá minnka sigurlíkurnar í næstu umferð á eftir.

      1
  5. Menn geta ekki gagnrýnt lið sem er skipað guttum og nokkrum sem eru að koma úr löngum meiðslum. Það er gjörsamlega engin samæfing, og menn ryðgaðir, eðlilega. Sigur er sigur, og hvað er þessi gutti sem við erum með í varamarkmanni ! Ótrúlegur bara.

    Gott að sjá Ox, hann virðist vera eini miðjumaður okkar sem getur skotið fyrir utan teig, svo eru þessir guttar. Magnaðir, næst er það southampton, stjóralausir, sýnd veiði en ekki gefin. Ég vill 3 stig þar, og svo bara HM í ógeðislandi, þar sem menn eru að díla með morðvopn og heimsmeistarakeppni í bestu íþrótt í heimi. Frakkar eru ekki bara sniglar og rauðvín. MERDE !

    12
  6. Það er æðislegt að halda með liði sem getur gert 11 skiptingar og spilað sömu tegund af fótbolta. Og fyrstu 10-15 mínúturnar sýndu nákvæmlega hvað er að hjá LFC í vetur. Orkuleysi. Þessir ungu menn voru miklu fljótari og aggressívari og að keyra hápressu með réttum hætti miðað við aðalliðið. Auðvitað var sóknarleikurinn slakur. Þeir væru í aðalliðinu ef þeir væru nógu góðir til að skora í fullorðinsbolta. Og Derby vissu það og spiluðu bara 541 sem næstum gekk upp. En engan vegin sammála að þetta hafi verið lélegur leikur hjá LFC. Mjög góður leikur hjá B/C liðinu okkar. Aðeins betri en Everton auðvitað.

    Við sáum líka fullt af góðum og spennandi leikmönnum — þó flestir þurfi amk. 2-3 tímabil af fótbolta til að maður sjái hvort þeir geti verið aðalliðsmenn. Ramsey er líklega nógu góður til að við getum farið að tala um að TAA fari að spila libero næsta tímabil. Phillips á eftir að hala in fullt af pening til að hjálpa með að kaupa Bellingham. Freunhaufer er soldið spennandi. Minnir á Diaz en vantar reynslu. Bajetic er að læra helling af Fabino en er ekki nógu líkamlega sterkur ennþá.

    Kelleher er mjög, mjög góður. Ekki séns að hann verði hjá okkur eftir þetta ár. Verður að fara að spila. En veit ekki hvað við gerum. Væri bilun að selja hann. Þurfum að eiga lið í Austurríki eða Frakklandi til að fá reynslu fyrir menn.

    Og svo sjáum við í svona leik hvað Elliot er truflað góður. Við þurfum að yngja hópinn upp um svona 2 ár að meðaltali fyrir næsta tímabil. Þá verður þetta fínt. Það hefur verið glatað að sjá heavy metal breytast í skallapopp.

    12
  7. Minn 5 aur.

    Þetta var góður og verðskuldaður sigur á þokkalegu liði sem var komið til að gefa allt í leikinn.
    Það sem ég sá af leiknum voru Derby sundurspilaðir, en vantaði upp á að klára færin.

    Margir af ungu leikmönnunum sem varu að stíga á stóra sviðið voru mjög flottir og enginn slæmur.

    Kelleher svo auðvitað magnaður í vító.

    8
  8. Fullt af flottum frammistöðum í þessum leik, mér er alveg sama hvað sumir eru að segja hér.
    Eina sem að vantaði var að klára færin betur, sem hefur verið vandamál hjá stóru strákunum líka.
    Lið með fullvaxta karlmenn innanborðs og bara það eina markmið að fara með leikinn í vító og stærsta taktíkin að tefja, hvernig haldiði að sé að spila á móti svona liði? Mér fannst menn yfirhöfuð bara gera þetta mjög vel, miðað við aldur og samsetningu liðsins.
    Kelleher fær auðvitað mestu athyglina fyrir vítakeppnina en hafði annars nánast ekkert að gera.
    Langar að nefna hér sérstaklega Bajcetic, Duncan, Ramsey sem mér fannst gera sitt mjög vel, Ramsey klárlega líkamlega tilbúinn.
    Var einnig ánægður með Ox, var mikið í botanum og dreifði spilinu vel.
    Doak koma svakalega vel inn, óhræddur og óð bara menn.
    Elliott sýndi hvað hann er svakalega góður í fótbolta með flotta innkomu.

    8
  9. Spennandi var það í lokin.
    Það getur ekki verið að Kelleher sætti sig við bekkjarsetuna að eilífu. Fáum örugglega yfir 5£m næsta sumar.
    .
    Viðraði áhyggjur mínar um andlegt stand Firmino eftir valið á Brasilíska HM hópnum. Það sást langar leiðir í vítakeppninni, og líka fyrr í leiknum, að það er eitthvað brotið innra með honum.
    .
    Þurfum miklu betri spilamennsku til að ná í að minnsta kosti 1 stig um helgina. Hef trú á að liðið geti það en maður hefur séð þessa leikmenn skila svo mörgum slöppum frammistöðum í haust að maður er langt í frá öruggur.

    Það er nú þannig.

    3
    • „yfir 5£m”? Ég ætla nú rétt að vona að við fáum töluvert meira fyrir Kelleher, ef hann verður þá seldur. Hann er betri en 75% af aðalmarkvörðum deildarinnar.

      5
      • Hann þarf að fá tækifærið í mörgum leikjum í röð (run) til þess að lið vilji eyða pening í hann. Kannski fara á láni í 1 ár þannig hann geti sannað sig sem aðal markvörður.

        1
      • hversu mikið var Danny Ward búinn að spila þegar Leicester keypti hann fyrir 14m punda?

        Hugsa að verðmiðinn á Kelleher sé um 20 milljón pund í augnablikinu.

        2
      • þess utan er Kelleher búinn að leika 8 leiki með Írum og ég veit ekki betur en hann sé aðaðmarkvörður Íra í augnablikinu.

        1
  10. Enskir miðverðir: Man Utd-Aston Villa leikurinn í Carabao Cup í kvöld.

    Harry Maguire var virkilega lélegur og missti boltann margsinnis á stórhættulegum stöðum. Meira að segja ameríski þulurinn tók eftir því. Verði Southgate og Englandi að góðu að hafa Maguire í miðverðinum á HM.

    En Tyrone Mings var verri. Villa spilaði ljómandi vel á köflum og mikið hrikalega hlýtur Unai Emery að sjá eftir því að hafa sett Mings inná í seinni hálfleik. Staðan var 1-1 þegar hann kom inná á 59. mínútu og tveimur mínútum síðar var Villa komið yfir 1-2. En þá dreif Mings í að gefa ÞRJÚ mörk, þar af eitt sjálfsmark. Heppnir Englendingar að hann fer ekki með á HM.

    Joe Gomez er betri en þeir báðir.

    1
  11. Við fengum útileik við Man. City í næstu umferð.

    1
  12. Andsk utd menn að draga alltaf. Þá er bara að taka þetta olíu drasl núna 🙁

    3
  13. Þetta verður gríðarlega erfiður leikur hjá man shittý á móti B-liði okkar í næstu umferð. Ég yrði ekkert hissa ef við myndum slá þetta plastfélag út úr keppninni. Ef ekki þá er það enginn heimsendir og meiri fókus á hinar keppirnar.

  14. var ekki bara flott að fá City ..getum þá unnið þá í 3dja sinn á þessu tímabili.

    2

Liverpool – Derby liðið er komið

Upphitun: Dýrlingarnir mæta á Anfield