Upphitun: Topplið Arsenal mætir á Anfield

Eins óspennandi og þetta tímabil er orðið halda leikirnir áfram að bætast við og á morgun mæta Arsenal líklega dýrvitlausir á Anfield þar sem þeim vantar stigin þrjú til að reyna gera það sem okkur tókst aðeins einu sinni að gera þegar við áttum frábært lið, að skáka Manchester City í baráttunni um Englandsmeistaratitilinn.

Andstæðingurinn

Arteta hefur náð ótrúlegum árangri með þetta Arsenal lið. Honum hefur tekist að henda út skemmdum eplum og koma inn yngri strákum sem hafa nú spilað saman í smá tíma og eru nú með átta stiga forskot á toppi deildarinnar, þó á City leik inni. Í fyrra tókst þeim að klikka á lokakaflanum og missa af Meistaradeildarsæti en litu vel út og gerði maður ráð fyrir sterku Arsenal liði í ár sem myndi gera atlögu að þriðja sætinu en aldrei bjóst maður við því að þeir yrðu þetta góðir. Vissulega eru mörg af stórliðunum að eiga afleitt tímabil, við þar á meðal, en það er ekki hægt að taka það af Arsenal að þeir hafa verið að spila vel og taka erfið stig inn á milli í leikjum þar sem ekkert virðist vera að ganga upp og eiga fyllilega skilið að vera þar sem þeir eru í dag.

Það er ekki mikið af meiðslum í herbúðum Arsenal en helst ber að nefna að það er ekki ljóst hvort Saliba nái leiknum á morgun en auk hans eru Nketiah og Tomiyasu frá vegna meiðsla. Ef Saliba nær ekki leiknum á morgun mun Rob Holding leysa hann af eins og í síðustu tveimur leikjum og venjulega myndi maður horfa á það sem veikleika en eins og oft í liðum sem gengur vel hefur hann leyst síðustu tvo leiki mjög vel.

Okkar menn

Það verður áhugavert að sjá hvernig Klopp ákveður að stilla upp á morgun hann hefur ekki farið ljúfum höndum um frammistöðu eigin leikmanna í síðustu tveimur leikjum og gerði mikið af breytingum fyrir Chelsea leikinn sem gengu fæstar upp.

Van Dijk er farinn að æfa aftur eftir veikindin sín en ólíklegt að við sjáum Thiago eða Diaz í þessum leik en talið líklegt að þeir verði báðir klárir fyrir leikinn gegn Leeds um næstu helgi.

Miðsvæðið er því enn stóri hausverkurinn ekki aðeins í gæðum heldur eru kostirnir einnig takmarkaðir. Jones kom inn gegn Chelsea og var ekki sérstakur, af einhverjum ástæðum var Elliott ekki einu sinni í hóp í þeim leik sem er enn frekar óskiljanlegt. Sé ekki Klopp byrja með Milner í svona leik og hvað þá meiðslapésunum Arthur og Chamberlain. Henderson og Fabinho hafa síðan báðir verið hvað slakastir í vetur þegar það er stutt milli leikja en eigum bara ekki nægilega mikið af miðjumönnum til að sjá hann hvíla þá.

Hef sjaldan verið jafn óviss um hvernig maður ætti að spá byrjunarliði en endaði á að skjóta á þetta lið. Gomez var ágætur gegn Chelsea og gæti séð Klopp taka séns á honum aftur gegn Martinelli og Trent komi svo aftur inn í liðið gegn Leeds. Geri ráð fyrir að Hendo og Fab byrji leikinn og set Elliott með þeim því hann þessi miðja hefur gengið ágætlega upp saman þegar þeir hafa fengið að spila þrír saman nema gegn City um síðustu helgi. Jota hefur svo spilað 160 mínútur í vikunni ný stiginn upp úr meiðslum þannig það kæmi mér mjög á óvart ef hann byrjar leikinn og ég vonast til að sjá Nunez-Gakpo-Salah fá fleiri sénsa til að spila sig saman margt áhugavert við þetta þríeyki þrátt fyrir að það hafi ekki alltaf gengið frábærlega.

Spá

Það er erfitt að vera jákvæður þessa dagana. Eftir sigra Newcastle og Man United í vikunni eru núna tíu stig í fjórða sætið með tíu leiki eftir og þetta run sem maður gerði lengi ráð fyrir að við myndum einhverntíman fara á til að gera atlögu að Meistaradeildarsætinu kom aldrei. Miðað við núverandi stigasöfnun myndum við enda með 57 stig, stigi meira en West Ham náði á síðustu leiktíð og yrði það okkar slakasta tímabil síðan 2011-12 þegar við náðum 52 stigum undir Kenny þegar liðið gafst upp í byrjun febrúar.

Hinsvegar hefur heimavallagengið verið gott og er liðið búið að sækja 70% stiga sinna á Anfield og aðeins tapa einum heimaleik, það gegn Leeds í október. Ég ætla því að spá 2-2 jafntefli þar sem við lítum aðeins betur út en á undanförnum vikum en lekinn í vörninni verði okkur enn einu sinni að falli. Salah og Nunez komi liðinu í tveggja markaforrustu snemma leiks en missum það niður í jafntefli í seinni hálfleik.

17 Comments

  1. Eftir úrslitin í dag skiptir þessi leikur litlu máli fyrir Liverpool. Við náum aldrei CL sæti.

    Veit ekki hvort Klopp er rétti maðurinn í að byggja upp nýtt lið. Hann vildi hafa Bobby áfram og framlengja samninginn við Milner. Hef dýrkað hann undanfarin ár en núna er ég hættur að skilja hann.

    Það eru öll lið búin að lesa okkur en hann spilar alltaf sama kerfið þrátt fyrir að núverandi leikmannahópur bjóði ekki upp á það.

    Er bara sorgmæddur yfir því hvað við sváfum á verðinum eftir að við unnum PL 2020. Leikmannakaupin hafa ekki heppnast undanfarin ár og því er staðan svona. Við höfum bara einn matchwinner î liðinu í Salah og hann er búinn að dala mikið. City fær mörk úr öllum áttum ólíkt okkur. Nunez, Gakpo, Diaz og Jota eiga allir eftir að sanna sig.

    Það verður ennþá erfiðara að nà CL sæti á næsta ári. United eru að ná vopnum sínum aftur og Newcastle munu opna veskið hraustlega. Hvaða leikmenn verða þá tilbúnir að koma til okkar ? Það verður tíminnn einn að leiða í ljós.

    Í dag er ég hreinlega bara sorgmæddur…..

    9
  2. Glasið mitt er búið að vera hálf fullt í allan vetur ég hef alltaf haft trú á því að nú sé þetta að koma hjá okkur en nú bregður svo við að helvítis glasið er að verða hálf tómt og þynkan farinn að gera vart við sig.
    Eins mikið og ég held upp á Klopp þá get ég oft engan veginn áttað mig á skiftingum hans í leikjum eða það að hann skuli ekki reyna að bregðast við með því að láta liðið spila aftar og verja markið betur, við erum með þrælspræka og fljóta sóknarmenn í Salah og Nunez sem ættu að geta nýtt sér hraðan.
    Það virðist vera borin von að liðið ráði við þennann bressubolta sem Klopp vil láta liðið spila.
    Ég styð Klopp samt enþá sem stjóra, það hefur margoft sýnt sig að það er engin töfralausn að reka stjórann eins og dæmin sanna, hvað tók það man utd og Arsenal langan tíma að ná vopnum sínum eftir að gamli rauðnefur og sá franski hættu að þjálfa liðinn svo ég tali nú ekki um vitleysuna hjá Chelsea í vetur.
    Þegar menn eru að heimta nýja eigendur fyrir Liverpool þá er ekkert sem segir að við gætum ekki fengið álíka pabbakassi eins og keyptu Chelsea, þá vil ég nú frekar hafa sömu eigendur áfram enda hafa þeir gert margt gott fyrir klúbbinn.
    Þrátt fyrir að glasið mitt sé að verða hálftómt þá ætla ég samt að spá okkur sigri á Arsenal 3-2.
    YNWA.

    10
  3. Þetta mun verða erfiður leikur gegn andstæðingi sem er búinn að vera mun sterkari enn við í vetur
    Mín spá 1 – 3

    Ég er ekki að kalla eftir eigendum sem eyða peningunum eins og Chelsea. Ég vil eigendur sem bregðast skjótt við þegar þörf er á, FSG fær falleinkun hjá mér þegar kemur að því. Eins og staðan er núna er ekkert annað enn eigendaskipti sem getur bjargað Liverpool og komið klúbbnum á þann stað sem klúbburinn á að vera á.

    YNWA

    5
  4. Það eyðileggur nokkra daga fyrir mér þegar Liverpool tapar. Sumir leikir eru verri en aðrir og loða yfir manni lengur. Eins og staðan er í dag þá náum. Ið ekki 4.sætinu og þá er mér í raun alveg sama. Ég vil að Arsenal taki dolluna og því vil ég tap á morgun. Ég veit. Þetta er ömurlegt að þurfa að segja. Við verðum í engum vandræðum með að fá leikmenn til okkar í sumar þrátt fyrir CL leysið þannig að það breytir litlu. Mipjumenn sem vilja spila vilja fara til Liverpool.

    Allt annað en eitthvað frá manchester.

    2
    • Af hverju ættu miðjumenn að velja Liverpool frekar en önnur lið?

      3
      • Af hverju ættu leikmenn yfirhöfuð – miðjumenn og aðrir – EKKI að velja Liverpool? Þó liðið sé í lægð núna, þá er ekkert sem bendir til að liðið sé að breytast í Sunderland eða Derby. Topp æfingaaðstaða, besti heimavöllur í heimi (þegar áhorfendur mæta með hausinn rétt skrúfaðan á sig), besti stjórinn, og að lokum besti aðdáendahópurinn. Svo er klúbburinn sjálfbær peningalega. Núna er einmitt hárrétti tíminn fyrir metnaðarfulla leikmenn að koma til liðsins, hjálpa til við að rífa liðið upp í hæstu hæðir, og uppskera fyrir það takmarkalausa lotningu aðdáenda.

        9
      • Daniel, eru ekki allir klúbbarir sjálbærir að lámarki peningalega?

        Ég sé nú ekki fyrir mér þessa stundina að gæða leikmenn séu að bíða í hrönnum að komast til Liverpool, það mun ekki gerast fyrr enn með nýum og betri eigendum.

        YNWA

        4
  5. Trent er með 1 mark og 2 stoðsendingar í deildinni á þessari leiktíð. Meira er það nú ekki.

    En hægri bakvörðurinn Conor Bradley sem Liverpool lánaði niður í fyrstu deild, til Bolton, er með 7 mörk og 6 stoðsendingar – reyndar í öllum keppnum en mér er sama. Piltur sem Liverpool hafði ekki not fyrir er að gera talsvert betra mót heldur en gulldrengurinn TAA í sömu stöðu.

    Þessi vetur er ekkert eðlilega glataður…

    5
  6. Sælir félagar

    Maður verður að vona og það er í raun það eina sem maður getur gert því liðið hefur verið að spila illa undanfarið og strax farið að snjóa yfir 7 – 0 leikinn vegna ömurlegra úrslita síðan. Nú segir slúðrið að Bellingaham sé ekki lengur aðalskotmark LFC heldur Aurelien Tchouameni sem Real selur líklega til að fjármagna kaupin á Bellingham. Er einhver hissa á þessu? Allavega ekki ég.

    Liverpool er þegar farið að lækka viðmiðin í leikmannakaupum og belginginn um Bellingham. Ekki yrði ég undrandi þá við enduðum á að kaupa einhver “vonnabí” úr neðri hillum leikmannaframboðsins miðað við hvernig frammistöður síðustu ára. Það er langur vetur frammundan hjá liðinu okkar og ekki sjáanlegt að það fari að vora á næstu árum. En hvað leikinn í dag varðar þá verður maður að vona þó likurnar séu nánast engar á sigri.

    Það er nú þannig

    YNWA

    3
    • Sigkarl. Held þú lesir alveg rétt í stöðuna.

      Það er alltaf verið að kasta ryki í augu okkar sem styðjum LFC. Orðaðir við ýmsa leikmenn en ekkert verður úr því. Svo koma gömlu frasarnir um að næsta sumar verði stórt.

      Af hverju ættu leikmenn að vera spenntir yfir því koma til okkar þegar allt í rjúkandi rúst ?

      2
  7. Held að leikmenn sem skipta um lið séu lítið að hugsa um hvort liðið sé peningalega sjálfbært eða stuðningsmenn séu öflugir. Langflestir hugsa um góð laun og langan samning.
    Samkvæmt slúðrinu í dag erum við orðaðir aftur við Tchouameni hjá Real Madrid.Ég las viðtal við hann um daginn þar sem hann fullyrti að valið hefði staðið á milli Real Madrid og PSG. Talaði ekkert um Liverpool.

    1
  8. Ég er á því að staðan er aldrei eins slæm og við höldum og aldrei eins góð og við héldum. Fyrir mér er þetta eitt af mörgum ekki góðum tímabilum hjá Liverpool. Það er margt að liðinu í dag en ég tel að við séum með leiðtoga innan vallar sem utan sem vita hvað þarf að gera til að snúa þessu gengi við.

    Auðveldasta í heimi er að detta í þann gír að allt sé vonlaust en erfiðara er að sjá sónarljósið í gegnum skýin. Við munum líklega tapa leiknum í dag því að Arsenal eru því miður betra lið en við í dag(reyndar betri en öll lið í deildinni nema kannski Man city) en þetta er Anfield og það gefur mér von að við getum fengið eitthvað úr þessum leik.

    YNWA – Hef trú á Klopp

    4
  9. Rúllum yfir Arsenal í dag og förum á 10 leikja sigurrun og rétt slefum í 4 sætið.
    Arthur verður maður leiksins í dag.

    7

Tiltektin framundan í sumar

Byrjunarlið gegn Arsenal