Liverpool 2 – Arsenal 2

Það lagast ekki tímabilið svo sem. Held að bjartsýnasti LFC maður sögunnar geti ekki lengur reiknað með Meistaradeildarsæti. Enda eigum við það sennilega ekki skilið en það verður þó að segjast að úr því sem komið var þá held ég að stigið sem við fengum í dag getum við sagt að hafi sýnt töluverðan karakter.

Fyrri hálfleikur

Ég veit ekki alveg hvað maður á að segja með upphaf leikja þessa liðs okkar. Við bara komum inn í þennan leik linir, langt frá sínum mönnum og bara eitt lið sem var tilbúið. Stundum sleppum við með það en sannarlega ekki gegna efsta liðinu.

Fyrsta markið kom á 8.mínútu þegar snögg sókn fór í gegnum miðjuna okkar og alla vörnina þar sem Virgil og Robbo litu hvor öðrum verr út og Martinelli potaði i´fjærhorn. Við löguðumst ekki neitt, þó fékk Robbo gott færi en skaut framhjá og stuttu seinna var staðan 0-2. Arsenal ótrúlega óvænt notaði svæðið aftan við Trent þar sem sending kom inní, Virgil sofandi og Gabriel Jesus stangaði í fjærhorn. Leikurinn virtist bara einfaldlega farinn, við bara áfram ráðalitlir.

En þá allt í einu ákvað Granit Xhaka bara að gera smá árás á Trent sem brást við og í kjölfarið urðu mikil læti leikmanna sem virtist sannarlega búa til hasar og djöfulganginn sem við þurftum. Við náðum smá látum og Salah setti boltann í netið á 42.mínútu þegar hann lá sem gammur á fjær. Við náðum svo áfram að hamast en í hálfleik stóð 1-2.

Seinni hálfleikur

Við fórum á fullt í upphafi hálfleiksins og ýttum Arsenal aftur. Á 52.mínútu sótti Diogo Jota víti eftir horn…og…Mo nokkur Salah fór á punktinn við litla gleðina í mínum húsum þar sem mér finnst Salah bara einfaldlega ekki góð vítaskytta. Eins og gegn Bournemouth þá ákvað hann að hitta bara ekki markið og áfram 1-2. Þarna vorum við í góðum gír og héldum þannig áfram. Færin létu þó á sér standa lengi vel, við skiptum Thiago og Darwin inná og Úrúguayinn snjalli nýtti það ekki að komast einn gegn Ramsdale. Og þá hélt ég vissulega að við yrðum ekki í fleiri sénsum.

Inná kom þá kóngurinn Bobby Firmino og Trent ákvað að búa til mark fyrir kónginn með skalla á fjær eftir að no. 66 fíflaði Zinchenko fyrir krossinn.

Sex mínútna uppbótartími gaf okkur tvö góð dauðafæri sem Aaron Ramsdale varði á fáránlegan hátt. Sérstaklega skot sem Salah átti með snertingu í varnarmanni. Það var hreint stórkostleg varsla. Ramsdale maður leiksins að lokum, 2-2 úrslit og stig á hvorn.

Uppgjör leiks

Hroðalegur, ömurlegur steindauður fyrsti þriðjungur, fínt eftir það. Veit sannarlega ekki hvað þarf að gerast til að við bara byrjum leiki almennilega, en frábært að pakka saman Arsenal í seinni hálfleik.

Við erum nú 12 stigum frá Meistaradeildarsæti, þurfum að vinna alla sem eftir er og treysta á hrun fjögurra liða til að við fáum sæti þar.

En fyrst og síðast vil ég sjá LFC liðið sem spilaði seinni hálfleik það sem eftir er af tímabilinu takk!

27 Comments

  1. Þetta voru svo sannarlega 2 töpuð stig í dag og með ólíkindum að við höfum ekki unnið þennan leik. Salah með ömurlegt víti og við hefðum átt að fá annað víti þarna í lokin.
    Frábær leikur í seinnihálfleik og maður spyr sig af hverju menn spila ekki á þessu tempói oftar

    8
    • Nú fór orka næstu vikna í þennan eina hálfleik, eins og gegn United um daginn.

      4
  2. Púra víti í lokin. Salah ekki á deginum sínum og svolítið grátlegt að sjá liðið svona gott í einum hálfleik, og fá helminginn af stigunum sem þeir ættu að hafa fengið í vetur ef þeir spiluðu alltaf svona. Dómgæsla ekki fallið með okkur heldur. En so is life!

    8
  3. Góð frammistaða eins og gegn United um dagonn. Þýðir líklega mánuð af volæði.
    Þessi úrslit þýða að við erum endanlega búnir að missa af 4. sætinu.
    Salah og Nunez (eins og alltaf) skúrkar í færunum, Van Dijk áfram heillum horfinn.
    Call the season off!

    4
  4. Pjúra víti í lokin og það verður spennandi að vita hvað kemur út úr olnbogaskotinu sem Andy fékk frá línuverðinum í hálfleik. Ég man ekki eftir að hafa séð annað eins nema í Klovn-þætti.

    12
  5. Í mörg ár vorum við alltaf að tala um næsta ár. Þetta tímabil er þannig — en samt ekki. Við erum með rosalegt lið sem er eins og hljómsveit í lok heimsreisu. Gott frí, nokkrir nýir, yngri, hraðari miðjumenn og við gefum út nýja plötu í haust.

    Verður samt hræðilegt að vera ekki í UCL.

    9
    • Verður ekki flott að spila í Sambandsdeildinni næsta vetur og ná vopnum sínum á ný.

      4
  6. Urðum að vinna þennan leik og meistaradeildarsætið úr sögunni.

    Liðið átti ekki break í Arsenal og það var ekki fyrr en Trent náði að kveikja í Anfield sem menn girtu sig í brók og sýndu smá hjarta.

    Salah átti að láta sig falla í lokin og þess vegna fengum við ekki víti og þegar leikurinn er gerður upp er hann skúrkurinn.

    Ég ætla ekki að segja meira um þennan leik en hef sterklega á tilfinningunni að seinni hálfleikurinn blekki okkur áhangendurnar eins og 9-0 og 7-0 leikurinn gerðu.

    Við eigum langt í land því miður.

    Áfram Liverpool!

    7
  7. Frábær leikur í seinni hálfleik. Sýnir hvað þeir geta þegar ástríðan er til staðar. Trent á allan daginn að spila sem miðjumaður. Hann fór mikið inn á miðjuna í þessum leik og það breytti leiknum. Hann gæti alveg orðið nýr Gerrard.

    15
    • Það held ég ekki. Gerrard var með skrokk í box to box midfielder. Gerrard gat tæklað osvfl. Trent hefur bara sendingagetuna

      5
  8. Hærra xG frá Liverpool gegn Arsenal í þessum leik heldur en gegn United í 7-0 sigrinum…jæja það er ekki slæmt.
    Ótrúlegt að Liverpool hafi ekki unnið þennan leik.

    7
  9. Með aðeins betri varnarleik værum við betur staddir, hrein skelfing að fá á sig svona aula mörk. VVD er bara búinn að vera lélegur lengi.

    12
  10. VVD hlýtur bara að vera kominn með tilboð eða loforð um flutning eftir þetta season. Hann er bara alveg farinn þarna inn á vellinum.

    5
  11. Það er eðlilega verið að gagnrýna varnarleikinn, en hvað með sóknarleikinn ? Jota og Gabko voru bara virkilega lélegir í þessum leik.

    6
  12. Þessi leikur var frábær skemmtun þótt vissulega hefði verið meira gaman ef við hefðum náð að vinna leikinn.
    Það eru ekki mörg lið sem koma til baka á móti Arsenal eftir að hafa lent tveim mörkum undir, Liverpool liðið óð í færum í seinni hálfleik og hefði að öllu jöfnu átt að vinna leikinn.
    Við vitum hvernig Trent er í vörninni það er ekkert nýtt að hann sé ílla staðsettur þar en yfirleitt er hann frábær fram á við og hann væri ekki að spila svona framarlega ef það væri ekki uppleggið hjá Klopp, það er mikið áhyggjuefni hvernig Van Dijk hefur verið að spila í vetur, hann hefur farið úr því að vera meðal bestu miðjumanna heims í það að geta alltaf of mörg mistök.

    5
  13. Verulega pirraður, fyrst með ömurlegan fyrri hluta fyrri hálfleiks og svo með að liðið skyldi ekki drullast til að vinna þennan leik, það voru sko heldur betur tækifærin til þess.
    Drullum sull og sullum bull og ojbjakk …
    Alveg búinn að gefast upp á þessum leikmönnum, alveg.
    Hefði viljað skipta 11 inná í hálfleik, og já, mér fannst Allison eiga að gera betur í marki 2.
    Eigum bara akkúrat ekkert skilið út úr þessari leiktíð, ekki neitt, erum heilt yfir búnir að vera hrein hörmung. 4 sætið löngu farið og kannski bara best að vera utan Evrópu í eitt tímabil á meðan verið er að búa til nýtt lið.
    Eina jákvæða við þessa skitu er að nú ætti FSG að sjá að þessi innkaupastefna er ekki að gera sig og það þarf að styrkja og endurnýja liðið, ekki bara nóg að kaupa í staðinn fyrir þá sem eru að fara, það þarf líka að styrkja það með meiri gæðum, en, hvað veit maður hvað þeir gera?

    6
  14. Ef frá er talinn fyrsti hálftíminn þá var þessi leikur bara þrælskemmtilegur. Alveg grútpirrandi að okkar menn skyldu ekki geta troðið fleirum af þessum fjölmörgu sjensum í markið og hirt öll þrjú stigin. En hvenær kom Liverpool seinast til baka eftir að hafa verið tveimur mörkum undir? Það er langt síðan. Þarna glitti í gamla góða liðið. Með Anfield á bak við sig geta þeir hvað sem er.

    Af einstökum mönnum:

    Vörnin er rysjótt. Mikið skelfing væri gott ef Konaté héldist heill að staðaldri. Hann er alveg magnaður leikmaður. Það er “bara” þetta með endalaus meiðsli… Maðurinn við hliðina á honum, Superman sjálfur, er hinsvegar bara skugginn af sjálfum sér. Það ástand er komið til að vera og nú þarf Klopp að vera harður og kaupa eftirmann van Dijk. Sömuleiðis þarf samkeppni við Robbo og Trent, eða þá þessa breytingu sem margir hafa kallað eftir: að Trent færist upp á miðsvæðið og annar taki við hægri bakverðinum. (Ekkert endilega Gomez…)

    Ég er ekki og verð ekki aðdáandi Curtis Jones en hann má eiga það að hann startaði stórglæsilegri sókn sem endaði með marki. Hinsvegar er engin framtíð í leikmanni sem límir sig við boltann og gleymir því jafnharðan að það eru ellefu manns í liðinu og meiningin er að spila saman – ekki bara sóla sjálfan sig hring eftir hring. Bæði Jones og Elliott mega fara mín vegna. Ég sé ekki hlutverk fyrir þá í þessu liði. Hendó gamli var fínn og hann á þetta til einstöku sinnum ennþá, en nú fer hans dögum hratt fækkandi í byrjunarliðinu, held ég. Annað getur ekki verið. Enginn hraði lengur. Sama gildir um Fabinho. Hann er of seinn í allt og safnar spjöldum. Bráðum verða það tvö gul í sama leiknum.

    Frammi þarf Salah að fá hraustlega samkeppni eða (dare I say it?) nýtt lið. Of gráðugur, of eigingjarn, og augljóslega skíthræddur um að vera að tapa guðastatus meðal Egypta – því hann er ekki nærri því eins góður og hann var. Langt því frá. Hefur ekki verið síðan Afcon var og hét. Tapar boltanum allt of mikið og nýtir færin hörmulega. Og nú þarf annan mann á vítaspyrnurnar, takk. Ekki meira svona að brenna af þriðju hverri spyrnu. Mér finnst pínulítið óljóst hvernig þessir fjórir, Diaz, Nunez, Gakpo og Salah eiga að virka. Eða hvort þeir virka. Ef heppnin er með verða þeir frábærir en Nunez er svakalega óhittinn (taugaóstyrkur?) og við vitum ekki hvaða styrkleika af Diaz við fáum til baka eftir þessi löngu meiðsli. Jota er bara varaskeifa og mætti jafnvel fara. Þannig er nú það.

    Ég held að við rúllum upp Conference League næsta vetur. Það verður ný reynsla fyrir Klopp og co. að spila við austantjaldslönd og minniháttar spámenn.

    5
    • Mikið er ég ánægður hvað þú ert jákvæður og ánægður með liðið okkar en ég vildi bara benda þér á að þú hefur gleymt að Alisson hefur líka gert mistök og því verðum við að losna við hann líka eins og restina af liðinu.

      3
      • Ég sé að fregnir af versnandi lesskilningi íslenskra drengja eru réttar. Það er ekki gott.

        3
  15. Fyrir ári gátum við spilað lélegan leik og fengið þrjú stig. Núna spilum við frábærlega og fáum eitt stig.
    Call the fucking season off.

    2
  16. Arsenal eru með hörkulið og vorum við fyrsta liðið á þessari leiktíð til að láta þá pakka í 11 manna varnarpakka í 30 mín.
    Mér finnst að það megi gagnrýna liðið mikið á þessari leiktíð en þessi Arsenal leikur var heilt yfir mjög góður og skil ég ekki þessa neikvæðni eftir þennan leik.
    Þetta er líklega uppsafnaður pirringur en eina sem Klopp og strákarnir geta gert er að reyna að bæta sig og taka einn leik í einu og er pínu ósangjart að hakka þá í sig eftir hvern einasta leik út af uppsafnaðri gremju.
    Þetta var samt langt í frá að vera fullkominn leikur. Varnarmisstök í tveimur mörkum, víta klúður og vera næst besta liðið fyrstu 30 mín.

    YNWA

    9
  17. Sælir félagar

    Ég horfði á leikinn í dag enda sá ég hann ekki í leiktíma. VvD var slakur í mörkum Arsenal en eftir fyrsta hálftímann var hann magnaður og gríðarlega þéttur fyrir. Liverpool hefði átt að fá amk. eitt víti í lok leiks ef ekki tvö. Það var eins og dómarinn teldi að vítspyrnukvóti Liverpool væri upp urinn eftir vítið sem Salah klúðraði. Enn eitt merkið um að dómarar dæma ekki alltaf leiki heldur lið. Þetta stig gerir lítið fyrir okkar lið nema ef til vill að bakka aðeins upp sjálfstraustið og svo verður varnarleikurinn að batna.

    Eikunnir manna frá mínum bæjardyrum séð.

    Alisson 6 Hefði á góðum degi tekið seinna markið.
    Trent 7 Var gríðarlega góður fram á við í svolítið breittri rullu
    Konate 9 Líklega besti leikmaður liðsins í þessum leik, minn maður leiksins
    VvD 6 Vann sig inn í leikinn eftir fyrstu 20 mín og steig varla feilspor eftir það
    Fab 6 Var bara svona Fab á skárri skónum sínum þessa leiktíðina
    Hendo 6 V ar á pari við sjálfan sig í vetur
    Jones 7 Líklega besti leikur hans í vetur
    Jota 5 Búinn að vera slakur eftir að hann kom til baka og var það líka núna
    Gagpo 6 Hefur átt betri leiki en var sívinnandi og barðist vel
    Salah 7 Þar sem markið sem hann skoraði bjargaði honum og svo átti hann að fá víti í uppbótartíma

    Varamenn:
    Darwin 5 Átti að skora eins og oft áður en klúðraði dauðafærinu sínu – eins og stundum áður
    Firmino 8 Fyrir markiðFrammistöðuna
    Alcantara 6 Kom ágætlega inn þó hann væri ryðgaður

    Gaman væri ef Liverpool liðið spilaði síðustu leikina eins og síðustu 65 mín í þessum leik. Þá er séns á 4. sætinu svo fremi að liðin fyrir ofan okkur misstígi sig tvisvar eð þrisvar 🙂

    Það er nú þannig

    YNWA

    4

Byrjunarlið gegn Arsenal

Slúður – Tilboð í Bellingham?