“Jæja, þá veit maður hvernig aðdáendum Norwich leið fyrir leiki gegn Liverpool…”
Það er soldið þannig sem okkur líður með það að eiga að spila gegn Real Madrid. Það er komið vel á annan áratug síðan Liverpool vann Real Madrid síðast, árið 2009 nánar tiltekið. Steven Gerrard var á hátindi ferils síns, Fernando Torres var í framlínunni, og Rafa Benitez stýrði herlegheitunum af hliðarlínunni.
Síðan þá hafa liðin leikið 7 leiki, og okkar menn hafa náð í eitt skitið 0-0 jafntefli í þeim leikjum. Reyndar var það með Nat Phillips og Ozan Kabak í miðvörðunum, í apríl 2021. Auk þess er áhugavert að aðeins einn af þessum leikjum fór fram á Santiago Bernabéu, vissulega hefði einn til viðbótar átt að hafa farið fram vorið 2021, en hann var færður á minni völl út af dottlu. Eigum við að rifja upp hvernig Brendan Rodgers stillti upp í þessum eina leik árið 2014? Tja… Markovic byrjaði, Manquillo var í hægri bak, og Borini uppi á topp. Gerrard, Coutinho og Henderson voru á bekk. Látum það duga varðandi uppstillinguna. Sá leikur fór reyndar 1-0 og það var lítt þekktur leikmaður að nafni Karim Benzema sem skoraði fyrir heimamenn.
Ekki er þessi tölfræði nú til að ýta undir bjartsýni manns fyrir þennan leik á morgun. Né sú staðreynd hve útivallaform Liverpool í vetur er búið að vera slakt. Slakt er ekki einusinni rétta orðið; hörmulegt er líklega nær lagi. Liðið er búið að vinna nákvæmlega 3 útileiki í deildinni í vetur: gegn Villa, Spurs og Newcastle. Í ÖLL skiptin sem liðið hefur mætt botnliðinu á hverjum tíma á útivelli hefur sá leikur tapast. Útivallaárangurinn í Meistaradeildinni er þó skömminni skárri: tveir af þremur útileikjum hafa unnist; gegn Ajax og Rangers, og með markatöluna 10-1 reyndar. En við erum hvorki að fara að mæta Ajax né Rangers.
Og svo hjálpar heldur ekki hvernig fyrri leikurinn fór á Anfield. Eftir að hafa komist í 2-0 fór óöryggi að grafa um sig meðal leikmanna, og Real svaraði fyrir með 5 mörkum. Og nei, það er ekki einusinni hægt að fullyrða að sú staðreynd að Tchouameni hafi valið Real hafi skipt máli, því hann var meiddur í þeim leik.
Til að toppa bjartsýnina berast þær fréttir úr herbúðum okkar manna að Henderson sé veikur og hafi ekki ferðast með hópnum til Madríd, auk þess sem að Bajcetic hafi fundið fyrir einhverju og sé út úr myndinni. Jú mikið rétt, við erum farin að setja allt okkar traust á 18 ára ungling og verðum niðurbrotin þegar hann getur ekki spilað.
Höfum við séð það svartara? Já alveg klárlega, bara eins og Sigurður Einar rifjaði upp í síðasta pistli. Og eins og þetta tímabil hefur spilast, þá er bara alveg borðleggjandi að okkar menn eiga eftir að fara inn í þennan leik og rúlla Real upp. Ég ætla því að spá því hér og nú að okkar menn verði í pottinum þegar verður dregið í 8 liða úrslitin.
Tökum frá hinum ríku og gefum hinum fátæku. Það er stemmingin í ár.
Uppstillingin
Höfum það á hreinu að mér er drullusama hvernig Real stilla upp. Þeir eiga óþolandi góða leikmenn í öllum stöðum, líka þótt einhverjir þeirra séu meiddir.
Það eru okkar menn sem maður hefur mun meiri áhuga á. Öftustu 5 eru væntanlega sjálfvaldir, og miðað við hvernig Klopp hefur verið að stilla upp í síðustu leikjum, þá er lang líklegast að Nunez, Gakpo og Salah taki framlínuna.
En það er þetta með miðjuna.
Fab er vissulega búinn að vera að koma til baka, og er farinn að sýna gamla takta. Eins hefur Elliott aðeins verið að vaxa í sínu hlutverki á miðjunni. En hver verður með þeim? Lang líklegast er að það falli í skaut nýjasta MBE orðuhafanum, hins eina sanna James Milner. Það er smá séns að Klopp tefli djarft og kasti Carvalho í djúpu laugina, en þó afar ólíklegt. Hann og Curtis Jones hafa verið aftarlega í röðinni, hafa komið inn á seint í leikjum ef þá yfirhöfuð. Varla fer hann að tefla fram Keita eða Ox, hvorugur var í hóp í síðasta leik. Líklega er Keita líka meiddur hvort eð er.
Við eigum svosem líka eitt stykki Arthur Melo á bekknum. Hann á ennþá heilar 13 spilaðar mínútur fyrir klúbbinn, en hei hann var á bekk í síðasta leik (kom að vísu ekki inná).
Síðasti möguleikinn er líklega ef Klopp fer eitthvað að prófa sig áfram með 4-2-3-1, og henti annaðhvort Jota eða Bobby fram með þremenningunni, en er Elliott maður í að spila í sexuhlutverkinu við hliðina á Fabinho? Ekki viss…
Sumsé, þetta verður líklega svona:
Trent – Konate – Virgil – Robbo
Elliott – Fab – Milner
Salah – Gakpo – Nunez
Kvennalið Liverpool gaf skýrsluhöfundi þessa ljómandi fínu afmælisgjöf um helgina, svo nú er komið að strákunum. Ég panta eins og eitt stykki sæti í 8 liða úrslitum í afmælisgjöf. Er það nokkuð til of mikils mælst?
“If we cannot win, then lets fail in the most beautiful way”. “From doubters to believers”. Við vitum alveg hvað þetta þýðir. Við vitum hvað þetta lið okkar getur gert, og við trúum á strákana okkar, alveg fram á síðustu mínútu. Ekki af því að það þýði að þeir vinni hvern einasta leik, því það gera þeir ekki um þessar mundir og hafa reyndar aldrei gert. Heldur af því að við stöndum alltaf upp, og höldum alltaf áfram að styðja við strákana okkar.
Alltaf.
Spái þessu dramatísku á morgun.
4-2 sigur þar sem Benzema skorar alveg í lokin.
Vona að ég hafi rangt fyrir mér.
Up the reds!
Takk Daníel fyrir að spá okkur áfram í átt liða úrslitin og ég ætla að deila þeirri bjartsýni þinni og spá okkur sigri en hvernig í ósköpunum sem við förum nú að því en annað mál sem ég treysti mér ekki til að spá um.
Mér hefði líka aldrei tekist að spá fyrir um það hvernig liðinu tókst að vinna Barcelona á sínum tíma. Að Trent myndi grípa allt Barca liðið í landhelgi á 78. mínútu og gefa á óvaldaðan Origi í miðjum teignum úr horni. Ég bara hefði ekki haft hugmyndaflug í slíkt.
Sæl og blessuð.
Takk fyrir skínandi góða upphitun. Enginn Hendo – engin hætta á kraftaverki.
4-2-3-1 með Milner og Fab á miðjunni.
Líst vel á en Jurgen of þrjóskur til að samþykkja þetta!
Svo virðist þetta bara vera uppleggið eftir allt saman.
Hvað með að stilla upp miðjunni
Bobby – Fab – Elliott
Hendo heima…. hef enga trú á þessu án hans, sorry!
Hvað með að prófa Trent á miðjuna hvort heldur í kvöld eða næstu leikjum??
Milner-inn þá í bakvörðinn…… why not?
Sammála. Mér finnst spennandi að setja Trent inn á miðjuna eins og gert var með Kimmich hjá Bayern en ég er líka spenntur fyrir að sjá Gagpo aftur á miðjunni. Finnst hann vera með hraða og sprengikraft sem okkur hefur vantað
Já verum bjartsýn. Þetta gæti alveg gengið.
Það er samt skrítið að hafa verið besta lið í heimi á síðasta ári, og í raun aðeins tapað úrslitaleiknum í Meistaradeildinni vegna þess að litla liðið pakkaði í vörn og rúmlega það og voru stálheppnir að vinna, en mæta svo í þennan leik, ári seinna gegna sama liði, í nánast vonlausri stöðu.
Í mínum huga hafa leikmenn og þjálfarar boðið okkur áhangendum upp á frammistöður í vetur sem eru einfaldlega til háborinnar skammar. Sú síðasta var um síðustu helgi en versta frammistaðan var gegn Real Madrid, á nota bene Anfield, eftir að VIÐ komumst 2 – 0 yfir.
Það eru jú margar ástæður eins og meiðsli og álag sem veldur þessu en ég set stórt spurningamerki við hugarfar nýju og ungu leikmannana þó það sé á vissan hátt ósanngjarnt.
Við erum með síst lakara lið en Madrid og getum unnið þá á þeirra heimavelli með þrem mörkum eins og þeir gátu unnið okkur á Anfield.
Eigum við ekki að segja að leikmenn og þjálfarar skuldi okkur alvöru frammistöðu þó ekki sé farið fram á meira.
Áfram Liverpool!
Þú átt klárlega skilið í afmælisgjöf að fá Liverpool í 8 liða úrslit sérstaklega á svona stórafmæli.
Líkurnar eru kannski ekki miklar en það má alltaf láta sig dreyma.
Sælir félagar
Eftir skituna á síðasta laugardag er nákvæmlega EKKERT sem segir manni að liðið komist áfram í þessari keppni. Ekki síst með miðjuna í henglum, þökk sé FSG. Þess vegna fer ég bara fram á sárabótarsigur á helv . . . Madridaliðinu, svona bara fyrir heiðurinn og okkur stuðningsmenn. Spái þess vegna 1 – 2
Það er nú þannig
TNWA
FSG out og það STRAX
Stórtap biðst við að liverpool verði sér til skammar í kvöld.
Ekki horfir maður á leikinn.
Krakki og gamal mennni a miðjunni i kvöld og a moti Real M
Æi hvað þetta er eitthvað aumingjaleg miðja
Það er nu þannig
Þetta verður rúst hjá Real og mögulega munu einhverjir leikmenn hjá Liverpool meiðast í þessum leik, og þetta munu verða síðustu naglar í líkistu Klopp sem verður svo látinn hætta í vor.