Að horfa í hálftóma glasið

Þá líður síðasti mánudagur janúarmánuðar sem að þessu sinni innihélt FIMM mánudaga. Má það í alvörunni bara?

Að venju þá átti liðið okkar erfitt uppdráttar í þessum fyrsta mánuði ársins og ég efa það ekki í sekúndu að menn á Anfield eru glaðir að sjá á bak þessa mánuðar…þó vissulega einn leikmannagluggi eigi eftir að klárast – sem þó væntanlega inniheldur engar leikmannafréttir karlamegin allavega miðað við ummæli Klopp um helgina.

Það er sannarlega fúlt að sitja þennan mánudaginn eftir enn ein vonbrigðin og þessi pistill hérna er kannski bara notaður fyrir þennan aðdáanda á sextugsaldrinum til að skrifa sig frá þessu öllu og það má sjá á titlinum að nú ætla ég að leyfa hálftóma glasinu aðeins að njóta sín. Þeir sem ekki fíla það viðhorf þurfa þá ekkert að smella á “meira” hér að neðan og svo frábið ég mér það að menn nýti þennan pistil og geri mér upp skoðanir eins og þær að Klopp eigi að fara eða að allt sé í rjúkandi rúst. Það er hins vegar að mínu viti í góðu lagi að horfa til þess að það er enginn séns að vera að prumpa einhverjum glimmer þessa dagana og ég frábið mér komment eins og “if you can’t support us when we lose dont support us when we win”. Það að hafa áhyggjur af stöðunni þýðir ekki að maður styðji ekki liðið sitt. Bara alls ekki.

Semsagt, smá pæling framundan um hvaða áhyggjur ég hef af liðinu, þeir sem vilja ekki velta sér upp úr því þurfa ekki að smella á meira!

Ég held að síðasti stóri pistillinn minn hér á síðunni hafi snúið að niðurstöðu spárinnar okkar þar sem 10 af 11 spámönnum, þ.á.m. undirritaður, spáði Liverpool FC titli nr. 20 í vor. Þess vegna held ég að ágætt sé að rýna bara í spegilinn alveg til sumars til að velta upp áhyggjum. Ætla að taka bara stikkpunkta og lítið rökstudda með öðru en tilfinningu og þeim sófaskilningi sem ég á.

Lok síðasta tímabils og sumarið

Ef við horfum til loka tímabilsins síðasta vor held ég að við verðum að viðurkenna það að þá voru farnir að birtast ákveðnir veikleikar hjá liðinu. Við vorum í bölvuðu basli í mörgum leikjum, lentum iðulega undir og vorum á naglanagi lengi vel. Það var löðrungur í andlit þegar City skoraði 3 mörk á stuttum tíma til að tryggja sér titilinn og framundan re-union við Real Madrid. Hefnd fyrir Kiev! Það varð þó ekki, vissulega var Courtois valinn maður leiksins en orkustig leikmanna virtist ekki nægilegt og trúin á verkefninu eftir að við lentum undir olli vonbrigðum. Það var ömurð að sjá þá alhvítu veifa bikarnum með stóru eyrun aftur og enn í okkar andlit.

Tímabilinu lauk 29.júní og allir vissu að næsta tímabil yrði skrýtið vegna HM. Þetta þýddi að frí LFC leikmanna varð aðeins styttra (þó ekki nema viku) og félagið ákvað að fyrsti fasi æfingatímabilsins færi fram í Asíu. Klopp sagði nýlega að mistök hafi verið gerð að fara fyrst með hópinn í þessa ferð. Hann rökstuddi það ekki meira en miðað við það sem rætt hefur verið víða um podcastheiminn þá er hér verið að vísa í það að liðið var mjög andlega þreytt og það að vera hent út í histeríuna í Asíu var mikið áreiti auk þess sem að tímabil mælinga á líkamsástandi var styttra í upphafi og fór svo aftur í gang í æfingaferðinni í Evrópu. Atið á leikmannahópnum ansi mikið og eftirá lítur út fyrir að meira hefði átt að vera lagt í móralska uppbyggingu og að vinna á heimavelli.

Góðgerðarskjöldur og upphaf tímabils

Undirbúningstímabilið var upp og niður og þegar við komum inn í Góðgerðarskjaldarleikinn í Leicester talaði Klopp um það að hann ætti erfitt með að átta sig á hvar liðið stæði. Óvanaleg ummæli hjá stjóranum sem í dag auðvitað eru skiljanlegri. Við hins vegar áttum flottan leik gegn City, unnum skjöldinn sem varð enn einn bikarinn fyrir stjórann og við sprungum upp úr hæstu hæðum.

Fljótt var okkur kippt niður á jörðina þegar keppni hófst í deildinni. Fulham einfaldlega hlupu okkur niður í fyrsta leik og tóku stig af okkur, Palace á sama hátt á Anfield og ekki minnkaði ælubragðið að tapa fyrir United í leik þrjú. Tvö stig eftir þrjá leiki og strax lentir á eftir. Það sem leikirnir allir áttu sammerkt var að mótherjarnir fengu opin færi þar sem varnarleikurinn okkar leit ekki vel út. Miðjan var í miklu brasi og færanýtingin vond. Ég ætla ekki að eyða of mörgum orðum í leikmannagluggann og net-spend sem augljóslega á stóran þátt í öllu okkar veseni og lok hans náttúrulega bara mikil vonbrigði. Við náðum í tvo góða heimasigra og töldum öll að við værum að leggja af stað en þá kom aftur bakslag með slæmum úrslitum í deild og rassskellingu í Napoli.

Leikkerfissbreyting og HM-hléið

Eftir alls konar gengi var komið að leik við okkar öflugasta óvin síðustu ára, Man City á Anfield. Eftir tap á Emirates sáum við liðið færa sig í 4231 í Glasgow gegn Rangers og eftir risasigur þar var þeirri taktík haldið gegn City. Tveir miðjumenn vörðu nú hafsentana og við unnum þennan risaslag 1-0. Stóra málið var þó líklega það að við náðum að valda pressunni sem við höfum þekkt í gegnum tíðina en það hefur sannarlega vantað í vetur. Í kjölfarið unnum við West Ham líka en svo komu skellir gegn Forest og Leeds. Meiðsli aftur orðin vesen en í þessum leikjum báðum réðum við afar illa við háu varnarlínuna og færanýtingin skelfing. Klopp hélt sig þó að mestu við þetta upplegg og síðustu leikir fyrir HM hlé fóru vel.

Klopp valdi það að fara í hitann með liðið. Þótti augljóst alveg að þetta væri hið besta mál…en kannski má horfa til þess að það hafi virkað þveröfugt. Það var allavega þannig að báðir æfingaleikirnir þar voru kjánalegir satt að segja og liðið kom heim í rokið og rigninguna á Englandi. Fyrsti leikur á Villa Park hinn ágætasti þó vissulega kaflar hafi verið á ólíkum stöðum þá gat maður brosað yfir úrslitum og frammistöðunni.

Fallnir á felguna

Svo kom Leicester þjófnaðurinn í ömurðar leik. Þaðan frá hver lélegaheitarleikurinn rekið annan og bætt í. Hver botninn eftir annan og bull, ergelsi og firra eftir hvern leikinn af öðrum. Blöndum við janúarglugga þar sem kaupin eru hrár framherji og staðfesting á því að miðjan okkar verður látin klára tímabilið þrátt fyrir augljósan vanda með öll grundvallaratriði miðjuspils og við erum ekki kát að sjálfsögðu, maður aftur kominn í andlega meðferð um það að maður geti ekki látið þetta lið hafa slík áhrif á pirringsstuðul lífs manns.

Þetta er saga þessa stærsta vonbrigðatímabils (hingað til) hjá Klopp sem ég rökstyð með spánni okkar félaganna miðað við raunveruleikann. Frá því að keppa um allt í að hanga nú í janúar á bláþræði um að keppa ekki um neitt!

Hvað er það þá sem ergir mest?

* Byrjum á net-spend. Skiptir engu máli til hvaða tíma við horfum. Við eyðum eins og miðlungslið á Englandi og það bítur. Bítur fast.

* Endalaus meiðsli. Þetta er ekkert lengur nein tilviljun. Versta árið í sögu Klopp af þeim ansi mörgum hingað til og það sem er allra verst að í nær engum tilvikum er um “slys” í leikjum að ræða. Leikmenn eru að fá vöðvatognanir í lærum og kálfa hægri vinstri og þar er langlíklegasta ástæðan álag sem þeir vöðvar ráða illa við. Við getum talið upp marga en framherjarnir þrír – þeir Jota, Bobby og Diaz gott dæmi um þetta. Bobby kemur með ónýta vöðva eftir HM fríið. Það segir margt. Vonandi er það þó þannig að loksins er búið að ráða lækni til liðsins en hér þarf að horfa á þjálfarateymið og heimta það að verulegur árangur náist. Kannski var þetta sumarið sem klúðraðist, kannski var HM fríið illa upp sett og ekki má gleyma því að meiðslapésar eru nokkrir í okkar hópi og það var áður en við fengum Arthur Melo lánaðan. Þetta VERÐUR að laga til framtíðar!

* Söluferlið er ákaflega mikið reykský. Fyrstu fréttir komu í haust og einhvern veginn frá þeim tíma verið á skrýtnum stað. Mörg stórliðin virðast til sölu og það er ekkert hægt að horfa framhjá því að það eru minni líkur á því t.d. að eigendur samþykki dýr leikmannakaup á meðan þetta er í gangi. Hvort sem um er að ræða það að fá inn minni fjárfesta sem klárlega yrði ætlað að fjármagna slík kaup eða að bíða eftir meirihlutafjárfesti sem þá tæki slíkar ákvarðanir. Það nennir enginn langdregnu söluferli og nýlegt viðtal við John W. Henry þar sem hann virðist orðinn þreyttur á dýrum leikmönnum (vissulega í baseball) hefur ýtt við fólki.

* Hækkandi aldur lykilmanna. Ég er eiginlega viss um að Herr Klopp horfði til þess síðasta vor að okkar lið brygðist eins við og síðast þegar við töpuðum titli í lokaumferð. Þá missti City hausinn og við gripum gæsina góðu. Hann hafði traust á leikmannahópnum eftir síðasta vetur en það einfaldlega var mislestur. Eiginlega frá fyrsta leik höfum við séð það að orkan og ákefðin hjá þeim mörgum er að hverfa…og alls ekki hægt að stóla á hana til lengri tíma. Það hafa komið á milli leikir sem við höfum náð ákefð en þeir eru færri en fleiri. Þetta eru auðvitað að einhverju leyti skiljanleg viðbrögð þjálfarateymisins sem sennilega fattaði þetta í sumar þegar reynt var að bæta við öflugum leikmanni sem mun mæta okkur í alhvítu en raunin varð sú að það að halda að þetta yrði í lagi í vetur var rangt mat.

* Ég leyfi mér að taka út fyrir svigann dropp í getu lykilmanna þó það vissulega geti átt við með punktinn á undan. Þegar við sjáum mikinn mun á frammistöðu manna eins og Trent, Virgil, Fabinho, Hendo og Salah þá er það ekki heldur nein tilviljun. Það á örugglega rót í meiðslunum og óstöðugleikanum en það er alveg á tæru að FIFA-tölurnar þeirra munu lækka töluvert á næsta ári miðað við þessa frammistöðu.

* Mentality monsters hefur svo horfið þegar við skoðum síðustu tvo punkta. Þetta lið er fullt af fyrirliðum vissulega en við höfum ekki náð að vinna á augljósum vanda eins og því að verjast föstum leikatriðum og nú er það svo komið að við erum á nálum í lok leikjanna þar sem að lið koma á okkur og við stöndum upp við vegginn við að berja þau frá okkur.

* Leikuppsetning og innáskiptingar þjálfarateymisins hafa valdið furðu á köflum. Klopp hefur ekki farið í að breyta uppstillingu merkjanlega eftir HM þrátt fyrir alveg hroðalegar frammistöður heldur fært varnarlínuna sýnilega aftar og minnkað áhersluna á hápressuna, sér í lagi á útivöllum (nema í fyrri hálfleik gegn Wolves) sem líklega á m.a. rót í meiðslum Virgil og hroðalegum frammistöðum Fabinho en haldið í 433 með einum djúpum miðjumanni, nú 18 ára strák. Innáskiptingarnar hafa oft á tíðum dregið úr okkar árangri miðað við tölfræði leikja og ýmislegt að benda til þess að skiptingar eigi að dreifa álagi, nokkuð sem einfaldlega hefur ekki virkað. Eilítil þrjóska er jú bæði mesti kostur og stærsti ókostur Klopp sem þjálfara. Hann hefur þannig náð að búa til stóra leikmenn með því að þrjóskast við að vinna í þeim en hefur líka barið hausi of oft við sama steininn.

Ég held að ég haldi ekki áfram að varpa upp fleiri af þessum punktum. Jurgen á eftir þrjú tímabil og það er ljóst mál að hann hefur áttað sig á því að nú þarf að stokka upp. Hann er búinn að vera reglulega algalinn á hliðarlínunni og mér virðist hann ætla að fara aðra átt en þegar hann hætti hjá Dortmund á sínum tíma þegar eitt af hans vanda var leikmannahópur sem hafði elst of mikið (og vissulega misst lykla til Bayern). Bara viðtalið eftir Brighton þar sem hann talaði um body language leikmanna og þau síðan þar sem hann hefur lýst því að hann ætli sér að búa til nýtt lið.

Það er sársaukafullt og erfitt fyrir stjóra. Við skulum ekkert draga úr því. Þetta er líklega erfiðast af öllu, það að átta sig á því að menn sem hafa algerlega yfirkeyrt sig fyrir þig og náð frábærum árangri séu ekki lengur í stakk búnir til þess að ná því getustigi áfram. Það eru í raun ekki margir klúbbar eða stjórar í Englandi sem hafa náð þessum áfanga og nú er það Klopp og félaga að finna leið til þess að skipta þessum heimilisvinum út hverjum af öðrum.

Það verður ekkert auðveldara þegar Newcastle og Chelsea eru komnir í hóp liða sem bara eyða endalaust og mun verða til þess að keppnin um þá leikmenn sem við munum þurfa að ná í til að færa hlutina til betri vegar og á meðan að við erum ekki að setja nema brot af þeim fjárhæðum sem aðrir eyða þá verður verkefnið nú jafnvel erfiðara þegar Klopp kom síðast.

Ég held að framundan í vetur verði áfram þetta “brokk”. Það eru einfaldlega ekki miklar líkur á því að við hrökkvum með stuttum fyrirvara í gang og komum með þannig áhlaup í deildinni að við náum svo glatt í topp fjóra en auðvitað leyfum við okkur að vona og gefum ekki upp þá von fyrr en að í fulla hnefana er komið.

Í dag er held ég nokkuð augljós meirihluti fyrir því að Klopp fái það sem hann þarf til að byggja upp nýtt lið fyrir væntanlega næsta stjóra til að vinna einhverja titla. Ég held að við verðum að fá botn í þetta eigendamál allt áður en tímabilinu lýkur og svo þarf að fylla upp í skörð “bakherbergjanna” á Anfield sem eru til þess fallin að bakka Klopp upp. Það er auðvitað þannig að hann er ekki stærri en klúbburinn og það er fullt af atriðum í vetur sem má deila um hvort hann leysti vel eða bara afar illa. Eins og hann sagði þá var honum mögulega hrósað of mikið á einhverjum tímapunkti en núna hins vegar er látið eins og hann sé kjáni. Hvorugt er hann, hann er klárlega einn besti stjóri í heimi sem nú á það vandasama verk að leiða kynslóðaskiptin hjá LFC, hann vonandi fær sterkar vísbendingar á næstu vikum hverjir ráða við það að vera með í næsta stórliði og hann er að fara að takast á við sjálfan sig líka þegar kemur að því að leggja upp með það að búa aftur til samkeppnishæft lið hjá sínu félagi, taka tvö.

Það verður erfitt og þetta tímabil alveg viðbúið að verða áfram vonbrigði og hálf fullt glas. Ég ætla samt að leyfa mér að hafa meistaradeildarglasið hálf fullt, ég neita að trúa öðru en því að fókusinn sé á það að slá þessa Real grýlu fast í hausinn.

Áfram Liverpool – alltaf og alls staðar. YNWA!!!

40 Comments

  1. Góð greining og já, maður verður að vona að botninum sé náð. Með nokkrum sigrum í röð erum við komnir í baráttuna um CL-sæti og svo erum við alltaf erfiðir í tvíhöfðanum í þeirri sömu keppni. Það er gríðarlega mikilvægt að við rífum okkur upp og náum í úrslit í næstu leikjum!

    2
  2. Góðar pælingar, varðandi svart og hvítt dóma á knattspyrnustjóra er það ekkert nýtt. Það er ekki langt síðan Arteta átti að vera svo óhæfur og glataður stjóri að það þyrfti að reka hann, nokkrum sinnum blossaði sú umræða upp á síðustu árum þegar Arsenal ollu vonbrigðum.

    Hins vegar er Klopp ekki ósnertanlegur og það að þráast við að fjárfesta í miðjunni í þrjú ár er farið að bíta liðið fast. Auðvitað getur verið að eigendur eigi allt eins mikla sök á því. Varðandi meiðslin eru þau líka of algeng og langvarandi m.v. önnur lið til að það geti talist tilviljun, líklega er hann að keyra menn of mikið út.

    5
  3. Sæl og blessuð og takk fyrir góðan pistil.

    Meiðslin eru eins og svo margt annað – yfirborð ísjakans. Eins og hér er rakið þá eru þau vegna mikils álags en ekki einstaka óhappa. Af því má álykta að þeir sem (enn) eru leikfærir séu að glíma við sams konar óþægindi bara ekki í eins miklum mæli. Þarna er m.ö.o. stigsmunur en ekki eðlis-. Ef rétt er – þá er ekki von á miklu frá svona hápressuliði.

    Það sorglega í þessu öllu er – að enginn skuli hafa mónitorað þetta á þessum löngum köflum sem maður hefði ætlað að ætti að nýta til þess arna. Búið er að koma á fót nýrri æfingaaðstöðu en svo virðist sem alvöru fagfólk sé ekki á staðnum til að taka út svona grundvallarþætti. Það var meira en lítið undarlegt að horfa upp á þessi meiðsli eftir sumarleyfið og sjá úrvinda leikmenn. Það sama eftir HM þar sem fæstir voru í eldlínunni. Að enginn skyldi hafa sett niður fótinn – þegar augljóst var að æfingaprógrammið var ekki að byggja þá upp heldur þvert á móti – er mikil furða.

    Klopp hefur verið vinsælt viðfangsefni í leiðtogafræðum, karakterinn hrífandi og árangurinn magnaður. Núna erum við að sjá hina hliðina á þessu: ,,how the mighty fall”. Allt virðist í lagi á yfirborðinu en raunin er öll önnur. Grundvallarmistök hafa verið gerð. Bæði er ljóst að nýir leikmenn áttu að koma til liðsins en svo líka hitt – sem við erum að átta okkur á núna – að miklu meiri alúð átti að leggja í þá liðsmenn sem liðið hafði þegar innan sinna raða. Gott dæmi um þetta er Salah sem hefur spilað af hálfum dampi eftir Afcon.

    Það er mögulega stóri feillinn í þessu og lærdómurinn sem við áttum að geta dregið. Í stað þess að keyra þá áfram eins og galeiðuþræla átti að byggja þá markvisst upp andlega og líkamlega.

    10
  4. Ef við eyðum eins og miðlungslið þá getum við varla farið fram á neitt annað en að vera miðlungslið. Ef við keppum ekki við stóru strákana á leikmannamarkaðinum þá getum við ekki ætlast til þess að við getum keppt við þá á vellinum, þetta er ekkert flóknara en það.
    Klopp hefur náð ótrúlegum árangri miðað við mannskap og gæði í leikmannahóp. Þegar öllu er á botninn hvolft þá er það bara staðreynd að okkur vantar meiri gæði og betri leikmenn. Allt of margir hafa í raun verið að spila langt umfram getu, menn hafa unnið það upp með miklum hlaupum, krafti og áfergju en þegar menn eru hættir að gera það þá kemur í ljós að getan er alls ekki til staðar. Sendingagetan í liðinu er td alveg skelfileg, færanýtingin hefur alltaf verið vandamál, höfum alltaf þurft svakalega mörg færi til að skora mörk.
    Sjáið þið í alvörunni einhvern stjóra sem myndi ná öðru eins út úr þessum leikmönnum? Klopp er hins vegar ekkert hafinn yfir gagnrýni en hún þarf að vera málefnaleg, þetta er í raun fyrsta almennilega krísan sem liðið hefur staðið frammi fyrir á þeim 7 árum sem hann hefur verið við stjórn, er það ekki bara eðlilegt að lið detti niður annað slagið, sérstaklega þegar endurnýjunin hefur ekki verið nægilega góð?
    Innkaupastefnan og endurnýjunin hefur verið að kikka og þar kenni ég eigendum um, sem vissulega hafa gert margt gott sbr æfingasvæðið og stækkun vallarins og öll umgjörð í kringum hann. En þegar kemur að leikmannamarkaðinum þá hafa þeir algerlega brugðist, sérstaklega undanfarna 10 glugga.
    Kaup á meiri gæðum hefði skilað okkur fleiri titlum, er sannfærður um það.
    Áfram Liverpool, áfram Klopp en FSG má annað hvort fara að hugsa sinn gang og fara að fjárfesta í liðinu eða koma sér í burtu.

    Ps. Man ekki betur en að Diaz meiðslin séu hné meiðsli eftir tæklingu.

    11
  5. Mjög svo áhugaverð nálgun hjá þér Magnús og er þetta ekki bara spot on ? Ég er í þeirri stöðu að hafa fylgt liðinu síðan um öndverða síðustu öld og náði í blómatímabil okkar manna fyrir 1990 og alltaf stutt liðið með ráðum og dáðum en nú er bleik brugðið, að sjálfsögðu hafa komið MÖRG tímabil þar sem allt hefur hreinlega verið í skrúfunni en þá mátti alltaf gera ráð fyrir að næsta tímabil yrði betra. Ég deildi þeirri spá ykkar Kopstjórnenda fyrir tímabilið að ef við spiluðum af svipaðri getu og síðustu ár þá mætti í það minnsta tala um að við værum í séns að taka einhverja titla þetta árið og ekki skil ég undan þann stærsta en nú er bleik brugðið, miðað við innkaupastefnu eða stefnuleysi þá tel ég nánast kraftaverk ef við endum í topp tíu hvað þá að við getum gert ráð fyrir að ná í CL sæti en ég ætla ekki að gefast upp á mínum mönnum fyrr en feita kelll …… hefur sungið hvaðan sem það ljóta orðatiltæki er nú komið. Ég óttast að ekki verði eytt frekar í mjög svo nauðsynlega alvöru miðjumenn áður en glugginn lokar í kvöld en ef Fowler lofar þá vonandi hef ég rangt fyrir mér. Ég skil ekki hvernig miðlungsliðin geta keypt endalaust af leikmönnum og ég tala ekki um þetta Chelsea rugl, af hverju er þetta ekki hreinlega lögreglumál hvernig þeir komast upp með að kaupa 20 leikmenn á uppsprengdu verði og gera við þá allt að 11 ára samninga ? EN ég ætla að vona að Eyjólfur hressist og við fáum áfram sem hingað til að skemmta okkur og líklega hágráta líka yfir frammistöðu okkar ástkæra liðs á vigvöllum víðs vegar um Evrópu.

    7
  6. Fínn pistill en svo sem ekkert nýtt sem kemur þar fram (maður býst kanski við of miklu frá ykkur koppurum enda ráin há 😉 ) en menn þurfa stundum að fá að “blása”.

    Mér hefur alltaf fundist Connor Gallagher svipað til Henderson, ekki sá flinkasti en mótorinn sko í lagi. FSG hljóta að geta náð í hann í dag…. sýnist Newcastle vera gera hosur sínar grænar fyrir honum og chelsea virðast jákvæðir í að selja.

  7. Takk fyrir þennan flotta pistil, er sammála með flest sem sagt er þar.

    Ég verð að viðurkenna að ég hef enga trú á að það verði einhver framgangur í CL, á frekar von á að RM fari létt í gegnum okkur.

    Eins hef ég alveg misst trú á því að Liverpol geti úr þessu náð 4. sæti fyrir lok tímabils.

    Eeeeen, ég sætti mig við þá stöðu sem komin er upp varðandi endurnýjum hópsins, þó ég eins og allir aðrir hefði vilja sjá það ferli fara í gang fyrr.
    Síðustu ár hafa verið sem ævintýri og maður notið hverrar mínútu sem aðdáandi Liverpool eftir langa þurrkatíð.

    Hef trú á að Klopp sé maðurinn til að leiða þá endurnýjun sem er framundan, að því gefnu að hann hafi stuðning eiganda til að fjarmagna það sem þarf.

    YNWA!

    11
  8. Nokkrir punktar til pistlahöfundarins sem skrifar hér undir dulnefninu “Maggi”.

    Þín skoðun er greinilega sú að klúbburinn okkar sé bara í rjúkandi rúst og hvaða lausn ertu þá með, reka Klopp, frábært hjá þér.

    Ef þú getur ekki stutt liðið þegar á móti blæs skalt þú ekki styðja það yfir höfuð.

    Svo langar mig að benda þér á einfalda staðreynd, ef þú tekur glas fullt af vatni og drekkur það til hálfs er glasið augljóslega hálffullt, kommon.

    Varðandi áhyggjur þínar af því að leysa vind og að því fylgi glimmer og glitskraut af einhverju tagi eru það upplýsingar sem eiga kannski fremur heima í trúnaðarsamtali við þinn heimilislækni en á þessari síðu. Get þó sagt þér að ég sjálfur er á sextugsaldri og þegar ég frétti af þessu vandamáli eldri manna hætti ég einfaldlega að leysa vind, bara spurning um sjálfsaga “Maggi” minn.

    Finnst bara óþægilegt að lesa sumt af því sem þú lætur frá þér, pínu eins og að vera kallaður inn til skólastjórans. Til dæmis eru fjórar vikur í einum mánuði og einn mánudagur í viku hverri, samt talar þú um að slæmt gengi Liverpool í janúar sé vegna þess að FIMM mánudagar hafi með einhverjum töfrum komist fyrir í mánuðinum, kommon.

    Talar bara í einhverjum innihaldslausum frösum finnst mér.

    Það er nú bara þannig
    FSG OUT
    YNWA

    If you cant support us when we lose dont support us when we win!

    Annars mjög góður pistill og er ég sammála flestu þar eins og augljóst má vera.

    13
    • Dave: 2. jan, 9. jan., 16. jan. 23. jan og 30. jan, þetta voru mánudagarnir í janúar og teldu nú 🙂

      1
      • Jamm, bara smá grín. Lá vel á mér er ég henti þessu bulli inn. Ýtti á send og las svo um meiðsli konate og þá bara ekkert gaman lengur.

        9
    • Óþolandi raus þetta með “dont support us blablablabla.”
      Það að gagnrýna liðið harkalega þegar illa gengur þýðir ekki að maður styðji ekki liðið. Ótrúlegt hvernig menn fá það endalaust út.

      4
  9. Ibrahima Konate yrði frá keppni næstu 2-3 vikurnar vegna meiðsla í læri.

    þetta er bara endalaust,,,, það er eins og meiðsla botninn sé anskoti djúpur.

    2
  10. Góður pistill Maggi….. mitt glas við það að tæmast við þær fréttir að Konate sé meiddur og frá næstu 2-3 vikurnar. Ekki við öðru að búast á þessum Liverpool bæ. Ætli miðvarðaparið á móti Real verði ekki Nat Philips og Rhys Williams sem verður kallaður úr láni frá Blackpool!

    Þetta er náttúrulega allt glatað og gjörsamlega galið hvernig komið er fyrir liðinu okkar! Einhversstaðar á leiðinni hafa menn gleymt áttavitanum heima og týnt kompásnum!

    3
    • Nat Phillips og Rhys Williams á móti Real Madrid, nú hló ég upphátt!

      3
  11. Takk fyrir þetta. Það er sannarlega líf á síðunni þó ekki fari mikið fyrir því inn á vellinum. Sammála þeim sem telja að meiðsli og skortur á leikfærum góðum miðjumönnum sé aðalástæðan fyrir slæmu gengi. En er það ekki eitthvað meira. Hvað með leikmennina sem ekki hafa meiðst (amk ekki mikið). Flestir þeirra virðist hafa fallið niður um einhverja klassa. Auðvitað veit maður að heildarhópurinn þarf að vera í lagi til að árangur náist enn andskotakornið þeir leikmenn sem eru heilir geta haldið sínu striki og jafnvel gefið í ef þarf. Salah hefur verið eins og draugur í eitt ár, eitthvað verulegt er að hjá TAA, Fabhino er á stundum eins og hann sé að byrja í boltanum, Gomez alltof mikið upp og niður (mest niður) og meira að segja Allison hefur verið að gera sjaldséð mistök. Vona svo sannarlega að liðið sé komið eins neðarlega og það getur en sagt er að auðvelt sé að spyrna sér frá botninum. Leikjaálagið er lítið framundan miðað við lið sem tekur þátt í öllum keppnum. Nú reynir fyrst á Klopp og hvernig hann púslar saman brothættu liði og tali í þá vilja til að bjarga því sem bjargað verður til vors. Þó flestar keppnir séu farnar í vaskinn er enn möguleiki á titli. Árið 2005 vann Liverpool meistaradeildina en fékk ekki nema 58 stig í deildinni. Nú er deildin hálfnuð og Liverpool er með 29 stig…..

    9
    • “Árið 2005 vann Liverpool meistaradeildina en fékk ekki nema 58 stig í deildinni. Nú er deildin hálfnuð og Liverpool er með 29 stig…..”

      Vel gert hjá þér Hjalti að grafa upp þessa jákvæðu tölfræði á síðustu og verstu… Ég gat samt ekki annað en brosað við tilhugsunina, sennilega er maður bara búinn að missa alla trú og ekki einu sinni rúm fyrir smá von í brjósti 🙂

      5
      • Einmitt Kristján. Ákvað að draga fram að liðið getur náð árangri í einni keppni þó illa gangi í annarri. Vonin um árangur er líka eitthvað til viðhalda spennu og áhuga.

        1
  12. Flottur pistill, þetta gæti samt endað sem mikilvægt tímabil fyrir Liverpool þegar fram í sækir, jafnvel þó við dettum snemma úr öllum keppnum, það er fullt af ungum leikmönnum að fá tækifæri, hugsanlega miklu meiri spilatíma en þeir hefðu fengið undir öðrum kringumstæðum. Má þar nefna Doak, Bajcetic, Elliott, Carvalho (þó hann spili lítið núna), Gapko og fleiri, í alvöru leikjum.
    Þó maður myndi alltaf kjósa fleiri sigurleiki og baráttu um titla, þá verður fróðlegt að horfa tilbaka eftir eitt til þrjú ár og sjá hvernig þessir pjakkar hafa þróast.
    Ég er samt sammála flestu í pistlinum, við ættum að sjálfsögðu ekki að vera í þessari stöðu, og sérstaklega að þurfa að treysta á þessa leikmenn sem væru líklega ekki að spila svona mikið á öðrum tímabilum.

    7
    • Varla “mikilvægt tímabi” Kalli, heldur ansi þung reynsla stjórnenda og dýr skóli til að gefa ungum mönnum spilatíma. Sagan segir okkur að niðurstaðan verði einungis sú að þeir henti ekki og það þurfi að selja þá til að rýma fyrir nýjum. Miklar tekjur tapast við að vera ekki sem lengst í öllum keppnum og þá sérstaklega CL. Ég velti því fyrir mér hvort tekjutapið til lengri tíma litið verði ekki meira en það sem hefði numið fjárfestingu á tveimur miðjumönnum síðastliðið sumar. Svo segir sagan líka að mun erfiðara verði að laða nýja leikmenn til félagsins. Ákjósanlegra væri að hafa sterkari hóp, hanga í sem flestum keppnum og veita þeim ungu hæfilegan spilatíma í skjóli þeirra reyndari. Losa svo þá sem ekki henta og hleypa nýjum að.

      3
      • Enda er ég ekki að fullyrða að þetta verði mikilvægt tímabil, en það gæti orðið það, það verður spennandi að sjá hvernig þetta þróast á næstu árum.
        Það þarf nú líklega ekki að horfa lengra en til Trent Alexander Arnold, hann var rosalega efnilegur en fékk tækifærið líklega fyrr en ella vegna þess að Nathaniel Clyne meiddist og var lengi frá. Klopp ákvað að treysta á hann og þrátt fyrir misjafnar frammistöður til að byrja með þá vita allir hvernig það endaði. Hann hefur verið einn besti, ef ekki besti bakvörður seinustu ára. Það er alltaf hægt að benda á þetta tímabil en það breytir því ekki hversu vel hann hefur spilað fyrir Liverpool á undanförnum árum.
        Ef Clyne hefði verið heill er alls ekkert víst að við hefðum séð svona mikið af honum eða að hann hefði þróast á þennan hátt sem hann gerði.
        Það er það eina sem ég meinti með þessu innleggi, en eins og ég sagði auðvitað á þetta ekkert að vera staðan á Liverpool á þessum tímapunkti, en þegar menn eru frá vegna meiðsla eða einfaldlega ekki að standa sig þá fá aðrir tækifæri, ég hef t.d. verið mjög hrifinn af Bajcetic hingað til, hann gæti sparað okkur fullt af pening í sumar ef hann heldur svona áfram. Síðan má líka horfa á Arsenal og þeirra framþróun, þetta gerðist ekki yfir nótt hjá þeim, þeas með þetta unga lið.
        Þannig það er hægt að horfa á þetta á mismunandi vegu.

        6
      • Já, ég veit alveg hvað þú varst að meina í upphafi. Mér tekst bara ekki að snúa og horfa í jákvæðari átt. Fastur í gremju og pirringi 🙂

        3
  13. Moneyball virkar ekki til lengdar í svona deild. Hin liðin sem við viljum bera okkur saman við eru að versla grimmt. Þó svo að þetta hafi virkað hér á árum áður þegar við keyptum Salah, Mane, Matip, Milner, Firmino, Robertson o.s.frv. Þá getum við ekki alltaf treyst á að svona afstaða til innkaupa virki til lengdar.

    Svo er Klopp bara alltaf of góður vinur leikmanna sinna, t.d. hefðu Gomes, Hendo og Curtis aldrei átt að fá svona langa samninga.

    7
  14. Gaman að sjá að lið eins og Arsenal eru að styrkja sig fyrir seinni hlutann, þeir eru jú að ströggla á toppnum, en við gerum ekki neitt.

    Annars tel ég að eini munurinn á okkur og til dæmis Tottenham hafi verið Klopp og án hans hefðum við líklegast unnið jafnmarga titla þeir.

    YNWA

    4
    • Sem sagt unnið núll titla eins og tottenham.

      Og núna er Konate frá vegna meiðsla.

  15. Maggi talar um hálft glas, ég sé bara í botninn á galtómu glasi og mér finnst móta fyrir hausnum á Roy Hodgson í glasbotninum?? Mér sýnist sem sagt að Ameríkanarnir séu komnir með klúbbinn á sama stað og þegar þeir keyptu. Klopp er að verða jafn ráðlausu og Roy var og virðist ekki eiga eftir annað en að fara að nudda á sér andlitið á hliðarlínunni eins og Roy gerði í síðasta leiknum sínum með Liverpool. Svo sýnist mér að FSG séu að klúðra sölunni á klúbbnum með því að ætla að halda sjálfir í meirihlutann og ég er nokkuð viss um að það finnist enginn maður sem á pening þarna úti sem er svo vitlaus að leggja pening í það dæmi. Ég segi nú bara Guð Blessi Liverpool!

    4
    • Tomas, það nokkuð margt til í þessu sem þú ert að segja, Ég er algjörleg á því að FSG verði að fara og það ekki seinna enn strax. Ég tel líklegt að verðið sem FSG setur á klúbbnum sé of hátt og það er að tefja fyrir sölunni og það er allveg ljóst eins og þú segir er ENGINN að fara í samstarf með FSG, það er bara djók!

      Það eru miklar líkur á dramatískum breytingum í sumar hjá Liverpool, ég get ekki ímyndað mér að Klopp haldi áfram hjá Liverpool meðan FSG heldur um stjórnartaumana, Klopp er alltof góður stjóri til að stjórna liði sem stefnir á það að vera um miðja deild með þessu frábæra FSG rekstrar fyrirkomulagi.

      FSG out og það STRAX!

      3
  16. Maður hreinlega orðlaus varðandi framtíð liðsins. Virðist ekki vera neinn áhugi að endurnýja hópinn. Liðið orðið gamalt og sprungið í getu. Meira og minna meiddir og þegar þeir spila eru þeir bensínlausir. Klopp talar um að ef einhver er keyptur yrði hann að skilja einhvern sem fyrir er eftir. Ég segi nú er ekki í lagi að fara hvíla Henderson, Fabinho, Uxann ofl og ofl. Kannski liggur skýringin hjá eigendum sem eru að reyna að selja hluta eða að fullu. Ég hef allavega stutt þetta lið í gegnum súrt og sætt, farið á marga leiki hjá þeim en nú er ég búinn að fá nóg.

    3
  17. Sælir
    Rólegir, við eigum Arthur Melo inni

    En annars er ég orðinn mjög smeykur við að Klopp sé að fara í sumar
    Þetta er svo gjörsamlega sprungið í loft upp í andlitið á þessum eigendum
    Kv

    3
  18. Þessi pistill hjá þér er greinilega bara til að ausa úr skálum reiðinnar. Punktarnir meira og minna tuðið sem kemur úr commentakerfinu.

    Bjóst svosem ekki endilega við nýjum miðjumanni 1.1 en þó fljótlega eftir það. Eitthvað sem búið er að öskra á. Nú virðist glugginn vera að loka og ekkert að frétta. Eriksen meiðist og Scum strax búnir að græja það. Það er augljóst að það er enginn metnaður í þessum klúbbi og mælirinn fullur hjá mér. Þvílíka óvirðingin gagnvart stuðningsmönnum frá þessum skíta eigendum. Fyrst að þeir nenna þessu ekki lengur nenni ég þessu ekki lengur, farinn í frí frá öllu sem viðkemur þessum klúbbi, þangað til nýjir eigendur birtast. Skammist ykkar helvítis fsg!

    6
    • Það er bara akkúrat sem það er Tigon – hér erum við, ég þú og allir hinir að láta gamminn geysa þar sem allir brjálaðir yfir þessu getuleysi í klúbbnum! Þú einmitt stalst því sem ég er hundfúll yfir og rúmlega það, Eriksen meiðist hjá MU og það er brugðist við því einn tveir og bingó!

      Hvað er Liverpool að gera?! Ekki rassgat! Það dugar ekki að vera að hugsa og pæla og ætla að gera eitthvað í sumar, þá verður það allt of seint! Þriðji hver leikmaður hjá Liverpool meiðslahrúga, annar hver leikmaður kominn á aldur og við hérna megin hafsins þurfum brátt að leita geðlæknis yfir slæmu gengi og aðgerðarleysi Liverpool.

      En þökk sé Kop.is að við náum að halda heilsu…… ennþá!

      ps. og rétt í þessu er Chelsea að landa Enso Fernandes frá Benfica!

      1
  19. Sælir félagar

    Takk fyrir þennan pistil Maggi og ég tek undir hvert orð. Metnaðarleysi og skítmennska eigendanna fullkomin. FSG out og það STRAX er það eina sem ég vil bæta við. Það virðingarleysi og peningagræðgi sem þessir eigendur sýna stuðningmönnum er legíó. FSG OUT ASAP

    Það er nú þannig

    YNWA

    FSG OUT ASAP svo það sé sagt einu sinni enn.

    4

Brighton 2 – 1 Liverpool

Gullkastið – Tímabil frá helvíti