Real Madríd mætir á Anfield

Enn á ný er komið að einvígi gegn Real Madríd í Meistaradeildinni, erfiður mótherji sem er langt í frá í uppháhaldi. Síðast þegar liðin mættust var að sjálfsögðu í París sem endaði sem ömurlegt kvöld innan og ekki síst utan vallar. Vonandi erum við að fara inn í öllu ánægjulegra einvígi að þessu sinni. Liverpool er farið að sýna smá lífsmark sem er ágætt því liðið hefur verið í basli frá því liðin mættust síðast.

Real Madríd

Undanfarin ár hafa verið nokkuð áhugaverð hjá Real Madríd á leikmannamarkaðnum og augljóst að þar er verið að endurnýja gullaldarliðið sem við stuðningsmenn Liverpool þekkjum of vel og nýjar ofurstjörnur hafa tekið við kerflinu í nokkrum stöðum. Það er alls ekki langt síðan Real Madríd var sagt vera í gríðarlegum fjárhagsvandræðum rétt eins og Barcelona og gætu ekki beitt sér á leikmannamarkaðnum líkt og áður. Fáir gagnrýna ríkisrekin félagslið í Evrópuboltanum meira en spænsku risarnir og ljóst að þeir eru ekki í jafn sterkri stöðu og áður að handvelja bestu bitana á leikmannamarkaðnum.

Einu risastóru leikmannakaup Real Madríd undanfarin þrjú tímabil eru raunar Tchouameni sem er auðvitað alveg dæmigert í ljósi þess að hann var skotmark Liverpool einnig. Camavinga kostaði einnig töluvert m.v. aldur auk þess sem þeir hafa tekið Rudiger og Alaba á frjálsri sölu, báðir leikmenn um og yfir þrítugt á risasamningum. Áður voru þeir búnir að kaupa Vinícius Júnior og Rodrygo þegar þeir voru unglingar en þeir eru að taka við sem stórstjörnurnar.

Hinsvegar hefur gamla bandið verið að kveðja einn af öðrum undanfarin ár. Varane og Casimero eru núna lykilmenn hjá United. Ramos er enn að spila á hæsta leveli, nú hjá PSG. Marcelo er á lokametrinum, síðast í Grikklandi. Isco fjaraði út áður en hann fór og þeir gátu ekki notað Ödegaard sem er áhugavert m.v. hversu góður hann hefur verið á Englandi. Luka Jovic náði svo aldrei að verða arftaki Benzema.

Courtois (30), Nacho (33), Carvjal (31), Vázquez (31), Modric (37), Kroos (33), Asensio (27) og Benzema (35) eru þarna allir ennþá og ljóst að endurnýjun liðsins er ekkert lokið. Það er satt að segja helvíti svekkjandi þegar maður horfir yfir hópinn hjá Real Madíd og svo Liverpool að hafa ekki sigrað þetta bölvaða einvígi í París.

Real vann Osasuna á laugardagskvöldið (spiluðu á eftir Liverpool) og voru í þeim leik án Tchouameni, Kroos og Benzema. Þeir ættu allir að skila sér aftur fyrir ferðina til Liverpool hinsvegar og einu staðfestu meiðslin virðast vera bakvörðurinn Ferland Mendy.

Tippum á að byrjunarlið Real verði eitthvað á þessa leið:

Það er þó alveg eins líklegt að einhver af Benzema, Camavinga, Ceballos eða Asensio byrji inná

Aðalmaðurinn hjá Real í dag er klárlega Vinícius Júnior og hefur hann reyndar verið mikið í fréttum undanfarið fyrir mjög illa meðferð frá stuðningsmönnum andstæðinga Real Madríd sem ítrekað hafa verið með rasísk hróp að honum. Viðbjóður auðvitað sem hefur raunar komið af stað umræðu hvort hann hugi að flutningi frá Spáni fyrir vikið.

Hann er fáránlega teknískur leikmaður og kláraði auðvitað einvígið í París. Auk snilli með boltann er hann svosem brögðóttur á fleiri vegu sem okkar menn þurfa að vara sig á. Tilburðir þarna og taktar sem maður þekkir alveg frá þessu Real liði.

Spænska deildin er jafn æsispennandi og verjulega en öllum að óvörum virðist þetta ætla að verða einvígi milli Barcelona og Real Madríd um titilinn. Barcelona er þó með yfirhöndina í því einvígi með átta stiga forskot og líklega mun Meistaradeildin ekki hjálpa Real Madríd mikið þar. Atletico Madríd bíður þeirra um næstu helgi og eftir seinni leikinn við Liverpool eiga þeir Barcelona helgina á eftir. Barcelona komast á sama tíma ekki í Meistaradeildina og gæti hæglega verið að ljúka leik í Evrópudeildinni í næsta leik.

Rétt eins og í fyrra var Real ekkert rosalega sannfærandi í Meistaradeildinni fyrir áramót, þeir sigruðu vissulega sinn riðil sem var nú ekki sá erfiðasti en gerðu m.a. jafntefli gegn Shakhtar Donetsk og töpuðu úti gegn RB Leipzig. Celtic var hinsvegar engin fyrirstaða.

Liverpool á sama tíma hafnaði í öðru sæti í sínum riðli en tapaði aðeins einum leik og var t.a.m. með fleiri stig fyrir vikið en Real í sínum riðli. Skellurinn í Napoli gegn frábæru liði ítalanna var eina tapið og gaf aðeins fyrirheit um þetta glataða tímabil okkar manna en auk þeirra voru Ajax og Rangers í riðili Liverpool. Það er ágætt að hafa í huga að þetta þunglamalega lið Liverpool vann Napoli 2-0 á Anfield og rústaði bæði Rangers og Ajax á útivelli.

Saga Real Madríd og helstu hetjur

Fjöldi stórleikja gegn Real Madríd undanfarin ár gerir það að verkum að líklega höfum við ekki fjallað eins ítarlega um neitt lið hér á Kop.is fyrir utan ensku liðin auðvitað.

Árið 2014  var það Franco tíminn og áhrif hans og Santiago Bernabeu á félagið.

Árið 2019 kynntum við okkur svo forseta félagsins Florentino Perez, langmikilvægasta mann félagsins á þessari öld.

Árið 2021 voru það svo spænsku risarnir og möguleg endalok valdatíma þeirra.

Það er einmitt mjög áhugavert að lesa þessa pistla og horfa svo á Jamie Carragher ganga frá gölnum rökum Balague um áhrifa ríksliðanna í enska boltanum. Ef að einhver lið ættu að sitja hjá í þeirri umræðu eru það Real Madríd og Barcelona.

Sigur Real í fyrra

Það getur varla komið á óvart að Real Madríd vinni Meistaradeildina en sigur þeirra á síðasta tímabili var nokkuð óvæntur m.v. hvernig liðið komast alla leið í keppninni. Þeir voru sannarlega vel að sigrinum komnir eftir að hafa unnið Inter í riðlinum og svo slegið út PSG, Chelsea og Man City á leiðinni í úrslit.

En…

PSG var komið í 2-0 forystu samanlagt eftir fyrri hálfleik í seinni leiknum en tókst að klúðra því eftir þrennu frá Benzema sem kom Real í 8-liða úrslit. Ekki fyrsta choke-ið hjá frökkunum í þessari keppni.

Chelsea kom til baka eftir 1-3 tap í London og var komið í 0-3 í Madríd þegar tíu mínútur voru eftir, gjörsamlega að ganga frá Real og það í Madríd. Rodrygo skoraði þá til að koma Real í framlenginu og Benzema kláraði einvígið þar.

Man City toppaði þó bæði PSG og Chelsea. Fyrri leikurinn í Englandi fór 4-3 í ótrúlegum leik þar sem Real nýtti að ég held öll sín færi og hélt sér einhvernvegin á lífi fyrir seinni leikinn. Mahrez skoraði fyrst í Madríd til að koma City í 5-3 og þannig var staðan á 90.mínútu. Hvernig City tókst að glopra því niður var ævintýralegt (og fyndið). Rodrygo skoraði tvö mörk í uppbótartíma og Benzema enn á ný kláraði dæmið í framlengingu.

Svona var svo tölfræðin svo í París (sigh)

xG Liverpool 1.98- 0.85 Real Madrid shots map (Actual score LFC 0-1 RMA)

Þeir gátu ekkert klórað sig neitt tæpar áfram og unnu mótið nánast af gömlum vana. Liðið núna er blanda af gríðarlega spennandi ungum leikmönnum og gömlum reynsluboltum, svosem ekki ósvipað Liverpool liðinu. Þrátt fyrir að þetta sé Real Madríd þá á Liverpool síður en svo að fara með einhverja minnimáttarkennd inn í þetta einvígi og ætti þetta einmitt að vera kjörið tækifæri til að gera eitthvað jákvætt við þetta tímabil og skerpa fókus liðsins fyrir lokametrana.

Rétt eins og í vor þá er Liverpool ekkert síðra en þetta Real lið, bara alls ekki.

Liverpool

Það hafa sannarlega verið batamerki á leik Liverpool í síðustu tveimur leikjum en það er alveg ljóst að Real Madríd má alls ekki fá eins mikið pláss sóknarlega og 10 leikmenn Newcastle fengu núna um helgina. Benzema, Rodrygo, Vinícius og Valverde klára svona færi. Þeir unnu keppnina í fyrra með því að refsa alveg fáránlega vel i leikjum þar sem Real var alls ekkert betri aðilinn.

Bacjetic er hægt og rólega að fylla upp í svipað hlutverk og Wijnaldum gerði á sínum tíma en við sáum gegn Newcastle að hann er enn bara 18 ára. Líklega heldur Klopp áfram að treysta honum í byrjunarliðinu en Real Madríd væri sannarlega gríðarlega stórt próf.

Henderson var eins alls ekki jafn ferskur gegn Newcastle og hann var gegn Everton og alveg ástæða fyrir því að maður hefur ekki jafn mikla trú á honum þrjá leiki í röð á einni viku og kannski áður er maður spáði ekki í því í tilviki fyrirliðans. Kannski er jákvætt að Klopp gat leyft sér að taka bæði Henderson og Bajcetic útaf eftir klukkutíma leik um helgina, veit reyndar ekki hvort það var taktískt eða til að hvíla þá? Hef þá áfram í byrjunarliðinu af þeim sökum frekar en Naby Keita sem er þá næstur inn og mögulega réttur kostur í þetta einvígi.

Ef að Darwin Nunez er ekki meiddur ætti sóknarlínan að vera sjálfvalin einn leik í viðbót þar sem Jota og Bobby virkuðu báðir haugryðgaðir ennþá. Það er svo spurning hvort Matip taki meistaradeildarleikinn og Gomez deildarleikina. Tippa þó á að Gomez haldi sæti sínu áfram.

Spá

Ef að Liverpool ætlar að gera eitthvað jákvætt á þessu tímabili held ég að sóknarlínan verði að vera lykillinn af því öllu úr þessu. Miðjan finnst mér ennþá vera mjög ósannfærandi þó batamerki séu á henni og það verður ekki lagað nema á leikmannamarkaðnum. Nunez, Gakpo og Salah hafa allir skorað í síðustu leikjum sem er gríðarlega jákvætt og breiddin á bekknum er töluvert betri með Jota og Bobby sem fyrstu menn frekar en Ox og Jones sem núna komast ekki einu sinni í hóp. Luiz Diaz er svo vonandi að bætast við einnig.

Real Madríd var að spila á laugardagskvöldið og miðja með Modric, Kroos og Tchouameni á ekkert að hlaupa yfir okkar miðju á ferskleika. Gildir einu ef Ceballos byrjar frekar en einhver af þeim. Sóknarlína Liverpool stenst vel samanburð auðvitað og varnarlega er Liverpool ekkert síður mannað, sama í hvaða stöðu maður horfir í vörn og hvað þá markinu.

Alvöru Anfield kvöld og 2-0 sigur takk.

 

20 Comments

  1. Glæsileg skýrsla að venju!

    Vinnum þetta með trylltan heimavöll. Segjum 3-1 þar sem Gapko og Darwin eru orðnir sjóðheitir og taka athyglina frá besta og markahæsta kantmanni heimsins, Salah. Hverjir skoða skiptir engu máli. Vil bara góðan sigur og áframhald á sigurgöngu okkar.

    YNWA!

    14
  2. Ég held að king Salah setji tvær klessur á þá fljótt og svo verði þessu siglt í land með einhverjum
    látum, dómarakjaftæði og amk. Milner með spjald.

    6
  3. Það væri óskandi ef þetta færi 2 – 0
    Ég vona að okkar menn séu komnir með meira sjálfstraust eftir þessa tvo sigra í deildini
    Gott að við eru líka að fá menn til baka úr meiðslum, við erum með mjög góða breidd frammi enn miðjan er meira vandamál.

    FSG out og það STRAX!

    2
  4. Við erum held ég alltaf að fara að vinna. Höfum ekki tapað leik eftir að ég kom Rio Brasilíu.
    Veit varla hvort ég þorfi að koma til Íslands aftur. Eigum svo sem hús á báðum stöðum, en get kannski ekki verið hér fram á vor. Bara tveir leikir svo sem. En allt hrökk í gang þegar ég kom heim til okkar í Brasilíu
    Spái 3-0 fyrir Liverpool auðvitað

    4
      • Sigkarl, það lítur út fyrir það að við séum í minnihluta hvað varðar FSG

        Stór hópur hér er greinilega ánægður með þá og það sem þeir eru að leggja til málana og ef svo er er það er bara í góðu lagi fyrir þann hóp, enn ég bara segi verði þeim að góðu að sætta sig við það stöðuleika ástand sem FSG hefur upp á að bjóða, ég ætla ekki að styðja eða sætta mig við eignarhald FSG það er allveg á hreynu!

        eigið þið góðar stundir

  5. Fréttir af veikindum í herbúðum real, kroos,thouchanemi eða hvað hann heitir, og einn enn. Vonandi fá þeir allir skitu og flensu 🙂

    6
  6. Það er ekkert að því að hafa FSG áfram en þeir þurfa þá að leggja fé í liðið þeira en þeir hafa gert.

    En af RM leiknum þá er þetta BOBA. Við sprikklandi með sáralítið á miðjunni eins og fiskur á öngli og mætum besta liði Spánar. Ég er ekki bjartsýnn þrátt fyrir tvo sigra í röð. Everton leikurinn var í raun eins og æfing. Everton mætti ekki á svæðið og svo Newcastle leikurinn var augljóst að miðjan var ekki til staðar þràtt fyrir sigurinn. Við vorum slakir varnarlega og heppnir að halda lakinu hreinu en þetta sýnir bara hversu mikilvægt það er að skora mörk. Setur pressu á hitt liðið.

    En hvað um það. Ég held að DMC1 og DMC2 hjá RM séu tveir skemmtilegustu ungu leikmennirnir i dag. Hugsið ykkur ef Bellingham bættist í þann hóp. Yikes!

    Erfitt að spá um leikinn því við eigum bágt á miðjunni. Ég bara sé ekki framhjá því. En mörk vinna leiki og við getum spilað illa en samt unnið. Þetta fer allt eftir dagsforminu. Eitthvað segir mer 1-3 RM en hjartað er að vonast eftir hreinu laki og 1-0 eða 2-0. Er bara ekki að sjá það gerast nema Fabinho mæti í supermannskikkjunni.

    3
  7. Ég vil frekar FSG en þeir þurfa að eyða meira í leikmenn!

    8
    • Þetta eru bara tveir hlutir sem aldrei munu fara saman. Aldrei.
      Það er FSG, eða eyða í leikmenn. Aldrei bæði.

      3
    • En nú eru bjartir tímar framundan, sbr. frétt frá Fótbolti.net í gær. Okkar eldklári stjóri virðist loksins búinn að fatta það (að vísu nokkrum árum of seint). Hvílíkur snillingur, hann er með þetta!
      „Við verðum að kaupa inn nýja leikmenn, það er 100% klárt mál. Við verðum að gera breytingar í sumar. Það er augljóst og það átta sig allir á því.”

  8. Sæl og blessuð.

    Hef því miður afar litla trú á því að brokkgengt lið okkar nái að ýta hvítu maskínunni út úr þessu.

  9. Daginn

    Er hérna úti í Liverpool núna og það er heldur betur að byggjast upp andrúmsloftið í borginni.

    Mér finnst fólkið almennt jákvætt fyrir leiknum og ég heyri nú á flestum að það sé almenn ánægja með FSG. Eru enn að stækka völlinn og búnir að styrkja ferðamannageirann í borginni helling er mér sagt.

    Kannski eru þetta meira sófaspekingar í fjarlægum löndum sem eru að pirra sig, veit ekki?

    En þetta verður eitthvað, ég hef smitast af stemmingunni og segi 2-1 fyrir okkar menn. Þegar ég kom út var ég á 0-4 vagninum þannig að þetta er fljótt að breytast.

    5
  10. Ég vil frekar halda með Liverpool oftast í 2. til 5. sæti og með einn og einn bikar á stangli heldur en klúbbi sem er í eigu einhverra Arabaþjóða (eða annarra) sem geta leyft sér allt peningalega af því þeir þurfa ekki að fara að reglunum. Á meðan ströggla allir aðrir í heilbrigðri samkeppni.
    Allt annað er svona eins og að versla alltaf við mafíuna þegar annað er í boði.

    3
  11. Sælir félagar

    Sigur er það eina sem ég bið um. Stórsigur væri dásamlegur og vonandi verður “langa dýrið” í markinu hjá Real M ekki í stuði í kvöld.

    Það er nú þannig

    YNWA

    3
  12. Byrjunarlið Real Madrid: Courtois; Carvajal, Militao, Rudiger og Alaba; Valverde, Camavinga og Modric; Rodrygo, Benzema og Vinicius.

    4-3-3

Newcastle 0 – 2 Liverpool

Liðið gegn Real